Hús dagsins: Munkaþverárstræti 3

Gleðilega Hvítasunnu, kæru lesendur og landsmenn allir. Hús dagsins þennan Hvítasunnudag stendur við Munkaþverárstræti, en sú ágæta gata er á neðri Brekkunni, og liggur til norðurs út frá Hamarstíg, neðarlega. Hún liggur raunar næst ofan við neðanverða Oddeyrargötu og Brekkugötu og nær allt norður að Hamarkotsklöppum. Það er þó tæpast hægt að segja hún liggi samsíða þessum götum þar eð þær götur skáskera brekkuna upp í mót en Munkaþverárstræti liggur í mjúkum boga norður eftir þvert á brekkuna. 

Árið 1930 fékk Sigurjón Sumarliðason landpóstur frá Ásláksstöðum í Kræklingahlíð leigða lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, vestan megin norðan hornlóðar P5250526[við Hamarstíg]. Þá fékk Sigurjón leyfi til að reisa íbúðarhús á lóðinni. 8,75x8,25 að grunnfleti, eina hæð á kjallara með háu risi. Breyta þurfti teikningum vegna kjallara að vestan, en ekki kemur fram í hverju þær breytingar skyldu felast. Húsið skyldi vera steinsteypt með tvöföldum veggjum. Því má gera ráð fyrir, að útveggir hússins séu sérlega þykkir. Teikningar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

Munkaþverárstræti 3 er reisulegt steinsteypuhús, af mjög algengri gerð þess tíma, einlyft á háum kjallara og með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti; steinsteypuklassík. Framan á kvisti má sjá byggingarárið letrað með steyptum stöfum- en slíkt virðist ekki hafa verið óalgengt á þessum árum. Á þó nokkrum húsum má sjá ártalið 1930 á kvistum en einnig ártöl á bilinu 1926-29. Á norðurhlið er forstofubygging og steyptar tröppur upp að inngöngudyrum með skrautlegu steyptu handriði. Forstofubyggingin er með flötu þaki, mögulega hefur þar verið gert ráð fyrir svölum. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Kjallaraveggir eru með hrjúfri múrklæðningu; spænskum múr en veggir eru múrsléttaðir.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, hér má sjá það auglýst til sölu árið 1961 en þá er það sagt “tvær íbúðarhæðir og kjallari” og seljist í einu eða tvennu lagi. Þarna bjó sem áður segir Sigurjón Sumarliðason ásamt konu sinni Guðrúnu Jóhannsdóttur, en hann gerðist Vesturfari seint á 19.öld- en sneri til baka fimm árum síðar. Hann mun hafa verið þekktur og annálaður fyrir svaðilfarir og hetjudáðir í póstferðum sínum. Enda má nærri geta hvernig ferðir milli landshluta hafa verið þegar Sigurjón fór sínar póstferðir: Fæstar ár voru brúaðar, farskjótinn hross og veðráttan og færðin sú sama og gerist í dag. Þarna bjó einnig á fjórða áratug 20.aldar Páll Halldórsson, skrifstofumaður, sem meðal annars starfaði sem erindreki Fiskifélags Íslands. Í upphafi hafa íbúðirnar líklega verið á hæð og í risi. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og sömu sögu er að segja af lóðinni. Sunnan og vestan hússins stendur snoturt og grenitré. Húsið er hluti af skemmtilegri röð steinsteypuklassískra húsa nr. 3-13 og fellur undir varðveisluflokk 1 í Húsakönnun 2015, sem hluti þeirrar raðar. Myndin er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 644, 17.mars 1930. Fundur nr. 645, 31.mars 1930.

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Bloggfærslur 4. júní 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 86
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 562
  • Frá upphafi: 417783

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 359
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband