Hús dagsins: Þórunnarstræti 97

Þórunnarstræti er ein af lengri götum Akureyrar. Hún nær frá Miðhúsabraut ofan draga Búðargils í suðri að Gleráreyrum í norðri og þverar Brekkuna. Gatan er númeruð upp að 136 en það merkilega er að lægsta númer við hana er 81. Sennilega hefur númerakerfi miðast við húsaröð langleiðina suður að Naustum en nú hefur Teigahverfi risið ofan við syðsta hluta götunnar. Neðarlega við Þórunnarstrætið stendur Lögreglustöðin en ofar eru Sundlaugin og Íþróttahöllin austan og neðan götunnar, gegnt íþróttamannvirkjunum er Tjaldsvæðið á Þórunnarstræti. Við það stendur m.a. Gamli Húsmæðraskólinn en sunnan hans þetta ágæta hús, Þórunnarstræti 97.P6190014 (2)

 

Í Manntali 1930 teljast tvö hús standa við Þórunnarstræti.Hvorugt þeirra er númerað en þau eru kennd við Svanberg Sigurgeirsson og Eðvald Möller. Bæði húsin standa enn og eru númer 89 og 97. En árið 1925 fékk Svanberg Sigurgeirsson vatnsveitustjóri frá Lögmannshlíð leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús 8 x 7,5 m í suðausturhorninu á svonefndu Laxdalstúni sem hann hafði fest kaup á. Nefndin lýsti því yfir að “hún skoðar byggingu á þessum stað sem grasbýli, þar sem hann liggur fyrir utan kaupstaðarlóðina og hið kortlagða byggingarsvæði”. (Bygg.nefnd Ak. 1925: nr.574). Þórunnarstræti 97 er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi. Kvistur með aflíðandi hallandi þaki er á norðurþekju hússins auk inngönguskúrs og þar eru steyptar tröppur. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið var reist 1926 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og var í upphafi einlyft á kjallara með háu risi. Ekki kannast ég við að húsið hafi borið sérstakt nafn, en Svanberg virðist einfaldlega hafa verið kenndur við Þórunnarstræti. Elstu heimildir sem ég finn um númerið 97 eru frá mars 1955 þar sem Svanberg Sigurgeirsson auglýsir 20-30 hesta af töðu til sölu. Þarna var stundaður búskapur fyrstu áratugina en sennilega hefur honum verið sjálfhætt þegar byggðin fór að nálgast og túnið lagt undir tjaldsvæði upp úr miðri síðustu öld. Þó stendur enn steinsteypt bygging á lóðinni sem ég gæti ímyndað mér að sé gömul hlaða eða fjós. Árið 1966 var húsinu breytt eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar og var þá byggður kvistur á húsið og forstofubygging á norðurhlið og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ekki sé ég nokkra verslun eða iðnað auglýstan þarna ef heimilisfanginu er slegið upp í timarit.is. Húsið virðist í góðu standi og lítur vel út og sömu sögu er að segja um lóðina umhverfis. Ég velti þessu oft fyrir mér þau sumur sem ég vann á Tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti, hvort þetta hlyti ekki að vera gamall sveitabær, hvað hét þá bærinn og hvenær var hann byggður. Því augljóst þótti mér, að húsið væri töluvert eldra en nærliggjandi byggð og staðsetning þess gaf það einnig til kynna að hér væri um gamalt býli að ræða. Einhvers staðar heyrði ég það eða sá að gert væri ráð fyrir að þetta hús ætti að víkja. Hvort horfið hefur verið frá þeim áformum nú eða hvað er mér ókunnugt um en ég tel að prýði yrði af Þórunnarstræti 97 um ókomna tíð á þessum stað. Þessi mynd er tekin í blíðskaparveðri þann 19.júní 2015 en þarna var ég á leið í Lystigarðinn að kíkja á hátíðahöld í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 574 þ.29.sept. 1925. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1930. Óútg. Varðveitt á Hsksj. Ak.

Upplýsingar fengnar af Landupplýsingakerfi Akureyrar og timarit.is (sjá tengla í texta)

 

 


Gamla Apótekið á ferð og flugi 25.6.2015

Endurbygging Gamla Apóteksins við Aðalstræti 4 hefur staðið yfir í nokkra mánuði og í morgun var komið að því að flytja húsið um set, inn á Krókeyri þar sem það bíður á meðan steyptur er nýr grunnur. Mannfjölda dreif að allir vopnaðir myndavélum að sjálfsögðu- enda er það að sjálfsögðu ekki á hverjum degi sem hús, gömul eða ný, leggjast í ferðalög. Látum myndirnar tala sínu máli: 

P6250007   P6250010

Að sjálfsögðu voru allir helstu fréttamiðlar mættir á svæðið...

P6250009

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ofarlega í brekkunni má sjá nokkur hross á beit. Þau létu sér fátt um finnast- en maðurinn sem stendur á Spítalaveginum er að sjálfsögðu að mynda. 
P6250012

 

 

 

 

 

 

 

"Híf opp æpti karlinn" :) 

P6250018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P6250023

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það þarf enga smá kerru til að flytja Gamla Apótekið. Ég taldi þarna 8 öxla, alls 32 dekk. 

P6250027

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erlendir ferðamenn kynna sér sögu Gamla Apóteksins á einu af mörgum söguskiltum sem sett hafa verið upp í Innbænum. 

P6250032

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gamla Apótekið á ferðinni- hér lötrar það á milli Thulíunusarhúss (Hafnarstræti 18) og Höepfners húss (H-20) annars vegar og tekur hægri beygjuna inn á Drottningarbrautina við Höepfnersbryggju. 

P6250040 P6250043

Svona lítur hóllinn ofan Aðalstrætis út þegar Gamla Apótekið er farið. Alveg nýtt útsýni að húsunum við Lækjargötu. Þessa tilteknu brekkubrún hafði enginn núlifandi maður séð húslausan þar til í dag. Húsið er byggt 1859, þannig að síðustu eftirlifandi manneskjur sem mögulega hafa séð þessa brekkubrún án Apóteksins gætu hafa látist um 1960. En þetta er aðeins tímabundið, því húsið mætir aftur á svæðið innan fárra missera :) 

P6250041

 


mbl.is Gamla apótekið flutt af grunninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þátturinn "Hús dagsins" 6 ára.

Þann 25.júní 2009 setti ég hér inn á þessa síðu litla mynd af Norðurgötu 17, Gömlu Prentsmiðjunni eða einfaldlega Steinhúsinu hér inn á síðunna ásamt fáum orðum um sögu þess. Ætlunin var að deila um 80 myndum sem ég átti hér ásamt nokkrum orðum um sögu þeirra en ég hafði í rúman áratug haft áhuga á sögu gömlu húsana og hafði sankað að mér ýmsum fróðleik. Nú hefur þessi þáttur, sem ég kalla "Hús dagsins"  gengið í slétt 6 ár en fyrst var ég fullviss að ég myndi ekki nenna þessu nema nokkra mánuði- hugsanlega út sumarið ! Fyrstu misserin voru pistlarnir stuttir og knappir en síðar þótti mér tilhlýðilegt að bæta heimildavinnu og skráningu. Það er ákveðið markmið hjá mér að greinarnar séu stuttar og hnitmiðaðar, en ég segi stundum að um hvert gamalt hús mætti skrifa þriggja binda verk. Það finnst mér líka svo skemmtilegt við þetta grúsk- alltaf getur maður heyrt og lært eitthvað nýtt um sögu húsanna, sem maður þykist hafa kynnt sér í þaula. Ég hef ekki hugmynd um hvað pistlarnir eru margir og ég nenni ekki einusinni að reyna að telja þá- fljótt giskað eru þeir líklega nærri 400. Og ég mun enn halda þessu grúski áfram, mér til fróðleiks og gestum þessarar síðu til ánægju og yndisauka. (PS. Þess má geta að upphafsdagur "Húsa dagsins" var einnig dánardægur meistara Michael Jackson cry ) 

Bestu þakkir til allra þeirra sem heimsótt hafa þessa síðu og góð viðbrögð þessi sex ár. 

 


Nú hefst sumarið...

Stundum heyri ég fólk tala um að sumri fari nú að halla og styttast í haustið við Sumarsólstöður, af því þá fer daginn að stytta. Það kalla ég að mála skrattann á vegginn- þar eð ef menn kunna á annað borð illa við haustið og veturinn. Vissulega fer nóttin að lengjast en þó skal geta þess að rúmur mánuður líður áður en rökkva tekur á kvöldin. Og þó nætur gerist dimmar þá er enn von á einmuna sumarblíðu í a.m.k. mánuð eftir það. Oft eru júlí og ágúst - og jafnvel fyrri hluti septembermánaðar sólríkari og veður stilltari en í júní. Þess má líka geta að á víðast hvar miðast upphaf sumars við sólstöðurnar. Og hér fyrir norðan hófst sumarið eiginlega bara í síðustu viku, því stóran hluta maímánaðar og í byrjun júní sást varla til sólar og tveggja stafa hitatölur (eða bara yfir 7°) sjaldséðar. Og svo mega þeir sem sjá haust og myrkur handan við hornið þó daginn byrji að stytta hugleiða eftirfarandi: Er vetri farið að halla eða vorið rétt ókomið við Vetrarsólstöður (21.des). 

 


mbl.is Nýliðin nótt var sú stysta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur byggðu húsin

Óska öllum nær og fjær gleðilegs kvenréttindags og einnig öllum landsmönnum  til hamingju með 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna- og eignalausra karla. Þessi fyrirsögn er í samræmi við lágmynd sem finna má í Lystigarðinum á Akureyri, "Konur gerðu garðinn". En hér ætla ég, í tilefni dagsins, að birta nokkur hús frá fyrri hluta 20.aldar og lok þeirrar 19. sem konur byggðu. En á þeim tímum var staða kvenna nokkuð önnur en hún er í dag og alls ekki algengt að þær stæðu fyrir húsbyggingum. Hér eru myndir af nokkrum Akureyrskum "kvennahúsum".

 

Aðalstræti 22 byggði Anna Erlendsdóttir árið 1898, tæpum tveimur áratugum áður en konur fengu kosningarétt. 

P6190004

 

 

 

 

 

 

 

 

10 árum síðar byggðu systurnar Anna og Kristbjörg Kristbjörnsdætur Gránufélagsgötu 20. Húsið var stækkað árið 1927.

P1120043

 

 

 

 

 

 

 

 

Ægisgötu 6 reistu einnig tvær systur, þær Oddný og Katrín Þórðardætur en þær voru báðar saumakonur á Gefjun. Katrín og Oddný reistu sitt hús töluvert löngu seinna en Anna og Kristbjörg eða árið 1937. 

P2150012

 

 

 

 

 

 

 

 

Ránargötu 3 byggði Soffía Sigurðardóttir árið 1931


P1310006

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gránufélagsgötu 19 reisti Jónasína Þorsteinsdóttir árið 1925.

P9080006

 

 

 

 

 

 

 

 

Aðalbjörg Friðriksdóttir reisti Norðurgötu 32 árið 1930.

P1010012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir því sem ég kemst næst var fyrsta húsið á Akureyri sem kona byggði brauðgerðarhús Vilhelmínu Lever en það stóð þar sem nú er Hafnarstræti 23. Hún reisti húsið um 1834 en það brann 1903 og núverandi hús reist. (Þessi mynd er úr sögugöngu sumarið 2010).

P7310004

 

 

 

 

 

 

 

 

Vilhelmína Lever er ein af merkustu persónum Akureyrarsögunar. Talið er að hún hafi byggt Aðalstræti 52  en hún rak þar veitingahús á 6.áratug 19.aldar.  Ég brá mér einmitt í stórskemmtilega sögugöngu um Vilhelmínu á vegum Minjasafnsins og Héraðskjalasafnsins í gærkvöld. Myndin hér að neðan er tekin í þeirri göngu, og sýnir hún glögglega fjölda þátttakenda.  Hafi aðstandendur göngunnar bestu þakkir fyrir skemmtilegt og fræðandi erindi. smile

 P6180015

Vilhelmína er fyrsta kona Íslandssögunnar til að kjósa í lýðræðislegum kosningum. Var það í sveitarstjórnarkosningum þann 31.mars árið 1863. Til að setja það í samhengi hversu löngu fyrir daga kosningaréttar kvenna það var má hliðra þessu árabili um eina öld. Það er, ef við setjum sem svo að konur fengju kosningarétt í dag, þá hefði ein kona samt sem áður kosið í marslok árið 1963!! 

 

 

 


Á göngu

Fátt þykir mér eins skemmtilegt og að ganga. Skiptir þá litlu hvar það er, en í 99,9% allra tilfella fara mínir göngutúrar fram innan gatnakerfis Akureyrarkaupstaðar. Ég nota göngur bæði sem samgöngumáta og afþreyingu og þó að ég gangi kannski sömu leiðinni mörg hundruð sinnum fæ ég aldrei leiða á þeim. Því það er nefnilega alltaf eitthvað nýtt að sjá- kannski eru einhverjir skrautlegir bílar á ferð, kannski hittir maður eða sér einhvern og á sumrin eru það skemmtiferðaskipin. Gróðurinn er náttúrulega síbreytilegur á vorin, snjóalögin á veturna eru líka síbreytileg og svona mætti lengi telja. Oft er ég raunar svo upptekinn af umhverfinu að ég set sjálfan mig í stórhættu við umferðargötur og stundum missi ég af fólki sem ég mæti og veifar til mín, sökum þess. Ég er oftast nær með MP3-spilara í eyrunum eða útvarpið og tilfellið er að ég gæti mín frekar en annars með slíkar græjur. Því þá er ég meðvitaður um það að ég heyri kannski ekki í umhverfinu og er því sífellt skimandi aftur fyrir mig eða til beggja hliða. En ég passa mig ævinlega á að hafa ekki svo hátt stillt að ég heyri ekki í umferðinni. 


Hús dagsins: Eyri í Sandgerðisbót; Glerárþorpi.

Skammt norðan ósa Glerár er Sandgerðisbótin. P4060014Þar eru bryggjur strandveiðimanna og smábátaeigenda og verbúðir og ýmis önnur starfsemi er þar rekin og á staðurinn langa sögu athafna tengda sjónum. Þar standa einnig aldin og glæsileg hús og meðal þeirra er húsið Eyri, sem telst standa við Óseyri. Húsið telst standa við Óseyri eða á horni Óseyrar og Ósvarar.

Byggingarár Eyrar er sagt 1927 en skv. Steindóri Steindórssyni er byggt á Eyri árið 1920. Hvort þar er átt við þetta tiltekna hús eða að annað hús hafi risið þá er ekki tekið fram. Hver byggði húsið er ekki ljóst en ég tel góðar líkur á að Þorsteinn Marinó Grímsson, verslunar-og fiskverkunarmaður frá Skipalóni hafi byggt Eyri. Hann er alltént skráður þar til heimilis árið 1930 ásamt konu sinni Jónínu Stefánsdóttur frá Kollugerði og fjórum börnum þeirra. P4060015Eyri er einlyft timburhús með háu risi á lágum en djúpum steinkjallara. Miðjukvistur er á framhlið og inngönguskúr eða bíslag á bakhlið. Á norðurhlið er einlyft viðbygging með valmaþaki og á henni eru horngluggar- mögulega undir áhrifum frá funkis-stíl. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum hússins en á útveggjum sýnist mér að geti mögulega verið sk. Lavella klæðning eða bárað ál. Járn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ekki er ólíklegt að einhverjar fleiri byggingar undir skepnur eða hugsanlega fisvinnslu hafi staðið á lóðinni. Þær byggingar eru þó allavega löngu horfnar nú. Eyri er látlaust og einfalt hús en stórglæsilegt engu að síður. Því er vel við haldið og sömu sögu er að segja um lóð hússins. Ein íbúð er í húsinu. Líkt og gömlu býlin í Glerárþorpi tilheyrir húsið ekki samfelldri húsaröð heldur stendur stakt og er eina húsið sinnar gerðar í nærumhverfi sínu og nýtur sín þ.a.l. einstaklega vel- svipað og t.d. Herðubreið og margir glæsilegir móbergsstapar hálendisins. Þessi myndir eru tekin á öðrum degi páska, 6.apríl 2015.

 

Heimildir: Steindór Steindórsson. (1993.) Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Manntal í Eyjafjarðarsýslu 1930. (Aths. Manntal á Akureyri dugar skammt við upplýsingaöflun um Glerárþorpsbýlin árið 1930. Því að þá náði Akureyrin aðeins að Gleránni og var svo allt fram til 1.jan 1955)

Fasteignaskrá Þjóðskrár.

 

 

 


Hús dagsins: Aðalstræti 12. (Jensensbaukur og Hótel Akureyri)

Hvert einasta gamla hús geymir mikla sögu. En sömu sögu má að sjálfsögðu segja um lóðirnar sem húsin standa á, því að öllu jöfnu er saga þeirra sú sama eða jafnvel enn lengri því stundum er ekki um fyrsta hús að ræða. (Og stundum er því jafnvel öfugt farið- þegar hús hafa verið flutt á lóðirnar). En það er einmitt tilfellið með Aðalstræti 12 í Innbænum. Þar stendur nú fjórða húsið en þarna var upprunalega torfbær, en þarna stóðu mikil og merk stórhýsi sem bæði urðu eldi að bráð. Hér mun ég auk þess að minnast á núverandi hús fara stuttlega yfir sögu fyrirrennara þess á lóðinni.

Aðalstræti 12 er tvílyft steinsteypuhús, byggt árið 1957 af Jóni Antonssyni.P5140020 Höfundur teikninga er Mikael Jóhannsson. Húsið er með háu risi og stendur á lágum grunni og snýr í N-S en þó er kvistur eða stafn eða álma sem snýr í austur, þ.e. að götu. Í gluggum eru þrískiptir lóðréttir póstar með tveimur mjóum bilum með opnanlegum fögum við jaðra og bárujárn á þaki. Svalir eru á suðurhlið hússins á annarri hæð. Húsið er líkast lítið breytt frá upphafi að ytra byrði og er í góðu standi. Þrjár íbúðir eru í húsinu, á hvorri hæð og í risi. Þessi mynd er tekin þann 14.maí 2015.

 

En steinhúsið á Aðalstræti 12 er sem áður segir ekki fyrsta húsið sem reis á lóðinni. Þarna stóð torfbær á 19.öld sem Lauritz H. Jensen keypti árið 1859. Ekki fer fleiri sögum af torfbæ þessum en ljóst er að Lauritz hefur rifið hann um 1865. Því árið 1866 reisti hann þarna mikið hús, einlyft timburhús með portbyggðu risi. Rak hann þar veitingahús en veitingaleyfi fékk hann þremur árum áður. Húsið þjónaði þessu hlutverki alla þá tíð sem það stóð. Kallaðist húsið Jensensbaukur og var Bauks nafnið dregið af iðn Jensens, en hann var beykir. Árið 1885 stækkaði Jensen húsið, hugsanlega hefur hann þá byggt kvist á húsið. En á mynd sem finna má m.a. í bók Steindórs Steindórssonar (1993: 26) sést að húsið var einlyft með háu porti og aflíðandi risi og miðjukvisti. Dyr voru á miðri framhlið. Krosspóstar voru á glugga jarðhæðar en einfaldir lóðréttir, skipt í miðju á efri hæð. Efri brún glugga efri hæðar námu við þakbrún og því má ímynda sér að efri hæðin hafi hálf verið undir súð og gluggar nokkuð neðarlega. Meðfylgjandi vatnslitamynd er máluð eftir myndinni í Akureyrarbókinni en hvað lit og umhverfi varðar tek ég mér skáldaleyfi. Ljóst er að húsið var ljósmálað. Húsið Jensens bauk hefur enginn núlifandi maður séð með berum augum. Jensensbaukur_A12Því þann 19.desember 1901 kom upp eldur í húsinu og brann það til kaldra kola- ásamt þó nokkrum öðrum nærliggjandi húsum. Þá var eigandi hússins Vigfús Sigfússon veitingamaður en hann hafði keypt húsið og reksturinn árið 1898 og breytt nafninu í Hótel Akureyri. En Vigfús var aldeilis ekki af baki dottinn og á brunarústum hótelsins reisti hann eitt veglegasta og stærsta timburhús bæjarins.

 

 

 

Næsta hús á lóðinni, sem Vigfús reisti árið 1902 var tvílyft á háum grunni með tveimur turnum og miklum útbyggðum miðjukvisti með svölum. Þá voru einnig tveir litlir kvistir á framhlið, milli miðjukvists og turna. Það hús kallaðist Hótel Akureyri. Þarna var um ræða hús af svipaðri stærð og gerð og hús Menntaskólans á Akureyri og Samkomuhúsið. Svipuð timburstórhýsi stóðu einnig í fáein misseri efst við Strandgötu en þau brunnu öll í Oddeyrarbrunanum 1906. Gluggapóstar hússins virðast hafa verið áþekkir þeim í Samkomuhúsinu. Húsið reistu þeir Sigtryggur Jóhannsson og Jónas Gunnarsson byggingameistarar og var húsið plankabyggt, þ.e. Í stað hefðbundinnar grindar var húsið hlaðið úr þriggja tommu plönkum sem geirnegldir voru á hornum. Vigfús var jafnan nefndur Vigfús vert og á hans tíð var hér um að ræða eitt glæsilegasta og fullkomnasta hótel á landinu. Var þar oft mikið fjör – mikið “djammað og djúsað” eins og það hefði kallast 100 árum síðar. Hótelrekstri lauk í húsinu um 1920 og var því þá breytt í fjölbýlishús. Þann 17.nóvember brann húsið til grunna og segir Steindór að þar hafi lokið “sögu glæsilegasta hótels og húss sem reist hefur verið á Akureyri”. Ég heyrði það í einni sögugöngu um Innbæinn að aðeins hefði munað nokkrum sekúndum að tekist hefði að bjarga húsinu. Menn voru komnir með slökkvidæluna að eldsupptökunum, sem voru glóðir í öskubakka. En skyndilega blés milli þylja og mikil súrefnissprenging sem og milliloftið fuðrað upp og menn orðið frá að hverfa í skyndi. En hér er ítarefni; samtímaheimild þar sem bruna Hótels Akureyri er lýst nokkuð skilmerkilega. Meðfylgjandi er grófrissuð mynd eftir undirritaðan sem sýnir Hótel Akureyri, húsið sem stóð á Aðalstræti 12 árin 1902- 1955. Til hliðsjónar hafði ég ljósmynd Hallgríms Einarssonar sem finna má í Akureyrarbók Steindórs á bls. 27.Hotel_Akureyri_A12

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Ekki man ég eftir hverjum þessi saga af slökkvistarfinu í Hótel Akureyri var höfð né hver sagði hana, hvort það var leiðsögumaður eða þátttakandi í sögugöngunni. 

 


Hafnarstræti: Innbær

Hafnarstræti er ein af lengstu götum Akureyrar (um 1500m) og jafnframt sú elsta. Hún nær frá Búðargili að Oddeyrinni og við hana stendur elsta hús bæjarins hið 220 ára Laxdalshús. Hafnarstræti liggur í Innbænum og Miðbænum og hér eru hús við þann hluta götunnar sem telst til Innbæjarins. Hér miða ég merki Innbæjar og Miðbæjar við Skjaldborg, Hafnarstræti 67 en vel gæti verið að einhverju séu ósammála þeirri skiptingu.   

Hafnarstræti 2

Hafnarstræti 3

Hafnarstræti 5

Hafnarstræti 7

Hafnarstræti 9

Hafnarstræti 11: Laxdalshús 

Hafnarstræti 13

Hafnarstræti 15

Hafnarstræti 18 Thuliniusarhús

Hafnarstræti 18b

Hafnarstræti 19

Hafnarstræti 20 Höepfners hús

Hafnarstræti 21

Hafnarstræti 23

Hafnarstræti 23b

Hafnarstræti 25

Hafnarstræti 29

Hafnarstræti 31

Hafnarstræti 33

Hafnarstræti 35 

Hafnarstræti 37

Hafnarstræti 39 

Hafnarstræti 41  

Hafnarstræti 45 

Hafnarstræti 47 

Hafnarstræti 49 Skátaheimilið Hvammur; Sýslumannshúsið

Hafnarstræti 53 Gamli Barnaskólinn 

Hafnarstræti 57 Samkomuhúsið

Hafnarstræti 63 Sjónarhæð

Hafnarstræti 67: Skjaldborg

 

Hér eru einnig hús á lista sem ég hef enn ekki tekið fyrir en hyggst gera. Hér miða ég umfjöllunina við hús byggð fyrir miðja 20.öld, með nokkrum skekkjumörkum.

Meðfylgjandi mynd sýnir hina stórglæsilegu torfu við Hafnarstræti 29-41. Öll eru þessi hús byggð 1903-07 á vegum timburmeistarana Jónasar Gunnarssonar og Sigtryggs Jónssonar, með einni undantekningu þó sem H-31. Það hús er byggt 1999 og er hannað algjörlega með tilliti með útlits nærliggjandi húsa. Myndin er tekin að kvöldi 4.júlí 2009.

P7040032 

 

 


Fyrir 9 árum

Fyrir réttum níu árum, 5.júní 2006, átti ég leið um Innbæinn og var með myndavélina, sem ég hafði nýlega fjárfest í. Ég ákvað að smella af nokkrum myndum af gömlum og merkum húsum en ég hafði í tæpan áratug haft ánægju og yndisauka af því að kynna mér sögu þeirra. Á níu árum getur ýmislegt gerst og hér birti ég myndir af Gamla Apótekinu við Aðalstræti 4 og Gamla Spítalanum, Aðalstræti 14 sem ég tók þann 5.júní 2006.

P6050026 P6050024

Hér eru nýlegar myndir til samanburðar, en þær eru teknar á Uppstigningadag, 14.maí 2015. Gamli Spítalinn hefur nú fengið andlitslyftingu eftir endurbætur sem staðið hafa í á annan áratug. Hvað Gamla Apótekið varðar sést að  nokkuð hefur dregið til tíðinda, því endurgerð Gamla Apóteksins er hófst síðla vetrar og er nú í ferli. Forskalningin hefur verið fjarlægð sem og margt annað og er ég sannfærður um að innan nokkurra missera verður hér komið mikið glæsihýsi og bæjarprýði.

P5140016 P5140023


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2015
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 625
  • Frá upphafi: 420098

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 473
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband