Hús dagsins: Aðalstræti 3; Verslunin Brynja

Brynjuísinn er fyrir löngu orðinn eitt af "vörumerkjum" Akureyrar og sennilega eru þeir margir sem VERÐA að fá sér Brynjuís í hvert sinn sem þeir heimsækja Akureyri. (Svipað og ég VERÐ helst alltaf að fara í Geisladiskabúð Valda á Laugavegi í Reykjavíkurheimsóknum ). En þessi nafntogaða ísbúð stendur nyrst við Aðalstrætið, skammt undan kjafti Búðargils.

 Enda þótt Aðalstræti 3 sé tæplega 70 ára gamalt er það í hópi yngstu húsa við Aðalstrætið. P6140010Húsið reistu þeir Steinþór Jensson og Þorvaldur Jónsson árið 1946 eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Sá fyrrnefndi hafði keypt verslunarrekstur Brynju sem þá var í Aðalstræti 2. Lóðin hafði þá verið óbyggð í rúma 3 áratugi en þarna stóðu áður geymsluhús sem eyðilögðust í Bæjarbrunanum 1912. Húsið, sem tekið hefur nokkrum breytingum frá upphafi er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki. Byggt var við húsið að norðan um 1988 og verslun stækkuð en um 2002 var byggður bílskúr við sömu hlið. Á þaki viðbygginga eru svalir og sólskáli einnig eru svalir á efri hæð götumegin og þar undir lítið port þar sem finna má bekki, ætlaða viðskiptavinum verslunarinnar. Í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar, tiltölulega nýlegir. Sem áður segir hefur húsið verið verslunarhús frá upphafi en verslunin Brynja er raunar sjö árum eldri en húsið sjálft, var stofnuð í Aðalstræti 2, húsinu skáhallt á móti árið 1939. Íbúð er á efri hæð hússins en verslun og allt sem henni tilheyrir (lager, kaffistofa o.fl.) á neðri hæð. Gengið er í verslun að vestan það er frá götu en á suðurhlið er inngangur fyrir íbúðina.

 Verslunin sem slík hefur auðvitað tekið ýmsum breytingum gegn um tíðina, bæði stækkað og innréttingum breytt en ísinn góði mun hafa fylgt nafni Brynju um langan aldur, og í þessu riti segir að uppskriftin sé frá 1952. Brynja er hins vegar ekki bara ísbúð heldur fást þar flestar matvörur, mjólk, kjötbúðingur, rauðkál í dós o.fl. Þannig er búðin sérleg "kaupmaðurinn á horninu-verslun" í Innbæinga og er hún ein örfárra matvöruverslana á landinu þar sem allt er afgreitt yfir borð. Þess má líka geta að þarna fást rafhlöður, ég hef t.d. oftar en einu sinni bjargað mér um þær í Brynju  í myndaleiðöngrum um Innbæinn þegar vélin reynist straumlaus. Húsið og allt umhverfi þess og frágangur er með snyrtilegasta móti og til mikillar prýði; mikið listaverk er á framhlið þar sem gengið er inn í verslunina. Á góðviðrisdögum er búðin oftar en ekki troðfull og jafnvel röð út á stétt enda Brynjuísinn einstaklega heppilegur á sólardögum. Sjálfur er ég í hópi þeirra sem finnst Brynjuísinn einn sá besti og það er raunar algengara en hitt að ég láti undan freistingunni að fá mér einn slíkan þegar ég á leið um Innbæinn. Þessi mynd er tekin þann 14.júní sl. sumar.  

Heimildir: Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Sjá tengil í texta hér að ofan. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband