Hús dagsins: Aðalstræti 66

Ég minntist lítillega á þetta hús í færslu sem helguð var Aðalstræti 66a en ég tel Aðalstræti 66 verðskulda meiri umfjöllun hér en örfáar línur. En húsið er 172 ára gamalt eitt af elstu húsum á Akureyri, í fljótu bragði man ég aðeins eftir Lækjargötu 2a; Frökenarhúsi, Aðalstræti 52, Gamla Spítalanum og Laxdalshúsi sem eru eldri.P5140013

En Aðalstræti 66 reisti Grímur Laxdal bókbindari og veitingamaður árið 1843. Lengi vel var talið að Bertel Holm Borgen hafi reist húsið en það mun hafa verið misskilningur og segir Steindór Steindórsson (1993: 47) sýsluskjöl sanna að Grímur byggði húsið. Í upphafi var húsið einlyft með háu risi, líkt og tíðkaðist í húsbyggingum þess tíma en kvisturinn kom ekki á húsið fyrr en um 40 árum seinna. Grímur og kona hans Hlaðgerður Þórðardóttir ráku í húsinu veitingastað sem mun einn sá fyrsti á Akureyri. Auk þess var í húsinu eins konar sjúkra-gistiheimili en í skjóli þeirra Gríms og Hlaðgerðar gat fólk dvalist meðan beðið var eftir afgreiðslu héraðslæknis. Auk þessa bjó öll fjölskyldan í húsinu, sem var líklega nærri 6x8m að grunnfleti. Næsti eigandi hússins var Indriði Þorsteinsson gullsmiður en hann keypti húsið 1851 og átti það í tvo áratugi, uns Akureyrarbær keypti húsið undir skólahald árið 1872. Skóli var þá á neðri hæð en loftið til afnota fyrir þurfamenn. Ég gæti vel ímyndað mér að það sambúð skólabarna og þurfamanna hafi verið skrautleg og sérstök en ekki man ég neinar sögur þess efnis. Eitt árið eru íbúar loftsins skráðir m.a.Indriði tindur, Fjöru-Páll, Jón Háleggur, Björn Vosi, Jón askur og Jón mæða. Árið 1880 kaupir Sigurður Sigurðsson járnsmiður húsið af bænum en sú kvöð fylgdi, að a.m.k. helmingur loftsins skyldi enn leigt til þurfandi fólks. Sigurður stækkaði húsið, byggði  útstæðan kvist á framhlið sem einnig er forstofubygging og einnig litla einlyfta byggingu bakatil. Fékk húsið þá það lag sem það hefur nú. Sigurður bjó í húsinu til dánardægurs, 1927 eða í nær hálfa öld. Síðan hafa margir átt eða búið í húsinu. Ekki virðist hafa verið nein viðamikil starfsemi í húsinu á 20.öldinni, alltént birtast ekki margar auglýsingar um iðnað eða þjónustu ef heimilisfanginu Aðalstræti 66 er slegið upp í timarit.is. Hér má að vísu sjá auglýsingu frá 1932 frá Mörthu Jóhannsdóttur sem tók að sér að stoppa í sokka og nærföt. Einhvern tíma var húsið klætt asbesti og þverpóstar settir í glugga.  Á síðustu árum hefur húsið fengið mikla yfirhalningu og er á því ný timburklæðning og nýtt þakjárn og nýlegir sexrúðugluggar.  Hér er fjallað um fyrirhugaðar endurbætur hússins í Degi í ársbyrjun 1994. Húsið var friðað skv. Þjóðminjalögum árið 1990. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin á Uppstigningardag, 14.maí 2015.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Aðgengilegt á vefnum á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Innbaer/Innbaer_husakonnun.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri: höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


Bloggfærslur 18. maí 2015

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081
  • IMG_1520
  • IMG 1494

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 464
  • Frá upphafi: 419245

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 351
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband