Hús dagsins: Kristnes í Glerárþorpi; Lyngholt 13

Gömlu býlin í Glerárþorpi eru yfirleitt auðþekkjanleg frá nærliggjandi húsum. P4060008Þau standa yfirleitt á skjön við húsaraðirnar og lóðir yfirleitt mikið stærri og byggingarlag þeirra er ævinlega frábrugðið næstu húsum, enda yfirleitt um miklu eldri hús að ræða.Heimildir um upprunasögu þessara húsa eru oft ekki auðfáanlegar eftir þeim leiðum sem ég hef farið. Bygginganefndafundargerðir fyrir Akureyrarbæ koma þar að litlu gagni því Glerárþorp varð ekki hluti af Akureyri fyrr en 1955. En með hjálp Landupplýsingakerfisins góða tókst mér að grafa upp byggingarár hússins hér á myndinni og fletti upp í Manntali sem tekið var tveimur árum fyrir skráð byggingarár hússins.

En húsið hér á myndinni, Kristnes, stendur í Glerárþorpi, rétt upp af norðurbakka Glerár um 100 metra frá Glerárbrú á Þjóðvegi 1. Húsið telst standa á lóðinni Lyngholt 13. Upprunalega var sett hús á Kristnesi árið 1908 og var um að ræða stýrishús af skipi og kallaðist húsið "Káetan" í daglegu tali. Núverandi hús er hins vegar byggt árið 1932. Á teikningum sem Árni Gunnar Kristjánsson gerði vegna endurbóta hússins 2004 kemur fram að engar teikningar séu til af húsinu. Íbúar á Kristnesi árið 1930 voru þau Tryggvi Þórðarson verkamaður og Oddný Þorsteinsdóttir og börn þeirra. Mér þykir því freistandi að draga þá ályktun að Tryggvi og Oddný hafi staðið fyrir byggingu Kristness árið 1932. Húsið er einlyft steinsteypuhús á lágum grunni og með háu risi og á framhlið eru tveir smáir kvistir. Á norðvesturhlið er einlyft viðbygging með skúrþaki. Bárujárn er á þaki hússins og nýlegir krosspóstar í gluggum. Líkt og gengur og gerist með eldri hús Glerárþorps var hér búrekstur nokkur og þarna hafa m.a. verið kýr (hér auglýsir Tryggvi Þórðarson "Ung vorbær kýr" sumarið 1949 ). Ekki veit ég hvenær búskapur hefur lagst hér af en gatan Lyngholt byggðist að mestu á 7.áratugnum og með þéttbýlismyndun í Glerárþorpi var búskapi á smábýlunum þar væntanlega sjálfhætt. Fyrir um áratug var Kristnes allt gert upp, þak m.a. endurnýjað frá grunni sem og gluggar og hurðir og kvistir byggðir á þakið. Því er húsið í raun eins og nýtt. Ekki er hægt að segja annað en að endurbætur hafi heppnast vel og nú er húsið til mikillar prýði og sóma í götumyndinni. Þessi mynd er tekin á öðrum degi páska, 6.apríl 2015.  

Heimildir: Árni Gunnar Kristjánsson (2004). Byggingarnefndarteikning Lyngholt 13. Sótt 3.5.2015 gegn um Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar.

Manntal 1930. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 421
  • Frá upphafi: 417790

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 234
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband