Hús dagsins: Ægisgata 1

Húsin við Ægisgötuna neðanverða eru öll með svipuðu lagi, enda hönnuð á svipuðum tíma af sama manni. P2080018Við sum þeirra hefur verið, eins og gengur og gerist, byggt við og önnur eru nánast óbreytt frá upphafi. En Ægisgötu númer eitt reisti Magnús Sigurjónsson bólstrari árið 1939. Hann fékk haustið 1938 leyfi til að reisa hús 11x9,5 m að stærð, en það er eilítið stærra en flest húsin við götuna þá. Húsið er, eins og öll húsin við Ægisgötuna neðanverða reist eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar. Það er einlyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og horngluggum til suðurs, inngang á miðri götuhlið (austur) og þvottahúsinngang að norðanverðu. Gluggapóstar hússins eru einfaldir, lóðréttir og voru þeir settir í um 1986. Húsið er nokkuð stærra en flest húsin við neðri hluta götunnar,yfir 100 fermetrar, en stór stofuálma er á bakhlið norðvestanmegin. Hana byggði Magnús árið 1953 og stækkaði húsið þá úr 95 í 125 fermetra.  Lóðin er nokkuð stór og nýtur þess að Ægisgatan og Ránargatan eru ekki alveg samsíða á þessum parti. Sem áður segir er húsið einbýli og hefur verið svo frá upphafi. Þess má líka geta, að húsið hefur alla tíð haldist innan sömu fjölskyldu, núverandi íbúar eru Lilja Magnúsdóttir sem fædd er í húsinu og maður hennar Birgir Sveinarsson, en hann  veitti mér góðfúslega ýmsar upplýsingar m.a. um viðbyggingu hússins. Þessi mynd er tekin þ. 8.feb. 2015.

Heimildir: Birgir Sveinarsson, munnleg heimild (netspjall)

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-40, fundur nr. 823, 19.sept. 1938. Fundargerðarbækur Byggingarnefndar eru óútgefnar varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


Næst á dagskrá: Ægisgatan sunnanverð

Ég held áfram skipulagðri umfjöllun minni um þvergötur Oddeyrar með Eyrarveginn sem "markalínu". Næst neðan við Ránargötu liggur Ægisgatan til norðurs, á milli húsa nr. 7 og 9 við Eiðsvallagötu. Við Ægisgötuna er heilsteypt götumynd einlyftra funkishúsa eftir Tryggva Jónatansson, byggð á síðari hluta 4.áratugarins. Á þessum árum var mikill húsnæðisskortur í bænum og kreppa ríkjandi en fyrir Tryggva vakti að hanna lítil hús fyrir efnaminna fólk sem þarna fékk tækifæri til að búa í einbýlishúsum. Í grúski mínu um Oddeyrina hefur Húsakönnun Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs verið hálfgerð "biblía" en þar er markalína skipulagðrar umfjöllunar Eiðsvallagatan; þ.e. í grófum dráttum miðað við eldri byggð en 1930. Þar er hins vegar fjallað eilítið um hús Tryggva Jónatanssonar og sagt að þau séu flest hlaðin úr r-steini, einangruð með mómylsnu með valmaþaki úr timbri, járnvarið, húsin búin raflýsingu, venjulegri miðstöð, eldavél og þvottapotti og frágangur eins og best verður á kosið. Húsin þóttu hinsvegar ekki merkileg og jafnvel lágkúruleg og kölluð "hundakofar" (Guðný Gerður og Hjörleifur 1995: 108). Það er hins vegar ljóst að þessi hús stóðu fyllilega fyrir sínu og voru ekki síðri en hýbýli manna á þessum tíma. Og enn standa þessi ágætu hús Tryggva Jónatanssonar fyrir sínu, flest þeirra óbreytt frá fyrstu gerð. 

Heimildir:  

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri gaf út. (Öndvegisrit þetta er einnig aðgengilegt á pdf-formi, sjá slóð í færslu)

 


Bloggfærslur 4. apríl 2015

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 741
  • Frá upphafi: 419877

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 586
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband