Hús dagsins: Gránufélagsgata 49

Oddeyrartangi gengur suðaustur úr Oddeyri. Þar eru að mestu iðnaðar- og verkstæðishús og hafa verið svo frá fornu fari. Raunar frá upphafi byggðar á Oddeyri, en elstu húsin þar eru einmitt hús verslunarfélagsins Gránufélagsins við Strandgötu, byggð 1873. Við það félag er kennd Gránufélagsgata, sem liggur samsíða Strandgötu frá austri til vestur og þverar Oddeyrina allt frá brekkurótum niður að tanga. Á horni götunnar og Laufásgötu standa tvö verkstæðis- og íbúðarhús, og norðan megin er Gránufélagsgata 49.

      Þann 5. maí 1945, tveimur dögum áður en lokum PC290881Seinni Heimstyrjaldar var lýst yfir í Evrópu, heimilaði Bygginganefnd Akureyrar Guðmundi Magnússyni að reisa verksmiðjuhús skv. „meðfylgjandi uppdrætti“. Húsið byggt úr steinsteypu og steinlofti og rishæð. Lóðin var tilgreind 25x40m, 25m meðfram Gránufélagsgötu og 40m meðfram Laufásgötu. Þessi lóðarmörk voru þó með þeim fyrirvara, að yrði ekki „[...] byggt meðfram Laufásgötu fyrir lok árs ´46 fellur norðurhelmingur lóðar aftur til bæjarins endurgjaldslaust.“ (Bygg. nefnd Ak. 1945: nr. 1014). Umræddur uppdráttur virðist ekki aðgengilegur á Landupplýsingakerfi, en þar má sjá járnateikningar, áritaðar af H. Halldórssyni og dagsettar í apríl 1945. Ekki er ólíklegt, að þar sé um að ræða Halldór Halldórsson. Árið 1961 var byggt við húsið til norðurs og árið 1988 var byggt á milli hússins og Laufásgötu 3.

            Gránufélagsgata 49 er tvílyft steinsteypuhús með lágu risi, þ.e. suðurálma en norðurálma er einlyft með skúrþaki. Bárujárn er á veggjum á þaki og einfaldir póstar í gluggum.  

Guðmundur Magnússon reisti húsið sem trésmíðaverkstæði en það hefur hýst hina ýmsu starfsemi gegnum tíðina. En um áratugaskeið voru rekin trésmíðaverkstæði undir hinum ýmsu nöfnum. Fyrstu árin var í húsinu  trésmíðaverkstæði og byggingarvöruverslun, Grótta og árið 1955 er þarna til húsa trésmíðavinnustofan Þór hf. Verkstæðið Þór var starfrækt þarna í um tvo áratugi, en fluttist út á Óseyri, nyrst á Oddeyri, við ósa Glerár, í ársbyrjun. Þá fluttist hingað trésmíðaverkstæðið Þinur. Þá var rafvélaverkstæðið- og verslunin Ljósgjafinn hér til húsa í um tvo áratugi, frá því um 1975 en á tíunda áratugnum var einnig starfrækt hér prentsmiðja, Hlíðarprent.  Svo stiklað sé á stóru, um þau mörgu fyrirtæki og starfsemi sem þetta ágæta hús hefur hýst. Frá tíð Ljósgjafans hafa ýmis rafmagnsverkstæði verið í húsinu, nú er þar fyrirtækið Rafröst.

Húsið var tekið til gagngerra endurbóta fyrir um áratug, klætt bárujárni og er fyrir vikið sem nýtt að sjá og til mikillar prýði í umhverfinu. Síðuhafi veit ekki til þess, að húsið hafi varðveislugildi. Það er hins vegar hluti nokkuð heilsteyptrar torfu iðnaðar- og verkstæðishúsnæðis, frá því um og fyrir miðja síðustu öld. Byggingarnar á þessu svæði eru kannski ekki þær háreistustu, fegurstu eða skrautlegustu, en hafa engu að síður þó nokkurt gildi; þarna liggur óslitin iðnaðar- og atvinnusaga margra áratuga ( og raunar hálfrar annarrar aldar, ef miðað er við upphaf Gránufélagsins). Tvö iðnaðarrými eru í húsinu, annað í syðri hluta og hitt í nyrðri hluta; viðbyggingu frá 1961. Þá hefur löngum verið íbúð á efri hæð, og er enn. Myndin er tekin þann 29. desember 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1014, 5. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Gránufélagsgata 4

Eitt hinna margra stórhýsa sem setja svip sinn á norðanverðan Miðbæinn P8140182(eða sunnanverða efri Oddeyri eftir því hvernig á það er litið) er Gránufélagsgata 4, sem margir þekkja sem JMJ-húsið. Húsið var byggt fyrir Prentsmiðju Björns Jónssonar árið 1945. Var það Karl Jónasson, sem fyrir hönd Prentsmiðjunnar sótti um leyfi til að reisa „prentsmiðju og bókband við Gránufélagsgötu, næst vestan Georgs Jónssonar“. (Þar er væntanlega verið að vísa til Gránufélagsgötu 6, sem var tvílyft steinhús,  rifið um 2004 og hýsti síðustu árin m.a. rakarastofu).  Í bókun bygginganefndar kemur fram, að húsið verði 21,85x16,85m að grunnfleti, byggt úr steinsteypu, gólf og loft steinsteypt en þak úr timbri. Í Húsakönnun 2014 er hönnuður hússins sagður ókunnur en greinarhöfundur telur sig nokkuð örugglega geta greint undirritun Friðjóns Axfjörð á teikningum þeim, er aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu (lesendur geta rýnt í teikninguna á framangreindri slóð).

Gránufélagsgata 4 er tvílyft steinsteypuhús með háu en aflíðandi risi. Á norðausturhorni er smá álma eða útskot á einni hæð. Á suðurhlið er kvistur með hallandi þaki og svalir fyrir honum miðjum, en kvisturinn nær yfir drjúgan hluta þekjunnar. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og ýmis konar póstar í gluggum.  

Prentsmiðja Björns Jónssonar var árið 1945 orðið rótgróið fyrirtæki (stofnað 1852)  og hafði í meira en 60 ár verið starfrækt á neðri hæð Norðurgötu 17 (Steinhúsinu) Það hús reisti Björn Jónsson sem prentsmiðju og íbúðarhús um 1880. Það hús stendur enn og er eina grjóthlaðna húsið á Akureyri svo vitað sé. Úr Norðurgötu flutti prentsmiðjan árið 1943 og var um skamma hríð (1943-46) starfrækt að Hafnarstræti 96 (París), eða þar til Gránufélagsgata 4 reis af grunni. Gránufélagsgata 4 hefur alla tíð hýst verslun og þjónustu, og þegar heimilisfanginu er flett upp í gagnagrunninum timarit.is koma hátt í 3000 niðurstöður. Um miðja 20. Öld, þegar húsið var nýreist voru þarna, auk prentsmiðju Björns Jónssonar  m.a.  Efnalaugin Skírnir, Bókaverzlun Björns Árnasonar og gullsmíðaverkstæði Ásgríms Albertssonar. Prentsmiðjan var starfrækt í húsinu til 1958 en nokkrum árum síðar fluttist Herradeild JMJ í húsið.

Hina valinkunnu og rótgrónu fataverslun, sem fyrir löngu hefur skipað sér stóran sess í hugum Akureyringa og nærsveitarmanna, stofnaði Jón M. Jónsson klæðskeri árið 1956. Var þar um að ræða saumastofu og klæðaverslun og var hún starfrækt fyrstu árin að Glerárgötu 6 (Það hús var rifið fyrir um 40 árum vegna breikkunar Glerárgötu, eitt af mörgum). Árið 1966 fluttist verslunin að Gránufélagsgötu 4 og hefur því verið starfrækt hér í rúma hálfa öld.  Um árabil starfrækti JMJ auk verslunarinnar, fataverksmiðju í húsinu. Enn er verslun JMJ rekin á neðstu hæð hússins en fataverksmiðjan er liðin undir lok fyrir margt löngu.  Á efri hæðum hússins eru skrifstofurými og hefur þar verið ýmis rekstur í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna tattústofu, símaver, útvarpsstöð, vinnustofur, æfingarými hljómsveita o.m.fl. Þá hefur ýmislegt verið starfrækt í viðbyggingu suðaustan á húsinu. Ekki er greinarhöfundi kunnugt um, hvort búið hafi verið í húsinu.

Gránufélagsgata 4 er látlaust en reisulegt hús, mun í stórum dráttum óbreytt frá upprunalegri gerð og í afbragðs góðri hirðu. Húsið er eitt af kennileitum svæðisins og kallast nokkuð skemmtilega á við t.d. Sjallann handan Geislagötunnar og Hótel Norðurland. Í  Húsakönnun 2011 er húsið sagt hafa gildi fyrir götumynd Gránufélagsgötu og Hólabrautar en ekki talið hafa verulegt varðveislugildi. Húsið hefur eflaust töluvert gildi í hugum marga sem aðsetur JMJ um áratugaskeið; þarna hafa t.d. þó nokkrar kynslóðir Akureyringa og nærsveitarmanna fengið sín fermingar- og útskriftarföt. Myndin er tekin þann 14. ágúst 2015.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1018, 26. maí 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 Ómar Ívarsson. 2011. Akureyrarbær Húsakönnun- Laxagata- Hólabraut. X2 Hönnun-Skipulag: Unnið fyrir Akureyrarbæ. Aðgengilegt á vef á slóð http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/laxagata-holabraut-husakonnun-mars-2011.pdf


Brýrnar yfir Eyjafjarðará- í myndum

Síðastliðið sumar var ég viðstaddur vígslu Vesturbrúar, nýjustu brúar á Eyjafjarðará og gerði þeim viðburði skil í lítilli umfjöllun hér. Gat ég þess, að ellefu brýr væru á ánni- svo ég viti til- og taldi þær upp í lok pistilsins. Hér hyggst ég bæta um betur, og birta myndir af brúnum yfir Eyjafjarðará, ásamt upplýsingum um byggingarár, lengd þeirra og fjarlægð frá Akureyri. Athugið að lengdin er einfaldlega fengin með mælingu á kortavef ja.is og skal tekið með góðum fyrirvara. Tvær undantekningar eru þó á því: Í bókinni Sögu Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989 birtast teikningar af Stíflubrú og Hringmelsbrú og kemur lengd þeirra fram þar. En hér eru brýrnar á Eyjafjarðará, frá fremstu til ystu (eða syðstu til nyrstu).

1. Brú við Halldórsstaði. Byggð: 1968*. Lengd um 10m. 45km frá Akureyri. Stysta brúin yfir Eyjafjarðará, og líklega sú eina á einkavegi, en brúin er á heimreiðinna að Halldórsstöðum og Tjörnum.

P8290999

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 29. ágúst 2020)

2. Brú við Vatnsenda. Byggð 1966*. Lengd um 40m. 41km frá Akureyri

P8291004

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 29. ágúst 2020)

3. Hringmelsbrú. Byggð 1933**. Lengd 27m**. 29km frá Akureyri.

P7270910

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 27. júlí 2019)

4. Stíflubrú (Á móts við Möðruvelli). Byggð 1933**. Lengd 45m**. 26km frá Akureyri.

P4230975

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 23. apríl 2020)

5. Reiðbrú við Melgerðismela. Byggð 1998. Lengd um 40m. 25km frá Akureyri.

P8291017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 29. ágúst 2020)

6. Brú á Miðbraut. Byggð 1982. Lengd um 150m. 13,5km frá Akureyri. Lengsta brú á Eyjafjarðará, skv. ónákvæmri mælingu síðuhafa

P4250912

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 25. apríl 2019)

7. Vesturbrú. Byggð 2020. Lengd um 70m. 5km frá miðbæ Akureyrar.

P7010986

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 1. júlí 2020, á vígsludag brúarinnar)

8. "Þverbraut austur". Byggð 1923. Lengd um 70m. 5,5km frá miðbæ Akureyrar.

P9130981

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 13. september 2020)

9."Þverbraut mið" Byggð 1923. Lengd um 55m. 5,2km frá miðbæ Akureyrar.

P9130982

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 13. september 2020)

10. "Þverbraut vestur". Byggð 1923. Lengd um 45m. 5km frá miðbæ Akureyrar.

P8090017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 9. ágúst 2010).

11. Leirubrú. Byggð 1986. Lengd um 130m. 2,5km frá miðbæ Akureyrar. Hluti af Þjóðvegi 1.

P8291019

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

(Mynd tekin 29. ágúst 2020).

Og af því ég hef svo gaman af því, að leika mér með tölfræðilegar upplýsingar, má geta þess að brýrnar 11, sem byggðar eru á bilinu 1923 til 2020 og frá 10-150m langar. Það liggur í augum uppi, að brýrnar eru styttri eftir því sem framar dregur. Brýrnar eru að meðaltali um 60m að lengd og meðalaldur þeirra árið 2020 er 61 ár

 

*,** Heimildir:

*Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

** Hjörtur E. Þórarinsson. 1994. Saga sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu 1874-1989. Akureyri: Héraðsnefnd Eyjafjarðar.

 


Grænagata

Hér eru hús sem ég fjallað um, við Grænugötu, sem staðsett er vestarlega á Oddeyrinni. Þar eru aðeins fjögur hús (tvö þeirra parhús með tveimur númerum), og öll standa þau norðan götunnar. Sunnan götunnar er Eiðsvöllur. En hér eru húsin:

Grænagata 21952
Grænagata 41946
Grænagata 6*1946
Grænagata 81946
Grænagata 10*1946
Grænagata 121962

 

*Hús nr. 6 og 4, sem og 10 og 8 eru "sampistla" þar eð um parhús er að ræða. 

Ef tekið er meðaltal byggingarára húsa við Grænugötu er útkoman 1949,67 eða 1950. Þannig er meðalaldur Grænugötuhúsa árið 2020, 70 ár


Hús dagsins: Grænagata 12

Grænagötu 12 reistu þeir Karl Friðriksson vegaverkstjóri og P8280978Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður eftir teikningum Konráðs Árnasonar.  Munu þeir hafa selt íbúðirnar hverja í sínu lagi til annarra. Vorið 1958 fengu þeir lóðir nr. 12 og 14 við Grænugötu. Segir í Verkamanninum þ. 1. maí 1958, orðrétt:

Grænagata 12 veitt Karli Friðrikssyni vegaverkstj. og Grænagata 14 veitt Valtý Þorsteinssyni útgerðarmanni, með það fyrir augum, að þeir byggi sameiginlega á lóðum þessum sex íbúða hús, þrjár íbúðir hvor. Nokkurt þvarg hefur verið um úthlutun þessara lóða, þar sem hvor um sig, Karl og Valtýr, hafa sótt allfast að fá báðar lóðirnar, en bygginganefnd kaus að fara bil beggja með því að veita hvorum leyfi fyrir byggingu þriggja íbúða.

Niðurstaðan hefur verið að sú, að eitt hús væri reist í stað tveggja en í húsinu eru hins vegar ekki sex íbúðir heldur fimm, þrjár að austanverðu og tvær að vestanverðu. Vesturhluti fyrstu hæðar eru þvottahús og geymslur. Fullbyggt var húsið árið 1962. Hefur íbúðaskipan væntanlega haldist óbreytt frá upphafi.

Grænagata 12 er þrílyft steinsteypuhús með einhalla aflíðandi þaki. Á þaki er bárujárn, veggir múrsléttaðir og einfaldir póstar í gluggum. Stórir „stofugluggar“ til suðurs og svalir við þá. Grænagata 12 er ekki ósvipuð að gerð lögun og fjölbýlishús sem nokkrum árum síðar í Skarðshlíð í Glerárþorpi og í Lundahverfi upp úr 1970, en er öll minni í sniðum. Þar eru blokkirnar margar hverjar með þremur stigagöngum og 7-8 íbúðir í hverjum stigagangi.

Grænagata 12 hefur alla tíð verið fjölbýlishús og h.u.b. óbreytt frá upphaflegri gerð. Fjölmargt heiðursfólk hefur búið þar um lengri eða skemmri tíma þessa tæpu sex áratugi. Á meðal fyrstu íbúa hússins má nefna þau Jón Kr. Níelsson  og Petru Jónsdóttur, bæði fædd og uppalin á Árskógsströnd, hann á Birnunesi en hún m.a. á Stærra- Árskógi. Bjuggu þau hér um árabil, Jón til dánardægurs 1980 og Petra (d. 1993) lengi vel á eftir. Jón rak um árabil húsgagnaverslunina Kjarna við Skipagötu, ásamt Magnúsi Sigurjónssyni bólstrara. Var verslunin í Skipagötu 13, sem löngum var kennt við flóabátinn Drang, en rifið árið 1991.

Húsið er reisulegt og í mjög góðu standi. Þá er lóðin vel gróin og í góðri hirðu, þar er m.a. stórglæsileg nýleg verönd svo fátt eitt sé nefnt og vel hirt og ræktarleg reynitré.  Grænagata 12 og umhverfi þess er til mikillar prýði í umhverfi sínu. Ekki er höfundi kunnugt um, að unnin hafi verið húsakönnun fyrir Grænugötu og varðveislugildi götumyndarinnar eða einstakra húsa metið þannig. Norðurgata 31, næsta hús austan við Grænugötu 1, er hins vegar á könnunarsvæði Húsakönnunar sem unnin var fyrir elsta hluta Oddeyrar fyrir um 30 árum og gefin út á bók og er þar metið með varðveislugildi sem hluti af heild. Það hús tekur raunar einnig þátt í götumynd Grænugötu. Ætli það væri þá bara ekki upplagt, að Grænugötuheildin hlyti varðveislugildi líka... Myndin er tekin þann 28. ágúst 2020.

Heimildir: Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Sjá tengil í texta hér að ofan.


Hús dagsins: Grænagata 8-10

Byggingasamvinnufélagið Garður reisti tvö parhús P8280979 á lóðum við Grænugötu árið 1946, eftir teikningum Sigurðar Hannessonar. Það var á fundi Bygginganefndar 3. maí 1946 að nefndin samþykkti  að heimila félaginu að reisa „hús á lóðunum norðan Grænugötu“. Fram kemur að uppdráttur fylgi, en húsunum er ekki lýst nánar. Húsin urðu tvö, vestra húsið er númer 4 - 6 en eystra nr. 8 - 10.

Grænagata 8 - 10 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum kjallara. Á þaki eru fjórir smákvistir á hvorri hlið og á stöfnum eru steyptar tröppur upp að dyrum. Húsið er klætt steiningarmúr og bárujárn er á þaki.

Grænagata 8 - 10 er byggt sem fjórbýlishús, tvær hæðir og ris  með geymslum í kjallara, en kjallaraherbergi oftar en ekki nýtt til íbúðar. Margir hafa átt þarna heima um lengri eða skemmri tíma. Jón Rögnvaldsson, jafnan kenndur við Fífilgerði, þar sem hann ólst upp og bjó lengst af, garðyrkjufræðingur og frumkvöðull í skógrækt. Jón var fæddur í Grjótárgerði í Fnjóskadal en fluttist barnungur vestur yfir Vaðlaheiðina að Fífilgerði í Kaupangssveit. Jón stofnaði Skógræktarfélag Akureyrar (sem fyrst nefndist Skógræktarfélag Íslands) árið 1930 og var forstöðumaður Lystigarðsins varð hann árið 1953. Lyfti hann þar miklu grettistaki í uppbyggingu garðsins og kom m.a. upp yfirgripsmiklu plöntusafni. Hlaut hann Fálkaorðuna árið 1963 fyrir ötult ævistarf í skógrækt og garðyrkju. Jón Rögnvaldsson lést 1972.

Grænagata 8 – 10 er reisulegt hús og í góðu standi, að mestu óbreytt frá upphaflegri gerð. Húsið myndar skemmtilega heild ásamt systurhúsi sínu vestan við. Stutt en heilsteypt götumynd Grænugötu er ein af umgjörðunum um skrúðgarð Oddeyrar, Eiðsvöll. Einhverju sinni heyrði undirritaður þátttakanda í sögugöngu um Oddeyri hafa það á orði, að Eiðsvöllurinn og göturnar þar í kring væru útlitslega „svolítið eins og vasaútgáfa af Klambratúni í Reykjavík“ (þá kallað Miklatún) og umhverfi þess. Kannski er þar ólíku saman að jafna, en parhúsin Grænagata 4 - 10 eru að mörgu leyti ekki óáþekk húsum nærri Klambratúni t.d. við Miklubraut og Rauðarárstíg. Lóðin er einnig vel hirt og gróin, og mögulega er einhverjar trjáplöntur eða runna að finna, sem skógræktarfrömuðurinn Jón Rögnvaldsson plantaði á sínum tíma.

Ekki hefur verið unnin Húsakönnun fyrir Grænugötu svo síðuhafi viti til, svo honum er ekki kunnugt um, hvort húsið hafi varðveislugildi eður ei. Lesendur geta svosem getið sér til, um hvert álit síðuhafa á mögulegu varðveislugildi Grænugötu 8 – 10- eða Grænugötu í heild er. A.m.k. fjórar íbúðir eru í húsinu.  Myndin er tekin þann 28. ágúst 2020.

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1052, 3. maí 1946. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1125, 11. ágúst 1950. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2020
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 56
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 305
  • Frá upphafi: 451128

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 244
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband