Hús dagsins: Hafnarstræti 13

Í síðastliðnum færslum hef ég tekið fyrir Munkaþverárstrætið að Bjarkarstíg/Krabbastíg vestanvert og hyggst næst taka fyrir sömu götu að austanverðu. En áður en að því kemur, skulum við aðeins bregða okkur í Innbæinn.  

Hið 222 ára gamla Laxdalshús, Hafnarstræti 11, elsta hús bæjarins var reist af Kyhns- verslun árið 1795. P2240022Var það upprunalega geymsluhús en tveimur árum áður hafði Kyhn reist veglegt verslunarhús. Á þessari ljósmynd, sem finna má á Sarpur.is sést umrætt verslunarhús frá 1793 til hægri. Húsið var tvílyft með háu risi og sneri austur- vestur. Líklega hefur það verið komið í mikla niðurníðslu árið 1933 þegar það var rifið, þá 140 ára gamalt. Það var ekki fyrr en áratugum síðar að nokkrum datt í hug að varðveita og gera upp gömul hús.

En sama ár var maður að nafni Adolf Kristjánsson í byggingarhugleiðingum. Vildi hann fá að að reisa einlyft timburhús á “lóð Jóns Kristjánssonar” Byggingin var ekki heimiluð þar, en snemma árs 1934 fékk Adolf makaskipti á áðurnefndri lóð við lóðina norðan Hafnarstrætis 11 [Laxdalshús]. Skyldi lóðin 18x20m. Ekki gat ég fundið út úr því hvar þessi lóð Jóns Kristjánssonar var, en hún mun hafa verið austan Hafnarstrætis. Á þessari lóð var Adolf leyft að reisa hús, eina hæð á kjallara. Teikningar gerðu ráð fyrir tveimur hæðum en Adolf vildi fá 10 ára frest til þess að ljúka húsinu en Bygginganefnd vildi að húsinu yrði lokið á fimm árum. Ári síðar fékk hann þó þennan frest lengdan í tuttugu ár. Það er svosem skemmst frá því að segja að 83 árum síðar er Hafnarstræti 13 ein hæð á kjallara. Upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi. Hafnarstræti 13 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki. Forstofubygging er á norðurhlið og steyptar tröppur upp að inngangi. Á bakhlið er útbygging og verönd sunnan við hana. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en einfaldir lóðréttir póstar í kjallaragluggum og bárujárn á þaki. Upprunalega var húsið með flötu þaki, ekki ósvipað næsta húsi, Hafnarstræti 15. Valmaþak var hins vegar byggt á húsið árið 1956, eftir þessum óundirrituðu teikningum.

Sé húsinu flett upp í timarit.is má m.a. sjá auglýsingar frá 1942 um e.k. prjónastofu á vegum Ásgríms Stefánssonar , en þar mun hafa verið um að ræða það sem síðar varð Prjónastofan Hekla. Eigandi hússins árið 1956 var Kristbjörg Jónatansdóttir, skv. teikningunum að valmaþakinu. Þarna bjó einnig Ragnheiður O. Björnsson verslunarkona með meiru og einn stofnenda Zontaklúbbsins á Akureyri. Erlingur Davíðsson ritstjóri heimsótti hana haustið 1972 og hafði þá þetta að segja um húsið: Hafnarstræti 13 gamalt hús og þar verður fótatak manna blandað ofurlitlu braki. Íbúðin er hlýleg, búin gömlum dönskum húsgögnum úr búi foreldranna, þeirra Ingibjargar Benjamínsdóttur frá Stóru-Mörk í Laxárdal og Odds Björnssonar, prentmeistara, fyrrum heiðursborgara Akureyrar... (Erlingur Davíðsson 1972: 183). Frásögn Ragnheiðar O. Er að finna í fyrsta bindi bókaflokksins “Aldnir hafa orðið”. Þar er um að ræða einstaklega fróðlega lesningu og skemmtilega fyrir þá sem áhuga hafa á sögu Akureyrar, því hún lýsir nokkuð gaumgæfilega daglegu lífi í Innbænum (það kemur raunar fram, að á uppvaxtarárum hennar hafi það hugtak verið óþekkt- þar var einfaldlega um að ræða Akureyri) á fyrstu árum 20.aldar. Þegar ég var að skrifa um Bæjarbrunana á þessa síðu haustið 2013 átti ég í þó nokkru basli við það, að finna út hvaða hús skemmdust í brunanum 1901. Því í þá daga voru götuheiti og númer yfirleitt ekki notuð heldur húsin einfaldlega kennd við eigendur eða húsbændur. Ég gat með engu móti fundið út hvaða hús var Blöndalshús. En líklega um ári síðar las ég þessa frásögn Ragnheiðar og þar kemur fram, að hún bjó einmitt í umræddu Blöndalshúsi þegar bruninn varð: Blöndalshús var Lækjargata 6, kennt við Magnús Blöndal sem átti efri hæðina.

En aftur að Hafnarstræti 13. Húsið er í góðu standi og lítur vel út, hefur nýlega (2010) hlotið endurbætur þar sem m.a. var byggð forstofa eða anddyri á norðurhlið. Ein íbúð er í húsinu. Núverandi eigandi, Sigurbjörg Pálsdóttir, hefur búið hér í tæpa fjóra áratugi. Í nýútkominni bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær. Húsin og fólkið, er fróðlegt og skemmtilegt viðtal við hana. Ég mæli með þeirri bók fyrir hvern áhugamann um Innbæinn og Akureyri sem er- og í rauninni mæli ég með þeirri bók fyrir hvern sem er. Myndin er tekin þann 24.febrúar 2015, þ.e. fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar þetta er ritað. Það gerist stundum, að húsamyndir “gleymast” hjá mér.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr 716, 27.feb 1934. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson. (1972). Aldnir hafa orðið. I bindi. Akureyri: Skjaldborg.

Jón Sveinsson. (1955). „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur.

 


Bloggfærslur 11. júlí 2017

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 32
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 419732

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 517
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband