Hús dagsins: Hamarstígur 6

 

Neðst við Hamarstíg norðanverðan standa þrjú reisuleg steinhús, byggð í upphafi fjórða áratugarins. Þau eru öll með “steinsteypuklassísku lagi”; einlyft með háu risi og miðjukvisti en hvert og eitt með sínu lagi og yfirbragði. Halldór Halldórsson teiknaði tvö þeirra þ.e. Nr. 2 og 4 en Hamarstíg 6 teiknaði Guðmundur Frímannsson.P1140495

Árið 1931 fengu þeir Jóhann Frímann skólastjóri Iðnskólans á Akureyri og Kristinn Þorsteinsson lóð og byggingarleyfi við Hamarstíg, vestan við hús Halldórs Halldórssonar þ.e. Hamarstíg 4. Af einhverjum ástæðum lagðist bygginganefnd gegn því, að þeim yrði leigð lóðin en meirihluta bæjarstjórnar féllst á það. Á næsta fundi bygginganefndar var þeim Jóhanni og Kristni leyft að reisa hús á lóðinni, á einni hæð með kvisti, byggt úr r-steini á steyptum kjallara, 14x7,5 að stærð. Sem áður segir teiknaði Guðmundur Frímannsson Hamarstíg 6, sem er parhús og skipt eftir miðju í austur- og vesturpart, og hafa teikningarnar varðveist. Þar má sjá, að í hvorum hluta hússins er gert ráð fyrir “kontór” inn af forstofu að framan. Þá eru tvö eldhús í hvorum hluta, þ.e. á hvorri hæð. Þannig virðist gert ráð fyrir að a.m.k. tvær fjölskyldur búi í hvorum hluta hússins, enda er það nokkuð stórt á mælikvarða þess tíma sem það er byggt. Húsið hefur frá upphafi skipst í tvo eignarhluta en Jónsbók tilgreinir ekki hvernig húsið skiptist milli þeirra Jóhanns og Kristins, þ.e. hvor bjó í hvorum hluta.

Hamarstígur 6 er reisulegt steinhús, byggt 1931-32, á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti að framan og forstofubyggingu fyrir miðju, steyptar tröppur eru upp að henni. Þar ofan á eru svalir með skrautlegu steyptu, upprunalegu handriði. Forstofutröppur eru einnig rammaðir inn með sams konar handriði. Á bakhlið inngönguskúr með aflíðandi einhalla þaki og á þaki miklir sambyggðir kvistir með einhalla þaki, sem ná eftir nærri allri þekju hússins. Munu þeir hafa verið frá upphafi að hluta, þ.e. kvistur á hvorum hluta hússins en í Húsakönnun 2015 kemur fram, að þeir hafi verið stækkaðir 1937. Á bakhlið eru einfaldir þverpóstar en á framhlið eru margskiptir póstar. Húsið lítur vel og virðist í góðri hirðu. Í áðurnefndri Húsakönnun fyrir Neðri Brekku segir að húsið myndi skemmtilega heild ásamt nr. 4, sem einnig er stórt parhús með miðjukvisti. Að framan virðist húsið nánast frá upprunalegri gerð en er þó í góðu standi. Lóðin er stór og vel gróin, má þar finna birki- og reynitré.

Á bakvið húsið, og raunar þessi þrjú neðstu hús við Hamarstíg er skemmtilegur grænn blettur, sem afmarkast af Hamarstíg í suðri, Helgamagrastræti í vestri, Bjarkarstíg í norðri og Munkaþverárstræti í austri. Er þetta sannkallaður sælureitur sem ég veit að börn í þessum götum hafa mikið til leikja um áratugaskeið. Nú væri gaman að vita það, hvort einhver lesenda kannaðist við það, að túnblettur þessi beri eitthvert nafn ? Í trjágöngu Skógræktarfélags Eyjafjarðar um Neðri Brekku að morgni 31.ágúst 2013 var áð á þessum stað og boðið upp á ketilkaffi og meðlæti. Ekki tók ég nú myndir af því skemmtilega samsæti, en hins vegar notfærði ég mér það, að þessi staður býður upp á skemmtilega yfirsýn yfir Oddeyri.P8310021 Myndina af Hamarstíg 6 tók ég hins vegar þann 14.janúar 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur 670, 21.sept 1931, nr. 671 5.okt. 1931.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


Bloggfærslur 12. mars 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 456
  • Frá upphafi: 420156

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 329
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband