Vetur í bæ

Veturinn er genginn í garð á Akureyri, og raunar má segja að það hafi gerst með látum. Norðanáttir, nokkuð stífar, með úrkomu og fjúki réðu ríkjum í gær og fyrradag en nokkuð lægði í dag. Ég brá mér út að viðra myndavélina á öðrum tímanum í dag og hér eru nokkrar svipmyndir. Tekið skal fram, að þær birtast í þeirri röð sem ég tók þær.

 

PB250714

 Horft til norðurs af Hamarkotsklöppum (Mylluklöpp)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250717

 Kirsuberjatréð á Brekkugötu 30 skartaði sínum fegursta vetrarskrúða.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250718

 Éljagangur. Horft til austurs frá Brekkugötu yfir Oddeyrina, Hólabraut í forgrunni, þá Laxagata og hæst ber Ráðhúsið við Geislagötu. Fjær til vinstri er Eiðsvöllur og hús við Norðurgötu.

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250721

 Og í Norðurgötu ber okkur einmitt næst niður, nánar tiltekið á horninu við Gránufélagsgötu og horfum til norðausturs. Þar má sjá hin geðþekku 120 ára gömlu timburhús nr. 2, 4 og 6. 

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250722

 Strandgata. Horft til vesturs í átt að Miðbæ og Brekkugötu. Hús við Norðurgötu yst til hægri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250725

 Við bryggju á Oddeyrartanga lá sjálfur Vilhelm Þorsteinsson EA-11.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250726

 Á Oddeyrartanga, nánar tiltekið á Strandgötu 49 stendur elsta húsið á Oddeyrarsvæðinu, Gránufélagshúsin. Elsti hluti hússins (sem er raunar þrjú sambyggð hús) er byggður 1873. Hann er sá hluti sem næst er á myndinni, en húsið var reist í áföngum til 1885.

 

 

 

 

 

 

 

 

PB250728

 Hér er horft til suðvesturs frá mótum Strandgötu og Hjalteyrargötu. Súlutindur er þarna á bak við éljabakkann sem þarna renndi sér yfir Eyrina og fram í fjörð.  


Hús við Bjarmastíg

Bjarmastíg á Neðri- Brekku hef ég tekið fyrir, hús fyrir hús, og hér eru þeir pistlar aðgengilegir á einum stað. 

 Bjarmastígur 1 (1931)

Bjarmastígur 2 (1946)

Bjarmastígur 3 (1939)

Bjarmastígur 4 (1968)

Bjarmastígur 5 (1956)

Bjarmastígur 6 (1943)

Bjarmastígur 7 (1938)

Bjarmastígur 8 (1952)

Bjarmastígur 9 (1933)

Bjarmastígur 10 (1964)

 Bjarmastígur 11 (1933)

Bjarmastígur 13 (1929)

 Bjarmastígur 15 (1930)

Húsin við Bjarmastíg eru á nokkuð breiðu aldursbili, en svo vill til, að við götuna standa hús frá hverjum einasta áratug frá bilinu 1920-70; þriðja, fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda. Elsta húsið er 88 ára en það yngsta 49 ára og meðalaldur árið 2017 er 74,3 ár 

 


Hús dagsins: Bjarmastígur 10

Syðst á austanverðum Bjarmastígnum, á norðurbakka Skátagils, stendur stórbrotið og glæsilegt hús í módernískum stíl eftir Sigvalda Thordarson. P5250549Húsið byggði Baldur Ingimarsson árið 1964 en átta árum áður hafði hann óskað eftir því, að fá að reisa hús við Bjarmastíg á eignarlóð sinni við Hafnarstræti 107b. En lóð Bjarmastígs 10 liggur að lóðinni við Hafnarstræti 107b en það hús byggði faðir Baldurs, Ingimar Jónsson söðlasmiður árið 1915. Framan af náðu lóðir þessara ystu húsa Hafnarstrætis, 107 og 107b upp að Bjarmastíg austanverðum en gatan byggðist fyrst aðeins vestanmegin. Þannig var lóðin Bjarmastígur 8 á vegum Útvegsbankans, sem var í Hafnarstræti 107. En Bjarmastígur 10 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með flötu pappaklæddu þaki. Gluggar hússins eru af ýmsum stærðum og gerðum en póstar yfirleitt einfaldir. Bílskúr er sambyggður húsinu að norðanverðu og þar er einnig aðal inngangur. Húsið er reisulegt og stórskorið, stórglæsilegt á allan hátt. Litaðir fletir og stórir gluggar setja svip sinn á húsið og mun húsið nokkuð dæmigert fyrir verk Sigvalda Thordarson. Í húsinu er ein íbúð. Lóð hússins er býsna víðlend og að heita má skógi vaxin. Þar er mikið um reynitré, greni og sjálfsagt mörg önnur tré og sum þeirra eru vel á annan tug metra. Lóðin og húsin eru í afbragðs hirðu og til mikillar prýði á þessum stað, fast við Miðbæinn neðst á brúnum Skátagils.

Myndin af Bjarmastíg 10 er tekin á blíðviðriskvöldi 25.maí 2017PB110713 en með færslunni fylgir einnig mynd tekin þ. 11.nóv. sl. sem sýnir afstöðu húsanna sem fram koma í þessari færslu- og færslunni um Bjarmastíg 8. Það er nefnilega svo, að ekki er víst að allir lesendur síðunnar gjörþekki Miðbæ Akureyrar og Neðri Brekku, og átta sig kannski á afstöðu húsa og lóða þarna, þegar rætt er um Hafnarstræti og Bjarmastíg. Þessi mynd ætti að gefa nokkuð góða mynda af því hvernig landið liggur- í bókstaflegri merkingu- í þeim efnum.

 


Hús dagsins: Bjarmastígur 8

 

Bjarmastíg 8 reisti Svavar Guðmundsson bankastjóri árið 1952 eftir teikningum Bárðar Ísleifssonar.P5250547 Í bókunum Byggingarnefndar er lýsingar á húsinu ekki getið, en aðeins vísað í fyrirliggjandi teikningu. Þann 1.nóvember 1948 hafði Útvegsbankinn (Hafnarstræti 107) sótt um að reisa einbýlishús á lóð sinni við Bjarmastíg. Það var samþykkt, enda reiknað með því að skipulagi yrði breytt á þann hátt, að byggt yrði meðfram allri götunni að austan. (Þá voru aðeins risin tvö hús þeim megin, þ.e. Bjarmastígur 2 og 6). Ekki er ósennilegt að hér sé um að ræða umrætt hús, en Útvegsbankinn var til húsa í Hafnarstræti 107, sem liggur einmitt næst austan og neðan þessarar lóðar. Alltént var það bankastjóri Útvegsbankans sem reisti þetta hús. En Bjarmastígur 8 er einlyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og stendur það á háum kjallara. Inngöngudyr og steypt verönd á framhlið og steyptar tröppur að honum. Í flestum gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar en á suðurhlið og við inngang eru stórir og voldugir gluggar með margskiptum póstum; níu smárúðum (tólf í glugga við inngöngudyr). Neðan þessara glugga eru inndregnar “svuntur” sem gefa húsinu óneitanlegan sérstakan svip. Svavar bankastjóri hefur líkast til ekki búið hér í mörg ár, en hann flutti nokkrum árum síðar til Hamborgar í Þýskalandi. Hann var búsettur þar þegar hann lést, árið 1960.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, en þess má þó geta, að hér var starfrækt bílaleiga, Prinz-leigan á sjöunda áratugnum. Héðan hafa því líkast til verið leigðir út NSU-Prinz smábílar, en þeir voru framleiddir í Vestur Þýskalandi um nokkurra ára skeið um 1960. Mögulega hefur bílskúr, sem stendur norðan við húsið, nýst eitthvað við bílaleiguna en fyrir honum fékk Svavar Guðmundsson byggingarleyfi haustið 1953. P5250548Húsið er í góðu standi og lítur vel út, traustlegt og reisulegt að sjá. Stórbrotnir gluggar gefa húsum ævinlega sérstakan og einkennandi svip og svo er vitaskuld tilfellið með margskiptu gluggana á Bjarmastíg. Lóð hússins er stór og vel gróin, þar má finna hálfgerðan skóg af grenitrjám neðst og austast. Sunnan við húsið, nær götu eru tvö mikil lerkitré. Annað þeirra, eða það syðra, er sérlega skemmtilega vaxið en stofn þess greinist mjög reglulega í þrennt svo minnir á kampavínsglas eða eitthvað þess háttar. (Sjá mynd) Lerkitré þessi eru á að giska 15 metrar á hæð, a.m.k. Myndirnar eru teknar að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1104, 1.nóv. 1948, fundur nr.1141, 17.ágúst 1951, fundur nr. 1179, 9.okt. 1953. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Bjarmastígur 6

P5250544 

Austan Bjarmastígs standa fimm hús, 2-10. Elst þeirra er nr. 6 en það reisti Pálmi Halldórsson húsasmiður árið 1942 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Pálmi fékk leyfi til að reisa hús á lóð sinni, ein hæð á háum kjallara úr steinsteypu, 12x9 m að utanmáli. Bjarmastígur 6 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með einhalla aflíðandi þaki. Líkt og öll húsin við austanverðan Bjarmastíg stendur húsið á mishæðóttri lóð þ.a. austanmegin virðist húsið tvílyft. Einfaldir póstar eru í gluggum, ýmist láréttir (t.d. á norðurhlið) eða lóðréttir og bárujárn er á þaki. Götumegin er hár þakkantur. Á framhlið eru svalir til suðvesturs en inngangur á norðvesturhorni. Þar er forstofubygging sem væntanlega er viðbót við upprunalega forstofubyggingu. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu, en hér má finna raflagnateikningar Eyjólfs Þórarinssonar. Pálmi Halldórsson hafði um fimmtán árum áður reist hús skammt frá þessum stað, þ.e. Oddeyrargötu 14. Árið 1974 var húsinu breytt eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar, en upprunalega var þak hússins flatt. Að öðru leyti er húsið lítið breytt frá upprunalegri gerð.P5250545 Húsið er í góðu standi og lítur vel út. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki og lóð er vel gróin. Þar er m.a. að finna gróskumikil reynitré, en þau voru í miklum blóma þegar ég átti þarna leið með myndavélina þann 25.maí 2017.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.902 13.mars 1942. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Bjarmastígur 5

 

Bjarmastíg 5 reistu þeir Hólmsteinn Egilsson og Egill Tómasson árið 1956. Þeir fengu vorið 1955 leyfi til að reisa hús á Bjarmastíg nr. 5 skv. “meðfylgjandi teikningu” PB110717en hana gerðu þeir Gísli Halldórsson og Ólafur Júlíusson. Hólmsteinn og Egill sóttu einnig um að fá spildu norðan við lóðina sem þeir og fengu, en lóðin liggur að Oddeyrargötu 13 norðanmegin. En Bjarmastígur 5 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki og stendur það á háum kjallara. Húsið stendur í brekku, líkt og öll húsin á Bjarmastíg og eru steyptar tröppur frá götu upp að húsi, bæði að norðurhlið og framhlið, sem snýr mót austri, og þar eru aðaldyr. Ofan þeirra eru svalir. Innbyggður bílskúr er í kjallara hússins. Á þaki er bárujárn en einfaldir póstar í gluggum. Frá upphafi voru tvær íbúðir í húsinu og líkast til hafa þeir Hólmsteinn og Egill búið hvor á sinni hæð ásamt fjölskyldum. Húsið mun alla tíð hafa verið íbúðarhús en árið 1989 var ætlunin að opna þarna Farfuglaheimili, er Bandalag Íslenskra Farfugla festi kaup á húsinu. Því var hinsvegar harðlega mótmælt af nágrönnum, svo ekkert varð úr þeim áformum. Bjarmastígur 5 er þó nokkuð yngra (15-25 árum) en næstu hús við vestanverðan Bjarmastíg. Svo vill til, að við götuna standa hús frá fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda áratug 20.aldar og er húsið annað tveggja Bjarmastígshúsa frá 6.áratugnum. Húsið er traustlegt og reisulegt og í mjög góðu standi og mun nánast óbreytt frá upprunalegri gerð. Grjóthleðslumunstur á lóðarkanti og á hluta kjallara gefur hús og lóð sjarmerandi svip. PB110715Á lóðinni standa einnig þrjú há og gróskumikil grenitré sem vissulega setja líka svip á umhverfi sitt. Hæsta tréð er fremst á lóð, og mundi sá sem þetta ritar áætla, að það tré sé nær 20m en 15 á hæð. Myndirnar eru teknar þann 11.nóv. 2017.

 

Heimildir Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1218, 27.maí 1955. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Bjarmastígur 4

Yngsta húsið við Bjarmastíg er númer 4 en húsið er, þegar þetta er ritað, tæplega hálfrar aldar gamalt. Húsið byggði Hreiðar Valtýsson árið 1968 eftir teikningum Konráðs Árnasonar.P5250543 Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu- en hér má sjá raflagnateikningar Ingva R. Jóhannssonar af húsinu, frá 1966. Húsið er tvílyft steinsteypuhús á kjallara en neðri hæð er niðurgrafin að hluta þar eð lóðin er mishæðótt. Bjarmastígur 4 er í módernískum stíl, steinsteypuhús með flötu þaki með þakpappa og gluggar víðir og stórir, ýmist heilrúðu eða með einföldum póstum. Á suðvesturhorni eru inngöngudyr og þar er steypt verönd, römmuð inn af steyptum lóðarkanti og þakkanti á súlum. Húsið er byggt sem einbýli, en þar hafa um árabil verið tvær íbúðir. Árið 2014 var húsinu formlega breytt skv. þessum teikningum teikni- og verkfræðistofunnar Opus og er nú tvíbýli, hvor íbúð á sinni hæð. Bjarmastígur 4 er snyrtilegt og vel hirt hús og hefur skv. Húsakönnun 2014 gildi fyrir götumynd Bjarmastígs, en varðveislugildi er ekki talið verulegt umfram nærliggjandi hús. Myndin er tekin þann 25.maí 2017.

Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Nóv. 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 92
  • Sl. viku: 756
  • Frá upphafi: 417038

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband