Hús dagsins: Norðurgata 1. "Hús dagsins" 2 ára

Í dag eru tvö ár frá því ég hóf að birta "Hús dagsins". Þá hafði ég tekið af og til myndir af gömlum og/eða skrautlegum húsum á Akureyri í dálítinn tíma eftir að hafa árum saman haft áhuga á sögu bæjarins og húsanna. Þótti mér því um að gera að deila þessu og varð þessi síða fyrir valinu. Þar áður hafði ég reyndar prófað myndasíður á borð við Flickr en langaði að bæta við meiri texta, en fyrst voru það og eru myndirnar sem voru aðalatriðið. Ég leggst sjaldan í mikið fræðagrúsk fyrir hvern pistil, læt yfirleitt fylgja nokkrar línur sem ég hef lesið í bókum eða heyrt í sögugöngum og man þá stundina. Stundum fer ég þó í  uppfletti- og rannsóknarvinnu og með myndum fylgja greinargóðar "smáritgerðir".   En ég vil heldur stilla lengd pistlanna í hóf og hafa þá stutta og hnitmiðaða, því sjálfum þykir mér langir textar óþægilegir aflestrar af tölvuskjá og netið er þannig miðill að fólk vafrar- og vill  kannski ekki staldra lengi við langa texta. Fyrsta húsið sem ég fjallaði um fyrir tveimur árum síðan 25.júní 2009 var Norðurgata 17, Gamla Prentsmiðjan

Og enn berum við niður í Norðurgötunni.P6220121Hús nr. 1 við þá götu reisti maður að nafni Jón Borgfjörð árið 1899 en hann var búsettur í Strandgötu 27og var húsið í raun bakhús á þeirri lóð. Norðurgata 1 er  einlyft timburhús með háu risi og tvöföldum miðjukvisti. Að aftanverðu er stigahús og flatur kvistur. Þá er sólpallur eða svalir bakatil. Húsið er mjög svipað næsta húsi, nr. 3 og handan götunnar er röðin 2-6 öll mjög svipuð, einlyft hús með kvisti. Þó eru öll þessi hús í raun mjög ólík t.d. eru bakhliðar þeirra allar ólíkar m.t.t. síðari tíma viðbygginga og kvista. Að innan eru þessi síðan gjörólík líka. Líklegast hefur Norðurgata 1 verið tvíbýli í upphafi, en svo íbúðum fjölgað eftir því sem á leið. Húsið var allt tekið til gagngerra endurbóta fyrir 1990, bæði að utan sem innan og nú er húsið einbýli. Þessi mynd er tekin á miðnætti 22.júní 2011, er ég hugðist mynda miðnætursól sem ekki lét sjá sig. Þannig að ég myndaði nokkur hús á Eyrinni í staðinn sem koma væntanlega hérna á síðuna á næstu dögum og vikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltaf gaman að lesa um gömlu húsin,sama hvar þaug eru á landinu. Í Reykjavík þar sem ég bý er sem betur fer farið að bera meiri virðingu fyrir gömlu húsunum,og sögu þeirra. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er búin að gefa út þrjár bækur um Reykjavík sem er eingöngu um sögu gamalla húsa,þessar bækur heita  Indæla Reykjavík.  Ég legg til að þú skellir þér í svona ritstörf og ekki væri titilinn skammarlegur,,,Indæla Akureyri. Svo er spurningin er kannski búið að gefa út rit um gömlu húsin á Akureyri.? Hafðu þökk fyrir skemmtilega síðu.(mikil ánægja að sjá þessar bílamyndir líka.)

Númi (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 16:49

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Þakka innlitið og skemmtilegt "komment". Það hefur raunar alveg hvarflað af mér að gefa þessar myndir mínar og skrif út á bók- þetta sjálfsagt telur tugi blaðsíðna sem ég hef skrifað hér á síðuna. En það eru til nokkrar bækur um gömlu húsin á Akureyri, t.d. Innbærinn, húsakönnun frá 1986 eftir Hjörleif Stefánsson og Oddeyrin (1996) eftir Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur. Þær eiga að vera til á flestum bókasöfnum- en sjálfsagt illfáanlegar í verslunum. Svo er Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs (1993) eftir Steindór Steindórsson mikið öndvegisrit en hún er sett upp sem uppflettirit, þar eru allar götur bæjarins í stafrófsröð og sögufræg hús fá þar oftast sér umfjöllun.

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 26.6.2011 kl. 15:18

3 Smámynd: Ragnheiður

Mér líst vel á að setja þetta í bók - óhemjuskemmtilegt og mikill fróðleikur í þessu hjá þér :)

Ragnheiður , 30.6.2011 kl. 00:27

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Já, þetta hefur stundum verið lagt að mér, en ég veit svosem ekkert hvort eða hvenær af því verður :) 

Arnór Bliki Hallmundsson, 2.7.2011 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 174
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 783
  • Frá upphafi: 419874

Annað

  • Innlit í dag: 132
  • Innlit sl. viku: 620
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband