Hús dagsins: Oddagata 11

 Á sumarsólstöðum árið 1927 kom bygginganefnd saman á sínum 598. fundi frá stofnun hennar. Meðal erinda var afgreiðsla á vestustu lóð Oddagötu, sem sögð var vestan við Eggert Melstað (Oddagata 9, sem þá var óbyggð). PA280253Tveir menn sóttu um lóðina, annars vegar Gunnar M. Jónsson og hins vegar Jón G. Guðmann. Niðurstaða nefndarinnar var einfaldlega sú, að sá síðarnefndi fengi lóðina, þar eð bréf hans hafði borist tveimur dögum fyrr. Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Síðsumars 1927 var Jóni G. Guðmann síðan heimilað reisa á lóðinni einlyft íbúðarhús eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar, með porti og risi, 8x9m að utanmáli. Oddagata 11 einlyft með háu portbyggðu risi og miðjukvisti og stendur á háum kjallara. Á austurhlið hússins er einnig lægri miðjukvistur með hallandi þaki. Inngangar og steyptar tröppur upp að þeim eru við norðurhorn hússins, til austurs og vesturs. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í gluggum. Húsið virðist h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð, en á teikningum er þó gert ráð fyrir inngangi á norðurhlið Húsið er af mjög algengri gerð steinsteypuhúsa frá 3. áratug 20.aldar, með svipuðu lagi og timburhúsin höfðu mörg hver verið áratugina um og eftir 1900. Ekki er að sjá auglýsingar um stórfellda verslun eða starfsemi í Oddagötu 11, sé heimilisfanginu flett upp á timarit.is. Ein auglýsing vakti þó athygli mína; Árið 1937 auglýsir Kristinn nokkur Sigmundsson tilsögn í hraðritun í Oddagötu 11. Kristinn var frá Ytra-Hóli í Öngulsstaðahreppi, fæddur þar árið 1910 og hann hafði nokkrum árum áður gegnt störfum ritara á Alþingi. Kristinn var einmitt föðurafi minn en hann fluttist árið 1940 að Arnarhóli í Öngulsstaðahreppi þar sem hann og amma, Ingveldur Hallmundsdóttir, bjuggu miklu myndarbúi í hartnær 50 ár. Hér er viðtal við góðbóndann á Arnarhóli í Degi, frá árinu 1963.

Oddagata 11 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er t.a.m. nýmálað, og stendur á stórri og gróinni lóð. Það mun nánast óbreytt frá upprunalegri gerð. Ein íbúð er í húsinu. Myndina tók ég núna í morgun, 28.október 2015 en ég myndaði húsið í myndagöngutúr um Oddagötuna þ.15.júlí sl. en síðan þá hefur húsið verið málað. Þótti mér því ótækt annað en að birta mynd af húsinu nýmáluðu.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 598, 21.6.1927 Fundur nr. 600, 24.8.1927.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband