Hús dagsins nr. 146: Aðalstræti 40; Biblíótekið

Gleðilegt sumar kæru lesendur og þökk fyrir veturinn.P4140007 Fyrsti pistill sumarsins er um þetta 161 árs timburhús við Aðalstræti 40. En þessi pistill er númer 149 og líkt og ég nefndi í vetur þá mun ég reyna að hafa pistil númer 150 sérstaklega veglegan, svona í tilefni af því að á þessu ári er 150 ára afmælisár Akureyrarbæjar. Ég er búinn að ákveða hvaða bygging verður fyrir valinu en hún er eitt af helstu kennileitum Miðbæjarsvæðisins og hýsir eina rótgrónustu stofnun bæjarins og það er ekki tilviljun að ég tók þetta hús sem hér er á myndinni fyrir í þessum pistli á undan. Því það er visst samhengi milli þessa húss og hússins í næsta pistli, nr.150.  (ath. ég hef reyndar fjallað um talsvert fleiri en 150 hús- sennilega nær 200 þar sem stundum hef ég fjallað um tvö eða fleiri hús fyrir í einum pistli). En nóg um næsta pistil- snúum okkur að húsinu á myndinni hér.

En Aðalstræti 40 er einlyft timburhús með háu og bröttu risi. Framan er stór kvistur með skúrþaki eftir endilöngu húsinu  en einlyft viðbygging með skúrþaki bakvið. Húsið var byggt 1851 af Ara Sæmundssyni. Húsið var reist sem bókasafnshús fyrir Amtsbókasafnið en Ari var þar safnvörður. Bókasafnið var til húsa þarna í líkast til 13 ár eða til 1864 að það var flutt til Jóhanns P. Thorarensen lyfsala í Aðalstræti 4. En skv. Hjörleifi Stefánssyni (1986) mun hér um að ræða fyrsta bókasafnshús Íslendinga, þ.e. fyrsta húsið sem reist var sérstaklega undir bókasafn. Hjörleifur talar einnig um að "[..] vert sé að athuga hvort vert sé að varðveita þær leifar sem kunna að vera eftir af upprunalega húsinu " (Hjörleifur Stefánsson 1986:90) En húsinu hefur verið mjög mikið breytt frá upprunalegri gerð, en það er raunar ekki óalgengt með hús á þessum aldri. Byggt verið við það baka til og einnig reistur þessi mikli kvistur sem gefur húsinu mjög sérstakan svip og nánast hægt að tala um að risi hafi verið lyft. Gluggum og gluggaskipan hefur einnig verið breytt mikið. Það er alls ekki óalgengt að húsum á þessum aldri hafi ekki verið gjörbreytt- hitt er frekar undantekning. Enda má nærri geta hversu mikið kröfur til húsnæðis hafa breyst frá því þetta hús var byggt- þ.e. tímabil sem spannar um tvöfalda meðalævilengd Íslendings. Þetta hús var bókasafn upprunalega og einbýli en í áratuga rás hefur íbúðaskipan og notkun breyst og sennilega hafa á tímabili búið margar fjölskyldur í húsinu í einu. En nú er húsið aftur einbýli og hefur verið síðustu áratugina. En þrátt fyrir miklar breytingar frá upprunalegri gerð lítur húsið alls ekki illa út; því virðist vel viðhaldið og líkt og sjá á þessari mynd er nú byrjað að skipta um glugga og mála húsið og spennandi sjá hvernig húsið mun líta út að viðgerð lokinni. Húsið stendur á mikilli lóð og gróskumikilli, sbr. verklegt reynitré fyrir miðri mynd. Þessa mynd tók ég sl. laugardag, 14.apríl 2012.

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson (1986) Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

 Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081
  • IMG_1520
  • IMG 1494

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 494
  • Frá upphafi: 419275

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 362
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband