Hús dagsins: Hólabraut 15, Hólabraut 17

 

Hólabraut 15

Við rætur Brekkunnar, þar sem Gránufélagsgatan mætir Oddeyrargötu stendur reisulegt steinhús frá upphafi 4.áratugs 20.aldar. Þar er um að ræða Hólabraut 15 en Hólabraut er efsta þvergatan í norður frá Gránufélagsgötu. Í hugum flestra hlýtur þessi staður að tilheyra Miðbænum en landfræðilega hlýtur Oddeyrin að ná að Brekkunni þannig að ég flokka Hólabraut sem Oddeyri.

Árið 1930 fékk Sigurbjörg Pálsdóttir leyfi til að reisa steinhús, 9x10m, tveggja hæða með kjallara og háu risi. Byggingaleyfið fékk hún í tveimur áföngum, í seinna skiptið var henni leyft að setja kvist á hús sitt. Teikningar að húsinu hafa varðveist, en þær eru óundirritaðar og því telst höfundur ókunnur. Húsið er byggt sem hluti húsaraðar samkvæmt Aðalskipulaginu frá 1927.P9150222

Hólabraut 15 er stórt og reisulegt steinsteyptuhús, tvíltyft með háu risi og miðjukvisti á bakhlið enm framhlið er smærri þríhyrndur kvistur. Inngangar eru í húsið á tveimur stöðum, að framanverðu á kjallara og er þar gengið inn á stigagang en einnig til suðurs þar sem gengið er inn á fyrstu hæð. Þar eru steyptur bogadreginn tröppupallur með skrautlegu handriði. Verklegir steyptir þakkantar setja svip sinn á húsið sem annars er nokkuð látlaust að gerð. Krosspóstar eru í gluggum en margskiptir póstar í gluggum stigagangs. Bárujárn er á þaki. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, í upphafi eru tvö rými sem kallast vinnustofur í kjallara en líkast til tvær íbúðir hvor á sinni hæð en ris er ekki með á teikningunum. Það hefur fyrir löngu verið innréttað sem íbúð. Húsið er í ágætu standi og lítur vel út og stendur það á stórri og gróskumikilli lóð. Húsið er á áberandi og fjölförnum stað og nýtur sín vel og er það talið hafa þó nokkurt varðveislugildi skv. Húsakönnun frá 2011. Í húsinu eru fjórar íbúðir. Myndin er tekin þ. 15.9.2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 648, 21.5.1930. Fundur nr. 650, 21.7.1930.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

 

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

 

Hólabraut 17

Bygginganefnd Akureyrar var stofnuð árið 1857 og voru allir fundir hennar frá upphafi númeraðir.P9150223 Á 700. fundi nefndarinnar, sem haldinn var vorið 1933 var meðal fundarefna afgreiðsla byggingarleyfis til bræðranna Olgeirs og Þórhalls Guðmundssonar sem fengu að reisa steinsteypt hús á kjallara, 8x10m með háu risi, kvisti og forstofu að norðan. Húsið var sagt næst norðan við hús Sigurbjargar Pálsdóttur, þ.e. Hólabraut 15. Olgeir gerði sjálfur teikningarnar að húsinu. Þar virðist gert ráð fyrir tveimur íbúðum, hvor á sinni hæð og verkstæði og geymslur í kjallara.

Hólabraut 17 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með háu risi. Miðjukvistur er á framhlið en langur kvistur með flötu þaki á bakhlið. Sá kvistur er það sem ég kalla hornstæður að sunnanverðu, þ.e. kvistur nær að suðurgafli hússins og raunar er risinu því lyft að hluta að aftanverðu. Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir en á kjallara er múr með áferð sem ég hef líkt við krem á djöflatertu en mér skilst að kallist spænskur múr. Krosspóstar eru í gluggum en margskiptir póstar í kjallaragluggum. Hólabraut 17 er reisulegt hús og í góðu standi og er talið hafa nokkurt varðveislugildi skv. Húsakönnun. Húsið er h.u.b. óbreytt frá upprunalegri gerð en kvistur bakatil er á upprunalegum teikningum. Það myndar skemmtilega tvennd ásamt húsi nr. 15, en um er að ræða tvö reisuleg steinhús frá fyrri hluta 4.áratugarins. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þ. 15.sept. 2015.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 700, 20.5.1933.

Varðveitt á Héraðskjalasafninu á Akureyri.

Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf

 

Svona líta Hólabraut 15 og 17 út að vestanverðu (þ.e. bakhliðir). Hér er horft frá Brekkugötu, rétt norðan við Amtsbókasafnið. Þessi hús blasa því við mér þegar ég sit á Héraðskjalasafninu að garfa í bókunum Bygginganefndar og fleiri skjölum...Myndin er einnig tekin þ. 15.sept sl.

P9150224

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P8291011
  • IMG 1478
  • IMG 1480
  • IMG 1476
  • IMG 1479

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 417032

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband