Hús dagsins: Oddeyrargata 30

Við ofanverða Oddeyrargötu standa mörg reisuleg steinhús í klassískum stíl 3. og 4.áratugar 20.aldar, einlyft á kjallara með háu risi og miðjukvisti. P4240326Eitt þeirra er hús nr. 30 en það reistu þeir Veturliði og Marteinn Sigurðarsynir frá Veturliðastöðum í Fnjóskadal árin 1929-30. Þann 25.3.1929 fékk Veturliði leyfi Bygginganefndar Akureyrarbæjar fyrir byggingu íbúðarhúss úr steini, eina hæð á kjallara með kvist í gegn. Stærð hússins skyldi vera 8,8x8m. Fjórum árum síðar fær hann að byggja forstofu ofan á tröppur hússins á norðurgafli. Veturliði gerði sjálfur teikningarnar af húsinu.

Oddeyrargata 30 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu portbyggðu risi og miðjukvisti. Á norðurgafli þess er forstofubygging og steyptar tröppur upp að henni en einnig er inngangur í kjallara fyrir miðju. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki hússins. Kjallari er með grófum múr og húsið prýðir ýmist skraut. Á hornum eru steyptar flatsúlur, “steinhleðslu” á kjallara undir þeim og undir þakskeggjum og ofan glugga eru steypt kögur (tannstafur). Handrið á uppgöngu er gegnheilt steypt, stallað líkt og tröppur. Á kvisti er einnig kringlóttur gluggi - en slíkir smágluggar þykir þeim sem þetta ritar ævinlega gefa húsum ákveðinn svip.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, Veturliði Sigurðarson bjó þarna allt til dauðadags, en hann lést 1974. Fyrstu áratugina bjuggu systkini hans, Jónasína, Marteinn og Jóhanna þarna og móðir þeirra Sigríður Sigurðardóttir- en hún varð ekkja löngu áður en stórfjölskyldan frá Veturliðastöðum fluttist í Oddeyrargötu 30. Þarna bjó einnig um tíma Jón Norðfjörð skrifstofumaður og leikari. Hér má sjá tilkynningu frá honum frá hausti 1939 þar sem hann auglýsir kennslu í framsögn og upplestri og “byrjun í leiklist” á heimili sínu. Jón var ein af helstu driffjöðrum akureyrskrar leiklistar á fyrri hluta 20.aldar og var einnig skátaforingi. Hann fór fyrir hinni valinkunnu skátasveit Fálkum sem m.a. tóku að sér ræktun í Skátagilinu - sem er að heita má “ í túnfæti” þessarar lóðar. Oddeyrargata 30 er reisulegt og skrautlegt hús af klassískri gerð, og er í góðri hirðu og ástandi. Sama er að segja um lóðina, sem er stór og vel gróin og mörg stæðileg birkitré á henni. Húsið stendur innarlega á lóðinni og er falið á bakvið laufskrúð yfir hásumarið; húsið er eitt þeirra sem ógerningur er fyrir ljósmyndara á götubrún að mynda frá  yfir hásumarið. Í húsakönnun 2015 er húsið sagt hafa varðveislugildi sem hluti af merkri heild. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 24.apríl 2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Svipmyndir frá Fyrsta vetrardegi 2016

Í dag, 22.október er fyrsti Vetrardagur skv. almanakinu. Það var þó fátt sem minnti á Vetur konung í 10 stiga hitanum, þar sem tiltölulega hlý sunnangola mætti mér á göngu um Strandgötuna. Þar smellti ég af nokkrum myndum og sem sjá má eru fjöll nokkurn vegin hrein líkt og síðla sumars. (Ég biðst hins vegar afsökunar á slælegri myndgæðum en gengur og gerist hér á síðunni- en að þessu sinni notaðist ég við síma). 

IMG_20161022_084916

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG 20161022 084944

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG 20161022 084944

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég brá mér einnig upp á Hamarkotsklappir og tók þessa mynd til norðurs. 

IMG 20161022 092318

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

...og til samanburðar er mynd frá fyrsta degi vetrar í fyrra (24.okt.). Horft frá Nesjahverfi ofarlega í Glerárþorpi yfir til Svalbarðsstrandar. PA240006


Hús dagsins: Oddeyrargata 8

Fjögur elstu húsin sem enn standa við Oddeyrargötu standa neðst við götuna. Það elsta er 108 ára , húsin sem skipa annað og þriðja sætið, 4 og 6, eiga aldarafmæli í ár en hið fjórða elsta er hin 97 ára Oddeyrargata 8.

Vorið 1919 falaðist Trausti Reykdal fiskmatsmaður P5030002eftir því við Bygginganefnd Akureyrar að kaupa lóð, 20x20m vegna lóðar sem hann átti fyrir við Oddeyrargötu. En þar er auðvitað um að ræða lóðina Oddeyrargötu 6 þar sem Trausti hafði reist veglegt steinhús þremur árum áður. Síðar sama ár er honum leyft að reisa tvílyft steinhús á lóðinni sem hann hafði fengið keypta um vorið. Nefndin setti ákveðin skilyrði. Vesturgafl skyldi vera 5 álnir frá lóðarmörkum (5 álnir eru u.þ.b. 3,15m). Tröppur skyldu annaðhvort koma á gafl norðaustan við eða teknar inn í kjallara- svo ekki kæmu tröppur fram úr húsalínunni. Sjá má, að fyrrnefnda leiðin hefur verið farin við byggingu Oddeyrargötu 4 og 6, þar eru tröppur á göflum. Hér voru tröppurnar hins vegar “teknar inn í kjallara”. Fram kemur í bókun bygginganefndar að uppdráttur, dagsettur 20.sept 1919 fylgi. Sá uppdráttur hefur hins vegar hvorki varðveist, né heldur er þess getið hver teiknaði og því er hönnuður Oddeyrargötu 8 ókunnur. Mögulega hefur sami maður teiknað bæði hús nr. 6 og 8, þau eru byggð af sama manni og eru raunar ekki óáþekk- svona í stórum dráttum.

Oddeyrargata 8 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Á framhlið er inngangur og tröppur uppá hæð “innbyggðar” samkvæmt skilyrðum Bygginganefndar fyrir tæpri öld. Á bakhlið er stigabygging. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Líkast til er húsið að stærstum hluta óbreytt frá fyrstu gerð, a.m.k. að ytra byrði. Húsið er af klassískri gerð, en á upphafsárum steinsteypunnar var tilhneigingin sú, að útlit steinhúsa tæki mið af timburhúsum. Oddeyrargata 8 er t.d. ekki ósvipað húsunum við Hafnarstræti 33-41. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en árið 1920 þegar húsið er nýbyggt búa þarna 15 manns, þrenn hjón ásamt börnum, Sigurður Pétursson og María Konráðsdóttir, Ólafur Eiríksson og Björg Halldórsdóttir og Jón Jóhannesson Sólrún Oddsdóttir. Auk þess er Elínborg Helgadóttir, einhleyp húsmóðir skráð þarna til heimilis. Ekki fylgir sögunni á hvorri hæð eða hluta hæðar hver býr. Fjöldi íbúa hússins gegn um tíðina hleypur eflaust á hundruðum, líkt og gengur og gerist þegar í hlut eiga nærri aldargömul hús. Ekki gat ég fundið heimildir um verslun eða atvinnustarfsemi nokkurs konar við leit á timarit.is, en það er óbrigðult ráð að kanna slíkt með því að slá heimilisfangið (í þágufalli, innan gæsalappa vel að merkja) inn í leitarvél. Hafi einhver starfsemi verið auglýst í blöðum má sjá það í niðurstöðunum. Oddeyrargata 8 er látlaust hús að gerð og sómir sér vel í götumyndinni. Húsið er hornhús, en undir suðurgafli hússins sveigir gatan Krabbastígur stuttan spöl upp að Munkaþverárstræti. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 3.maí 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 457, 20.maí 1919, nr. 464 þ.24.sept. 1919. Óprentað, varðveitt á Héraðskjalasafninu.

Manntal 1920. (sjá tengil í texta)

 Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 

 


Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 6

Ég tók upp þá "vinnureglu" í fyrra eða hitteðfyrra að taka hús við ákveðnar götur fyrir í númeraröð. Mér þótti það hinsvegar lítt spennandi til lengdar og tek ég þau nú fyrir  tilviljunarkennt, líkt og árin þar áður. Ég held mig þó við Oddeyrargötuna og Hrafnagilsstrætið að mestu þessar vikurnar. Það er auðvitað þægilegra að hafa færslurnar í húsnúmeraröð - en hins vegar mun ég væntanlega taka saman yfirlitsfærslu með tenglum um flestallar þær götur sem ég hef fjallað um. Nú berum við niður við Hrafnagilsstrætið...

Á Hrafnagilsstræti 6 stendur veglegt steinhús í funkisstíl, en það byggði Hermann Stefánsson íþróttakennari árið 1933. P5180331Það er í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem byggð eru í funkisstíl og [...] byggt á mörkum þess tíma þegar funksjónalisminn var að ryðja sér til rúms var að taka við af klassík sem byggingarlist (Hanna Rósa Sveinsdóttir, 2016: 66). Það er mögulega táknrænt, að upphaflega stóð til að húsið yrði ein hæð á háum kjallara og með háu risi, ekki ósvipað húsum nr. 4, 8 og 10. Hermanni var veitt leyfi sumarið 1932 til að reisa hús í þeim stíl en rúmu ári síðar sækir hann um leyfi til breytinga á útliti hússins, þ.e. það verði tvær hæðir á kjallara. Til þess að svo mætti verða, þurfti að sækja um undanþágu til skipulagsnefndar. Þegar Bygginganefnd kom aftur saman á fundi þremur vikum síðar var eftirfarandi bókun skráð “ Skipulagsnefnd veitir Hermanni Stefánssyni undanþágu að byggja hús samkvæmt framlagðri teikningu er sýnir flatt þak, að því tilskildu að þakloftið verði steypt með mjórri þakbrún eða engri og hæð þess frá götu verði ekki yfir 7m” (Bygg.nefnd Akureyrar, 16.9.1933: nr.707) Hermann varð einnig að senda inn nýjan uppdrátt. Ekki er ólíklegt, að það sé uppdrátturinn sem aðgengilegur er á Landupplýsingakerfinu Hann sýnir legu hússins á horni Hrafnagilsstrætis og Bæjarstrætis (sem síðar hlaut nafnið Laugargata) og afstöðu herbergja; á neðri hæð voru stofur og eldhús en á efri hæð svefnstofur og gengt út á svalir úr einni þeirra, og baðherbergi eða “bað og wc” eins og það kallast á teikningum.

Hrafnagilsstræti 6 mætti lýsa sem tvílyftu steinsteypuhúsi á háum kjallara með flötu þaki. Þó er á húsinu aflíðandi valmaþak, mögulega hugsað til að snjór eða úrkoma eigi greiða leið af þakfleti. P5180330Algjörlega flöt þök eru nefnilega alls ekki þau sem henta best íslensku veðurlagi; á norðlenskum vetrum getur snjófarg numið mörgum tonnum á 70-100 fermetra flötum, að ekki sé minnst á herlegheitin þegar hlánar og/eða vorar. Bárujárn er á þaki en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, forstofubygging er á austurhlið og steyptar tröppur upp að dyrum. Svalir eru til suðurs og vesturs á efri hæð. Helstu einkenni funkisstefnunar hér, horngluggarnir, eru á sínum stað og eru þeir á austur og vesturhornum, mót suðri. Húsið tengist bílskúr sem stendur norðan við með einlyftri byggingu. Húsið er allt hið glæsilegasta að sjá og í mjög góðri hirðu. Sem hornhús nýtur það sín vel úr hvorri götunni og lóðin er einnig vel gróin og snyrtileg. Fyrr á þessu ári var gefin út Húsakönnun fyrir hinn svokallaða MA-reit. Þar er húsið metið með mjög hátt varðveislugildi, 7.stig, m.a. sem eitt hinna fyrstu funkishúsa á Akureyri. Meðfylgjandi myndir tók ég á góðviðrisdegi sl. Vor, þ.e. Þann 18.maí og sýna þær húsið annars vesturhlið hússins, er snýr að Laugargötu, annars vegar og framhlið (Hrafnagilsstrætishliðina) hins vegar. Sú hlið snýr mót suðri.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 680- 8.ágúst 1932,nr.706- 26.ág. 1933,nr.707- 16.sept 1933.

Óútgefið, óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


Hús dagsins: Oddeyrargata 16

Sigurður Elíasson og Viktor Kristjánsson fengu lóð sumarið 1931, næst ofan við Pálma Halldórsson. P3050339Skyldi húsið vera 8,2x8,2m, að stærð tveggja hæða ásamt viðbyggingu að norðan, 2,3x8,2m, á einni hæð. Ári síðar fá þeir leyfi til að reisa fjós á baklóðinni, 6x3,6m. Það leyfi var þó aðeins veitt til bráðarbirgða en “rífa verður það hvenær sem bæjarstjórn krefst þess”. (Jónsbók bls. 244). Teikningar af húsinu gerði Halldór Halldórsson og af þeim má ráða, að húsið hafi lítið breyst frá upphafi, að ytra byrði þ.e.a.s. Kjallari var aðeins útgrafinn undir hluta hússins, en þar var þvottahús og tvær kolageymslur. Íbúðirnar voru að mestu leyti innréttaðar á sama hátt, m.a. eldhús í norðvestur og stofa í suðaustur og snyrtingar inn af eldhúsi. Viðbygging að norðan er á teikningum með valmaþaki, líkt og húsið sjálft en nú eru þar svalir. Hún var raunar ekki byggð fyrr en árið 1952, eftir teikningum Páls Friðfinnssonar. .

Oddeyrargata 16 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með háu valmaþaki. Grunnflötur hússins er ferningslaga, 8,2m á kant svo sem segir í byggingarleyfi, en á norðurhlið er einlyft viðbygging og svalir ofan á henni. Inngangar eru m.a. á framhlið, annars vegar fyrir miðju og hins vegar nærri norðausturhorni; á viðbyggingunni. Húsið er í klassískum stíl, tvílyft með valmaþaki og hluti nokkuð heildstæðrar raðar þess konar húsa, nr. 10-22 við Oddeyrargötuna. Tryggvi Jónatansson og Halldór Halldórsson teiknuðu mörg slík hús en ef tala má um “stór nöfn” í byggingarlist árin 1925-40 eru þeir vafalítið þeirra á meðal. Húsið er einfalt og látlaust að gerð og virðist í góðu standi. Það er í Húsakönnun 2015 talið hafa varðveislugildi “sem hluti samstæðrar heildar í einföldum nýklassískum stíl “( Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 202). Lóðin er einnig vel gróin , líkt og aðrar við Oddeyrargötuna. Sá gróandi er þó eðlilega lítt áberandi á meðfylgjandi mynd þar eð hún er tekin síðla vetrar, 5.mars 2016.

Heimildir:

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Oddeyrargata 11

Rósa Randversdóttir, verkakona, fékk í mars 1927 leyfi til að reisa íbúðarhús úr steini, 7x6m , ein hæð á háum kjallara og með háu risi. P1100310Tveimur árum síðar fær hún leyfi til að setja kvist á hús sitt og er sá kvistur á austurhlið hússins, þ.e. á bakhlið. Teikningar af þeim breytingum má sjá hér, og af þeim af dæma virðist sem svo, að innréttuð hafi verið íbúð í risi og i kvistinum sé eldhús. Enda þótt í byggingarleyfi sé minnst á steinhús er Oddeyrargata 11 timburhús, einlyft með háu risi og miðjukvisti á bakhlið og á steyptum kjallara. Bárujárn er á þaki en veggir klæddir nýlegri timburborðaklæðningu, láréttri og krosspóstar eru í gluggum. Inngöngudyr eru á suðurgafli en einnig á kjallara austanmegin og þar er lítið dyraskýli.

Húsið er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð, en framan af voru eigendaskipti ekki mjög tíð. Ýmsir leigðu herbergi eða bjuggu hér um lengri eða skemmri tíma en Rósa Randversdóttir bjó hér alla sína tíð, en hún lést 1973. Einnig bjó hér Hólmfríður Guðmundsdóttir frá Litlu-Tungu í Miðfirði, lengi verkakona á Gefjuni, hér um áratugaskeið eða frá 1935 og fram um 1990. Hólmfríður og Rósa voru alla tíð mjög trúræknar og virkar í starfi Hvítasunnusafnaðarins á Akureyri og voru á meðal stofnenda hans á Akureyri árið 1936. Raunar hafði Rósa opnað heimili sitt hér fyrir samkomum og trúariðkun, bænahringjum, fyrir formlega stofnun söfnuðarins. Um áratuga skeið stóð heimili þessara heiðurskvenna opið fyrir trúbræður þeirra - og systur og segir Vörður L. Traustason hér að oft hafi “litla stofan verið þéttsetin af fólki sem lofaði guð í söng og hljóðfæraleikP1100301

Árið 2004 hlaut húsið gagngerar endurbætur að utan og fékk m.a. þá klæðningu sem það nú hefur og nýja glugga og er því allt sem nýtt. Það er til mikillar prýði og viðarklæðningin gefur því skemmtilegt yfirbragð. Húsið er skv. Húsakönnun Landslags ekki talið hafa varðveislugildi umfram önnur hús við Oddeyrargötu. Ein íbúð er í húsinu. Myndirnar eru teknar þann 10.janúar 2016; sú efri sýnir bakhlið hússins og er tekin á milli húsa í Bjarmastíg en neðri mynd er tekin frá Oddeyrargötu.

 

 

Heimildir:

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri, tekið saman 1945-55

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

Vörður L. Traustason.1995. Hólmfríður Guðmundsdóttir- minning. Í Morgunblaðinu 22.mars 1995. Sótt 2.okt. 2016 á timarit.is (sjá tengil í texta).

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2016
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 94
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 703
  • Frá upphafi: 419794

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 561
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband