Hús dagsins: Geislagata 7; Hótel Norðurland, Hótel Varðborg.

Að reisa fjögurra hæða hótel á Akureyri hafa eflaust þótt stórhuga áform á árum síðari heimstyrjaldar. P1190954En það var í september 1942 sem Karl Friðriksson, útgerðarmaður og veitingamaður, lagði fram leyfi fyrir slíkri byggingu við Geislagötu til Bygginganefndar. Nefndin synjaði umsókn Karls að svo stöddu og bætti auk þess við, að engin skólpveita væri á þessu svæði og skildi hann kosta hana sjálfur (!) Hálfum öðrum mánuði síðar, 23. október 1942 fjallar Bygginganefnd aftur um fyrirhugaða hótelbyggingu Karls. Fellst nefndin á að leyfa bygginguna en frestar fullnaðarleyfi, þar eð hafa þurfi samráð við skipulagsnefnd. Þann 11. desember  veitti Bygginganefnd fullnaðarleyfi fyrir hótelbyggingu. Hafði byggingin lækkað um eina hæð í ferlinu, því leyfið var fyrir byggingu á þremur hæðum, 33x10m auk útbyggingar, 10x12m. Skyldi byggingunni lokið á sex árum. Teikningarnar að húsinu gerði Stefán Reykjalín.

Geislagata 7 er þriggja hæða steinsteypuhús með flötu þaki. Norðausturhorn hússins er hvasst og húsið þannig „hornskakkt“ en norðurhlið þess er samsíða Gránufélagsgötu. Vesturálma hússins er einni hæð lægri, en hún hýsir sýningarsal með mikilli lofthæð og þannig ekki hægt að kalla hana tveggja hæða. Gluggar eru flestir með einföldum lóðréttum póstum og veggir múrhúðaðir, en dúkur á þaki. Svalir eru nokkrar á húsinu, á framhlið og suðurhlið.

Það var hins vegar réttu ári síðar, eða í desember 1943 að Karl auglýsti eftirfarandi í Morgunblaðinu: Hefi opnað nýtt gistihús við Geislagötu 7 Akureyri undir nafninu „Hótel Norðurland“. Kemur þar jafnframt fram, að þar komnir í notkun stórir og rúmgóðir veitingasalir en herbergi verði ekki tilbúin fyrr en síðar um veturinn. Svo skemmtilega vildi til, að salir hótelsins voru tilbúnir í tæka tíð fyrir þrítugsafmæli Karls, 22. desember 1943. Þannig gat hann slegið saman reisugildi hússins og afmælisveislu. Nokkrum dögum áður, 11. desember, réttu ári eftir að Karl hafði fullnaðarleyfi fyrir byggingu hótelsins, hafði Karlakórinn Geysir haldið þar afmælishátíð.   Mikið var skrifað í blöðin um jólaleytið og árslok 1943 um opnun hins veglega hótels. Enda var það aldeilis ekki á hverjum degi sem ný hótel voru tekin í notkun. Í Alþýðumanninum  (sjá tengilinum Karlakórinn Geysi) segir t.d. eftirfarandi: „Neðri hæð hússins er nú fullger og tekin í notkun, en það er stór samkomusalur, um 200 fermetrar að stærð, tvær rúmgóðar kaffistofur, eldhús, fatageymsla, 2 snyrtiherbergi og stórt anddyri. Á efri hæð eiga að verða gistiherbergi, en sú hæð er í smíðum.“

En hver var hinn dugmikli og eljusami Karl Friðriksson sem, fyrir þrítugsafmæli sitt, tókst að reisa eitt af stærstu og veglegri hótelum bæjarins ? Hótel, sem státaði m.a. stærsta samkomusal landsins og er enn þann í dag fullburðug hótelbygging, nærri áttatíu árum síðar. Karl Friðriksson var fæddur á Akureyri árið 1913. Hann var sonur Friðriks Einarssonar, útgerðarmanns frá Fáskrúðsfirði og Halldóra Jónsdóttur sem var frá Sandgerði í Glerárþorpi. Karl var fyrst og fremst útgerðarmaður og hóf þann feril ansi ungur; ellefu ára gamall reri hann til fiskjar á árabát og 13 ára var hann kominn á trillu. (Líkt og alkunna er, tíðkaðist raunar almennt á þessum árum að börn til sjávar og sveita færu ung að vinna). Útgerðin og störf henni tengd var hans aðalstarf alla tíð, en meðfram þeim stundaði hann veitingamennsku og hótelrekstur. Þegar hann reisti Hótel Norðurland hafði hann um skeið rekið Hressingarskálann, veitingaskála sem starfræktur var í bakhúsi við Strandgötu 13. Karl seldi Hótel Norðurland árið 1952 og yfirgaf þá hótel- og veitingareksturinn. Í bili- því, síðar hann rak hann farfuglaheimili ásamt konu sinni, Guðrúnu Fabricius. Karl var yfirverkstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyrar frá 1956- 68 en þá tók hann við stöðu yfirfiskmatsmanns Norðurlands eystra. Karl Friðriksson lést árið 1979.

Árið 1952 keyptu Templarar hótelbygginguna og hugðust koma sér þar upp félagsheimili. Breyttu þeir nafni hótelsins í Hótel Varðborg. Var það rekið undir því nafni vel á fjórða tug ára, en árið 1989 keyptu Ferðaskrifstofa Akureyrar og Flugfélag Norðurlands bygginguna af Templurum. Var nafninu þá breytt í Hótel Norðurland, líkt og það hét í upphafi á árum Karls Friðrikssonar. Í stuttu máli sagt, hefur húsið verið hótel óslitið í 77 ár. Syðst á jarðhæð voru lengi vel veitingastaðir, t.d. Pizza 67 og Bing Dao á 10. áratugnum, síðar aðrir staðir en um 2010 var það rými tekið undir gistirými.  Skömmu eftir að Templarar keyptu húsið breyttu þeir samkomusal hússins í sýningarsal og hófu þar að sýna þar kvikmyndir. Kallaðist það Borgarbíó.  Borgarbíó var formlega tekið í notkun 22. janúar 1956. Nafnið er líklega dregið af Varðborg (?), en um nokkurra ára skeið höfðu templarar rekið bíó í annarri „borg“ á Akureyri, þ.e. Skjaldborg við Hafnarstræti 67. Kallaðist það Skjaldborgarbíó. Sýningarsalurinn var í vesturálmu hússins, þar sem áður var samkomusalur hótelsins. Um miðjan níunda áratuginn var byggt við sýningarsalinn, og sýningarsalirnir þannig orðnir tveir. Í nýbyggingunni, sem snýr að Hólabraut, og telst nr. 12 við þá götu, var einnig anddyri og afgreiðsla kvikmyndahússins. Enn er Borgarbíó starfandi í þessum húsakynnum, og eldri salurinn A-salur en sá yngri er B-salur. Teikningarnar að þeirri byggingu gerði Birgir Ágústsson. Nánar um bíóhúsið í næsta pistli.

Hótel Norðurland er látlaus en glæst og reisuleg bygging og eitt kennileita á svæðinu. Í stórum dráttum er það lítt breytt að ytra byrði en hefur að sjálfsögðu tekið hinum ýmsu breytingum að innan. Í Húsakönnun 2014 er húsið sagt hafa gildi fyrir götumynd Geislagötu en ekki talið að varðveislugildi hússins sé verulegt. Hins vegar gefur auga leið, að hótel og samkomuhús til tæpra 80 ára hljóti að skipa stóran sess í hugum margra, Akureyringa sem og ferðamanna gegnum tíðina, og hafa þó nokkurt gildi þess vegna. Húsið er í mjög góðri hirðu og hefur alla tíð hlotið afbragð viðhald. Sem áður segir er enn hótelrekstur í húsinu, undir hinu upprunalega nafni, Hótel Norðurland og er rekið af Keahótelum. Myndin er tekin þann 19. janúar 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 924, 4. sept. 1942. Fundur nr. 930, 23. okt. 1942. Fundur nr. 933, 11. des. 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll enn og aftur. Ég gisti þarna með foreldrum mínum 1961 eða'62, þá var þetta kallað bindindishótel. En undir vatnsglasi í herberginu lá servíetta sem á stóð Cocktail og myndir af ýmsum tegundum vínglasa. Þetta var nú aldeilis fengur f. stelpu sem safnaði servíettum. Geymdi ég hana vandlega allan tímann austur á landi, og setti svo í safnið þegar heim var komið. Þótti öðrum stelpum þetta einhver sú flottasta servíetta sem sést hafði. Það sem er fyndið er auðvitað að þetta skyldi einmitt vera á hóteli Templara. Svona hef ég hvergi rekist á annars staðar.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 26.7.2020 kl. 18:46

2 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl og blessuð

og takk fyrir þessa skemmtilegu sögu; spaugilegt já, að servíettur hjá TEMPLURUM hafi einmitt verið merktar Cocktail.laughing Þeir hafa mögulega ekki áttað sig á þessari merkingu (eða bara ekkert spáð í þær). Gaman af þessu. 

Kveðja, Arnór.

Arnór Bliki Hallmundsson, 28.7.2020 kl. 10:22

3 identicon

Sæll aftur. Það var nú bara ein svona servíetta þarna, þótt við værum þrjú. Mér dettur í hug að þarna hafi verið að verki herbergisþerna, sem ekki aðhylltist bindindi, að stríða templurunum. Og hún hefur sjálfsagt vitað að flestum stelpum þótti varið í flottar servíettur. Það var nú ekki hægt annað en fatta að þetta voru vínglös, jafnvel þótt fólk skildi ekki orðið.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 28.7.2020 kl. 14:04

4 Smámynd: Arnór Bliki Hallmundsson

Sæl aftur. Góð kenning, það voru auðvitað ekki aðeins "strangtrúað" bindindisfólk sem hafði aðkomu að fyrirtækjum templara. En þetta hefur þá eiginlega verið eins og vinna í happdrætti, að fá þessa einu, að því virðist, sjaldgæfu servíettu.

Arnór Bliki Hallmundsson, 29.7.2020 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 747
  • Frá upphafi: 419883

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 589
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband