Hús dagsins: Laxagata 6 og Laxagata 7

Lengst af skrifaði ég allar húsafærslur beint inn á síðuna. En svo fór ég að hugsa að gaman gæti verið að eiga þessar færslur sem handrit og auk þess dregur það mjög úr mál -og innsláttarvillum að færa hann á milli. (Nógu margar eru þær nú samt í þessum færslumembarassed). En nú vill svo til, að færslur um öll húsin við Laxagötu eru komnar inn í skjal hjá mér og því ekkert sem segir að þær þurfi að mjatlast hér inn ein og ein. Svo hér koma umfjallanir um hús nr. 6 og 7. 

Laxagata 6

Laxagötu 6 reistu þau Ólafur Magnússon sundkennari og Ingibjörg Baldvinsdóttir kona hans árið 1933. Hönnuður hússins var Árni Stefánsson.P8140179 Húsið er einlyft timburhús með háu risi og stendur á mjög háum steyptum grunni. Áfastur kjallara að norðanverðu er steypt viðbygging með flötu þaki, upprunalega reist sem bílskúr. Ekki er vitað hvenær skúrinn er byggður en ljóst er að hann var risinn árið 1970. Á suðurhlið er inngönguskúr með geirarisi og steyptar tröppur upp að honum. Í gluggum eru eins konar þrískiptir þverpóstar, bárujárn á þaki en steinblikk á veggjum. Litglerjaður gluggi með skrautpóstum er á inngönguskúr mót suðri, og svipar nokkuð til sveitserstíls, sem var ráðandi í húsum efnamanna um aldamótin 1900. Árið 1970 var húsið teiknað upp og ástand skráð og virðist það vera í góðu standi þá, utan sem innan. Þá er húsið í eigu dánarbús Ólafs Magnússonar en hann lést vorið 1970. Hér er minningargrein Ingvars Gíslasonar um Ólaf Magnússon. Húsinu hefur líkast til alla tíð verið vel við haldið, alla vega er það í góðu standi nú og lítur vel út. Það er að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð a.m.k. að utanverðu og er talið hafa varðveislugildi fyrir götumynd Laxagötu. Húsið er sem áður segir í góðu standi og lóð er einnig vel gróin og vel hirt og þar hefur verið reistur timburpallur með skjólgirðingum og steyptar stéttir og bílastæði. Bílskúr hefur verið innréttaður sem forstofa en ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin 14.ágúst 2015.

 

 

Laxagata 7 

Laxagötu skipa þó nokkrir fulltrúar hinna ýmsu byggingargerða íbúðarhúsa frá fyrri hluta 20.aldar, enda þótt húsin séu aðeins sjö. Þar má finna timburparhús með risi og kvisti, timburhús með háu risi, steinsteypt parhús með háu risi auk kirkju og steinhús með með risi og miðjukvisti; “timburhúsalagi”. Þá má finna bárujárnsklæðningu og steinblikk, sléttan múr en einnig tvö hús klædd steinmulningi. Annað þeirra er Laxagata 7. Húsið er það nyrsta við götuna en Laxagata 9, sem áður var elsta hús við götuna (b.1925) var rifið um 1995.P8140174

En Laxagötu 7 reisti Eiríkur Einarsson eftir teikningum Snorra Guðmundssonar árið 1943. Þær teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu góða en hér má sjá uppmælingateikningar Haraldar Árnasonar frá 1991 vegna svalabyggingar. Laxagata 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki, klætt steinmulningi eða skeljasandi eða perluákasti eða hvað menn vilja kalla þessa veggklæðningu. Bárujárn er á þaki en einfaldir póstar með láréttum fögum í gluggum. Á suðurhlið eru steyptar tröppur og inngangur á efri hæð en á vesturhlið eru svalir. Þá er litil álma á suðurhlið en þar eru inngöngudyr. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til með einni íbúð á hvorri hæð og hafa margir átt þarna heimili. Samkvæmt Húsakönnun Ómars Ívarssonar er húsið að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og ástand hússins sagt nokkuð gott. Þessi mynd er tekin 14. ágúst 2015.

 

 

Heimildir:

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

Tenglar í texta vísa beint á netheimildir.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 228
  • Sl. viku: 619
  • Frá upphafi: 419710

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 497
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband