Hús dagsins: Kaupangsstræti 16 og 14.

Ég er enn staddur í Gilinu og nú eru það efstu húsin norðan megin sem eru til umfjöllunar. Kaupangsstræti 16 sem er hér í forgrunni  þekkja sjálfsagt margir best í dag sem Myndlistarskólann en húsið er eitt af elstu verksmiðjuhúsunum sem standa þarna. Húsið er að stofni til frá árinu 1922 og var byggt sem skinnaiðnaðarhús. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara og með lágu risi en á bakhlið er viðbygging, einnar hæðar með flötu þaki. Þverpóstar eru í gluggum. Húsið er að mestu leyti óbreytt að utanverðu frá miðri 20.öld. Oft er það svo í þessum umfjöllunum að gamlar myndir eru bestu heimildirnar. Enda segir máltækið að 

P3260067mynd segi meira en þúsund orð. Hér styðst ég við myndir sem finna má í Akureyrarbók Steindórs Steindórssonar (1993) og blaðsíðutölin í svigunum vísa til þeirrar bókar. Á mynd Vigfúsar Sigurgeirssonar (bls. 94) frá 1931 sést að húsið hefur upprunalega verið á einni hæð með lágu risi, líklega einn verksmiðjusalur . Á ljósmynd Steindórs Steindórssonar sem finna má á bls.143 sést að húsið var komið með núverandi útlit árið 1958.  Sápuverksmiðjan Sjöfn sem hóf starfsemi 1932 fluttist í þetta hús árið 1938 en verksmiðjan skemmdist mikið í bruna vorið 1950. Þykir mér ekki ólíklegt að húsið hafi fengið það lag sem það nú hefur við endurbyggingu. Í blaðagreininni sem tengillinn vísar á kemur fram að húsið var þá þegar á tveimur hæðum. Efnaverksmiðjan Sjöfn var í þessu húsi fram yfir 1980 en flutti þá í stórt og mikið verksmiðjuhús við Austursíðu. Nú er Myndlistarskólinn á Akureyri með aðsetur í þessu húsi og hefur verið í um 25 ár en hingað fluttist  hann um 1988. Húsið er í góðu standi og lítur vel út líkt og á við um öll gömlu verksmiðjuhúsin í Gilinu.

Bakhúsið, sem telst Kaupangsstræti 14 og 14b er einnig stórskemmtileg bygging en þar er um að ræða lager eða geymslubyggingu frá 1942.  Húsið er steinsteypt og myndi líkast til kallast þrílyft en ekki gott að segja hvað það er á mörgum hæðum. Byggingarlag hússins miðast nefnilega við gilbarminn og er húsið með hallandi þaki á langveginn og er breiðast efst. Semsagt, stórskemmtilegt í laginu. Auk þess er húsið að ég held hluta til byggt á pöllum. Húsið er í góðu standi líkt og framhúsið og í því eru bæði skrifstofur, vinnustofur listamanna og einnig íbúð. Þessi mynd er tekin 26.mars 2014.

  Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur. 

Morgunblaðið 23.apríl 1950 (sótt af timarit.is 27.3.2014- sjá tengil í megintexta). 


Hús dagsins: Kaupangsstræti 10-12

Síðustu vikurnar hef ég einbeitt mér að Miðbæjarsvæðinu og næst eru það nokkur hús í Gilinu eða Grófargilinu eins og það heitir. Það hefur síðustu tvo áratugina gengið undir nafninu Listagil enda mikil uppbygging listasafna og listatengdrar starfsemi átt sér stað frá 1993. En gatan sem liggur upp Gilið heitir Kaupangsstræti.

P1180074

Ég hef þegar tekið fyrir byggingarklasan sunnanmegin í Gilinu en á móti, í húsi númer 10 er Listasafnið á Akureyri til húsa.  Húsið var byggt fyrir Mjólkursamlag KEA árin 1938-39  eftir teikningum Þóris Baldvinssonar og tekið í notkun árið 1939. Mjólkursamlag KEA  fluttist í húsið úr Kaupangsstræti 6.  en það hús var líkast til orðið allverulega þröngt fyrir starfsemina. Húsið er steinsteypt á fjórum hæðum og hefur verið oftsinnis verið breytt og bætt við það en stærst er sennilega viðbyggingin austan til upp við gilbrún sem tekin var í notkun 1950. Það bendir til þess að umsvif Mjólkursamlagsins hafi aukist hratt, að aðeins á innan við áratug var hún búin að sprengja utan af sér þetta mikla stórhýsi. Mjólkursamlagið var í þessari byggingu í rúm 40 ár eða til 1980 að það fluttist í nýja mjólkurstöð við Súluveg þar sem enn er samlag- undir merkjum MS. Brauðgerð KEA var á þriðju hæð hússins frá 1981 og til 1998 en Listasafn Akureyrar fluttist á aðra hæð um 1993. Aðrir hlutar hússins hafa síðustu tvo áratugina hýst ýmis gallerí; Samlagið, Boxið og í kjallara er sýningasalurinn Populus Tremula þar sem stundum eru haldnir tónleikar. Ég man eftir því um 1998-99 eftir að Brauðgerð KEA var lögð niður að uppi voru hugmyndir um að Skugga- Lakkrís verksmiðjan flyttist  í rýmið á þriðju hæð. Lakkrísverksmiðjan var að flytjast af Gleráreyrum en þá var verið að rýma verksmiðjuhúsin þar vegna nýbyggingar Glerártorgs. Það féll ekki í góðan jarðveg meðal Listasafns og annarra þeirra er nýttu þetta hús, enda var fyrirséð að þessi starfsemi færi ekki saman við menningarstarfsemi og væri öfugþróun miðað það sem verið hafði í Gilinu árin á undan. Það fór aldrei svo að lakkrísverksmiðjan kæmi hingað en handverksmiðstöðin Punkturinn- sem einnig hafði haft aðsetur á Gleráreyrum- fluttist í þetta rými. En líkt og aðrar byggingar í Gilinu hefur í Kaupangsstræti 10-12 alla tíð verið líf og fjör jafnvel þótt einhverjir hlutar hússins hafi um einhver tímabil staðið auðir.  Þessi mynd er tekin laugardaginn 18.janúar 2014.
 


Hús dagsins: Kaupangsstræti 19-23

Ein þeirra húsaþyrpinga sem ég hef ævinlega fundið mig knúinn til þess að taka fyrir hér á síðunni er Gilið sem raun heitir Grófargil en hefur síðustu tvo áratugina gengið undir nafninu Listagil. En hér er um ræða fyrrverandi iðnaðarsvæði  sem hefur frá því um 1992 verið einskonar hjarta lista og menningar á Akureyri. 

P1180072

Sunnan megin gils er áberandi mikil sambygging tvílyftra steinsteypuhúsa en þau standa númer 19-23. Húsin eru öll svipuð að gerð og útliti og reist árin 1930-50. Elstur er miðhlutinn byggður 1930 (appelsínuguli hlutinn) en neðsti hlutinn er reistur 1933. Yngstur er efsti hlutinn er þar er um að ræða viðbyggingu frá 1949 en hún er á þremur hæðum. Hús nr. 21 og 23 eru með flötu þaki en neðsti hlutinn (19) með skúrþaki. Ég hreinlega veit ekki hvort þrílyfta byggingin sé seinni tíma tenging á milli húsanna 19 og 21 en sú bygging var alltént komin 1958 (skv. mynd á bls. 143 í bók Steindórs Steindórssonar 1993). En elsti hluti þessarar samstæðu var reistur fyrir Smjörlíkisgerð KEA en fljótlega (1935) var framleiðslan aukin og  sem framleiddar sultur, saftir og búðingar og fleira og sú starfsemi varð að sjálfstæðum rekstri sem kallaðist Efnagerðin Flóra árið 1950. Þá fluttist Smjörlíkisgerðin í viðbygginguna, efsta hluta húsasamstæðunnar en um líkt leyti flutti Pylsugerð KEA á neðri hæð eldra hússins en Flóra var með sína framleiðslu á efri hæðinni. Neðsti hluti hússins hýsti einnig ýmsan iðnað, þarna var t.d. Húsgagnasmiðjan Einir og seinna billjardstofa, kölluð "Billinn" í daglegu tali. Iðnaðarstarfsemi hvers konar lauk í þessum húsum 1991 en síðan hafa þarna verið starfrækt kaffihús (Kaffi Karólína, Brugghúsbarinn) og  tónleika- og listsýningasalurinn Deiglan í miðhlutinn en íbúðir á efri hæðum. Fornbókabúðin Fróði er á götuhæð neðsta hússins. Það væri heldur langt mál að telja upp alla þá starfsemi sem húsin hafa hýst þessa rúmu 8 áratugi en hlutverk húsanna hefur vissulega tekið miklum stakkaskiptum. Húsin, eins og öll húsin í Gilinu geyma merka sögu Akureyrar sem iðnaðarbæjar á 20.öld og hefur söguskiltum verið komið fyrir á nokkrum þeirra þ.m.t. 19-23. Myndin eru tekin 18.janúar 2014. 

 Heimildir: Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur 


Hús dagsins: Hafnarstræti 102.

Á Hafnarstræti 102 var fyrst reist tvílyft timburhús með háu risi árið 1904 en það reistu þeir Jónas Gunnarsson og Sigtryggur Gunnarsson. Húsið sneri stafni að götu og þar voru framan af bæði verslanir og íbúðir en eftir hernám 1940 hafði Breska setuliðið afnot af húsinu. 

P1180071

Húsið brann veturinn 1942 og var orðið mjög niðurnítt. Það var eitt þeirra stórhýsa í Miðbænum sem bar nafn erlendra stórborga, kallað Rotterdam en sú nafngift kom kannski ekki til af góðu- nefnilega af óhemjumiklum rottugangi !

 Það hús sem nú stendur á lóðinni er að öllu jöfnu kennt við Símann eða Póst og Síma en það er reist árið 1945. Húsið er stórt steinsteypuhús, fjórlyft með skúrþaki og er efsta hæðin inndregin og svalir meðfram götuhlið- svipað og á næsta húsi norðan við. Húsið er klætt svokölluð skeljasandi en á götuhæð eru einhverskonar flísar. Póstar í gluggum eru einfaldir og síðir verslunargluggar á götuhæð. Húsið er raunar tvær fjögurra hæða álmur og snýr önnur þeirra að Skipagötu sem liggur samsíða Hafnarstrætis austan megin. Tveggja hæða tengibygging er á milli. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsunum bæði að utan og innan enda hafa kröfur til atvinnuhúsnæðis breyst þó nokkuð gegn um tíðina- auk þess sem ný starfsemi kallar oft á breytingar. Húsið var aðsetur Pósts og Síma í meira en hálfa öld, símstöðin var í Hafnarstrætisálmunni og lengi vel var Pósthús bæjarins í álmunni sem snýr að Skipagötu. Nú eru í húsinu verslunin Rexín, Wise, gistiheimili og í bakhúsinu er skemmtistaðurinn Pósthúsbarinn en sú nafngift vísar til fyrra hlutverk hússins. Það er ekki óalgengt að skemmtistaðir og veitingastaðir dragi nafn sitt af þeirri starfsemi sem áður var í húsnæði þeirra. Það þykir þeim sem þetta ritar frábær viðleitni til að halda sögu húsanna á lofti. Hafnarstræti 102 myndi sjálfsagt seint teljast skrautlegt hús og sjálfsagt þykir einhverjum húsið hálfgerður "steinkumbaldi". Vitaskuld er húsið ákveðin andstæða við gömlu timburhúsin (ParísHamborg) neðar við "Göngugötuna" En húsið er hvað sem því líður er Símahúsið rótgróinn hluti Miðbæjarins enda um 70 ára gamalt og er vel viðhaldið lítur vel út. Þá geymir húsið mikla sögu og þarna hafa þúsundir manna starfað. Ég þori hins vegar ekki að fullyrða um hvort nokkurn tíma hafi verið búið í húsinu...Þessi mynd er tekin 18.janúar 2014. 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2014
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 420131

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 320
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband