Hús dagsins: Þórunnarstræti 97

Þórunnarstræti er ein af lengri götum Akureyrar. Hún nær frá Miðhúsabraut ofan draga Búðargils í suðri að Gleráreyrum í norðri og þverar Brekkuna. Gatan er númeruð upp að 136 en það merkilega er að lægsta númer við hana er 81. Sennilega hefur númerakerfi miðast við húsaröð langleiðina suður að Naustum en nú hefur Teigahverfi risið ofan við syðsta hluta götunnar. Neðarlega við Þórunnarstrætið stendur Lögreglustöðin en ofar eru Sundlaugin og Íþróttahöllin austan og neðan götunnar, gegnt íþróttamannvirkjunum er Tjaldsvæðið á Þórunnarstræti. Við það stendur m.a. Gamli Húsmæðraskólinn en sunnan hans þetta ágæta hús, Þórunnarstræti 97.P6190014 (2)

 

Í Manntali 1930 teljast tvö hús standa við Þórunnarstræti.Hvorugt þeirra er númerað en þau eru kennd við Svanberg Sigurgeirsson og Eðvald Möller. Bæði húsin standa enn og eru númer 89 og 97. En árið 1925 fékk Svanberg Sigurgeirsson vatnsveitustjóri frá Lögmannshlíð leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús 8 x 7,5 m í suðausturhorninu á svonefndu Laxdalstúni sem hann hafði fest kaup á. Nefndin lýsti því yfir að “hún skoðar byggingu á þessum stað sem grasbýli, þar sem hann liggur fyrir utan kaupstaðarlóðina og hið kortlagða byggingarsvæði”. (Bygg.nefnd Ak. 1925: nr.574). Þórunnarstræti 97 er einlyft steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu risi. Kvistur með aflíðandi hallandi þaki er á norðurþekju hússins auk inngönguskúrs og þar eru steyptar tröppur. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið var reist 1926 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar og var í upphafi einlyft á kjallara með háu risi. Ekki kannast ég við að húsið hafi borið sérstakt nafn, en Svanberg virðist einfaldlega hafa verið kenndur við Þórunnarstræti. Elstu heimildir sem ég finn um númerið 97 eru frá mars 1955 þar sem Svanberg Sigurgeirsson auglýsir 20-30 hesta af töðu til sölu. Þarna var stundaður búskapur fyrstu áratugina en sennilega hefur honum verið sjálfhætt þegar byggðin fór að nálgast og túnið lagt undir tjaldsvæði upp úr miðri síðustu öld. Þó stendur enn steinsteypt bygging á lóðinni sem ég gæti ímyndað mér að sé gömul hlaða eða fjós. Árið 1966 var húsinu breytt eftir teikningum Jóns Geirs Ágústssonar og var þá byggður kvistur á húsið og forstofubygging á norðurhlið og fékk húsið þá það lag sem það nú hefur. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og ekki sé ég nokkra verslun eða iðnað auglýstan þarna ef heimilisfanginu er slegið upp í timarit.is. Húsið virðist í góðu standi og lítur vel út og sömu sögu er að segja um lóðina umhverfis. Ég velti þessu oft fyrir mér þau sumur sem ég vann á Tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti, hvort þetta hlyti ekki að vera gamall sveitabær, hvað hét þá bærinn og hvenær var hann byggður. Því augljóst þótti mér, að húsið væri töluvert eldra en nærliggjandi byggð og staðsetning þess gaf það einnig til kynna að hér væri um gamalt býli að ræða. Einhvers staðar heyrði ég það eða sá að gert væri ráð fyrir að þetta hús ætti að víkja. Hvort horfið hefur verið frá þeim áformum nú eða hvað er mér ókunnugt um en ég tel að prýði yrði af Þórunnarstræti 97 um ókomna tíð á þessum stað. Þessi mynd er tekin í blíðskaparveðri þann 19.júní 2015 en þarna var ég á leið í Lystigarðinn að kíkja á hátíðahöld í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 574 þ.29.sept. 1925. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1930. Óútg. Varðveitt á Hsksj. Ak.

Upplýsingar fengnar af Landupplýsingakerfi Akureyrar og timarit.is (sjá tengla í texta)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 759
  • Frá upphafi: 417041

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband