Hús dagsins: Ránargata 6; Bæjarhúsið

 

Ránargata 6 var reist árin 1931-32 sem fjölbýlishús af Akureyrarbæ, sennilega til að mæta mikilli þörf á mannsæmandi húsnæði í bænum. P1310005Á fundi byggingarnefndar þann 24.ágúst 1931 var “samþykktur uppdráttur af húsi því sem bæjarstjórnin er að láta byggja við Ránargötu” . Af þessu má ráða að bygging hafi verið hafin þarna síðsumars 1931. Húsinu er lýst “ að stærð 13,3 x 8,2 m á lágum grunni með háu risi, byggt úr r-steini með járnbentum súlum í veggjum.” Ekki er hins vegar getið hver gerði uppdráttinn sem samþykktur var .

Ránargata 6 er tvílyft steinsteypuhús með háu risi. Bárujárn er á þaki og krosspóstar í gluggum. Á miðri framhlið er inngangur og þar er dyraskýli; risþak sem stendur á steyptum súlum. Húsið er ekki ósvipað að stærð og Ránargata 2 en bæði þessi hús eru byggð sem eins konar fjölbýlishús. Í upphafi voru a.m.k. fjórar íbúðir í húsinu, og gætu þær vel hafa verið fleiri. Skömmu fyrir jólin 1948 er t.d. auglýstur ýmis varningur m.a. barnavagn, herrajakki, bílsæti og dekk til sölu hjá aðila sem ekki getur nafns en segist vera á 3.hæð til vinstri í þessu húsi. 3.hæð þessa hús getur varla verið neitt annað en rishæðin, og þessar upplýsingar benda til þess að tvö íbúðarrými hafi verið í risi á þeim tíma. Sem áður segir var það Akureyrarbær sem lét byggja húsið en hversu lengi bærinn átti húsið er mér ókunnugt um. Það liggur í hlutarins eðli að þar sem húsið var frá upphafi leiguhúsnæði með mörgum íbúðum hafa margir átt hér heimili í lengri eða skemmri tíma. Í Manntali árið 1940 eru 22 einstaklingar skráðir til heimilis í Ránargötu 6. Það hefur þó bara verið þó nokkuð rúmt um íbúana borið saman við það að um 1920 voru 19 íbúar í húsinu Lundargötu 11, en ég gæti ímyndað mér að það hús sé u.þ.b. Þriðjungur af Ránargötu 6 miðað við rúmtak. Húsið er fyrir margt löngu komið í einkaeign og eru nú tvær íbúðir í húsinu. Ránargata 6 er stórt og glæsilegt hús og er í mjög góðu ástandi, þak og gluggar virðast nýir. Þessi þrenning, nr. 2, 4 og 6 myndar skemmtilega heild, húsin eru öll svipuð að gerð að mörgu leyti- númer fjögur kannski "númeri smærra". Myndin af Ránargötu 6 er tekin í froststillu laugardaginn 31.janúar 2015.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35; fundur nr.669 24.8.1931.

Mannatal 1940. Bæði ritin eru óútgefin, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband