Hús dagsins: Skipagata 18; Bifröst

Ein “frægustu” gatnamót Akureyrar er líkast til Kaupfélagshornið svokallaða, 

P5180339 - Copyþað er mót Hafnarstrætis og Kaupangsstrætis. Þar standa hið valinkunna Hotel KEA, Bautinn, Kaupfélagshúsið (raunar er áratugur síðan KEA yfirgaf þau húsakynni) og Hamborg. Þarna "hefst" (eða "endar") Listagilið og hver sá sem gengur niður kirkjutröppurnar mörgu og margfrægu kemur niður á þessu ágæta götuhorni. En litlu neðar er annað horn og þar mætast Skipagata og Kaupangsstræti. Fyrrnefnda gatan liggur N-S frá Ráðhústorgi að Kaupangsstræti. Þar stendur nokkuð voldug sambygging steinsteypuhúsa, sem fljótt á litið mætti ætla að væri sama húsið. Það er þó öðru nær. Hér er um þrjú sjálfstæð hús að ræða, hvert með sitt númer. Syðstu húsin eru tvílyft, annað með flötu þaki en hitt með lágu risi en nyrst stendur fjögurra hæða stórhýsi með háum turni. Meðalaldur þessara þriggja húsa er rúm 60 ár en húsin eru byggð 1935, 1939 og 1993. Hér er um að ræða Kaupangsstræti 4, Skipagötu 18 og Skipagötu 16, talið frá suðri til norðurs. Ég hélt ævinlega, að Kaupangsstræti 4 sem er syðst og stendur á horni götunnar og Skipagötu hefði risið fyrst og Skipagata 18 hefði komið síðar. En elsta hús þessarar sambyggingar er miðhúsið, Skipagata 18 og um það hús verður fjallað hér.

 

Árið 1934 fengu þeir Helgi Tryggvason og Jóhannes Jónasson leigða lóð hjá Hafnanefnd, vestan Skipagötu, norðan lóðar Tómasar Björnssonar og vestur að lóðamörkum Parísar [Hafnarstræti 96]. P5180338Lóðin var leigð með þeim skilyrðum að þar yrði leigt varanlegt steinhús innan árs frá veitingu þessa leyfis. Innan við hálfu ári síðar, í mars 1935 fá þeir Jóhannes og Helgi leyfi til að byggja á leigulóð sinni við Skipagötu hús skv. Uppdrætti og húsið ætlað til að reka þar bifreiðastöð. Húsið yrði 11x13m að stærð úr járnbentri steinsteypu, 2 hæðir með flötu þaki. Í bókun bygginganefndar er einnig tekið fram að fullkomin járnateikning þurfi að liggja fyrir.

Skipagata 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu, aflíðandi risi. Gluggar eru stórir og víðir, með einföldum skiptum langpóstum að framan og krosspóstum á bakhlið, en stórir “verslunargluggar” eru á neðri hæð. Bárujárn er á þaki hússins. Húsið er sem áður segir, staðsett miðlægt í sambyggingu þriggja ólíkra húsa.

Frá upphafi var rekin þarna bifreiðastöð, hér má t.d. sjá auglýsingu frá 1943 þar sem ódýrustu flutningarnir með vörubílum eru sagðir með bifreiðum frá Bifröst, og sjö árum síðar er sama auglýsing enn í gildi; nema hvað þar hefur einn ás bæst framan við símanúmerið 244, orðið 1244.

Líkt og gengur og gerist með verslunar- og fyrirtækjahúsnæði með rúma átta áratugi að baki, hefur ýmis starfsemi verið í húsinu. Þegar heimilisfanginu er slegið upp á gagnagrunninum timarit.is koma hvorki meira né minna en 572 niðurstöður. Bifröst var starfrækt þarna í rúman aldarfjórðung, en yngsta heimild sem ég fann á timarit.is um Bifröst á Skipagötu 18 er frá 100 ára afmælisdegi Akureyrarbæjar, 29.ágúst 1962. Þar eru taldar upp bifreiðastöðvar bæjarins og þar er m.a. Bifrastar við Skipagötu 18 getið. Þarna var einnig rekin útvarpsviðgerðarstofa, og læknisstofu starfrækti Halldór Halldórsson læknir í húsinu frá 1964 og sjö árum síðar tók Eiríkur Stefánsson við með sína stofu. Þá voru lengi vel í húsinu verkfræðistofur og teiknistofur, Akureyrardeild Rauða Krossins var þarna um tíma, ferðaskrifstofa (Samvinnuferðir/Landssýn), Samvinnutryggingar og stjórnmálahreyfingar hafa einnig átt hér inni. Þá má einnig geta þess, að fráfarandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson var hér með kosningaskrifstofu fyrir forsetakosningarnar 1996, þegar hann var sem kunnugt er, kjörinn í fyrsta skipti. Síðastliðna áratugi var hannyrðaverslunin Vogue þarna til húsa á neðri hæð, en hún flutti úr plássinu fyrir fáeinum árum. Nú er Blómabúð Akureyrar rekin í verslunarplássinu á götuhæð en á efri hæð skrifstofur Hótel KEA. Ekki veit ég til þess, að nokkurn tíma hafi verið búið í Skipagötu 18 en ekki ætla ég að fullyrða að svo hafi aldrei verið.

Húsið hefur tekið einhverjum breytingum frá upphafi, en í stórum dráttum svipað og í upphafi að ytra byrði. (Þá tel ég það ekki til breytinga á húsinu, að tvisvar hefur verið byggt beggja vegna þess, fast við húsið, þar sem frekar er um sambyggð hús að ræða en viðbyggingu).Upprunalegar útlitsteikningar og grunnmyndir virðast ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi en hér má finna ítarlega járnateikningu fyrir húsið, dagsetta 18.maí 1935. Þar er líklega komin hin “fullkomna járnateikning” sem Bygginganefnd skilyrti, að yrði að liggja fyrir. Hér má sjá teikningar frá 1981 eftir Gunnar Þ. Þorsteinsson, af “lagfæringum og breytingum” líklega á gluggum og þaki og hér eru tveimur áratugum eldri teikningar af húsinu og ef teikningarnar eru bornar saman, má sjá að á yngri teikningum eru dyr komnar á miðju framhliðar, og gluggastykki komið í stað dyra sem voru nyrst. Síðast var húsið “tekið í gegn” árið 2009 þegar Blómabúð Akureyrar flutti þangað. Húsið hefur líkast til alla tíð hlotið hið besta viðhald. Það er sem nýtt að utan, en þess má geta, að ég hélt lengi vel að húsið væri miklu yngra en það er í raun.Mynd0193 Þá er húsið væntanlega í mjög góðu standi að innan; vegna þess hve tíðum húsinu hefur verið breytt og bætt að innra byrði, eftir mismunandi þörfum hinna ýmsu skrifstofu- og þjónustuaðila sem þar hafa haft aðsetur.
Þrátt fyrir það, má enn sjá nafn Bifrastar við dyragætt syðri inngangs, þar sem gengið er upp á efri hæð hússins, sjá mynd hér til hliðar. (Af einhverjum ástæðum vill hún ekki koma öðruvísi inn, ég hef'i helst viljað snúa henni um um 90°)Myndirnar með færslunni eru teknar þann 18.maí 2016. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 738, 26.mars 1935. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Jón Sveinsson. 1945-1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Glæsihýsi á Reykjanesi

Ég hef síðastliðnar vikur dvalið í Reykjanesbæ en hef einnig átt leið um Reykjanesskagan og Suðurlandið. Hvarvetna um landiðmá finna gömul eða glæsileg hús, oftar en ekki hús sem eru hvort tveggja í senn, og þar er Reykjanesið engin undantekning. Því miður hef ég ekki tök á því að gera húsum þessum sambærileg söguleg skil og "Hús dagsins" en engu að síður er upplagt að birta myndir af þeim hér. Hver veit nema einhver úr röðum lesenda þessarar síðu lumi á upplýsingum um þessi hús og þá er sannarlega velkomið að deila slíku hér undir athugasemdir eða í Gestabók. 

"Kastalarnir" í Keflavík og GrindavíkP7040380

Hér má sjá húsin Aðalgötu 17 (efst) og Hafnargötu 39 í Keflavík annars vegar og Vesturbraut 8 í Grindavík. Síðast talda húsið skilst mér að kallist Krosshús. Þessi hús eru með nokkuð skemmtileg þök eða öllu heldur þakkanta, nokkurs konar "kastalalag" eða skotraufar. Samkvæmt Fasteignaskrá er Aðalgata 17 byggð 1934 og Hafnargata 39 byggð 1932 en Vesturbraut 8 er byggð 1929. Mögulega er sami teiknari á bak við þessi hús, en þau eru óneitanlega nokkuð svipuð að gerð. Krosshús í Grindavík er tvílyft en hin tvö á einni hæð, og byggt hefur við Hafnargötu 39. Viðhald og frágangur þessara húsa virðast eins og best verður á kosið. Einstaklega "sjarmerandi" og skemmtileg hús.

P7110384

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7100444

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við hlið Krosshúss, eða á Vesturbraut 8a stendur einnig glæsilegt hús. Það er byggt 1984. Hvítu flyksurnar sem sjást á Grindavíkurmyndunum eru regndropar, en þegar ég var að mynda á Vesturbrautinni þann 10.júlí sl. kom dágóð gróðrarskúr.P7100446

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skemmtileg götumynd: Vesturbraut í Grindavík.


P7100447

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér eru nokkur gömul og virðuleg í eldri hluta Keflavíkur:

P7110375  P7110379

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P7110376

Myndirnar eru allar teknar 10. og 11.júlí sl. nema sú efsta af Aðalgötu 17, sem tekin er 4.júlí. 


Hús dagsins: Oddeyrargata 34

Samkvæmt svonefndri Jónsbók, sem varðveitt er á Héraðsskjalasafninu, er uppruni hússins að Oddeyrargötu rakinn til þess að þeir Gunnar Larsen og Vigfús Friðriksson leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu, einnar hæðar á háum kjallara og með mansardþaki, að ummáli 8,5x9,5m.P3050347 Þetta var í maímánuði 1930, en þess má til gamans geta að síðla þann sama mánuð fæddist drengur í San Fransisco í Californíu að nafni Clint Eastwood. Lóðin var sögð 800 fermetrar. Upprunalegar teikningar eru óáritaðar en Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar (2015) telja líklegast að Stefán Halldórsson húsasmíðameistari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingameistari hafi teiknað húsið.

Oddeyrargata 34  er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara með háu, bogadregnu mansardþaki og miðjukvisti sem einnig er með sveigðu mansardlagi. Steyptir kantar og skrautlegar súlur ramma þak og veggi inn, súlur eru á hornum en einnig undir kvisti og einnig eru steyptar syllur eða kantar ofan glugga á neðri hæð og kvistglugga. Ekki veit ég, hvort rétt væri að kalla glugga á þaki beggja vegna kvisti eða þakglugga. Gluggapóstar eru láréttir með tvískiptum efri póstum. Á neðri hluta þaks er skífuklæðning en bárujárn á þeim efri. Á norðurgafli er forstofubygging og steyptar tröppur með skrautlegu steyptu handriði. Svalir eru ofan á forstofubyggingunni en einnig eru svalir aðrar svalir á efri hæð, nærri norðvesturhorni og sólpallur úr timbri á neðri hæð bakatil. Húsið er teiknað sem tveggja íbúða hús, hvor íbúðin á sinni hæð. Sú íbúðaskipan hefur líkast til haldist alla tíð þó einstaka herbergi hafi verið leigð til einstaklinga og fjölskyldna fyrstu áratugina. Oddeyrargata 34 var fullbyggð 1931 en í árbyrjun það ár, auglýsir G.[unnar] Larsen eftir tilboðum í smíði og múrverk innanhús- og er það elsta heimildin sem finna má timarit.is um húsið.

Segja má að það sé einstakt í sinni röð í bókstaflegri merkingu því það er frábrugðið næstu húsum í þessari geðþekku steinhúsaröð. Húsið er svipsterkt og sérlega skrautlegt á margan hátt og ekki skemmir fyrir að húsinu er vel við haldið og í góðri hirðu. Ég hefði sagt að húsið ætti umsvifalaust að friða einfaldlega vegna einstakrar og glæstrar gerðar- en það er má að segja um mörg hús. En í Húsakönnun 2015 um Norður Brekkuna er húsið talið hafa annars stigs varðveislugildi sem Hluti samstæðrar húsaraðar klassískra húsa. Sérstætt vegna stílbrigða.” (Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar, 2015:P7150111211) Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir þetta.

Lóð hússins er mjög vel gróin. Hún er mishæðótt og stendur húsið á að giska 3-4m hærra en gatan sjálf. Fremst á lóð er mikil blómagarður og er hann á “tveimur hæðum” ef svo má segja og beðin aðskilin með hellulögn líkt og í grasagörðum. Mikill trjágróður er á lóðinni, raunar svo mikill að húsið er lítt sjáanlegt yfir hásumarið. Sumum þykir mikil synd að glæsihýsi á borð við Oddeyrargötu 34 séu hulin trjágróðri. En stæðileg og glæst tré eru að mínum dómi engu minni prýði en skrautleg hús. Síðan má hafa það í huga, að laufskrúð byrgir aðeins sýn yfir sumarið og hluta hausts, þ.e. varla nema þriðjung ársins. Myndirnar með færslunni eru teknar þann 5.mars og 24.apríl 2016 og 15.júlí 2015. 

P4240330

 

 

 

 

 

 

 

 

Blómagarðurinn á lóð Oddeyrargötu 34 að vorlagi.

 

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2016
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 38
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 773
  • Frá upphafi: 420059

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 613
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband