Hús dagsins: Oddagata 1

Ofan Miðbæjar Akureyrar (þ.e.a.s. þess hluta Hafnarstrætis sem kallast í daglegu tali Göngugatan) liggja tvær götur samsíða milli Grófargils og Skátagils. Gilsbakkavegur á bakka grófargils sunnan megin en norðar, við Skátagilið liggur Oddagatan. Ég tók fyrir elstu húsin við þessar götur, Melshúsin, í sumar en að sjálfsögðu eru fleiri hús við þessar götur sem vert er að kynna sér. Neðst við Oddagötuna stendur skemmilegt og skrautlegt steinhús frá 1927...

Snemma árs 1926 fékk Kristján Sigurðsson kennari frá Dagverðareyri hornlóð austast við Oddagötu. Lóðina höfðu Verslunarfélag Akureyrar og IOGT nr. 2 haft áður en hann fékk að yfirtaka hana. P7150120Um vorið fékk Kristján að reisa einlyft hús með háu risi og kvisti, 8,80 x 7,86 (!) m, samkvæmt framlögðum teikningum en þó þannig að bakskúr félli burtu og dyr yrðu á kjallara í stað glugga. (Ekki veit ég hvort þessi nákvæma breiddartala 7,86m sé misritun í því vélritaða afriti sem aðgengilegt er á Hsksj. og eigi að vera 7,80 eða hvort mál hússins hafi verið þetta nákvæmt, en svona tölur eru ekki algengar í bygginganefndarbókunum).

Oddagata 1 er sem áður segir, einlyft steinsteypuhús á háum kjallara með risi og miðjukvisti á framhlið. Risið er brotið (mansard); aflíðandi efst en bratt niður að veggjum og er tjörupappi á þakinu. Á bakhlið er lítill bogadreginn kvistur. Þverpóstar eru í gluggum og inngangar á bakhlið, norðurhlið og á kjallara framhliðar. Á kvisti framhliðar eru litlar hliðarrúður. Húsið er undir áhrifum frá svonefndum jugend-stíl, þakkantar eru bogadregnir og skrautlegir bogar yfir gluggum sem gefa húsinu skemmtilegan svip. Kvistur bakhliðar er einnig bogdreginn. Fyrir vikið er Oddagata 1 einstaklega skrautlegt og svipsterkt hús og ekki spillir fyrir staðsetning þess, en húsið blasir við neðan úr hluta Miðbæjar og syðst af Oddeyrinni. Byggingarár hússins, 1927 er áletrað á miðjukvistinn. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, líkast til einbýli fyrst en nú eru þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð. Í nýlegri húsakönnun er húsið sagt nánast óbreytt frá upprunalegri gerð og er ekki talið hafa sérstakt varðveilsugildi sem slíkt, þó gildi hússins fyrir götumynd Oddagötu sé ótvírætt. Hér er mynd af húsinu og stutt umfjöllun í tæplega 40 ára gamalli grein í Tímanum um gömul hús á Akureyri. Þessi mynd er hins vegar tekin þ. 15.júlí 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundir nr. 580, 15.2.1926 og nr. 584, 3.5. 1926. Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband