Hús dagsins: Oddeyrargata 23

Friðgeir H. Berg fær leigða lóð í ársbyrjun 1926 og byggingaleyfi mánuði síðar. P3050337Hann fær leyfi til að reisa einlyft hús, steinsteypt með porti og kvisti, að ummáli 8,75x7,53, og ári síðar mun húsið fullbyggt. Skráð byggingarár þess er alltént 1927. Höfundur hússins er ókunnur, enda virðast teikningar ekki hafa varðveist- þær eru alltént ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi Akureyrarbæjar. Ef sá sem þetta ritar ætti að giska þættu mér Tryggvi Jónatansson eða Halldór Halldórsson e.t.v. líkleg nöfn.

Oddeyrargata 23 er einlyft steinsteypuhús á háum grunni og með háu risi. Miðjukvistur er á framhlið og annar smærri kvistur á bakhlið. Aðkoma er að húsinu að þeirri hlið frá Bjarmastíg, en húsið stendur á horni gatnanna- og er efsta húsið við austanverða Oddeyrargötu. Á norðurhlið er forstofubygging með valmaþaki. Bárujárn er á þaki hússins og í gluggum þrískipt efra fag, lárétt en neðri hlutar með lóðréttum pósti í miðju. Árið 1933 er Valdemar Antonsson orðinn eigandi hússins skv. Jónsbók, en meðal íbúa hússins árið 1930 var Jón J. Bergdal. Hér má auglýsingu frá honum, þar sem hann auglýsir iðju sína, en hann stundaði bókband. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, lengst af einbýli, en í kjallara hússins var um tíma starfandi auglýsingastofa. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi, a.m.k. að ytra byrði. Það er af mjög algengri gerð steinsteypuhúsa frá 3. og 4.áratug 20.aldar, steinsteypuklassík. Það svipar nokkuð til húsanna handan götunnar, Oddeyrargötu 30 og 32 og þetta húsalag var heldur ekki óalgengt til sveita. þ.e. Steinhús á einni hæð á háum kjallara og með háu risi og miðjukvisti. Húsið lítur vel út og er í góðri hirðu og nýtur sín vel á stórri og gróinni lóð, hvort sem horft er frá Bjarmastíg eða Oddeyrargötu. Myndin er tekin þann 5.mars 2016.

 

Heimildir: 

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. Handrit Jóns Sveinssonar bæjarstjóra um lóðaúthlutanir og byggingar á Akureyri til ársins 1933.

Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 625
  • Frá upphafi: 419716

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband