Hús dagsins: Munkaþverárstræti 14

 

Í síðari Heimstyrjöld, samþykkti Bandaríkjaþing frumvarp um stofnun sérstakrar kvennadeildar innan hersins; Woman´s Auxilary Army Corps eða WAAC. P5250539Hlutverk kvennanna fólst m.a. í umsjón með fjarskiptatækjum, eldamennska o.s.frv. en ekki bein þátttaka í átökum. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarp um stofnun þessarar herdeildar þann 15.maí 1942 en sama dag fékk Tryggvi Jónatansson leigða lóðina Munkaþverárstræti 14. Tíu dögum síðar fékk Tryggvi leyfi til að reisa hús á lóðinni, 8x8,3m, eina hæð á háum kjallara. Loft og þak skyldi úr steinsteypu en veggir efri hæðar úr r-steini.

Húsið reistu þeir Tryggvi og Jón Guðlaugsson í sameiningu en sumarið 1943 fóru þeir fram á það að lóðin færðist alfarið á nafn hins síðarnefnda. Segir í bókunum Bygginganefndar, að þeir hafi reist húsið í sameiningu en Jón hafi nú “yfirtekið” allt húsið. Hins vegar er það svo, að á raflagnateikningum Eyjólfs Þórarinssonar frá 23.júlí 1942 hefur verið strikað yfir nafn Jóns, og talað um hús Tryggva Jónatanssonar.

Munkaþverárstræti er einlyft steinhús á háum kjallara og með einhalla, aflíðandi þaki. Það er í funkisstíl, með horngluggum og upprunalega með flötu þaki. Perluákast ( stundum kallað “skeljasandur” ) er á veggjum bárujárn á þaki og í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með skiptum fögum. Inngangar eru m.a. á norðurhlið og yfir tröppum er dyraskýli.

Árið 1974 var þaki hússins breytt úr flötu í einhalla, eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar. Svo skemmtilega vill til, að þeir eru dagsettir 23.júlí 1974 þ.e. réttum 32 árum síðar en áðurnefndar raflagnateikningar. Fékk húsið þá það lag og svipmót sem það nú hefur, en nýja þakinu fylgdi hár og verklegur kantur götumegin.

Sé heimilisfanginu Munkaþverárstræti 14 flett upp á gagnagrunninum timarit.is er elsta heimildin sem þar finnst frá árinu 1957, nánar tiltekið þann 1.febrúar. En þá er þeim félögum í Verkakvennafélaginu Einingu, sem ekki hafa greitt árgjald fyrir árið 1956 bent á að greiða það á skrifstofu félagsins, eða hafa samband við Vilborgu Guðjónsdóttur í Munkaþverárstræti 14. Hún var hér búsett um áratugaskeið, en var mikilvirk í starfi Einingar, sem síðar sameinaðist árið 1963 Verkalýðsfélagi Akureyrar og enn síðar runnu þessi félög saman við félag verksmiðjufólks undir nafninu Eining- Iðja.

Munkaþverárstræti 14 virðist traustlegt og reisulegt hús og er í mjög góðri hirðu. Sama má segja um lóðina, sem er vel gróin og hirt, eins og flestallar lóðirnar í þessu geðþekka hverfi sem neðri hluti Norðurbrekkunnar er. Húsakönnun 2015 setur húsið í varðveisluflokk 1, sem er miðlungs varðveislugildi. Myndin er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 910, 15.maí 1942, nr.911, 25.maí 1942 og nr. 947, 25.júní 1943.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 12

 

Vorið 1935 fengu þeir Gunnlaugur Markússon og Adolf Davíðsson lóð við Munkaþverárstræti, næst norðan við hús Baldvins Pálmasonar. P5250537Þeir fengu að reisa þar íbúðarhús, 10x8m úr r-steini og steinsteypu, eina hæð á kjallara. Trúlega hefur húsið, sem Tryggvi Jónatansson teiknaði, verið með flötu eða einhalla aflíðandi þaki í upphafi, ekki ósvipað húsum Björn Sigmundssonar og Jóns Þorlákssonar, sunnar við Munkaþverárstrætið (4 og 6). En núverandi lag fékk húsið 1958 er ný þakhæð var byggð á það eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Upprunalegar teikningar eru ekki tiltækar á Landupplýsingakerfinu, en trúlega hafa tvær íbúðir verið í húsinu í upphafi, ein á hæð og önnur í kjallara- en kjallarinn er raunar líkt og jarðhæð austanmegin þar eð húsið stendur í halla frá götubrún.

En Munkaþverárstræti 12 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með einhvers konar mansard- valmaþaki. Kvistir eru á þaki til allra átt nema á norðurhlið, en þar er þakgluggi. Þakklæðning er n.k. “gisið” bárustál (mögulega heitir þessi klæðning einhverju nafni sem mér ekki kunnugt um, í Húsakönnun 2015 er þessi klæðning kölluð gróf málmklæðning) Einfaldir póstar ýmist með þver- eða lóðréttum póstum með opnanlegum fögum. Inngöngudyr eru á hæð og kjallara á norðurhlið steyptar tröppur að þeim og dyraskýli yfir tröppum að hæð.

Margir hafa búið í húsinu þessi 82 ár sem það hefur staðið, og um miðjan sjötta áratuginn hefur húsið verið stækkað upp á við, svo sem segir frá hér að ofan. Þar var skv. Teikningum gert ráð fyrir íbúð, líklega með sams konar herbergjaskipan og á hæð. Þessi þakgerð er nokkuð sérstæð en nokkur dæmi eru um svona viðbætur á hús hér í bæ; þ.e. mansard valmaþaki. Mansardþök eru að því leytinu til sniðug, að undir þeim nýtist gólfflötur mikið betur heldur en undir hefðbundnum ris – og valmaþökum – en þó er frekar um að ræða þakhæð en fulla hæð. En hvernig mansardþök reynast við hinar víðfrægu séríslensku aðstæður þekki ég ekki, hvort að þau séu lekagjarnari en aðrar. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út. Þakhæðin er stórbrotin og gefur húsinu sitt sérstæða svipmót sem fer ágætlega í fjölbreyttri og skemmtilegri götumynd Munkaþverárstrætis. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndina tók síðla kvölds á Uppstigningadag sl., 25.maí en þá ljósmyndaði ég m.a. Munkaþverárstrætið sunnan Krabbastígs.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 742, 4.maí 1935, nr.744, 24.maí 1935.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 10

Í ársbyrjun 1931 fékk Baldvin Pálmason leigða lóð austan Munkaþverárstræti. P5250532Hann fékk um vorið leyfi til að reisa íbúðarhús úr steinsteypu á leigulóð sinni, að stærð 8,20x7,50, einlyft með háu risi og einnig fékk hann leyfi Bygginganefndar til þess að standa sjálfur fyrir verkinu. Bygginganefnd setti þau skilyrði að “kjallari komi ekki meira en 50cm yfir götuflöt og port, 80 cm hátt verði sett á húsið”. Hann fékk nokkrum mánuðum síðar, líklega þegar bygging hússins var hafin, að setja kvist á húsið. Baldvin teiknaði einnig húsið, sem var fullbyggt 1932. Upprunalegar teikningar að húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu en þar má hins vegar finna raflagnateikningar, dagsettar 29.apríl 1932 og undirritaðar af Samúel Kristbjörnssyni. En Munkaþverárstræti 10 er einlyft steinsteypuhús; steinsteypuklassík með stórum hornkvisti við suðurstafn og smærri kvisti norðan við hann. Á bakhlið þ.e. austurhlið er kvistur á miðri þekju. Er hann með einhalla aflíðandi þaki. Á norðurstafni er forstofubygging og svalir ofan á henni. Á veggjum er svokallaður spænskur múr en bárujárn á þaki en margskiptir póstar í gluggum; líklega upprunalegir.

Baldvin Pálmason, sem var frá Samkomugerði í Eyjafirði bjó í húsinu um áratugaskeið, en fluttist síðar í Álfabyggð 1, sunnar og ofar á Brekkunni. Hann lést i febrúar 1998 á 98.aldursári. Húsið hefur lengst af verið einbýlishús. Því hefur lítið sem ekkert verið breytt frá upphafi en er engu í síður í góðu standi. Í Húsakönnun 2015 fær það “plús” fyrir upprunaleika og er þar sagt “fallegt klassískt hús sem sómir sér vel í götumyndinni”. (AK.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 162). Sá sem þetta ritar tekur svo sannarlega undir það. Kvistirnir og margskiptir gluggar hússins gefa því einnig einstakan og sérstæðan svip. Lóðin er einnig vel hirt og gróin. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin að kvöldi 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 657, 12.jan 1931, nr. 660, 13.apríl 1931, nr.668 6.ágúst 1931 .

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Endurbygging Gamla Apóteksins 2014 -17

Síðastliðin þrjú ár hefur Aðalstræti 4, Gamla Apótekið, gengið í gegn um gagngerar endurbætur. Húsið, sem byggt er 1859, stendur á áberandi og fjölförnum stað í Innbænum, gegnt ísbúðinni Brynju. Þá blasir húsið við öllum þeim sem koma inn í bæinn að austan um Leiruveginn. Húsið var á sínum tíma eitt það stærsta og glæsilegasta á Akureyri og stóð auk þess hærra en húsin í nágrenninu. Var það allt hið glæsilegasta á 19.öld og fyrri hluta þeirrar 20. En í upphafi 21.aldar var húsið var orðið nokkuð illa farið; það var forskalað og "augnstungið" um miðja 20.öld og farið að láta verulega á sjá. Það hafði þó verið málað að utan um aldamótin, hvítt og þakið blátt (Lengi vel var húsið brúnleitt með rauðu þaki). En haustið 2014 hófust á húsinu gagngerar endurbætur. Þær voru vægast sagt flóknar og vandasamar, m.a. þurfti að steypa nýjan grunn. Var húsið þá híft með stóreflis krana og flutt á lóð Iðnaðarsafnsins þar sem það stóð frá 25.júní til 13.október 2015. Nú má heita að frágangi á ytra byrði hússins sé lokið og segja má að þetta 158 ára hús sé orðin bæjarprýði hin mesta. Ég fylgdist að sjálfsögðu með endurbótunum og myndaði með reglulegu millibili:

P6190015

                                                           19.júní 2014.

 PA050015

                           5.október 2014. Verið að undirbúa jarðveginn; í orðsins fyllstu merkingu.

P3290018

                      29.mars 2015. Búið að rífa burt "forskalninguna" og í ljós kemur gömul borðaklæðning. Hún fékk hins vegar einnig að fjúka- sem og útveggirnir eins og þeir lögðu sig.

P5140024

                                               Á Uppstigningardag, 14.maí 2015.

P6250013

                                 25.júní 2015. Apótekið híft með krana á "trailer". Þeirri framkvæmd lýsti ég í máli og myndum á sínum tíma.

P7070001

                           7.júlí 2015. Apótekið gamla fékk að lúra undir asparlundi á plani við Iðnaðarsafnið, skammt sunnan Skautahallar tæpa fjóra mánuði. Á meðan var nýr grunnur steyptur á hólnum í kjafti Búðargils, þar sem húsið hafði staðið sl. 156 ár. 

PA180254

                                            18.október 2015. Apótekið komið á nýjan grunn.

PC190312

                                                       19.desember 2015.

P8010414

                                1.ágúst 2016. "Allt að gerast".

P9210461

                                          21.september 2016. Nýtt þak í burðarliðnum og húsið farið að taka á sig mynd.

PC110477

 

                                              11.desember 2016. Nýtt þak komið og gluggar.

P1220493

                                                        22.janúar 2017.

 P2060500

                                              6.febrúar 2017; vinnupallar horfnir að mestu.

P5040528

                                                 5.apríl 2017. Pallur risinn. Nú er þetta allt að koma!

P8070678

Og svona lítur Gamla Apótekið, Aðalstræti 4, út þegar þetta er ritað þann 7.ágúst 2017. Það er mat þess sem þetta ritar, að endurbygging hússins hafi heppnast með eindæmum vel og mikil prýði af húsinu. Það hefur svo sannarlega endurheimt sinn fyrri glæsileika, en hér má sjá mynd af húsinu, frá síðari hluta 19.aldar

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Ágúst 2017
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 420122

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 311
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband