Þátturinn "Hús dagsins" 7 ára; 7 pistlar á einu bretti.

Þann 25.júní 2009 birti ég mynd af Norðurgötu 17; Gömlu Prentsmiðjunni, Steinhúsinu og skrifaði um það fáeinar línur undir yfirskriftinni Hús dagsins. Því hefur þetta uppátæki mitt gengið í sjö ár í dag. Ég ákvað í stað sjálfhverfs rauss smile um hvernig þetta byrjaði, hvers vegna ég er að þessu, o.s.frv.  sem ég hef tíundað hér nokkrum sinnum, að breyta svolítið til.  Í tilefni af 7 ára afmæli Húsa dagsins ætla ég birta hér 7 Hús dagsins á einu bretti! 

Ég hef svosem áður birt greinar um tvö hús eða fleiri í einu en þessir sjö eru allir sjálfstæðir þ.e. með eigin slóð. Yrði það að mínu mati alltof langt að setja alla þessa sjö pistla saman í einn. Allir eru þessir pislar nýir, nema einn, sem birtist áður haustið 2011. En hvaða hús verða fyrir valinu. Það eru húsin neðst við Þingvallastrætið. Ég kalla þessa röð "Sundlaugarröðina". Þessi skemmtilega húsaröð stendur gegnt Sundlauginni og Andapollinum í alfaraleið, en gatan er ein af fjölfarnari götum bæjarins, umferðaræð úr Miðbæ upp á Brekku. Þessi ágæta húsatorfa blasir við öllum þeim fjölmörgu sem leggja leið sína í Sundlaugina og er hún skipuð einstaklega formfögrum og reisulegum steinhúsum frá árabilinu 1928-33. Hér er yfirlits- og skýringarmynd af hluta þessarar húsaraðar: 

p6220363a.jpg


Endurbirt grein um Þingvallastræti 2, frá 2011. (Hús dagsins 7 ára)

Í tilefni af 7 ára afmæli "Húsa dagsins" birti ég hér SJÖ HÚSAPITSLA á einu bretti. Sex þeirra birtast hér í fyrsta skiptið en m.a. samhengis vegna endurbirti ég hér pistil sem ég skrifaði í október 2011. Þessir sjö pistlar fjalla um Þingvallastræti 2-14, það er frá austurenda götunnar þar sem hún mætir Oddeyrargötu að Helgamagrastræti. Þess má geta að þessi grein er ekki nándar nærri eins ítarleg og hinar, en á þessum tíma var sá möguleiki að skoða teikingar á Landupplýsingakerfinu ekki kominn til auk þess sem ég hafði ekki "uppgötvað" Héraðsskjalasafnið. Þá voru heldur ekki komnar til sögunnar Húsakannanir um Neðri-Brekkuna og Miðbæinn. 

Þingvallastræti er ein af lengri götum Akureyrar og ein aðalgatan gegn um Brekkuna. Hún byrjar á gilbrúninni við Sundalaugina og nær upp að Súluvegi við athafnasvæði BM Vallár (Malar og Sands til áratuga), rétt ofan við Lund og telst líklegast enda við brúnna yfir Glerá neðan Réttarhvamms, þar sem Hlíðarbraut byrjar hinu megin við brúna. P8210310Gatan er rétt innan við 2km á lengd. Helstu þvergötur sem Þingvallastrætið skera eru Þórunnarstræti, Byggðavegur, Mýrarvegur, Dalsbraut og efst gengur Skógarlundurinn suður úr götunni. Elstu hús götunnar eru neðst, byggð á 4.áratugnum, mikið til tvílyft steinhús með risi, á borð við húsið á myndinni hér, en ofan Þórunnarstrætis eru yngri hús, frá 1945-60, en ofan við Mýrarvegin standa fjölbýlishús og verslunarhús byggð 1970-80. 

En húsið á myndinni, Þingvallastræti 2 stendur neðst við götuna á barmi Grófargils (eða Gilsins eins og það kallast í daglegu tali). Það er byggt 1928 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Er húsið einlyft steinsteypuhús með risi á kjallara, byggt í tveimur álmum, önnur sem gengur austur-vestur (samsíða Þingvallastræti) og hin er mjórri og gengur norður-suður. Sú álma má heita að sé tvílyft en rishæð er brotin (mansard) þ.e. er neðri partur riss mjög brattur en efri hluti aftur aflíðandi og aðeins "efra risið" er yfir vesturálmunni. Húsið er byggt í sk. gullaldarstíl eða klassíkisma en helstu einkenni hans eru stórir og margpósta gluggar og skraut á stafnbrúnum, sem svipar til jugendstíls. Ekki er ég sérfróður um byggingargerðir* en ég myndi halda að þessir byggingarstílar séu náskyldir. En Þingvallastræti 2 er stórglæsilegt og svipmikið hús, sem er í góðri hirðu, sem og umhverfi þess. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en ég er ekki viss hvort húsið sé einbýli eða tvíbýli. Þessi mynd er tekin 21.ágúst 2011.

Heimildir: Bragi Guðmundsson (2000): Grenndarfræði. Í Bragi Guðmundsson (ritstjóri) Líf í Eyjafirði. Akureyri: Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri.

 


Hús dagsins: Þingvallastræti 14

Ólafur Eiríksson og Ingibjörg Eiríksdóttir fengu þann 10.okt. 1932 lóð við Þingvallastræti næst vestan við Jón Friðfinnsson. p5080345.jpgÁ verkalýðsdaginn 1933 er þeim veitt leyfi til að byggja íbúðarhús, eina hæð á “ofanjarðarkjallara” og með lágu risi, að stærð 10,6 x 8,2m. Þau systkinin reistu húsið 1933 en teikningarnar af því gerði Eggert Ólafur Egilsson skv. Húsakönnun 2015: 226. Þess má að vísu geta að Ólafur, sem var múrarameistari hét raunar Eggert Ólafur Eiríksson og því gæti verið að hann hafi raunar teiknað húsið sjálfur. (Ég prófaði við vinnslu þessarar greinar, að slá nafninu Eggert Ólafur Egilsson inn á islendingabok.is og í ljós kom að enginn hefur borið þetta ágæta nafn). Í byggingarleyfinu kemur fram að húsið skuli vera með lágu risi en mjög fljótlega hefur hátt ris verið komið á húsið, svo sem sjá má á þessari mynd sem tekin er á bilinu 1931-37 (augljóslega eftir ´33 þar eð Þ14 er risið). Mögulega hefur hátt ris verið á húsinu frá upphafi.

Þingvallastræti 14 er nokkuð sérstakt hús að gerð, það er sagt blendingur í Húsakönnun 2015 og er þar mun átt við það, að húsið ber í senn einkenni steinsteypuklassíkur og funkisstefnu. Sú síðarnefnda var í þann mund að verða almenn þegar húsið var reist en hin klassíska gerð hafði verið ráðandi frá því bygging steinhúsa hófst að einhverju ráði. Líktu þá steinhúsin í raun eftir því lagi, sem tíðkast hafði á timburhúsum. En húsið er tvílyft steinsteypuhús með háu risi og kvistum að framan að aftan. Kvistirnir eru með aflíðandi, einhalla þaki. Einfaldir póstar eru í gluggum opnanleg fög ýmist tvískipt lóðrétt eða einföld lárétt ( í risi). Á efri hæð eru horngluggar, sem eru eitt megineinkenni hinna íslensku funkishúsa. Inngönguskúr er framan á húsinu og svalir ofan á honum.

Húsið er reist sem íbúðarhús og bjuggu þau hér um áratugaskeið systkinin Ólafur, Ingibjörg, Margrét, Ingunn og Elísabet Eiríksbörn. Sú síðastnefnda hafði m.a. umboð fyrir bóksölu Máls og Menningar og Ingibjörg, sem var kennari, starfrækti smábarnaskóla hér á heimili sínu. Í Þingvallastræti 14 voru lengi skrifstofur verkalýðsfélaga, m.a. Einingar og Bifreiðastjórafélagsins og um 1970 var söfnuður Votta Jehóva með aðsetur á annarri hæð hússins. Hér má sjá auglýstan fyrirlestur á vegum Votta Jehóva á annarri hæð hússins, síðla árs 1969.

Húsið hefur tekið þó nokkrum breytingum gegn um þessi 83 ár, enda hýst ýmsa bæði íbúðir og félagsstarfsemi. Árið 1958 voru kvistirnir settir á húsið, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar og líklega er forstofa á framhlið síðari tíma viðbygging. Húsið er í góðri hirðu og allt hið glæsilegasta og það sama má segja um umhverfi þess, en lóðin er að heita má skógi vaxin; þéttskipuð myndarlegum reyni- og birkitrjám. Húsið er sem áður segir einkennisberi tveggja stefna í byggingargerð steinhúsa á fyrri hluta 20.aldar og ætti það að gefa húsinu visst gildi- þó nokkuð sé það breytt frá upphafi. Húsið stendur á horni Þingvallastrætis og Helgamagrastrætis. Víð síðarnefndu götuna stendur ein af heilsteyptustu röð funkishúsa á Akureyri (mögulega á landinu öllu). Og neðan hússins á Þingvallastrætis stendur heilsteypt röð steinhúsa með háum risi, sum með miðjukvisti (steinsteypuklassík). Staðsetning þessa húss, sem segja má að brúi bilið milli þessara byggingargerða, er því einkar skemmtileg í ljósi þess.

Síðastliðin ár hefur gistiheimili verið rekið í húsinu, undir nafninu Gula Villan og er það álit þess sem þetta ritar að líklega verður enginn svikin af gistingu í þessu sjarmerandi húsi og umhverfi. Og ekki er það ónýtt fyrir þreytta ferðalanga að hafa vatnaparadísina Sundlaug Akureyrar handan götunnar, en húsið stendur svo að segja á bakka Sundlaugar Akureyrar. Ekki spillir umhverfi þess fyrir, en lóðin er vel gróin reyni- og birkitrjám og raunar er húsið lítt sjáanlegt frá götu yfir sumarið. Myndirnar eru teknar 8.maí og 22.júní sl. p6220364.jpgÖnnur myndin sýnir húsið betur en hin myndin sýnir garðinn geðþekka í grænum sumarklæðum.

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir: 

Björn Jónsson. Ólafur Eiríksson múrarameistari sjötugur. Birtist í Verkamanninum 40.árg., 29.tbl. Þann 13.september 1957. Sótt 25.júní 2016 á slóðina http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=177682&pageId=2309443&lang=is&q=%D3lafur%20Eir%EDksson%20%DEingvallastr%E6ti%2014 

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Þingvallastræti 12

 Í maí 1931 fékk Jón Friðfinnsson eignarlóð við Þingvallastræti, p5080338.jpgnæst lóð Ingimars Óskarssonar. 30.júní sama ár veitir byggingarnefnd honum leyfi til að reisa hús á lóð sinni, 8,2x7m, ein hæð á kjallara og með kvisti að sunnan (þ.e. þeirri hlið er snýr að götu). Jón Friðfinnsson byggði semsagt Þingvallastræti 12 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar og húsið var fullbyggt 1932. Sama ár var skátaskálinn Fálkafell á Súlumýrum reistur. Þá var þetta hús, eftir því sem ég kemst næst, efsta húsið innan þéttbýlis á Akureyri en þarna ofan við voru tún, svarðargrafir og klappir. Býlið Lundur hafði risið nokkrum árum fyrr, um 1500 m vestar og ofar á Brekkunni eða “langt upp í sveit” - enda liðu um 40 ár þar til þéttbýlið náði þangað uppeftir! Fálkafell stendur enn og enn í dag er skálinn langt ofan við alla byggð. En það má setja það í visst samhengi, hve Fálkafell hefur verið “langt uppi á fjöllum” að þegar hann var reistur, var þetta hús það efsta í bænum! En húsið stendur gegnt Sundlaug Akureyrar og áratugum saman, eða fram yfir 1970 tíðkaðist að mæta þangað þegar lagt var af stað í Fálkafellsútilegur. En þetta var útúrdúr.

Þingvallastræti 12 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara (jarðhæð) og með háu risi og miðjukvisti. Fljótt á litið mætti ætla að þetta hús og það næsta við hliðina væru “systurhús” en þegar betur er að gáð sést að svo er alls ekki- jafnvel þó að hönnuður sé sá sami. Til dæmis er kvistur nr. 10 með mun brattara risi og gluggasetning er frábrugðin. Í gluggum eru einfaldir, láréttir þverpóstar en upprunalega hafa þó verið skiptir krosspóstar í húsinu líkt og á nr. 10. Bárujárn er á þaki. Á vesturhlið eru timbursvalir og grindverk undir þeim. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en hér eru teikningar vegna bygginga svalanna, frá 2008 og er hönnuður Helgi Már Pálsson. Inngöngudyr eru á kjallara að framan. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ekki gat ég séð auglýsingar fyrir neina verslun eða starfsemi í húsinu, er ég sló heimilisfanginu upp á timarit.is. Húsið er að mestu leyti óbreytt frá upphafi, líkt og sjá má á þessari mynd sem tekin er um 1935 yfir þáverandi sundlaug Akureyrar. Þingvallastræti 12 er traustlegt og reisulegt hús og í góðu standi. Mikil prýði er af því líkt og allri þessari röð, sem stendur neðst við eina af fjölförnustu götu bæjarins og blasir auk þess við öllum fjölda fólks sem heimsækir Sundlaug Akureyrar. Umhverfi þess er líka til mikillar prýði en lóðin er vel gróin m.a. reynitrjám og yfir hásumarið er húsið lítt sýnilegt frá götu. Myndina sem fylgir færslunni tók ég hins vegar að vorlagi, 8.maí 2016, og því ekki laufskrúði fyrir að fara.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Þingvallastræti 10

Vorið 1931 fékk Ingimar Óskarsson grasafræðingur leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Þingvallastræti. Grunnflötur hússins 8x8m og kvisti á framhlið, húsið hlaðið úr r-steini á háum steyptum kjallara. p5080340.jpgÍ ársbyrjun 1933 fékk Ingimar leyfi til að setja kvist á bakhlið hússins, þ.e. að norðanverðu, en miðjukvistur að framan hefur verið frá upphafi. A.m.k. er miðjukvistur á húsinu á upprunalegum teikningum Sveinbjarnar Jónssonar.

Þingvallastræti er einlyft r-steinhús á háum steinsteyptum kjallara og með háu risi og kvistum. Inngönguskúr er á austurgafli en miklar og voldugar timbursvalir, standandi á stöplum á vesturgafli. Krosspóstar eru í gluggum og eru efri fög með margskiptum smápóstum. Stallað bárujárn er á þaki hússins. Ingimar Óskarsson, sem byggði Þingvallastræti 10, var einn af helstu frumkvöðlum í grasafræðirannsóknum á Íslandi. Hann var fæddur að Klængshóli í Svarfaðardal árið 1892 og nam í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, og gaf út kennslubók í grasafræði sama ár og hann lauk prófi þaðan, 1913 (21 árs). Hann stundaði yfirgripsmiklar rannsóknir á flóru Íslands og útbreiðslusvæði plantna á 3. og 4.áratug síðustu aldar (og mikið lengur) og birti um þær fjölmargar ritgerðir og greinar. Hér fróðleg grein eftir Ingimar “Nokkur orð um trjenun” skrifuð í febrúar 1924 (á bls. 57-61) og birtist í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands. Hér er ítarlegt æviágrip um þennan heiðurs- og fræðimann, Ingimar Óskarsson. Margir hafa búið í húsinu gegn um tíðina, en hér var einnig rekin lítil bókbands- og fornbókaverslun 9.áratugnum og fram yfir 1990. Kallaðist sú verslun Glugghúsið og hér má sjá, innan um aðrar smáauglýsingar, auglýsingar frá versluninni en hana rak Njáll Bjarnason. Árið 1976 var forstofubygging byggð á austurhlið og svalir byggðar á vesturhlið árið 2003.

Húsið hefur á síðustu árum hlotið viðamiklar og vandaðar endurbætur (sem og umhverfi þess og lóð) og er nú sem nýtt að sjá. Í Húsakönnun 2015 segir að húsið verið gert upp “af myndarskap”. Þar er húsið metið með varðveislugildi sem hluti af þessari heild, enda sómir húsið sér einstaklega vel bæði eitt og sér, sem og í þessari geðþekku húsaröð gegnt Sundlauginni. Gluggar hafa verið færðir í sem næst upprunalega mynd- húsið hafði áður verið “augnstungið” og gefa þeir húsinu einstaklega skemmtilegan og sterkan svip. Gluggar virka að mörgu leyti sem “augu” húsa og ráða miklu og svip þeirra og einkenni. Hér má sjá mynd af Sundlaug Akureyrar, tekna á 4.áratugnum og sýnir hún gjörla hvernig húsið leit út í upphafi. Hvítur litur hússins gefur því bjart yfirbragð og hrafnsvart þakið skerpur raunar enn frekar á hvítum og björtum litnum. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 8.maí 2016.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf


Hús dagsins: Þingvallastræti 8

Þingvallastræti 8 byggði Samvinnubyggingafélagið árin 1929 til 1930 fyrir þá Þorbjörn Kapracíusson og Leif Kristjánsson. p5080342.jpgHúsið skyldi vera steinhús, 8,2x9 m að stærð og var það parhús, skipt í miðju. Í Jónsbók er húsinu skipt í a og b hluta, þar býr Þorbjörn í 8a en Leifur í 8b. Teikningarnar af húsinu gerði Sveinbjörn Jónsson en þess má geta, að hann teiknaði þetta hús og jafnframt næstu tvö ofan við, þ.e. 10 og 12. En Þingvallastræti 8 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Neðri hæð er eilítið niðurgrafin en þó tæpast svo, að hægt sé að tala um kjallari í því samhengi. Áföst austurgafli er tvílyft viðbygging með flötu þaki og á henni eru svalir til suðurs og geymsla (bílskúr) á jarðhæð. Krosspóstar eru í gluggum hússins en víður “stofugluggi” á viðbyggingu. Aðal inngöngudyr eru á vesturgafli og til suðurs á norðausturálmu en þar eru einnig stórar bílskúrsdyr. Á vesturgafli á annarri hæð er stór gluggi með lóðréttum miðjupósti. Þar er á upprunalegum teikningum gert ráð fyrir svölum yfir útidyrum. Á lóðinni stendur einnig geymsluskúr, sem mun byggður 1960.

Húsið hefur frá upphafi verið parhús með tveimur íbúðum en ekki er ólíklegt að fleiri en tvær fjölskyldur hafi einhvern tíma búið í húsinu samtímis. Vesturhlutinn telst 8b en austurhluti 8a. Byggt var við þann hluta hússins árið 1964 eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar en að öðru leyti er húsið óbreytt frá upphafi. Húsið sómir sér vel í þessari götumynd, sem ég kalla stundum “Sundlaugarröðina” þar eð hún er gegnt Sundlauginni. Frá árinu 2000 hefur húsið þá “sérstöðu” í þessari röð steinsteypuklassíkur frá 1929-32 sem eina kvistlausa húsið en það ár fékk Þingvallastræti 4 miðjukvist. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út, í því eru tvær íbúðir líkt og í upphafi. Myndin er tekin þann 8.maí 2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Þingvallastræti 6

p5080330.jpgHalldór Aspar fékk þann 29.júlí 1929 leyfi til að byggja íbúðarhús á lóð sinni við Þingvallastræti. Húsið 9x7,8m að stærð, ein hæð á kjallara og með háu risi, útveggir úr r-steini en kjallari steyptur. Árið 1931 fékk hann að setja kvist á húsið. Teikningar af húsinu gerði Tryggvi Jónatansson en Haldór Haldórsson teiknaði kvistin að framan. Húsið er einlyft steinhús á háum kjallara og með háu risi og miðjukvistum að framan og aftan. Í byggingarleyfi fyrir húsinu kemur fram að húsið sé byggt úr r-steini en samkvæmt Húsakönnun Landslags og Teiknistofu Arkiteka er byggingarefnið steinsteypa. En þar sem r-steinn er steyptur úr steinsteypu er kannski orðhengilsháttur að ætla að gera á greinarmun á þessum byggingarefnum. Inngönguskúr með valmaþaki er á vesturhlið og steyptar tröppur upp að honum. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki. Á fjórða áratugnum bjó í húsinu maður að nafni Hannes J. Magnússon útgefandi. Hann gaf út hið valinkunna barnatímarit Vorið og var afgreiðsla blaðsins í Þingvallastræti 6 um nokkurra ára skeið. Þingvallastræti 6 er reisulegt og myndarlegt hús og í góðri hirðu. Það flokkast undir steinsteypuklassík og er af mjög algengri gerð steinhúsa frá þessum tíma. Húsið mun að mestu óbreytt frá fyrstu gerð ef frá er talin forstofubygging að vestan. Hún var reist um 1990 eftir teikningum Bjarna Reykjalín. Húsið er hluti þessarar geðþekku húsaraðar neðst við Þingvallastræti sem standa gegnt Andapollinum og Sundlauginni. Það sem þessi húsaröð á sammerkt eru stórar, grónar og vel hirtar lóðir. Þar er Þingvallastrtæi 6 engin undantekning, og yfir hásumarið er húsið hálf falið bak við laufskrúð.

Vestan við húsið stendur mikið grenitrép5080332.jpg (ég kann ekki að greina það nákvæmlega af færi, sýnist það fljótt á litið vera Sitkagreni), á að giska um 15 m hátt. Myndirnar tók ég í vorblíðunni þann 8.maí sl.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Þingvallastræti 4

Árið 1929 fékk Helgi Tryggvason leyfi til byggingar íbúðarhúss, p5080331.jpgá einni hæð á háum kjallara og með risi, að stærð 8,10x9m. Teikningarnar af húsinu gerði Sigtryggur Jónsson og var húsið fullbyggt árið 1930. Í byggingaleyfi er húsið sagt einlyft á kjallara og upprunalegar teikningar virðast gera ráð fyrir því að kjallari sé lægri eða a.m.k. meira niðurgrafinn. Það er a.m.k. Mat þess sem þetta ritar að húsið sé tvílyft, þar eð neðri hæð hússins er algjörlega ofanjarðar. Húsið er af klassískri gerð, með háu risi og miðjukvistum að framan og aftan. Bakkvistur er lægri en sá að framan. Steyptar tröppur eru uppá aðra hæð að austanverðu og á þeim skrautlegt, steypt handrið. Inngangur á neðri hæð er á vesturgafli. Krosspóstar eru í gluggum en bárujárn á þaki.

Þingvallastræti 4 er ekki langt ofan Miðbæjarins, í raun aðeins í fimm mínútna göngufæri þaðan. Þó er það svo, að þegar húsið var byggt var það í hópi útvarða þéttbýlis Akureyrar, í hópi efstu húsa bæjarins. Ofar voru erfðafestulönd, grasbýli og tún, m.a. nýtt af Oddeyringum. Voru kýr þeirra reknar upp og niður Oddeyrargötuna sem hlaut viðurnefnið Kúagata þess vegna.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Það er auglýst sem einbýlishús fyrir hálfri öld, og líkast til varð það byggt sem slíkt. Um og fyrir miðja 20.öld öld bjó Sigmund Jacobssen í húsinu. Hann ritstýrði ásamt séra Nils Ramselius Barnablaðinu sem gefið var út á vegum Filadelfíusafnaðarins. Hófu þeir útgáfu blaðsins árið 1938 og var afgreiðsla blaðsins í húsinu um árabil. (Hér að framan er krækja á fyrsta tölublað Barnablaðsins frá október 1938, og á öftustu síðu kemur fram að afgreiðsla blaðsins sé í Þingvallastræti 4). Þá var einnig starfrækt saumastofa í húsinu um 1947. Öfugt við það sem margir kynnu að halda er kvisturinn á þaki hússins ekki upprunalegur en kvistirnir voru settir á húsið árið 2000 í kjölfar þess að þakið var endurnýjað algjörlega. Hönnuður þeirra breytinga er Þröstur Sigurðsson.

Húsið er stórglæsilegt og virðist sem nýtt, enda er rishæðin raunar tiltölulega nýleg. Samkvæmt Húsakönnun sem gerð var 2015 fer nýr kvistur húsinu vel og get ég sannarlega tekið undir það. Húsið sómir sér vel í þessari glæsilegu götumynd sem þessi elsti og neðsti hluti Þingvallastrætis er og ekki skemmir fyrir að lóð er vel hirt og umhverfi stórglæsilegt líka. Í húsinu eru tvær íbúðir. Myndin er tekin þann 8.maí 2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 


Árstíðir á Brekkugötu

Sunnan við húsið Brekkugötu 30 stendur myndarlegt kirsuberjatré. Ég þekki ekki uppruna þess, en verið gæti að Jónas Þór forstjóri sem byggði hP1100327úsið hafi gróðursett það. Hann var mikill áhugamaður um trjárækt og gerði t.d. tilraunir með ræktun eplatrjáa í garði sínum að Brekkugötu 34, sem hann byggði síðar. Sé það tilfellið að Jónas Þór hafi gróðursett tré er það a.m.k. 70-80 ára gamalt, því Jónas reisti þetta hús 1923 en flutti 1944 í þar næsta hús, nr. 34. Ég fór í ljósmyndaleiðangur um þennan hluta Brekkugötunnar núna í ársbyrjun. Eins og gefur að skilja var gróskan ekki mikil í trjánum þá (10.janúar) og því hugsaði ég með mér, að ég yrði nú að mynda þetta ágæta tré aftur þegar sumraði. Það gerði ég í gærkvöld, á miðnætti á Sumarsólstöðum. Hér til hliðar er myndin af Brekkugötu 30 frá 10.janúar sl. kirsuberjatréð lengst til hægri. Hér má  sjá kirsuberjatréð góða að Brekkugötu 30 í sumarskrúða:

P6210364


Hús dagsins: Bjarmastígur 15

Efri hluti Bjarmastígs liggur á norðurbarmi Skátagils, austur og niður frá Oddeyrargötu. Efst við götuna stendur hið reisulega steinhús Bjarmastígur 15. Það er meðal elstu húsa við götuna, byggt 1930 af Gunnari Jónssyni. PA280252Höfundur hússins er ókunnur en hér eru teikningar af húsinu, uppmælingarteikningar, dagsettar í mars 1938.

Bjarmastígur 15 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Á þaki eru miðjukvistur á framhlið eða austurhlið (suðurstafn hússins snýr að götu) en kvistur með hallandi þaki á bakhlið eða vesturhlið. Á þeirri hlið eru einnig steyptar tröppur upp á aðra hæð og þar eru tveir inngangur, hvor fyrir sína hæð. Á götuhlið eru einnig inngöngudyr fyrir miðju. Krosspóstar eru í gluggum en nýlegt stallað bárujárn á þaki. (Þessa klæðningu hef ég einnig stundum nefnt “skífustál” en mér þykir hún líkja nokkuð eftir steinskífuklæðningu). Efst, upp undir í rjáfri eru tígullaga gluggar, líklega á háalofti. Nyrsti hluti hússins er álma með flötu þaki. Þar er á teikningunum sem vísað er til hér að framan gert ráð fyrir kvisti með aflíðandi risi (stafnkvisti). Þar er gert ráð fyrir stofu til austurs en tveimur herbergjum til vesturs og gangi á milli. Á teikningunni kemur fram að hann verði byggður 1942 þ.e. fjórum árum eftir að teikningarnar eru gerðar. Mögulega hafa teikningar þessar verið gerðar vegna áforma um stækkun hússins, því þar er einnig að finna geymsluálmu sem standa átti áföst húsinu við norðausturhornið. Bygginganefnd gaf grænt ljós á byggingu norðurkvistsins vorið 1942, en ekki varð þó úr framkvæmdunum.

Húsið er byggt sem íbúðarhús og hefur alla tíð þjónað sem slíkt. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð og í risi. Húsinu er vel við haldið og virðist í góðu standi og er til mikillar prýði í umhverfinu. Það er nokkuð stærra en nærliggjandi hús- en þó ekki svo að það skeri sig úr. Skv. Húsakönnun frá 2014 er varðveislugildi hússins ekki metið verulegt umfram önnur hús við Bjarmastíg en húsið er líkast til annað elsta hús götunnar. Oft er það tilfellið, að litlir hlutir eða smáatriði gefa húsum ákveðinn svip eða skemmtileg sérkenni. Það geta verið t.d. útskornir sperruendar undir þakskeggi, gluggar, handrið, dyraskýli o.s.frv. Í tilfelli Bjarmastígs 15 myndi ég segja að tígullaga smágluggarnir flokkist undir þetta. Myndin er tekin sl. haust, 28.október 2015.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Bygginganefnd Akureyrarbæjar: Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 30.4.1942,

Óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinnihttp://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Næsta síða »

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2016
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband