Hús dagsins: Syðstahús; Sibbukofi (stóð við Aðalstræti 82)

Ég hef ýmis viðmið í skrifunum hér á þessari síðu, en fæst eru þau án undantekninga.P1140484 Eitt er, að ég tek yfirleitt fyrir hús sem ég hef sjálfur myndað og standa enn. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að hafa séð húsin sem ég skrifa- og að þeir sem eigi leið um götur Akureyrar geti séð húsin- og e.t.v. flett þeim upp hér gegn um snjallsíma. Húsið sem ég tek fyrir núna hef ég auðvitað aldrei séð berum augum; það var rifið litlum 36 árum áður en ég fæddist. En sl. sumar skrifaði ég hér um Barð, sögufrægt horfið hús og í kjölfarið gerðist ég áhugasamur að skrifa um síðasta torfbæinn á Akureyri, sem kallaður var Sibbukofi eða Syðstahús. Hann stóð við Aðalstræti 82 en þar stendur nú reisulegt steinhús- sem ég hyggst taka fyrir í næstu færslu.

Upprunasaga torfbæjarins á Aðalstræti 82 (hér eftir Syðstahús, eða Sibbukofi)
er nokkuð óljós- eins og gjarnt er með hús frá miðri 19.öld eða þaðan af fyrr. Í Fasteignamati 1918 er byggingarár hússins sagt vera 1862 – stofnár Akureyrarkaupstaðar- en þegar Bygginganefnd tók til starfa fimm árum áður var bærinn þegar byggður. Þannig að Syðstahús eða elstu hluti hans var byggður fyrir 1857. Bæinn reisti Jón Tómasson, en hann var faðir Sigurbjargar Jónsdóttur eða Sibbu sem bærinn var jafnan kenndur við í seinni tíð. Bærinn var sá syðsti í Fjörunni og var því kallaður Syðstahús. Í Jónsbók er eina færslan um Aðalstræti 82 sú, að 23.júní 1908 fái Sigurbjörg Jónsdóttir leyfi til að reisa bakhús úr steinsteyptan skúr bak við torfbæinn sem þar stendur. Í Fasteignamati 1918 er húsinu lýst sem torfbæ með framþili, 8,3x6,3m að stærð, ein stofa og eldhús, byggt 1862 [sem áður segir hér]. Bakhús úr steini 5x3,5m sagt nýlegt. Þar mun líklega kominn steinsteypti skúrinn frá 1908. Á bls. 51 í bók Steindórs Steindórssonar, Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðus, má finna nokkuð ítarlega lýsingu á Syðstahúsi, skráða af Þóri Sigurðssyni, Gefum honum orðið:

Það [Syðstahús] var torfbær með risi. Gaflar voru úr timbri klæddir tjörupappa. Þakbrúnir á stöfnum voru hvítmálaðar þær skornar þar sem veggir byrjuðu og þar sett lóðrétt hvítmáluð borð til að skera stafnana glöggt frá borði. Veggir og þak var grasi gróið. Í norðurenda var eldhús með glugga á gaflinum sem bar inn daufa birtu (Steindór Steindórsson 1993: 51)

Á ljósmyndum má sjá að á suðurgafli hafa verið tveir sexrúðugluggar og inngangur fyrir miðju og fjórar smárúður yfir inngöngudyrum, sem voru rammaðar inn með timburþili með rislaga toppi. Skorsteinn hússins var fenginn með tunnu sem tyrft var að, en ekki fylgir sögunni hvort þar hafi ævinlega verið um að ræða sömu tunnu þessa tæpu öld sem húsið stóð, eða hvort henni var skipt út eftir þörfum. Húsið var sem áður segir 8,3x6,3m þ.e. um 55 fermetrar að utanmáli, en fram kemur síðar í lýsingunni hér að ofan að eldhúsið hafi verið helmingur jarðhæðarinnar og “einn geymur upp í rjáfur”. Þannig að rishæðin náði aðeins yfir helming hússins, þ.e.a.s. Yfir stofunni, sem þiljuð var í hólf og gólf. Á eldhúsi var hins vegar moldargólf en grjóthellur að hluta- líkt og í forstofu. Alla tíð var Syðstahús í eigu og ábúð sömu fjölskyldu, en Sigurbjörg eða Sibba sem kofinn var löngum kenndur við í daglegu tali ól þarna allan sinn aldur (1862-1944) en maður hennar hét Sigurður Jónsson. Sigurbjörg og Sigurður voru annáluð fyrir gestrisni og greiðvikni en húsið var vinsæll áningarstaður ferðalanga á leið til og frá Akureyri, enda fyrsta húsið sem heilsaði gestum bæjarins sem þangað komu framan úr Eyjafirði eða yfir Vaðlana. Einhverjar skepnur höfðu þau en Syðstahúsið var aldrei neitt stórbýli.

Myndin sem fylgir færslunni er vatnslitamynd á pappír. Henni snaraði ég fram laugardagskvöld nokkurt sumarið 2016 undir ljúfum tónum í boði Guðna Más Henningssonar á Næturvakt Rásar 2. Þar hafði ég til hliðsjónar ljósmynd sem finna má í áðurnefndri bók Steindórs Steindórssonar. Hér er hins vegar hægt að sjá mynd af líkani listakonunnar Elísabetar Geirmundsdóttur af Syðstahúsi og hér er hægt að sjá mynd af áðurnefndum heiðurshjónum Sigurbjörgu og Sigurði framan við húsið. Hvað varð um Syðstahúsið eftir andlát Sigurbjargar fer fáum sögum af. Hún lést 1944, þá orðin ekkja, en Sigurður lést 1936. Líkast til hefur bærinn farið í eyði en hann var rifinn fimm árum síðar eða 1949. Þar með hvarf síðasti torfbærinn sem eftir var á Akureyri. Líkast til hefur ástand hússins ekki verið beysið, það mögulega orðið ónýtt og þótti e.t.v. ekki merkilegt. Enda skal haft í huga, að á þeim tíma var enn búið í torfbæjum víða um sveitir. Það er ég hins vegar nokkuð viss um að ef Syðstahús eða sambærilegur torfbær stæði enn í dag dytti fáum í hug að rífa slíkt hús, heldur væri honum þvert á móti haldið við og hann varðveittur. Það skyldi maður a.m.k. ætla...

P5140010

 Á þessum slóðum stóð Syðstahús eða Sibbukofi, en bakvið grenitrjáastóðið sem var aðalmyndefnið þegar þessi mynd var tekin sér í núverandi hús á Aðalstræti 82, steinhús frá 1951. Það hús tek ég fyrir í næstu færslu. Myndin er tekin á Uppstigningadag 2015, en svo til, að hann bar upp á afmælisdag Sigurbjargar Jónsdóttur í Syðstahúsi, þ.e. 14.maí. Það vissi ég raunar ekki þá. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir

Fasteignamat á Akureyri 1918. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 419890

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 596
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband