Hús dagsins: Aðalstræti 44

p8150040.jpg Aðalstræti 44 mun vera byggt 1840 og er því í hópi allra elstu húsa á Akureyri. Árið 1873 eignaðist húsið kona að nafni Elín E. Thorlacius. Seldi hún þar veitingar og gistingu og var húsið nefnt Elínarbaukur, en bauksnafnið var almennt notað yfir veitingahús á Akureyri. Skilst mér að það hafi komið til af því að veitingamenn voru oftast beykjar* að aðalstarfi. Að öðru leyti hefur húsið lengst af verið íbúðarhús, margar fjölskyldur hafa búið í húsinu og líklega oft á tíðum margar í einu. Allavega hefur einhvern tíma vantað upp á plássið því risinu var einhverntíma lyft** í fyrndinni og byggð tvílyft bakbygging við húsið í framhaldi af því. Þá hafði það á sínum tíma verið asbestklætt og settir þverpóstar í glugga og þannig leit það út þegar endurbætur hófust á því um 2000.  Húsið hefur verið gert upp með nokkuð sérstökum hætti, sem þó mun viðurkenndur innan húsfriðunarfræða. Viðbyggingar voru rifnar og elsta húsið gert upp með upprunalegt útlit í huga, borðaklæðning og sexrúðugluggar. En kröfur til húsnæðis í dag eru dálítið aðrar  en fyrir 170 árum síðan, þannig að eitt og sér dugar gamla húsið skammt. En það mál er leyst þannig: Byggð er lágreist steinsteypt bygging bakvið húsið en byggingar tengdar saman með gangi sem er mjórri en húsin sjálf. Þannig fær gamla húsið að njóta sín til fulls og húsin virðast bæði sjálfstæðar byggingar og þarna eru skörp skil á milli hins gamla og nýja. Í sögugöngu um Innbæinn eitt árið heyrði ég að í þessu húsi sé hægt að ganga á nýmóðins steyptum gólfum um dyr, inn á dúandi og brakandi timburgólf. Myndin með þessari færslu er tekin í úrhellisrigningu; hitaskúr  síðdegis þann 15.ágúst 2009.

*Beykir= tunnusmiður

**Að lyfta risi: Stundum kom það fyrir að fullþröngt var um íbúa húsa undir lágri súð. Oft var lítill kvistur látinn duga en stórtækara verk var að lyfta risinu. Það lýsti sér þannig að þakgrind var tekin niður öðru megin og reistur veggur í staðinn og í stað hallandi riss kom skúrþak; halli á þakinu rétt til málamynda.  Langoftast var þetta gert á bakhlið húsa, enda fylgdu oft frekari viðbyggingar eða inngönguskúrar í kjölfarið, og e.t.v. þótti þetta ekki mikil prýði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 175
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 784
  • Frá upphafi: 419875

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 621
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband