Hús dagsins: Oddeyrargata 28

Þorsteinn Thorlacius bóksali fékk þann 17.sept. 1928 leyfi til að reisa hús á lóð sinni, einlyft steinhús á kjallara, háu risi og með útskotum. P3050341Ummál hússins 10,6x8,3m. Á þessum 619.fundi Bygginganefndar voru gefin út byggingarleyfi fyrir alls fimm húsum, sem er nokkuð “afkastamikið” og raunar svo, að það rataði í blöð. Hér segir frá því, í Verkamanninum þann 22.september 1928, að byggingarleyfi hafi verið veitt m.a. til Þorsteins Thorlacius og Elínar Einarsdóttur, sem bæði byggja við Oddeyrargötu. Sá fyrrnefndi byggði á nr. 28, en lóðina fékk hann vorið 1927.

Húsið er einlyft steinsteypuhús á kjallara með háu risi og “sett af kvistum” að framan og aftan, þ.e. stórum hornkvisti og smærri kvisti á þekju. Mjótt dyraskýli er á miðri framhlið og steyptar tröppur upp að því, og á norðurhorni framhliðar útbygging eða sólskáli. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Húsið er byggt sem íbúðarhús, einbýli en líkt og gekk og gerðist á fyrri helmingi 20.aldar voru einstaka herbergi leigð út og mögulega margar fjölskyldur eða einstaklingar búsettir í húsinu á sama tíma. Í húsinu bjuggu lengi Valgarður Stefánsson frá Fagraskógi, bróðir Davíðs skálds, heildsali og kona hans Guðmundína Stefánsdóttir. Húsið er eilítið breytt frá upprunalegri gerð, skálinn á norðausturhorni er síðari tíma viðbygging, og kvistum á þekju var bætt á húsið um 1979, eftir teikningum Guðmundar Sigurðssonar . Oddeyrargata 28 er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það er í Húsakönnun 2015 sagt hluti af heild klassískra húsa sem saman hafa varðveislugildi en þessi húsaröð við Oddeyrargötuna er einstaklega smekkleg. Þá er það sammerkt með þessum reisulegu húsum, að þau standa á stórum og gróskumiklum lóðum sem skarta miklum trjágróðri- og þar er Oddeyrargata 28 engin undantekning.  Myndin er tekin þann 5.mars 2016. 

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 619. 17. sept. 1928. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu hús á Akureyri árið 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 422
  • Frá upphafi: 417791

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 235
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband