Hús dagsins: Oddeyrargata 26

Oddeyrargata 26 var byggð árið 1926 eftir teikningum Tryggva JónatanssonarP8200444Síðla vetrar 1926 fær Þorsteinn Davíðsson “garfari” leigða lóð við vestan Oddeyrargötu við fyrirhugaða þvergötu, beint upp af húsi Einars J. Reynis.
Fyrirhuguð þvergata mun vera Hamarstígur, sem liggur upp og vestur frá Oddeyrargötuna upp á Brekku. Ekki fylgir sögunni hvert umrætt hús Einars J. Reynis er og ekki náði ég að ráða í það út frá aðgengilegum heimildum. Þorsteinn fékk að reisa þarna steinsteypt íbúðarhús á háum kjallara og kvisti, 8,5x8,5m að ummáli.

Oddeyrargata 26 stendur á suðurhorni Oddeyrargötu og Hamarstígs. Það er einlyft steinhús á kjallara með háu risi og stórum hornkvisti og bogadregnu útskoti með lauklaga þaki (sk. Karnap) neðan við kvistinn. Inngangur er á suðurstafni og á bakhlið en einnig á kjallara norðan þ.e. Hamarstígsmegin. Bárjárn er á þaki en einfaldir póstar í gluggum. Húsið er nokkuð skreytt m.a. með múrhleðslumunstri á hornum og steypta ramma yfir gluggum (e.t.v. mætti kalla svona gluggaumbúnað “augabrúnir”). Af upprunalegum teikningum hússins má ráða, að þar hafi í upphafi verið þrjár íbúðir, á hverri hæð er a.m.k. eldhús. Það rímar ágætlega við þá staðreynd, að árið 1930 búa þarna þrjár fjölskyldur eða 19 manns. Teikningar virðast ekki ná yfir allan kjallara- aðeins þann hluta sem eldhús er og herbergi. Af teikningunum má einnig ráða, að húsið virðist að mestu óbreytt frá upphafi- nema hvað gluggapóstum hefur verið breytt og teikningarnar sýna skífuklæðningu á þaki. Húsið er enn íbúðarhús og er nú einbýlishús skv. P2210308Fasteignaskrá. Það er í mjög góðri, var málað sumarið 2016, og lítur vel út. Það sómir sér vel á horninu, enda lítur það vel út á alla kanta. Það er skv. Húsakönnun 2015 talið hafa varðveislugildi sem hluti þessarar raðar klassísku steinhúsa við ofanverða Oddeyrargötuna.

Húsið er mjög skrautlegt, útskotið og hleðslumunstur á hornum gefa því sérstakan svip.
 Lóðin er einnig vel hirt og gróin birki- og reynitrjám og á mörkum hennar snyrtilegur stein- og járnveggur sem setur ekki síður skemmtilegan svip á umhverfið. Myndirnar eru teknar annars vegar 21.febrúar og 20. ágúst 2016. Það er nú svo, að myndirnar koma fyrst og síðan koma skrifin. Ef hús er máluð að utan í millitíðinni þykir mér annað ekki tilhlýðilegt en að taka nýja mynd og það gerði ég einnig í þessu tilfelli.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 583, 10.apríl 1926.

Manntal á Akureyri 1930.

Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_0685
  • IMG_0776
  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 158
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 689
  • Frá upphafi: 419631

Annað

  • Innlit í dag: 141
  • Innlit sl. viku: 572
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 136

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband