Hús dagsins: Aðalstræti 82

Fram á miðja 20.öld stóð lengi vel eini torfbærinn á Akureyri á Aðalstræti 82, Syðstahús eða Sibbukofi- nefndur svo eftir Sigurbjörgu Jónsdóttur sem bjó þar allan sinn aldur en hún lést 1944. Nú stendur hins vegar á þessari syðstu lóð Aðalstrætis - og lengi vel syðstu lóð innan þéttbýlis á Akureyri reisulegt steinsteypuhús.

Aðalstræti 82 reisti Jón Sveinsson, fyrrverandi bæjarstjóri árin 1951-52 eftir teikningum Bárðar Ísleifssonar. P5140009Sú teikning er ekki aðgengileg á Landupplýsingakerfinu, en hér má finna raflagnateikningu frá 1952 sem sýnir nokkurn vegin upprunalega herbergjaskipan. Húsið mun eiga “systkini” í Reykjavík en það er byggt eftir sömu teikningu og svokallaðir Prófessorabústaðir við Oddagötu og Aragötu í grennd við Háskóla Íslands. En Aðalstræti 82 er einlyft steinsteypuhús með lágu risi og háum kjallara undir hluta hússins, raunar mætti tala um jarðhæð undir austasta hluta hússins. Húsið er tvær eða þrjár álmur, eystri álma snýr stöfnum N-S, líkt og sú vestari sem er einlyft með lágu risi. Miðálman snýr mæni A-V. Vestari álma er raunar viðbygging, byggð um 1990 eftir teikningum Sigtryggs Stefánssonar. Flestir gluggar eru með lóðréttu miðfagi, með opnanlegu þverfagi öðru megin; ýmist ofan eða neðan. Á vesturálmu er mikið gluggastykki sem snýr mót suðri. Bárujárn er á þaki. Inngangar eru m.a. á austurhlið og norðurhlið og að þeim eru steyptar tröppur frá götu og stétt. Húsið er klætt perluákasti eða steinmulningi.

Sem áður segir reisti Jón Sveinsson þetta hús. Hann hafði tveimur áratugum fyrr reist hús við Hrafnagilsstræti en bjó í millitíðinni lítið eitt norðar við Aðalstræti á nr. 72. Ein helsta heimildin, sem ég notast við þegar ég vinn þessa pistla sem hér birtast er svonefnd Jónsbók. Hana vann Jón ásamt konu sinni, Fanneyju Jóhannesdóttur, árin 1945-55. Ekki er ekki óvarlegt að áætla, að hluti þeirrar vinnu hafi farið fram á heimili þeirra hér í Aðalstræti 82. Í Jónsbók er hægt að fletta upp hverju einasta húsi eða lóð á Akureyri árið 1933- eða um það leyti sem Jón lét af embætti bæjarstjóra. Þar er tilgreind upprunasaga húss sem þá stendur á lóð, þ.e. hver fékk byggingarleyfi og hvenær, og einnig er þess getið, ef bókuð hafa verið leyfi fyrir breytingu á viðkomandi húsum. Þetta eru tvær 250 blaðsíðna handskrifaðar bækur, sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafninu. (Þess má geta, að ekki eru neinar heimildir um núverandi hús við Aðalstræti 82 í Jónsbók – enda húsið reist löngu eftir þann tíma sem sú bók miðast við). Kannski var þetta verk Jóns vísir að fyrstu húsakönnun sem unnin var á Akureyri. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, einbýlishús og haldið vel við. Þrátt fyrir að vera komið á sjötugsaldur er húsið í hópi yngstu húsa við Aðalstræti- sem er önnur elsta gata bæjarins. Húsið er glæsilegt og reisulegt og til mikillar prýði og garðurinn væri raunar efni í annan pistil. Hann er raunar líkastur lystigarði, lóðin er afar víðlend (2793 fermetrar skv. Fasteignaskrá) og nær hátt upp í brekkuna ofan við. Hún er öll vel gróin alls konar trjágróðri og skrautjurtum. Ég hef ekki getað séð annað, þegar ég á þarna leið um að sumarlagi að garðurinn sé vel hirtur og snyrtilegur. Eins og raunar húsið sjálft. Skv. Húsakönnun sem gerð var árið 2012 um Innbæinn (byggir að hluta á eldri könnun frá 1985 og gefin var út á bók) er húsið sagt “Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi” (Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012: 71). Meðal trjágróðurs á lóð er mikill grenilundur sem stendur norðan við húsið. P5140010Líklega er þarna um að ræða sitkagreni, en trén eru býsna há, gætu verið nærri 20 metrum. Myndirnar með færslunni eru teknar á Uppstigningardag, 14.maí 2015.

 

Heimildir:  Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

 

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


Hús dagsins: Syðstahús; Sibbukofi (stóð við Aðalstræti 82)

Ég hef ýmis viðmið í skrifunum hér á þessari síðu, en fæst eru þau án undantekninga.P1140484 Eitt er, að ég tek yfirleitt fyrir hús sem ég hef sjálfur myndað og standa enn. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að hafa séð húsin sem ég skrifa- og að þeir sem eigi leið um götur Akureyrar geti séð húsin- og e.t.v. flett þeim upp hér gegn um snjallsíma. Húsið sem ég tek fyrir núna hef ég auðvitað aldrei séð berum augum; það var rifið litlum 36 árum áður en ég fæddist. En sl. sumar skrifaði ég hér um Barð, sögufrægt horfið hús og í kjölfarið gerðist ég áhugasamur að skrifa um síðasta torfbæinn á Akureyri, sem kallaður var Sibbukofi eða Syðstahús. Hann stóð við Aðalstræti 82 en þar stendur nú reisulegt steinhús- sem ég hyggst taka fyrir í næstu færslu.

Upprunasaga torfbæjarins á Aðalstræti 82 (hér eftir Syðstahús, eða Sibbukofi)
er nokkuð óljós- eins og gjarnt er með hús frá miðri 19.öld eða þaðan af fyrr. Í Fasteignamati 1918 er byggingarár hússins sagt vera 1862 – stofnár Akureyrarkaupstaðar- en þegar Bygginganefnd tók til starfa fimm árum áður var bærinn þegar byggður. Þannig að Syðstahús eða elstu hluti hans var byggður fyrir 1857. Bæinn reisti Jón Tómasson, en hann var faðir Sigurbjargar Jónsdóttur eða Sibbu sem bærinn var jafnan kenndur við í seinni tíð. Bærinn var sá syðsti í Fjörunni og var því kallaður Syðstahús. Í Jónsbók er eina færslan um Aðalstræti 82 sú, að 23.júní 1908 fái Sigurbjörg Jónsdóttir leyfi til að reisa bakhús úr steinsteyptan skúr bak við torfbæinn sem þar stendur. Í Fasteignamati 1918 er húsinu lýst sem torfbæ með framþili, 8,3x6,3m að stærð, ein stofa og eldhús, byggt 1862 [sem áður segir hér]. Bakhús úr steini 5x3,5m sagt nýlegt. Þar mun líklega kominn steinsteypti skúrinn frá 1908. Á bls. 51 í bók Steindórs Steindórssonar, Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðus, má finna nokkuð ítarlega lýsingu á Syðstahúsi, skráða af Þóri Sigurðssyni, Gefum honum orðið:

Það [Syðstahús] var torfbær með risi. Gaflar voru úr timbri klæddir tjörupappa. Þakbrúnir á stöfnum voru hvítmálaðar þær skornar þar sem veggir byrjuðu og þar sett lóðrétt hvítmáluð borð til að skera stafnana glöggt frá borði. Veggir og þak var grasi gróið. Í norðurenda var eldhús með glugga á gaflinum sem bar inn daufa birtu (Steindór Steindórsson 1993: 51)

Á ljósmyndum má sjá að á suðurgafli hafa verið tveir sexrúðugluggar og inngangur fyrir miðju og fjórar smárúður yfir inngöngudyrum, sem voru rammaðar inn með timburþili með rislaga toppi. Skorsteinn hússins var fenginn með tunnu sem tyrft var að, en ekki fylgir sögunni hvort þar hafi ævinlega verið um að ræða sömu tunnu þessa tæpu öld sem húsið stóð, eða hvort henni var skipt út eftir þörfum. Húsið var sem áður segir 8,3x6,3m þ.e. um 55 fermetrar að utanmáli, en fram kemur síðar í lýsingunni hér að ofan að eldhúsið hafi verið helmingur jarðhæðarinnar og “einn geymur upp í rjáfur”. Þannig að rishæðin náði aðeins yfir helming hússins, þ.e.a.s. Yfir stofunni, sem þiljuð var í hólf og gólf. Á eldhúsi var hins vegar moldargólf en grjóthellur að hluta- líkt og í forstofu. Alla tíð var Syðstahús í eigu og ábúð sömu fjölskyldu, en Sigurbjörg eða Sibba sem kofinn var löngum kenndur við í daglegu tali ól þarna allan sinn aldur (1862-1944) en maður hennar hét Sigurður Jónsson. Sigurbjörg og Sigurður voru annáluð fyrir gestrisni og greiðvikni en húsið var vinsæll áningarstaður ferðalanga á leið til og frá Akureyri, enda fyrsta húsið sem heilsaði gestum bæjarins sem þangað komu framan úr Eyjafirði eða yfir Vaðlana. Einhverjar skepnur höfðu þau en Syðstahúsið var aldrei neitt stórbýli.

Myndin sem fylgir færslunni er vatnslitamynd á pappír. Henni snaraði ég fram laugardagskvöld nokkurt sumarið 2016 undir ljúfum tónum í boði Guðna Más Henningssonar á Næturvakt Rásar 2. Þar hafði ég til hliðsjónar ljósmynd sem finna má í áðurnefndri bók Steindórs Steindórssonar. Hér er hins vegar hægt að sjá mynd af líkani listakonunnar Elísabetar Geirmundsdóttur af Syðstahúsi og hér er hægt að sjá mynd af áðurnefndum heiðurshjónum Sigurbjörgu og Sigurði framan við húsið. Hvað varð um Syðstahúsið eftir andlát Sigurbjargar fer fáum sögum af. Hún lést 1944, þá orðin ekkja, en Sigurður lést 1936. Líkast til hefur bærinn farið í eyði en hann var rifinn fimm árum síðar eða 1949. Þar með hvarf síðasti torfbærinn sem eftir var á Akureyri. Líkast til hefur ástand hússins ekki verið beysið, það mögulega orðið ónýtt og þótti e.t.v. ekki merkilegt. Enda skal haft í huga, að á þeim tíma var enn búið í torfbæjum víða um sveitir. Það er ég hins vegar nokkuð viss um að ef Syðstahús eða sambærilegur torfbær stæði enn í dag dytti fáum í hug að rífa slíkt hús, heldur væri honum þvert á móti haldið við og hann varðveittur. Það skyldi maður a.m.k. ætla...

P5140010

 Á þessum slóðum stóð Syðstahús eða Sibbukofi, en bakvið grenitrjáastóðið sem var aðalmyndefnið þegar þessi mynd var tekin sér í núverandi hús á Aðalstræti 82, steinhús frá 1951. Það hús tek ég fyrir í næstu færslu. Myndin er tekin á Uppstigningadag 2015, en svo til, að hann bar upp á afmælisdag Sigurbjargar Jónsdóttur í Syðstahúsi, þ.e. 14.maí. Það vissi ég raunar ekki þá. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Fasteignamat á Akureyri 1918. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


Hús við Oddeyrargötu

Á síðasta ári var Oddeyrargatan nokkuð fyrirferðarmikil í umfjölluninni hér. Og til fróðleiks fyrir þá sem ekki gjörþekkja staðhætti á Akureyri má benda á, að gatan er ekki á Oddeyrinni heldur tengir saman Eyrina og Brekkuna, skásker brekkuna ofan við Miðbæinn og nær að barmi Grófargils. Ég tók húsin við hana í nokkuð tilviljunakenndri röð, tvö hafði ég tekið fyrir fyrir nokkrum árum. En hér eru semsagt pistlarnir um húsin við Oddeyrargötu. ATH: Pistlarnir um 1, 3 og 15 eru ekki eins ítarlegir og hinir enda skrifaðir áður en ég uppgötvaði þær helstu heimildir sem ég hef stuðst við sl. misseri. 

Oddeyrargata 1 (1923)

Oddeyrargata 3 (1908)

Oddeyrargata 4 (1916)

 Oddeyrargata 5 (1945)

Oddeyrargata 8 (1919)

Oddeyrargata 10 (1927

Oddeyrargata 11 (1927)

Oddeyrargata 12 (1928)

Oddeyrargata 13 (1929)

Oddeyrargata 14 (1929)

Oddeyrargata 15 (1920)

 Oddeyrargata 16 (1931)

Oddeyrargata 17 (1920)

Oddeyrargata 19 (1929)

Oddeyrargata 22 (1930)

Oddeyrargata 23 (1927)

Oddeyrargata 24 (1932)

Oddeyrargata 26 (1926)

Oddeyrargata 28 (1928)

Oddeyrargata 30 (1930)

Oddeyrargata 32 (1933)

Oddeyrargata 34 (1930)

Oddeyrargata 36 (1930)

Oddeyrargata 38 (1930)

Svona var umhorfs við Oddeyrargötu á Jóladag 2016

PC250013

 

 


Húsaannáll 2016

Að venju birti ég hér yfirlit yfir þær húsagreinar sem ég hef skrifað hér á árinu. Segja má, að liðið ár hafi verið ár Brekkunnar í umfjölluninni hjá mér- en ég hef tekið fyrir hús m.a. við Brekkugötu, Þingvallastræti, Hrafnagilsstræti, Bjarmastíg og Oddeyrargötu en síðasttalda gatan hefur verið áberandi hér sl. vikur og mánuði.

 

Fyrsta húsagrein ársins 2016 birtist þann 4.janúar og var þar um að ræða Brekkugötu 4,  hús sem Kristján "bílakóngur" reisti árið 1932

16.janúar var það Glerárgata 5 (1910)

18.janúar Brekkugata 5b (1904)

22.janúar Brekkugata 7 (1903)

27.janúar Bjarmastígur 1 (1931)

6.feb. Bjarmastígur 3 (1939)

Sunnudaginn 10.janúar hélt ég á gönguför í blíðskaparveðri, -3° og stillu um svæðið sem afmarkast af Bjarmastíg, Oddeyrargötu og Brekkugötu. Í MP3-spilaranum hljómaði  Led Zeppelin platan Physical Graffiti. Á þeirri átta og hálfu mínútu sem  lagið Khasmir hljómaði ljósmyndaði ég öll húsin frá 23-47 (að 31 undanskildu, af því átti ég mynd fyrir) og tók ég þá röð fyrir á útmánuðunum. Mögulega er það einhvers konar met, að ljósmynda öll hús- að einu undanskildu- við Brekkugötuna á "8:30".   

13.feb Brekkugata 23 (1926)

18.feb Brekkugata 25 (1926)

21.feb Brekkugata 27a  (1930)

25.feb Brekkugata 27 (1924)

29.feb Brekkugata 29 (1926)

5.mars Brekkugata 33 (1953)

10.mars Brekkugata 35 (1933)

15.mars Brekkugata 37 (1926)

20.mars Brekkugata 39 (1941)

25.mars Brekkugata 41 (1933)

2.apríl Brekkugata 30 (1922)

7.apríl Brekkugata 32 (1933)

14.apríl Brekkugata 43 (1929)

23.apríl Brekkugata 34 (1944)

27.apríl Brekkugata 45 (1930)

30.apríl Brekkugata 47 (1941)

Næst á dagskrá voru það elstu húsin við Bjarmastíg, þ.e. húsin vestan megin eða oddatöluröðin. 

12.maí Bjarmastígur 7 (1938)

Þann 15.maí vildi svo til, að 100 ár voru liðin frá því að byggingarleyfi fyrir Oddeyrargötu 6 var gefið út. Því þótti mér við hæfi að birta pistil um það hús þann dag.

15.maí Oddeyrargata 6 (1916) 

og áfram með Bjarmastígshúsin...

22.maí Bjarmastígur 9 (1933)

29.maí Bjarmastígur 11 (1933)

Oddeyrargata 4 átti 100 ára "byggingarleyfisafmæli" þann 5.júní. Og að sjálfsögðu varð það sama að ganga yfir það hús og númer 6:

5.júní Oddeyrargata 4 (1916)

Það mun hafa verið þann 30.apríl, að ég fékk símtal frá Víði Gíslasyni, varðandi húsið Barð sem stóð h.u.b. á sama stað og Eyrarlandsvegur 25 er núna. Hann hefur kynnt sér sögu þessa merka húss og lét mér hinar ýmsu heimildir í té varðandi Barð- sem er því miður horfið- og það fyrir hartnær hálfri öld. Hvatti hann mig til að skrifa grein um þetta merka hús sem ég og gerði. Þessi grein var umtalsvert umfangsmeiri en hinar hefðbundnu færslur og var því mánuð í smíðum en birtist hér á vefnum þann 10.júní:

10.júní Barð (áður AUrora, 1899-1969) ; Eyrarlandsvegur 25 (1970)

16.júní Bjarmastígur 13 (1929)

21.júní Bjarmastígur 15 (1930) 

Ég stunda Sundlaug Akureyrar reglulega og viðurkenni það fúslega, að þar ver ég umtalsvert drýgri tíma í heitu pottunum en á sundi. Ég hafði lengi ætlað mér að taka fyrir þá geðþekku húsaröð, sem stendur andspænis sundlaugarsvæðinu og Andapollinum við Þingvallastrætið. Hana ljósmyndaði ég á góðviðris vormorgni, 8.maí. Ég dundaði mér við skrif um þessi hús um vorið og í byrjun sumars en ákvað að birta alla þessa sjö pistla á einum degi. Að öllu jöfnu gildir sú óskoraða regla hér, að aðeins einn pistill birtist á dag. En í tilefni af 7 ára afmæli þessa þáttar ákvað að ég að birta þann daginn 7 pistla !

25. júní Þingvallastræti 4 (1929)

         Þingvallastræti 6 (1929)

         Þingvallastræti 8 (1930)

         Þingvallastræti 10 (1931)

         Þingvallastræti 12 (1931)

         Þingvallastræti 14 (1933)

Á þessu ári gafst ég eiginlega upp á því fyrirkomulagi, að  skrifa greinar í númeraröð. Þótti það að mörgu leyti stýrandi og þvingandi. Síðastliðna hálfa árið hef ég því tekið Oddeyrargötuna og Hrafnagilsstrætið á Brekkunni fyrir í tilviljanakenndri röð. Ásamt fáeinum öðrum húsum. Hús við Hrafnagilsstræti myndaði ég þann 18.maí, þegar ég myndaði Eyrarlandsveg 25 vegna áðurnefndrar Barðsgreinar. Ég átti hins vegar myndir af öllum húsum Oddeyrargötunnar "á lager" frá sl. vetri. Mörg Oddeyrargötuhúsin er nefnilega aðeins hægt að mynda að vetrar- eða vorlagi.

9.júlí Oddeyrargata 34 (1930)

24.júlí Skipagata 18; Bifröst (1935)

5.ágúst Oddeyrargata 17 (1920)

21.ágúst Oddeyrargata 28 (1928)

24.ágúst Oddeyrargata 13 (1929)

9.sept. Oddeyrargata 38 (1930)

17.sept. Oddeyrargata 14 (1929)

23.sept Hrafnagilsstræti 8 (1931)

29.sept. Oddeyrargata 19 (1929)

3.okt. Oddeyrargata 11 (1927)

7.okt. Oddeyrargata 16 (1931)

14.okt. Hrafnagilsstræti 6 (1933)

18.okt. Oddeyrargata 8 (1919)

30.okt. Oddeyrargata 30 (1930)

10.nóv Oddeyrargata 32 (1933)

16.nóv Oddeyrargata 36 (1930)

20.nóv Oddeyrargata 26 (1926)

30.nóv Hrafnagilsstræti 4 (1931)

4.des Hrafnagilsstræti 10 (1932)

9.des Oddeyrargata 23 (1927)

11.des Oddeyrargata 24 (1932)

16.des Oddeyrargata 22 (1930)

22.des Oddeyrargata 12 (1928)

28.des Oddeyrargata 10 (1927)

30.des Oddeyrargata 5 (1945)

Alls skrifaði ég 61 pistla um jafn mörg uppistandandi hús ásamt einu til viðbótar sem horfið er fyrir áratugum síðan. Elsta húsið sem ég tók fyrir á árinu 2016 var 113 ára og það yngsta 46 ára. Meðalaldur "húsa dagsins" á árinu 2016 var 86 ár (nákvæmlega 86,06558 skv. Excel).

Einhverjir kunna að spyrja hvort ég sé ekki að verða búinn með drjúgan hluta Akureyrarhúsa. Því er til að svara að h.u.b. hvert einasta hús sem byggt er fyrir 1900 hefur fengið pláss hér á síðunni. Ég hef síðastliðin misseri lagt áherslu á hús byggð fyrir 1940 eða götur sem byggðust að mestu fyrir þann tíma. Og þar er enn af nægu að taka. Ég kem til með að halda ótrauður áfram með þetta grúsk á nýju ári - þó ég gerist kannski skriflatur af og til og margir dagar eða vikur líði á milli birtingu pistla.   


Nýjárskveðja

Óska öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs 2017 með þökk fyrir það liðna.smile Þakka innlit og viðbrögð hér á síðunni á liðnu ári- og árum. Nýjársmyndin sýnir tvö glitský sem birtust yfir Akureyri í dagrenningu í fyrradag, 30.des 2016.

Arnór Bliki Hallmundsson.

IMG_20161230_101649


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Jan. 2017
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 420129

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 318
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband