Hús dagsins: Aðalstræti 54b

 

PA050022

Kannski er Nonnahús frægasta húsið á Akureyri. Það þekkja ekki einungis  Akureyringar og flestir aðrir landsmenn heldur fjölmargt fólk víða um heim. Þangað kemur fjöldi ferðamanna víðsvegar að úr heiminum í hálfgerðar pílagrímsferðir til að berja augum þetta æskuheimili rithöfundarins valinkunna. En Jón Sveinsson, Nonni, rithöfundur bjó lengst af og starfaði í Þýskalandi og átti þar fjölmarga aðdáendur og bækur hans hafa verið þýddar á fjöldann allan af tungumálum og víða notið vinsælda. En þetta heimsfræga hús er hvorki háreist né áberandi og stendur á baklóð en við götuna, framan við Nonnahús stendur  einmitt húsið hér á myndinni, Aðalstræti 54b.

Aðalstræti 54n er byggt í áföngum eins og glögglega má sjá. 

PA050020

En húsið reisti Davíð Sigurðsson árið 1896 og 1905. Eldra húsið, það er það syðra er einlyft timburhús með háu portbyggðu risi og á steyptum kjallara með miðjukvisti og öðrum sambyggðum gaflkvisti. Forstofubygging með skrautrúðum er á suðurgafli hússins en einlyftur inngönguskúr stendur við bakhlið. Yngra húsið er einnig úr timburhús, tvílyft á kjallara og með lágu risi með inngönguskúr á norðurhlið. Norðurhlutinn snýr A-V en suðurhluti N-S. Krosspóstar eru í gluggum og er húsið allt klætt steinblikki. Upprunalega reisti Davíð þarna íbúðarhús en þá (1896) var hann búsettur í Nonnahúsi. Árið 1905 byggir hann við húsið tvílyfta byggingu sem var verslun og smíðahús. Líklegt þykir mér að hann hafi verslað á hæðinni, smíðað í kjallaranum og haft skrifstofur og geymslur eða íveruherbergi fyrir starfsmenn sína á þeirri efri. (Fylgir ekki sögunni- aðeins getgátur undirritaðs.)   Árið 1929 er norðurhlutinn innréttaður sem íbúð og skiptist þá í tvo eignarhluta. Eigendur þá eru nafnarnir Jakob Magnússon sem átti neðri hæð og Jakob Lilliendal sem átti þá efri. Ein íbúð var í suðurhluta en þann hluta hússins eignuðust Zontakonur fyrir hálfri öld, 1965, og hafa þar haft félagsheimili sitt síðan. Ein íbúð er nú í norðurhluta og hefur verið svo um árabil. Húsið er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt í útliti enda er hér um að ræða tvö sambyggð hús sem hvort um sig hefur sín sérkenni. Það að hafa húshlutana í mismunandi litum skerpir síðan enn á mismunandi gerð húsanna. Húsið og lóðin umhverfis eru til mikillar prýði í umhverfinu. Myndirnar hér eru teknar í haustblíðunni um seinnipartinn sunnudaginn 5.október 2014.

Heimildir:  Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin 


Bloggfærslur 21. október 2014

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 420131

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 320
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband