Hús dagsins: Oddeyrargata 13

Í síðustu færslu tók ég fyrir Oddeyrargötu 28, steinhús frá 1929 sem er eitt nokkurra húsa sem byggt var eftir byggingarleyfi frá 619.fundi Byggingarnefndar haustið 1928. Hér er annað úr þeim hópi, sem einnig stendur við Oddeyrargötu...

 

Meðal þeirra fimm einstaklinga sem fengu úthlutað byggingarleyfum á fundi Bygginganefndar þann 17.september 1928 var Elín Einarsdóttir, 23 ára starfsmaður KEA. P1100302Hún hafði fengið lóðina í júlíbyrjun um sumarið og fékk leyfi til að reisa “íbúðarhús úr steinsteypu, 7,5x8,45m, tvær hæðir á lágum grunni”. Teikningarnar af húsinu gerði Sveinbjörn Jónsson.

Í upphafi voru tvær íbúðir í húsinu, hvor með sínum inngangi, líkt og sjá má á téðum teikningum. Oddeyrargata 13 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og stendur það á lágum grunni. Bárujárn er á þaki og þverpóstar með tvískiptum efri fögum. Stórir gluggar eru við inngöngudyr að framanverðu (þ.e. að vestan). Ekki veit ég þó hvort tveir inngangar voru á húsinu í upphafi -líkt og á teikningu frá 1928- eða hvort núverandi dyraumbúnaður sé upprunalegur. Það er nefnilega ekki hægt að gefa sér það, að farið hafi verið í einu og öllu nákvæmlega eftir upprunalegum teikningum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Húsið er að ytra byrði að mestu óbreytt frá upphafi í mjög góðri hirðu og lóð vel gróin. Húsið er einbýlishús og hefur líkast til verið svo í áratugi. Húsið er eitt margra húsa Sveinbjarnar Jónssonar frá þessu tímabili og er t.d. ekki ósvipað húsum sem hann teiknaði við Norðurgötu 32 og 33. Voldugur dyraumbúnaðurinn gefur húsinu, sem er í eðli sínu einfalt og látlaust, sérstakan svip. Myndina tók ég sunnudaginn 10.janúar 2016.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. 17. sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Á að vera sjálfsagt mál...

...að hirða upp eigið rusl. Ef þú getur borið umbúðir ásamt innihaldi á staðinn, ætti nú aldeilis að vera leikur einn, að bera þær tómar til baka - eða í næstu ruslatunnu.laughing   


mbl.is Vilja banna fólki að fleygja rusli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús dagsins: Oddeyrargata 28

Þorsteinn Thorlacius bóksali fékk þann 17.sept. 1928 leyfi til að reisa hús á lóð sinni, einlyft steinhús á kjallara, háu risi og með útskotum. P3050341Ummál hússins 10,6x8,3m. Á þessum 619.fundi Bygginganefndar voru gefin út byggingarleyfi fyrir alls fimm húsum, sem er nokkuð “afkastamikið” og raunar svo, að það rataði í blöð. Hér segir frá því, í Verkamanninum þann 22.september 1928, að byggingarleyfi hafi verið veitt m.a. til Þorsteins Thorlacius og Elínar Einarsdóttur, sem bæði byggja við Oddeyrargötu. Sá fyrrnefndi byggði á nr. 28, en lóðina fékk hann vorið 1927.

Húsið er einlyft steinsteypuhús á kjallara með háu risi og “sett af kvistum” að framan og aftan, þ.e. stórum hornkvisti og smærri kvisti á þekju. Mjótt dyraskýli er á miðri framhlið og steyptar tröppur upp að því, og á norðurhorni framhliðar útbygging eða sólskáli. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið er byggt sem íbúðarhús, einbýli en líkt og gekk og gerðist á fyrri helmingi 20.aldar voru einstaka herbergi leigð út og mögulega margar fjölskyldur eða einstaklingar búsettir í húsinu á sama tíma. Í húsinu bjuggu lengi Valgarður Stefánsson frá Fagraskógi, bróðir Davíðs skálds, heildsali og kona hans Guðmundína Stefánsdóttir. Húsið er eilítið breytt frá upprunalegri gerð, skálinn á norðausturhorni er síðari tíma viðbygging, og kvistum á þekju var bætt á húsið um 1979, eftir teikningum Guðmundar Sigurðssonar . Oddeyrargata 28 er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það er í Húsakönnun 2015 sagt hluti af heild klassískra húsa sem saman hafa varðveislugildi en þessi húsaröð við Oddeyrargötuna er einstaklega smekkleg. Þá er það sammerkt með þessum reisulegu húsum, að þau standa á stórum og gróskumiklum lóðum sem skarta miklum trjágróðri- og þar er Oddeyrargata 28 engin undantekning.  Myndin er tekin þann 5.mars 2016. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. 17. sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 

 


Hús dagsins: Oddeyrargata 17

 

Oddeyrargatan er að mestu byggð á 3.áratug 20.aldar.P2210309 Þá voru flest hús sem byggð voru steinhús, enda standa aðeins tvö timburhús við götuna. Annars vegar elsta hús götunnar, númer 3 sem byggt var 1908 og hins vegar númer 17, sem byggt er 1920-21. En það var haustið 1920 að Eggert M. Melsteð fékk lóð og leyfi til húsbyggingar á þessum stað. Húsið yrði timburhús á steinkjallara samkvæmt framlögðum uppdrætti. Umræddur uppdráttur hefur ekki varðveist og ekki er vitað hver teiknaði. Hugsanlega hefur Eggert teiknað húsið sjálfur en hann teiknaði húsið Oddagötu 9 sem byggt var fyrir Odd C. Thorarensen apótekara árið 1928.

Mér finnst stundum dálítið gaman að ímynda mér, hvernig umhorfs hefur verið í næsta nágrenni húsa þegar þau voru nýbyggð. Árið 1921, þegar þetta hús var fullbyggt, hefur það staðið hæst húsa við Oddeyrargötuna, ásamt næsta húsi neðan við, en 15 var einnig byggt 1920. Næstu hús neðan við risu ekki fyrr en fáeinum síðar og enn var rúmur áratugur í að nokkuð yrði byggt við Bjarmastíg. Húsin hafa því staðið nokkuð hátt í brekkunni bak við húsin við Brekkugötu, og nokkrar húsalengdir í næstu hús við Oddeyrargötuna þ.e. nr. 3 og 8. Vestan við það, handan götunnar hafa verið móar, klappir og beitilönd alla leið til fjalls. Húsið hefur verið á mörkum þess að standa “upp í sveit” líkt og Melshúsin handan Skátagils (sem raunar fékk ekki það nafn fyrr en löngu síðar), en nú er þessi staður nánast í Miðbænum.

Oddeyrargata 17 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti að framan en á bakhlið er kvistur að suðurgafli, með einhalla aflíðandi þaki. Á suðurgafli er einnig forstofubygging með svölum ofan á. Sexrúðupóstar eru í gluggum en skrautpóstur í suðurglugga á forstofu og er allt húsið bárujárnsklætt. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Þarna bjó um áratugaskeið Knud Ottersted rafveitustjóri og kona hans Lena Ottersted. Þau fluttust til Akureyrar árið 1922 frá Svíþjóð en Knud kom hér til starfa við byggingu háspennulínumannvirkja vegna Glerárvirkjunar. Hún var tekin í notkun haustið 1922 og þar með var Rafveita Akureyrar orðin að veruleika. Knud veitti henni forstöðu og gegndi því starfi í fjóra áratugi. Upprunalegar teikningar af húsinu hafa sem áður segir, ekki varðveist. Ekki er víst að kvistur hafi verið á því frá upphafi, en lengi vel var framkvistur með einhalla þaki. Sá kvistur sem nú prýðir húsið er raunar nýlegur eða frá því um 2000. Þá var húsið, sem var forskalað með perluákastsmúrhúð (“skeljasandi”) allt tekið til gagngerra endurbóta og fékk þá það útlit sem það síðan hefur. Skipt var gluggapósta, húsið allt bárujárnsklætt og ýmis bragarbót gerð, sem sjá má nánar á teikningu frá 1996. Húsið er þannig allt sem nýtt og með glæstari húsum og lóðin er vel hirt og gróin- þótt lítið beri á grósku þeirri á meðfylgjandi mynd sem tekin er í febrúar á tiltölulega snjóþungum vetri. Þess má geta að þáverandi eigendur, Kristján Magnússon og Snjólaug Brjánsdóttir, fengu viðurkenningu frá Húsverndarsjóði árið 2004 fyrir endurgerð á húsinu og má með sanni segja, að þau hafi verið vel að þeim heiðri komin. Ein íbúð er í húsinu. Þessi mynd er tekin þann 21.2.2016.

Heimildir: Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2016
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 412
  • Frá upphafi: 420112

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 302
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband