Hús dagsins: Oddagata 11

 Á sumarsólstöðum árið 1927 kom bygginganefnd saman á sínum 598. fundi frá stofnun hennar. Meðal erinda var afgreiðsla á vestustu lóð Oddagötu, sem sögð var vestan við Eggert Melstað (Oddagata 9, sem þá var óbyggð). PA280253Tveir menn sóttu um lóðina, annars vegar Gunnar M. Jónsson og hins vegar Jón G. Guðmann. Niðurstaða nefndarinnar var einfaldlega sú, að sá síðarnefndi fengi lóðina, þar eð bréf hans hafði borist tveimur dögum fyrr. Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Síðsumars 1927 var Jóni G. Guðmann síðan heimilað reisa á lóðinni einlyft íbúðarhús eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar, með porti og risi, 8x9m að utanmáli. Oddagata 11 einlyft með háu portbyggðu risi og miðjukvisti og stendur á háum kjallara. Á austurhlið hússins er einnig lægri miðjukvistur með hallandi þaki. Inngangar og steyptar tröppur upp að þeim eru við norðurhorn hússins, til austurs og vesturs. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í gluggum. Húsið virðist h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð, en á teikningum er þó gert ráð fyrir inngangi á norðurhlið Húsið er af mjög algengri gerð steinsteypuhúsa frá 3. áratug 20.aldar, með svipuðu lagi og timburhúsin höfðu mörg hver verið áratugina um og eftir 1900. Ekki er að sjá auglýsingar um stórfellda verslun eða starfsemi í Oddagötu 11, sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is. Ein auglýsing vakti þó athygli mína; Árið 1937 auglýsir Kristinn nokkur Sigmundsson tilsögn í hraðritun í Oddagötu 11. Kristinn var frá Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi, fæddur þar árið 1910 og hann hafði nokkrum árum áður gegnt störfum ritara á Alþingi. Kristinn var einmitt föðurafi minn en hann fluttist árið 1940 að Arnarhóli í Öngulsstaðahreppi þar sem hann og amma, Ingveldur Hallmundsdóttir, bjuggu miklu myndarbúi í hartnær 50 ár. Hér er viðtal við góðbóndann á Arnarhóli í Degi, frá árinu 1963.

Oddagata 11 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er t.a.m. nýmálað, og stendur á stórri og gróinni lóð. Það mun nánast óbreytt frá upprunalegri gerð. Ein íbúð er í húsinu. Myndina tók ég núna í morgun, 28.október 2015 en ég myndaði húsið í myndagöngutúr um Oddagötuna þ.15.júlí sl. en síðan þá hefur húsið verið málað. Þótti mér því ótækt annað en að birta mynd af húsinu nýmáluðu.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 598, 21.6.1927 Fundur nr. 600, 24.8.1927.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Aldrei má ekki neitt :)

Þetta hljóta að teljast slæm tíðindi fyrir unnendur pylsa, bjúgna, skinku, beikons að ég tali nú ekki soðinna kjötfarsbolla með káli og kartöflum- löðrandi í smjöri. Þess má geta að allt þetta og sérstaklega það síðast nefnda er í miklu uppáhaldi hjá mér. Að hætta að éta saltað, reykt og feitt kjöt (að ég tali nú ekki um, ef mér yrði gert að hætta kaffidrykkju) jafnast fyrir mér á við það að hætta að anda inn súrefni wink. Grænmeti og ávextir eru að sjálfsögðu einnig bragðgóður valkostur og vissulega mikið hollari og æskilegri- enda étur maður slíkt einnig í talsverðu mæli. Og fátt toppar soðna ýsu með kartöflum. Ég aðhyllist nefnilega þá kenningu, að fjölbreytni sé lang best í fæðuvali; mataræði kattarins í Bakkabræðrasögunum hef ég helst tileinkað mér.smile  Ég tel að bjúgu, kjötfars eða pylsur einu sinni, tvisvar í viku geti ekki verið svo stórhættuleg- nú og ef svo er- þá er það "risk that I am ready to take" (svo maður sletti).  


mbl.is Kjötframleiðendur fokvondir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Oddagata 7

Oddagötu 7 reistu þeir Skarphéðinn Ásgeirsson og Halldór Jónsson eftir teikningum Halldórs Halldórssonar. P7150115Húsið er  tvílyft steinsteypuhús á kjallara í anda funkisstefnu; “kassalaga” með horngluggum, aflíðandi einhalla þaki og með steyptum þakkanti og steyptum römmum utan um glugga, en þeir gefa húsinu ákveðinn svip. Þverpóstar eru í gluggum en á teikningum eru sýndir margskiptar rúður. Inngangur og steyptar tröppur upp að honum er á norðvesturhorni, líkt og raunar er á flestum húsum við Oddagötuna. Húsið hefur frá upphafi verið skipulagt sem tveggja íbúða hús, hvor íbúð á sinni hæð og teikningum er gert ráð fyrir geymslum og þvottahúsi, auk verkstæðis í kjallara. Húsið mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð. Eins og gengur og gerist með Funkishús, a.m.k. að dómi þess sem þetta ritar, er húsið til mikillar prýði, enda glæsilegt hús og vel við haldið. Húsið stendur, eins og raunar Oddagatan öll, á nokkuð áberandi stað í bænum og blasir t.d. vel við neðan úr Miðbæ og af Eyrinni. Þá virðist lóð hússins einnig vel frágengin og snyrtileg. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein á hvorri hæð. Þessi mynd er tekin þ. 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 583, 23.1.1933 .

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Oddagata 5 og Oddagata 9

Hús dagsins eru tvö að þessu sinni, en þau standa bæði við Oddagötu en þau byggði sami maður árin 1926-28.

 

Oddagata 5

Oddagötu 5 mun Gunnar Jónsson lögregluþjónn hafa reist árið 1927. P7150117Vorið 1926 fékk Gunnar byggingarlóð leigða næst vestan við leigulóð Eggerts Melsteð slökkviliðsstjóra og leyfi til að reisa þar tvílyft íbúðarhús úr steinsteypu á kjallara með lágu risi að ummáli 7,5x8,8m. Ekki fylgir sögunni hver teiknaði húsið. Þá er tekið fram að þó “sé þakbrún steypt og þak sneitt á göflum” (Bygg.nefnd Ak. 1926,583). Húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi, allavega á lýsingin í bókun Byggingarnefndar enn við húsið, sem er tvílyft og með lágu valmaþaki. Þverpóstar eru í gluggum og bárujárn er á þaki og inngöngudyr og steyptar tröppur upp að þeim á norðvesturhorni. Gunnar Jónsson bjó ekki lengi í húsinu, en árið 1930 er tvíbýlt í húsinu og þá eru íbúarnir þau Jóhannes Björnsson og Hólmfríður Júlíusdóttir annars vegar og Vilhjálmur Jóhannsson og Anna Margrét Ingimarsdóttir hins vegar. Ásamt börnum þeirra og leigjendum er íbúafjöldinn 12 manns árið 1930. Gunnar reisti skömmu síðar annað hús rétt ofan við, þ.e. Oddagötu 9 og var þar búsettur árið 1930. Í “registrum” Fundargerða Bygginganefnda frá þessu árabili leitaði ég nefnilega að nöfnum Jóhannesar, Hólmfríðar, Vilhjálms og Önnu Margrétar en fann hvergi, en oft má gera ráð fyrir því, að íbúar húsa skömmu eftir byggingu hafi byggt þau. Það á þó auðvitað alls ekki alltaf við, líkt og í þessu tilfelli. Oddagata 5 hefur alla tíð verið íbúðarhús með a.m.k.tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð. Húsið er einfalt og látlaust og er í góðu ástandi. Ekki er talið að það hafi neitt sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í götunni sbr. Húsakönnun frá 2014 (tengill hér að neðan) en sá sem þetta ritar telur alla Oddagötuna mikilsverða heild og hvert hús hennar einstakt á sinn hátt. Það á raunar við um allar eldri götur Akureyrar. Þessi mynd er tekin 15.7.2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 583, 10.4.1926 .

Manntal á Akureyri 1930.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 

 

Oddagata 9

Sumarið 1927 fékk Gunnar M. Jónsson lögregluþjónn lóð og byggingarleyfi á leigulóð “Eggerts Melstað”.
P7150116 Var honum leyft að reisa þar íbúðarhús, 9,5x7,5 m með háu brotnu þaki og kvistglugga og á meðan byggingu stóð, þ.e. um vorið 1928 var honum heimilað að reisa verönd með tröppu á suðurhlið hússins. Teikningarnar að húsinu gerði Eggert Melstað. Gunnar hafði árið áður lokið byggingu Oddagötu 5. Oddagata 9 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu brotnu “mansard” risi. Þar sem það húsið stendur í mishæð, virðist það tvílyft séð úr austri. Miðjukvistur er á framhlið en minni kvistur með hallandi þaki á bakhlið. Inngangar eru á norðvesturhorni, á suðurstafni með steyptum tröppum og yfirbyggðri verönd með svölum en einnig er inngangur í kjallara á suðvesturhorni. Þverpóstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Fáum árum eftir að húsið var reist fluttist O.C. Thorarensen apótekari í húsið ásamt fjölskyldu sinni og hélst það innan sömu fjölskyldu áratugum saman. Húsið er í góðu standi og hefur nýlega fengið yfirhalningu, bæði húsið sjálft og lóð að vestanverðu. Oddagata 9 er glæsilegt hús og stendur á áberandi stað og brotna risið gefur húsinu sérstakt yfirbragð. Ofarlega á stafni hússins má sjá þrjá uppsveigða járnkróka í með postulínskúlum standa í lóðréttri röð. Þessi umbúnaður bar áður heimtaugar rafmagns frá háspennulínum, en árið 1928 þegar húsið var byggt, var allt heimilisrafmagn á Akureyri flutt með loftlínum. Tvær íbúðir eru í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Þessi mynd er tekin þann 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 599, 18.7.1927 .

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Oddagata 3

Fyrir réttum 90 árum, eða 17.október 1925 fékk Eggert Melsteð, slökkviliðsstjóri, lóð norðan við “svokallað Melhús” og leyfi til að reisa þar íbúðarhús. P7150121
Skyldi það vera einlyft úr timbri með porti og risi og kvisti í gegn og ca. 1 metra framskoti á hálfri húslengd. Þessi lýsing passar að mestu við Oddagötu 3, að því undanskildu að húsið er steinsteypt.

Oddagata 3 er afar stórbrotið hús, það er í raun tvær álmur, önnur snýr stafni að götu en bakálma gengur úr húsinu sunnanverðu- eins og í beinu framhaldi af kvisti á framhlið. Ekki átta ég mig nákvæmlega hvað átt er við með “framskoti” en mögulega er vísað til þess, að kvistur syðst á húsinu er það sem ég kalla “framstæður” þ.e. gengur örlítið fram úr þaki og nær út fyrir veggi. Á bakhlið er einnig kvistur með hallandi þaki en þar er einnig inngönguskúr á norðurhorni bakhliðar og kemur þak hans í beinu framhaldi af þakskeggi. Einnig er inngangur á framhlið og steyptar tröppur að inngöngudyrum. P7150122Í gluggum eru ýmist þverpóstar á neðri krosspóstar á efri hæð en bárujárn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ekki er að sjá auglýsingar um verslun eða iðnað í gagnasafni timarit.is, en Eggert Melsteð kemur nokkuð oft fyrir í bæjarblöðunum Degi og Íslendingi á 4.áratugnum þar sem hann gegndi stöðu slökkviliðsstjóra. Vorið 1936 er sólrík stofa auglýst til leigu í Oddagötu 3 og gæti ég ímyndað mér að sú stofa hafi verið í kvisti eða suðurálmu. Samkvæmt Húsakönnun frá 2014 mun húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveislugildi umfram önnur hús í Oddagötunni. Húsið virðist í góðu standi en það hlaut miklar endurbætur fyrir um tveimur áratugum m.a. var þak endurnýjað. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndirnar eru teknar þ. 15.júlí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundir nr. 575, 17.10.1925 og nr. 9.11.1925 . Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Oddagata 1

Ofan Miðbæjar Akureyrar (þ.e.a.s. þess hluta Hafnarstrætis sem kallast í daglegu tali Göngugatan) liggja tvær götur samsíða milli Grófargils og Skátagils. Gilsbakkavegur á bakka grófargils sunnan megin en norðar, við Skátagilið liggur Oddagatan. Ég tók fyrir elstu húsin við þessar götur, Melshúsin, í sumar en að sjálfsögðu eru fleiri hús við þessar götur sem vert er að kynna sér. Neðst við Oddagötuna stendur skemmilegt og skrautlegt steinhús frá 1927...

Snemma árs 1926 fékk Kristján Sigurðsson kennari frá Dagverðareyri hornlóð austast við Oddagötu. Lóðina höfðu Verslunarfélag Akureyrar og IOGT nr. 2 haft áður en hann fékk að yfirtaka hana. P7150120Um vorið fékk Kristján að reisa einlyft hús með háu risi og kvisti, 8,80 x 7,86 (!) m, samkvæmt framlögðum teikningum en þó þannig að bakskúr félli burtu og dyr yrðu á kjallara í stað glugga. (Ekki veit ég hvort þessi nákvæma breiddartala 7,86m sé misritun í því vélritaða afriti sem aðgengilegt er á Hsksj. og eigi að vera 7,80 eða hvort mál hússins hafi verið þetta nákvæmt, en svona tölur eru ekki algengar í bygginganefndarbókunum).

Oddagata 1 er sem áður segir, einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með risi og miðjukvisti á framhlið. Risið er brotið (mansard); aflíðandi efst en bratt niður að veggjum og er tjörupappi á þakinu. Á bakhlið er lítill bogadreginn kvistur. Þverpóstar eru í gluggum og inngangar á bakhlið, norðurhlið og á kjallara framhliðar. Á kvisti framhliðar eru litlar hliðarrúður. Húsið er undir áhrifum frá svonefndum jugend-stíl, þakkantar eru bogadregnir og skrautlegir bogar yfir gluggum sem gefa húsinu skemmtilegan svip. Kvistur bakhliðar er einnig bogdreginn. Fyrir vikið er Oddagata 1 einstaklega skrautlegt og svipsterkt hús og ekki spillir fyrir staðsetning þess, en húsið blasir við neðan úr hluta Miðbæjar og syðst af Oddeyrinni. Byggingarár hússins, 1927 er áletrað á miðjukvistinn. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til einbýli fyrst en nú eru þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Í nýlegri húsakönnun er húsið sagt nánast óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveilsugildi sem slíkt, þó gildi hússins fyrir götumynd Oddagötu sé ótvírætt. Hér er mynd af húsinu og stutt umfjöllun í tæplega 40 ára gamalli grein í Tímanum um gömul hús á Akureyri. Þessi mynd er hins vegar tekin þ. 15.júlí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundir nr. 580, 15.2.1926 og nr. 584, 3.5. 1926. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Kartöfluræktunartilraun sumarið 2015

Ég hef síðustu  sumur ræktað kartöflur í litlum 15 fermetra heimilisreit. Yfirleitt eru það rauðar, Gullauga eða Helga sem verða fyrir valinu en oft hef ég leitt hugan að því hvort mögulegt væri að rækta einhver "framandi" afbrigði. Snemma í apríl sl. átti ég leið um grænmetisdeild Hagkaupa og rak þá augun í stórar og miklar bökunarkartöflur frá Bretlandi. Ég ákvað að kaupa nokkur stykki af þeim og athuga hvort hægt væri að láta þær spíra og setja þær niður. Og svona tókst þessi litla tilraun til:

Mynd0066

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

12-6-2015. Hér er 6 stk. bökunarkartöflur eftir rúmlega 2 mánaða "spírun". Myndin er tekin skömmu áður en ég setti þær niður en það var með allra seinasta móti, eða þann 12.júní. Vorið var með eindæmum lélegt, kalt og blautt, kafsnjór 1.maí (eftir stórhríð þ. 26.apríl) og ég man ekki til þess að hitastigið hafi nokkru sinni náð tveggja stafa tölu allan maímánuð. Þrátt fyrir sólskin var ísköld norðanátt þann 12.júní þegar ég setti kartöflurnar niður.

Mynd0067

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til aðgreiningar frá annarri ræktum þ.e. rauðum og Gullauga kartöflum hlóð ég moldarstapan á myndinni fyrir bökunarkartöflurnar. Ég þorði ekki annað en að hafa gott bil á milli kartaflana því viðbúið var, að þær næðu mikilli stærð.

Mynd0089

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

17.júlí voru komin nokkuð há grös. Bökunarkartöflugrösin voru hærri og stórgerðari en íslensku kartaflanna. Það rímar ekki við það sem ég hafði einhverju sinni heyrt, að því stærri sem grösin væru þeim mun minni kartöflum mætti búast við undir.

Mynd0101

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

10.ágúst litu grösin svona út (Það sést á þessari mynd að ég var með eindæmum latur í arfatínslu þetta sumarið og skal það bara viðurkennt og játast hér með)

 

Mynd0111

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

21.ágúst afréð ég að kíkja undir grösin. Sumarið hafði verið óhagstætt líkt og vorið; rakt og kalt og spretta seinni. En þarna voru komnar hinar ágætustu kartöflur. Móðurkartaflan er lengst til hægri á myndinni. 

 

 

 

Mynd0141

Mynd0140

 

10-10-2015. Þann 10.október var svo komið að uppskeru. Haustið reyndist með eindæmum gott, september var hlýjasti mánuðurinn ef ég man rétt og ég var ekkert að flýta mér að rífa kartöflurnar upp þó kæmi ein og ein frostnótt. (Fyrsta frostnóttin var aðfararnót 31.ágúst og sá þá á grösunum en það er nú svo að spretta heldur áfram í moldinni þó grös sortni). Og svona lítur afraksturinn út! Stærstu kartöflunni ákvað ég að stilla upp við hlið hanska í fullorðinsstærð til viðmiðunar. 

 


3x10 góð lög, frá þremur meistarasveitum.

Um daginn skrifaði ég færslu hér á síðuna undir yfirskriftinni "Eitt af stórvirkjum tónlistarsögunnar". Þar minntist ég á In-A-Gadda-Da-Vida flutt af hljómsveitinni Iron Butterfly en bæði trommari og söngvari sveitarinnar fögnuðu sjötugsafmæli sínu í sl. mánuði. Lesendur kunna að hafa dregið þá ályktun að gamla rokkið sé í miklu uppáhaldi hjá og vissulega er það svo: Ég er sérlegur aðdáandi Black Sabbath, Iron Maiden, Led Zeppelin, Deep Purple og fleiri slík nöfn eiga einnig upp á pallborðið hjá mér. Ég er raunar aðdáandi meira og minna allrar rokktónlistar og þungarokks líka s.s. Metallica, Slayer, Anthrax, High on Fire, In Flames. Íslenska deildin í rokkinu er sko heldur ekkert slor: HAM, Skálmöld,Brain Police, Sólstafir og að sjálfsögðu Trúbrot en þá er ég líka komin í sambærilega deild og hljómsveitirnar sem ég nefndi allra fyrst, hvað varðar tímabil og tónlistarstefnu. Ég gæti orðið svo langorður ef ég ætti að rökstyðja af hverju ég þessar sveitir eru í uppáhaldi hjá mér, að enginn nennti að lesa færsluna. Auk þess sem slík grein yrði að mestu upptalning á "frábær" "meistaraverk" og öðru eins í hástigi. En hér ætla ég einfaldlega að nefna 30 lög sem mér finnast á einhvern hátt framúrskarandi frábær, flutt af þremur hljómsveitum sem löngum hafa verið í uppáhaldi hjá mér. Hefst nú upptalning, áhugasamir geta "gúgglað" eða "jútúbbað" þessi heiti.

10 sérlega góð Black Sabbath-lög

Under The Sun (Every Day comes and go)

Heaven and Hell

Sign of the Southern Cross

Fairies wear Boots

Into the Void

Wicked World (sérstaklega 19 mínútna langa útgáfan af Live at Last tónleikaplötunni)

NIB

Black Sabbath

Zero the Hero

Sympton of the Universe

 

10 sérlega góð Iron Maiden lög

Rainmaker 

Seventh Son of the Seventh Son

Rhyme of the Ancient Mariner

The Trooper

Nomad

Brave New World

Dance of Death

22 Acacia Avenue

Run to the Hills

Empire of the Clouds (af nýjustu plötu Maiden liða, Book of Souls, 18 mínútur af tærri snilld!)

 

10 sérlega góð Led Zeppelin lög

Lemon Song

The Battle of Evermore

Khasmir

My time of Dying

When the Levee Breaks

Custard Pie

Black Dog

Since I´ve been loving You

Dazed and Confused

...og svo síðast en ekki síst, Stairway to Heaven.

 

 

 

 

 


Hús dagsins: Aðalstræti 30 (áður Laxagata 1)

Undanfarnar vikur hef ég fjallað um hús við Laxagötu á ofanverðri Oddeyrinni. Sú umfjöllun hófst á Laxagötu 2 og nú kann einhver að spyrja hvort ekki sé til staðar Laxagata 1. Svo er ekki, og hefur ekki verið sl. tæpu 30 ár eða svo en þar stóð vissulega hús. Það hús stendur meira að segja enn, en á öðrum stað. Bregðum okkur suður í Aðalstræti og þar hittum við fyrir "fyrrverandi Laxagötu 1"...P5140015

Fljótt á litið gæti utanaðkomandi að Aðalstræti 30 hefði staðið þarna frá ofanverðri 19.öld líkt og röðin sunnan við það frá 32. En það er öldungis rangt því húsið á sér aðeins 30 ára sögu á þessu tiltekna stað en er þó byggt árið 1929. Hér stóð áður hús sem talið var byggt um 1850 en það var rifið en óvíst hvenær, Steindór Steindórsson segir í bók sinni árið 1993 (bls.33) einfaldlega að það hafi verið rifið fyrir mörgum áratugum. En húsið sem nú stendur á lóðinni á sér þá merku sögu að hafa staðið á þremur stöðum, því það var byggt á Ráðhústorgi 7 en flutt ári síðar á Laxagötu 1 þar sem það stóð lengst af. Ekki fylgir sögunni hver byggði húsið (fann ekki upplýsingar í Bygginganefndafundargerðum - en mögulega þarf ég að leita betur!) en árið 1936 býr þarna (þ.e. Í Laxagötu 1) Herdís Jónasdóttir sem auglýsir fataviðgerðir og á snemma á upphafsárum hússins bjuggu þau Tómasína Þorsteinsdóttir og Jóhann Hallgrímsson þarna (Tómasína lést vorið 1937).

Aðalstræti 30 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti, klætt láréttri panelklæðningu og bárujárni á þaki. Húsið stendur á steyptum kjallara og eru inngangar á miðju miðju framhliðar en einnig á kjallara norðan megin en í gluggum hússins eru sexrúðupóstar. Þá stendur einnig bílskúr úr timbri norðan við húsið og er hann klæddur og málaður í stíl við húsið. Sem áður segir var húsið flutt á lóðina árið 1986 og var það þá allt gert upp frá grunni; og fékk aukinheldur nýjan grunn. Stefán Jóhannesson trésmíðameistari stóð fyrir þeim framkvæmdum og fullyrða má að þær hafi tekist frábærlega en af húsinu, sem fellur mjög vel inn í götumyndina, er mikill sómi og er það til mikillar prýði í því rótgróna umhverfi sem Aðalstrætið er. Húsið hefur einnig hlotið það viðhald sem best verður á kosið þessa þrjá áratugi sem það hefur staðið þarna. Ein íbúð er í húsinu. Myndin af Aðalstræti 30 var tekin á Uppstigningadag 2015, þ.e. 14.maí.

Hér má sjá lóðina Laxagötu 1 í október 2015. Nú er þarna bílastæði fyrir viðskiptavini verslunar ÁTVR,sem stendur við Hólabraut 16.Mynd0128

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2015
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 420
  • Frá upphafi: 420120

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 309
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband