Hús dagsins: Munkaþverárstræti 7

Einn íbúa Friðbjarnarhúss, Aðalstrætis 46, í febrúar 1930 var Björn nokkur Axfjörð. P5250533Hann fékk þá útvísaða lóð við Munkaþverárstæti sem þá var við efri mörk þéttbýlis í bænum. Síðsumars fékk hann byggingaleyfi fyrir húsi 7,60x8m einni hæð með háu risi og kjallara út steinsteypu en húsið úr timbri og járnvarið. Björn gerði einnig teikningarnar af húsinu. Skömmu síðar var reist fjós og hlaða á bak við húsið og stendur sú bygging enn. Þess má geta, að Björn fékk byggingaleyfið fyrir Munkaþverárstræti 7 þann 25.ágúst 1930, en þann sama dag fæddist skoski stórleikarinn Sean Connery.

Í upphafi hefur verið húsið átt að vera járnvarið timburhús, en raunin varð sú að húsið var reist úr steinsteypu. Greinarhöfundur velti fyrir sér þeim möguleika að húsið væri forskalað en Manntal 1940 tekur af öll tvímæli um það; þar er húsið skráð sem steinsteypuhús. Munkaþverárstræti 7 er tvílyft steinsteypuhús með háu með stórum hornkvisti að framan en kvisti með einhalla þaki á bakhlið. Á suðurhlið eru svalir á rishæð og segja má að þær séu innbyggða því þekja slútir yfir þær. Svalirnar eru einnig á efri hæð og standa þær á súlum en þær eru tvöfalt lengri en svalir rishæðar, og eru þannig yfirbyggðar til hálfs. Bárujárn er á þaki hússins en krosspóstar í gluggum, nema í kvisti er sexrúðugluggi. Hann er frábrugðinn þeim sexrúðugluggum sem algengir eru, að því leitinu til, að hann er láréttur; þ.e. meiri á breidd en hæð. Á lóðinni stendur einnig einlyft bakhús með háu risi, sambyggð íbúð og bílskúr. Er bílgeymsla í norðurhluta byggingarinnar með stafn til austurs en íbúð í suðurhluta. Krosspóstar eru í gluggum bakhúss og bárujárn á þaki.

Upprunalega var bakhús fjós og hlaða, en Björn Axfjörð virðist hafa stundað einhvern búskap. Árið 1942 býður hann allavega landbúnaðartæki á borð plóg og herfi til sölu, einnig aktygi og reiðinga. (Það þarf þó alls ekki að vera samasemmerki milli þess, og að hann hafi stundað búskap nákvæmlega þarna).

Munkaþverárstræti 7 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er raunar sem nýtt en það var að mestu leyti endurbyggt um 1990, kvistur stækkaður og verönd byggð ásamt svölum og þekja lengd til suðurs. Hönnuður þeirra breytinga var Haukur Haraldsson. Bakhús var endurbyggt árið 2008 eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar og er sú framkvæmd geysi vel heppnuð. Ein íbúð er í húsinu og einnig er íbúð í bakhúsi. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi sem hluti húsaraðarinnar og tekur einnig fram, að breytingarnar fari húsinu vel. Lóðin er einnig vel gróin, þar er m.a. mikið grenitré á suðurhluta. En ofan við húsið, bak við lóðina má finna skemmtilegt grænan reit.

 

Eins og greinir hér frá að framan var gegndi bakhús hlutverki fjóss og hlöðu. P5200520Ekki er ólíklegt að skepnur sem íbúar Munkaþverárstrætis 7 héldu, hafi verið beitt á túnblett bak við húsið. Svo skemmtilega vill til, að þessi túnblettur til staðar en á bak við þessa húsaröð, nr. 3-13 er nokkuð stórt grænt svæði sem afmarkast af Munkaþverárstræti í austri, Helgamagrastræti í vestri, Bjarkarstíg í norðri og Hamarstíg í suðri. Samkvæmt lauslegri flatarmálsmælingu undirritaðs á götukorti Landupplýsingakerfisins er svæði þetta um 3500 fermetrar eða 0,35 ha. að stærð. Hvort þessi túnblettur beri nafn veit ég ekki, en tel það svosem ekki ólíklegt og eru allar upplýsingar um slíkt vel þegnar. Á fjórða áratug 20.aldar voru leigðir þarna út kartöflugarðar og mögulega eitthvað lengur. Vorið 1935 fær m.a. Júlíus Davíðsson (Hamarstíg 1) leigt þarna 250 fm ræktarland en næsta garð fengu þeir í félagi Jón Norðfjörð og Sigurður Áskelsson í Oddeyrargötu 10, ömmubróðir greinarhöfundar. Bærinn ákvað ársleigu á görðum þarna 3 krónur en setti garðleigjendum það skilyrði, að þeir skyldu “[...]á brott með allt sitt hafurtask bænum að kostnaðarlausu sé þess krafist.” (Bygg.nefnd.AK. 745; 31.5.1935). Þessi græni unaðsreitur er einnig skemmtilegur útsýnisstaður, en áður hef ég minnst á þennan reit í umfjöllun um hús við Hamarstíg. Hér er mynd sem tekin á fögru vorkvöldi eða vornóttu, skömmu eftir miðnætti 20.maí sl. Myndin af húsinu er hins vegar tekin fimm dögum síðar, á Uppstigningadag, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 642, 17.feb 1930. Fundur nr. 651, 25.ágúst 1930.

Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 745, 31.maí 1935.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal 1940

Þrjár ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar og varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

 


Bloggfærslur 12. júní 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 72
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 548
  • Frá upphafi: 417769

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 347
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband