Hús dagsins: Hamarstígur 3

 

Hlíðargata nefnist gata sem liggur, samsíða Oddeyrargötu, til suðurs frá Hamarstíg. Á horni þeirra tveggja gatan stendur reisulegt steinsteypuhús, Hamarstígur 3.P3180518

Síðsumars 1933 fékk Ásgrímur Garibaldason úthlutað byggingarlóð við Hamarstíg, næst vestan við hús Júlíusar Davíðssonar (þ.e. Hamarstígur 1). Í bókunum Byggingarnefndar er Ásgrímur titlaður sem bifreiðareigandi- sem bendir óneitanlega til þess að bílaeign hafi ekki verið sérlega almenn á þessum árum- sem hún var sannarlega ekki. Teikningarnar að húsi Ásgríms gerði Gunnar R. Pálsson. Þann 25.október 1933 fékk Ásgrímur byggingarleyfi fyrir húsi á lóð sinni; einni hæð á kjallara með flötu járnþaki, 9,5x9m. Á upprunalegum teikningum er gert ráð fyrir tveimur íbúðum, sú í kjallara þó nokkru minni en íbúð á hæð en í kjallara eru einnig þvottahús og geymslur, ásamt kyndiklefa og kolageymslu.

Hamarstígur 3 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með flötu þaki. Væntanlega er eilítill halli á þakinu, en kantur stendur hærra svo þakið virðist flatt. (Algjörlega flöt þök eru svosem ekkert sérlega sniðug við íslenskar aðstæður). Kantur er skreyttur steyptum ferningum sem gefa húsinu óneitanlega skemmtilegan svip og veggir eru klæddir spænskum múr. Gluggar eru með einföldum þverpóstum með margskiptu efra fagi. Húsið er nánast ferningslaga nema hvað lítil forstofuálma, jafn há húsinu er til vesturs. Þar eru inngangar, annars vegar á neðri hæð til vesturs en þar er einnig inngöngudyr á efri hæð. Þangað liggja steyptar tröppur með skemmtilegu, tröppulaga handriði. Á teikningum er gert ráð fyrir að stiginn sé á tveimur pöllum og neðri tröppur snúi mót vestri. Mögulega hefur svo verið í upphafi en hugsanlega hefur því verið breytt við byggingu. Í Húsakönnun 2015 er húsið talið undir áhrifum frá Funkisstefnu, sem var að ryðja sér til rúms á síðari hluta 4.áratugarins. Húsið er ekki ósvipað t.d. Klapparstíg 3 að gerð en þar er einnig um að ræða ferningslaga hús, klætt spænskum múr og með skrautbekk á þakbrún.

Lóðin er vel gróin, og þar ber kannski hæst grenitré mikið sunnan og vestan við húsið. Fljótt á litið sýnist mér þetta geta verið Sitkagreni, einhvern tíma skildist mér að helsta einkenni þess væru uppsveigðar greinar, brattari efst og það væri áberandi keilulaga. Tréð er líklega áratuga gamalt og setur mikinn svip á umhverfið. Það gerir húsið einnig, en það er sérlega reisulegt og í góðu standi. Svo er að sjá, ef húsið er borið saman við teikningar að það sé algjörlega óbreytt frá fyrstu gerð þ.e. ytra byrði þess. Tvær íbúðir munu í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 18.mars 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundir nr. 709, 7.sept 1933 og nr. 710, 25.okt. 1933.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentaðar heimildir, varðveittar á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 


Bloggfærslur 25. apríl 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 464
  • Frá upphafi: 420164

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 336
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband