Hús dagsins: Hrafnagilsstræti 6

Ég tók upp þá "vinnureglu" í fyrra eða hitteðfyrra að taka hús við ákveðnar götur fyrir í númeraröð. Mér þótti það hinsvegar lítt spennandi til lengdar og tek ég þau nú fyrir  tilviljunarkennt, líkt og árin þar áður. Ég held mig þó við Oddeyrargötuna og Hrafnagilsstrætið að mestu þessar vikurnar. Það er auðvitað þægilegra að hafa færslurnar í húsnúmeraröð - en hins vegar mun ég væntanlega taka saman yfirlitsfærslu með tenglum um flestallar þær götur sem ég hef fjallað um. Nú berum við niður við Hrafnagilsstrætið...

Á Hrafnagilsstræti 6 stendur veglegt steinhús í funkisstíl, en það byggði Hermann Stefánsson íþróttakennari árið 1933. P5180331Það er í hópi fyrstu húsa á Akureyri sem byggð eru í funkisstíl og [...] byggt á mörkum þess tíma þegar funksjónalisminn var að ryðja sér til rúms var að taka við af klassík sem byggingarlist (Hanna Rósa Sveinsdóttir, 2016: 66). Það er mögulega táknrænt, að upphaflega stóð til að húsið yrði ein hæð á háum kjallara og með háu risi, ekki ósvipað húsum nr. 4, 8 og 10. Hermanni var veitt leyfi sumarið 1932 til að reisa hús í þeim stíl en rúmu ári síðar sækir hann um leyfi til breytinga á útliti hússins, þ.e. það verði tvær hæðir á kjallara. Til þess að svo mætti verða, þurfti að sækja um undanþágu til skipulagsnefndar. Þegar Bygginganefnd kom aftur saman á fundi þremur vikum síðar var eftirfarandi bókun skráð “ Skipulagsnefnd veitir Hermanni Stefánssyni undanþágu að byggja hús samkvæmt framlagðri teikningu er sýnir flatt þak, að því tilskildu að þakloftið verði steypt með mjórri þakbrún eða engri og hæð þess frá götu verði ekki yfir 7m” (Bygg.nefnd Akureyrar, 16.9.1933: nr.707) Hermann varð einnig að senda inn nýjan uppdrátt. Ekki er ólíklegt, að það sé uppdrátturinn sem aðgengilegur er á Landupplýsingakerfinu Hann sýnir legu hússins á horni Hrafnagilsstrætis og Bæjarstrætis (sem síðar hlaut nafnið Laugargata) og afstöðu herbergja; á neðri hæð voru stofur og eldhús en á efri hæð svefnstofur og gengt út á svalir úr einni þeirra, og baðherbergi eða “bað og wc” eins og það kallast á teikningum.

Hrafnagilsstræti 6 mætti lýsa sem tvílyftu steinsteypuhúsi á háum kjallara með flötu þaki. Þó er á húsinu aflíðandi valmaþak, mögulega hugsað til að snjór eða úrkoma eigi greiða leið af þakfleti. P5180330Algjörlega flöt þök eru nefnilega alls ekki þau sem henta best íslensku veðurlagi; á norðlenskum vetrum getur snjófarg numið mörgum tonnum á 70-100 fermetra flötum, að ekki sé minnst á herlegheitin þegar hlánar og/eða vorar. Bárujárn er á þaki en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum, forstofubygging er á austurhlið og steyptar tröppur upp að dyrum. Svalir eru til suðurs og vesturs á efri hæð. Helstu einkenni funkisstefnunar hér, horngluggarnir, eru á sínum stað og eru þeir á austur og vesturhornum, mót suðri. Húsið tengist bílskúr sem stendur norðan við með einlyftri byggingu. Húsið er allt hið glæsilegasta að sjá og í mjög góðri hirðu. Sem hornhús nýtur það sín vel úr hvorri götunni og lóðin er einnig vel gróin og snyrtileg. Fyrr á þessu ári var gefin út Húsakönnun fyrir hinn svokallaða MA-reit. Þar er húsið metið með mjög hátt varðveislugildi, 7.stig, m.a. sem eitt hinna fyrstu funkishúsa á Akureyri. Meðfylgjandi myndir tók ég á góðviðrisdegi sl. Vor, þ.e. Þann 18.maí og sýna þær húsið annars vesturhlið hússins, er snýr að Laugargötu, annars vegar og framhlið (Hrafnagilsstrætishliðina) hins vegar. Sú hlið snýr mót suðri.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 680- 8.ágúst 1932,nr.706- 26.ág. 1933,nr.707- 16.sept 1933.

Óútgefið, óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 766
  • Frá upphafi: 419902

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 604
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband