Hús dagsins: Fjólugata 5

Síðla hausts 1933 fékk Friðgeir H. Berg leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Fjólugötu.

P1010006Friðgeir vildi fá að reisa timburhús á steinsteyptum kjallara, 7,2x7,6m að stærð með valmaþaki en nefndin leyfði ekki  slíkt þak „heldur verði stafnar byggðir upp eins og venjulega, ennfremur að útitröppur séu jafnháar kjallara“. Þá vildi bygginganefnd ekki leyfa Friðgeiri að stjórna byggingu hússins sjálfur þar eð hann gat ekki framvísað skilríkjum þess efnis að hann hefði til þess heimild.

Í íbúaskrám Akureyrar frá 4. áratug 20.aldar er Friðgeir ekki skráður til heimilis í Fjólugötu 5, heldur bjó hann sunnar á Eyrinni, á Strandgötu 27. Þarna er hins vegar skráður maður að nafni Arnaldur Guttormsson, en hann kemur hvergi fyrir í bókun bygginganefndar. Þetta þótti þeim sem þetta ritar ástæða til að gaumgæfa nánar. Friðgeir H. Berg var kvæntur Valgerði Guttormsdóttur frá Ósi í Hörgárdal en áðurnefndur Arnaldur var bróðir hennar. Líklegt er, að Friðgeir hafi byggt þetta hús til handa mági sínum, Arnaldi Guttormssyni. Árið 1940 er þríbýlt í húsinu, annars vegar Friðrik Tryggvi Jónsson og Margrét Halldórsdóttir og hins vegar þau Þórir Guðjónsson og Margrét Halldórsdóttir. Þá eru tveir leigjendur, mæðgurnar Stefanía Pétursdóttir og Vigdís K.P. Stefánsdóttir. Þá bjuggu allt í allt 12 manns í húsinu- sem er sem áður segir 7,2x7,6 á grunnfleti eða um 54 fermetrar. Þess má þó geta að það var alls ekki óalgengt að tvær til þrjár fjölskyldur byggju í húsum af þessari stærð og oftar en ekki voru einhverjir leigjendur í herbergjum. En Fjólugata 5 er einlyft timburhús á háum steyptum kjallara. Inngangar eru á framhlið á kjallara en á austurstafni eru steyptar tröppur og þar inngangur á hæð. Líkt og á næstu húsum eru tveir gluggar beggja vegna framdyra sem og á efri hæð á framhlið. Bárujárn er á þaki hússins en húsið en veggir eru plötum með grjótmulningi (perluákasti). Húsið er í mjög góðu standi, klæðning, gluggar og þak virðast nýleg. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þ. 12.júní 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1930-35, Fundur 711, 2.nóv 1933.

Manntal á Akureyri 1940. Þessi rit eru óutgefin en eru varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband