Hús dagsins: Skipagata 18; Bifröst

Ein “frægustu” gatnamót Akureyrar er líkast til Kaupfélagshornið svokallaða, 

P5180339 - Copyþað er mót Hafnarstrætis og Kaupangsstrætis. Þar standa hið valinkunna Hotel KEA, Bautinn, Kaupfélagshúsið (raunar er áratugur síðan KEA yfirgaf þau húsakynni) og Hamborg. Þarna "hefst" (eða "endar") Listagilið og hver sá sem gengur niður kirkjutröppurnar mörgu og margfrægu kemur niður á þessu ágæta götuhorni. En litlu neðar er annað horn og þar mætast Skipagata og Kaupangsstræti. Fyrrnefnda gatan liggur N-S frá Ráðhústorgi að Kaupangsstræti. Þar stendur nokkuð voldug sambygging steinsteypuhúsa, sem fljótt á litið mætti ætla að væri sama húsið. Það er þó öðru nær. Hér er um þrjú sjálfstæð hús að ræða, hvert með sitt númer. Syðstu húsin eru tvílyft, annað með flötu þaki en hitt með lágu risi en nyrst stendur fjögurra hæða stórhýsi með háum turni. Meðalaldur þessara þriggja húsa er rúm 60 ár en húsin eru byggð 1935, 1939 og 1993. Hér er um að ræða Kaupangsstræti 4, Skipagötu 18 og Skipagötu 16, talið frá suðri til norðurs. Ég hélt ævinlega, að Kaupangsstræti 4 sem er syðst og stendur á horni götunnar og Skipagötu hefði risið fyrst og Skipagata 18 hefði komið síðar. En elsta hús þessarar sambyggingar er miðhúsið, Skipagata 18 og um það hús verður fjallað hér.

 

Árið 1934 fengu þeir Helgi Tryggvason og Jóhannes Jónasson leigða lóð hjá Hafnanefnd, vestan Skipagötu, norðan lóðar Tómasar Björnssonar og vestur að lóðamörkum Parísar [Hafnarstræti 96]. P5180338Lóðin var leigð með þeim skilyrðum að þar yrði leigt varanlegt steinhús innan árs frá veitingu þessa leyfis. Innan við hálfu ári síðar, í mars 1935 fá þeir Jóhannes og Helgi leyfi til að byggja á leigulóð sinni við Skipagötu hús skv. Uppdrætti og húsið ætlað til að reka þar bifreiðastöð. Húsið yrði 11x13m að stærð úr járnbentri steinsteypu, 2 hæðir með flötu þaki. Í bókun bygginganefndar er einnig tekið fram að fullkomin járnateikning þurfi að liggja fyrir.

Skipagata 18 er tvílyft steinsteypuhús með lágu, aflíðandi risi. Gluggar eru stórir og víðir, með einföldum skiptum langpóstum að framan og krosspóstum á bakhlið, en stórir “verslunargluggar” eru á neðri hæð. Bárujárn er á þaki hússins. Húsið er sem áður segir, staðsett miðlægt í sambyggingu þriggja ólíkra húsa.

Frá upphafi var rekin þarna bifreiðastöð, hér má t.d. sjá auglýsingu frá 1943 þar sem ódýrustu flutningarnir með vörubílum eru sagðir með bifreiðum frá Bifröst, og sjö árum síðar er sama auglýsing enn í gildi; nema hvað þar hefur einn ás bæst framan við símanúmerið 244, orðið 1244.

Líkt og gengur og gerist með verslunar- og fyrirtækjahúsnæði með rúma átta áratugi að baki, hefur ýmis starfsemi verið í húsinu. Þegar heimilisfanginu er slegið upp á gagnagrunninum timarit.is koma hvorki meira né minna en 572 niðurstöður. Bifröst var starfrækt þarna í rúman aldarfjórðung, en yngsta heimild sem ég fann á timarit.is um Bifröst á Skipagötu 18 er frá 100 ára afmælisdegi Akureyrarbæjar, 29.ágúst 1962. Þar eru taldar upp bifreiðastöðvar bæjarins og þar er m.a. Bifrastar við Skipagötu 18 getið. Þarna var einnig rekin útvarpsviðgerðarstofa, og læknisstofu starfrækti Halldór Halldórsson læknir í húsinu frá 1964 og sjö árum síðar tók Eiríkur Stefánsson við með sína stofu. Þá voru lengi vel í húsinu verkfræðistofur og teiknistofur, Akureyrardeild Rauða Krossins var þarna um tíma, ferðaskrifstofa (Samvinnuferðir/Landssýn), Samvinnutryggingar og stjórnmálahreyfingar hafa einnig átt hér inni. Þá má einnig geta þess, að fráfarandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson var hér með kosningaskrifstofu fyrir forsetakosningarnar 1996, þegar hann var sem kunnugt er, kjörinn í fyrsta skipti. Síðastliðna áratugi var hannyrðaverslunin Vogue þarna til húsa á neðri hæð, en hún flutti úr plássinu fyrir fáeinum árum. Nú er Blómabúð Akureyrar rekin í verslunarplássinu á götuhæð en á efri hæð skrifstofur Hótel KEA. Ekki veit ég til þess, að nokkurn tíma hafi verið búið í Skipagötu 18 en ekki ætla ég að fullyrða að svo hafi aldrei verið.

Húsið hefur tekið einhverjum breytingum frá upphafi, en í stórum dráttum svipað og í upphafi að ytra byrði. (Þá tel ég það ekki til breytinga á húsinu, að tvisvar hefur verið byggt beggja vegna þess, fast við húsið, þar sem frekar er um sambyggð hús að ræða en viðbyggingu).Upprunalegar útlitsteikningar og grunnmyndir virðast ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi en hér má finna ítarlega járnateikningu fyrir húsið, dagsetta 18.maí 1935. Þar er líklega komin hin “fullkomna járnateikning” sem Bygginganefnd skilyrti, að yrði að liggja fyrir. Hér má sjá teikningar frá 1981 eftir Gunnar Þ. Þorsteinsson, af “lagfæringum og breytingum” líklega á gluggum og þaki og hér eru tveimur áratugum eldri teikningar af húsinu og ef teikningarnar eru bornar saman, má sjá að á yngri teikningum eru dyr komnar á miðju framhliðar, og gluggastykki komið í stað dyra sem voru nyrst. Síðast var húsið “tekið í gegn” árið 2009 þegar Blómabúð Akureyrar flutti þangað. Húsið hefur líkast til alla tíð hlotið hið besta viðhald. Það er sem nýtt að utan, en þess má geta, að ég hélt lengi vel að húsið væri miklu yngra en það er í raun.Mynd0193 Þá er húsið væntanlega í mjög góðu standi að innan; vegna þess hve tíðum húsinu hefur verið breytt og bætt að innra byrði, eftir mismunandi þörfum hinna ýmsu skrifstofu- og þjónustuaðila sem þar hafa haft aðsetur.
Þrátt fyrir það, má enn sjá nafn Bifrastar við dyragætt syðri inngangs, þar sem gengið er upp á efri hæð hússins, sjá mynd hér til hliðar. (Af einhverjum ástæðum vill hún ekki koma öðruvísi inn, ég hef'i helst viljað snúa henni um um 90°)Myndirnar með færslunni eru teknar þann 18.maí 2016. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 738, 26.mars 1935. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Jón Sveinsson. 1945-1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Bloggfærslur 22. júlí 2016

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 417794

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 238
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband