Hús dagsins: Munkaþverárstræti 14

 

Í síðari Heimstyrjöld, samþykkti Bandaríkjaþing frumvarp um stofnun sérstakrar kvennadeildar innan hersins; Woman´s Auxilary Army Corps eða WAAC. P5250539Hlutverk kvennanna fólst m.a. í umsjón með fjarskiptatækjum, eldamennska o.s.frv. en ekki bein þátttaka í átökum. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarp um stofnun þessarar herdeildar þann 15.maí 1942 en sama dag fékk Tryggvi Jónatansson leigða lóðina Munkaþverárstræti 14. Tíu dögum síðar fékk Tryggvi leyfi til að reisa hús á lóðinni, 8x8,3m, eina hæð á háum kjallara. Loft og þak skyldi úr steinsteypu en veggir efri hæðar úr r-steini.

Húsið reistu þeir Tryggvi og Jón Guðlaugsson í sameiningu en sumarið 1943 fóru þeir fram á það að lóðin færðist alfarið á nafn hins síðarnefnda. Segir í bókunum Bygginganefndar, að þeir hafi reist húsið í sameiningu en Jón hafi nú “yfirtekið” allt húsið. Hins vegar er það svo, að á raflagnateikningum Eyjólfs Þórarinssonar frá 23.júlí 1942 hefur verið strikað yfir nafn Jóns, og talað um hús Tryggva Jónatanssonar.

Munkaþverárstræti er einlyft steinhús á háum kjallara og með einhalla, aflíðandi þaki. Það er í funkisstíl, með horngluggum og upprunalega með flötu þaki. Perluákast ( stundum kallað “skeljasandur” ) er á veggjum bárujárn á þaki og í gluggum eru einfaldir lóðréttir póstar með skiptum fögum. Inngangar eru m.a. á norðurhlið og yfir tröppum er dyraskýli.

Árið 1974 var þaki hússins breytt úr flötu í einhalla, eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar. Svo skemmtilega vill til, að þeir eru dagsettir 23.júlí 1974 þ.e. réttum 32 árum síðar en áðurnefndar raflagnateikningar. Fékk húsið þá það lag og svipmót sem það nú hefur, en nýja þakinu fylgdi hár og verklegur kantur götumegin.

Sé heimilisfanginu Munkaþverárstræti 14 flett upp á gagnagrunninum timarit.is er elsta heimildin sem þar finnst frá árinu 1957, nánar tiltekið þann 1.febrúar. En þá er þeim félögum í Verkakvennafélaginu Einingu, sem ekki hafa greitt árgjald fyrir árið 1956 bent á að greiða það á skrifstofu félagsins, eða hafa samband við Vilborgu Guðjónsdóttur í Munkaþverárstræti 14. Hún var hér búsett um áratugaskeið, en var mikilvirk í starfi Einingar, sem síðar sameinaðist árið 1963 Verkalýðsfélagi Akureyrar og enn síðar runnu þessi félög saman við félag verksmiðjufólks undir nafninu Eining- Iðja.

Munkaþverárstræti 14 virðist traustlegt og reisulegt hús og er í mjög góðri hirðu. Sama má segja um lóðina, sem er vel gróin og hirt, eins og flestallar lóðirnar í þessu geðþekka hverfi sem neðri hluti Norðurbrekkunnar er. Húsakönnun 2015 setur húsið í varðveisluflokk 1, sem er miðlungs varðveislugildi. Myndin er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 910, 15.maí 1942, nr.911, 25.maí 1942 og nr. 947, 25.júní 1943.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 88
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 697
  • Frá upphafi: 419788

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 555
  • Gestir í dag: 66
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband