Hús dagsins: Hríseyjargata 17

Hríseyjargötu 17 reistu þau Þorvaldur Sveinn Guðjónsson PB180859og Helga Margrét Sigurjónsdóttir árið 1943. Þorvaldur fékk í desember 1942 lóðina um leið og Snorri Sigfússon, sem nýlega hafði reist hús á Hríseyjargötu 16, afsalaði sér henni. Ekki er getið um byggingarleyfi til handa Þorvaldi eða heldur lýsingu á húsi, en það virðist í upphafi hafa verið svipað Hríseyjargötu 15 sem Oddur Kristjánsson reisti 1942. Þ.e. með útskoti eða forstofubyggingu að framanverðu eftir hálfri hlið hússins, til NA. Fljótt á litið mætti áætla að Hríseyjargata 17 og 15 séu reist eftir sömu teikningu (Guðmundar Gunnarssonar), vegna mikilla líkinda t.d. varðandi útskotið að framan og gluggasetningu. Árið 1977 var byggt við húsið til suðurs, eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar, steinsteypt bygging 4,15x7,30m að stærð. Á sama tíma var einnig byggður bílskúr á NV horn lóðar.   

Hríseyjargata 17 er einlyft steinsteypuhús með valmaþaki og skiptist raunar í tvær álmur, annars vegar upprunalegt hús og hins vegar viðbyggingu til norðurs. Á milli viðbyggingar og útskots að framan er nokkurs konar port og þar eru inngöngudyr. Lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestu gluggum en á suðurálmu er stór og víður gluggi, sem höfundur myndi kalla „stofuglugga“.  Bárujárn er á þaki en veggir múrsléttaðir. Þess má geta, að húsið var innan sömu fjölskyldu í rúm 70 ár en þau Þorvaldur og Helga bjuggu hér fram yfir aldamótin, og raunar allt til síðustu daga en hann lést 2007 og hún 2015. Þorvaldur, sem var fæddur á Enni í Unadal í Skagafirði starfaði allan sinn starfsaldur við netagerð og stofnaði netagerðina Odda ásamt Sigfúsi Baldvinssyni. Hríseyjargata 17 er líkt og nærliggjandi hús, einfalt og látlaust og í góðri hirðu, gluggar og þak virðast t.d. nýleg. Viðbygging fellur vel að húsinu og gefur húsinu sérstakan og skemmtilegan svip. Þá er á lóðarmörkum steyptur kantur með járnavirki, sem er væntanlega upprunalegur en í afbragðs góðri hirðu. Myndin er tekin í einmuna haustblíðu sunnudaginn 18. nóvember 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 933, 11. des 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Hríseyjargata 16

Snemma árs 1942 fékk Snorri Sigfússon verkstjóri lóð og byggingarleyfi við Hríseyjargötu, næst sunnan við Þorgils Baldvinsson, þ.e. Hríseyjargötu 18. PB180853Fékk Snorri leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús, eina hæð á lágum sökkli og með járnklæddu valmaþaki úr timbri, 11,3x9,1m að grunnfleti. Teikningarnar að húsinu gerði Tryggvi Jónatansson. Hríseyjargata 16 er einlyft steinsteypuhús með valmaþaki og á lágum grunni, með hornglugga í anda funkisstefnunar til SV. Á NA horni er lítil bakbygging. Bárujárn er á þaki en lóðréttir þrískipti póstar með láréttu opnanlegu fagi fyrir miðju í gluggum.

Snorri Sigfússon virðist ekki hafa búið hér mörg ár en síðar sama ár og hann fékk leyfi til að byggja þetta hús, afsalar hann sér lóðinni gegnt þessari, þ.e. Hríseyjargötu 17.  Mögulega hugðist hann byggja þar annað hús. Árið 1948 búa í húsinu þau Magnús Jóhannsson skipstjóri og Ragnhildur Ólafsdóttir.  Ýmsir hafa átt húsið og búið hér þessi 76 ár en húsið hefur líkast til alla tíð hlotið gott viðhald. Það er a.m.k. í góðri hirðu, þak virðist t.d. nýlegt. Ein íbúð er í húsinu og hefur verið svo alla tíð. Á lóðarmörkum er steypt girðing með járnavirki, svo sem tíðkaðist á þeim tíma sem húsið er byggt. Eftir því sem ég kemst næst, hefur ekki verið unnin formleg húsakönnun fyrir þennan nyrðri hluta Hríseyjargötu og því liggur varðveislugildi hússins ekki fyrir. En skoðun síðuhafa hefur þegar komið fram, að þessi funkishúsaröð við Hríseyjargötu ætti að hafa varðveislugildi, ásamt með sams konar röð við Ægisgötu. Myndin er tekin þann 18. nóv. 2018.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 896, 6. feb. 1942.  Fundur nr. 898, 20. Feb 1942. Fundur nr. 933, 11. des 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Hríseyjargata 15

Hríseyjargötu 15 reisti Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ árið 1942.PB180850 Hann fékk leyfi til að reisa hús skv. „framlögðum uppdrætti“.  Húsið var byggt úr steinsteypu, 9x10m að grunnfleti auk útskots 6,9x2,0m að austan, með tvöföldum veggjum, þak valmaþak úr timbri, járnklætt. Teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson. Sú lýsing, sem gefin er upp í bókun Byggingarnefndar á að mestu leyti við enn í dag, húsið er einlyft steinsteypuhús með bárujárnsklæddu valmaþaki og lóðréttum gluggapósti. Á framhlið hússins er útskot  og inngöngudyr í kverkinni á milli og framan við hana steyptur pallur með snotru handriði.  Suðvestan við húsið er bílskúr, og mun hann byggður 2006 eftir teikningum Hauks Haraldssonar.  

Oddur Kristjánsson og kona hans, Margrét Jóhannsdóttir frá Bragholti bjuggu hér um áratugaskeið, en hún lést 1968 og hann 1973, en Jóhann sonur þeirra bjó hér allt fram yfir aldamót. Þannig var húsið innan sömu fjölskyldu í yfir 60 ár og hafa þannig ekki verið margir eigendur að þessu 76 ára gamla húsi. Oddur, sem var valinkunnur söngmaður og söng með Karlakórnum Geysi og fyrirrennara hans sem stofnaður var upp úr aldamótum. Oddur, sem fæddur var árið 1883 á Dagverðareyri, segir frá endurminningum í örðu bindi bókaflokksins „Aldnir hafa orðið“. Lýsir hann m.a. byggingu Hríseyjargötu 15, „[...] þá lagði ég hart að mér, var vaktmaður á nóttunni en byggði á daginn, og eiginlega var enginn tími til að sofa fyrr en byggingu var lokið [...] „ (Oddur Kristjánsson (Erlingur Davíðsson) 1973: 74)  Líklega hefur húsinu alla tíð verið vel við haldið en það er sem nýtt að sjá og hefur greinilega nokkuð nýlega hlotið endurbætur s.s. nýtt þak og glugga. Húsið mun að mestu óbreytt frá fyrstu gerð (ytra útlit) og frágangur hússins allur hinn snyrtilegasti og glæstasti. Lóð er gróin og vel hirt og er hún innrömmuð af smekklegri timburgirðingu, sem er í stíl við handrið á palli við inngöngudyr. Ég hef þegar líst því áliti, að ég tel að funkishúsaröðin við norðanverða Hríeyjargötu ætti að hafa varðveislugildi og þar er Hríseyjargata 15 svo sannarlega ekki undanskilin. Myndin er tekin þann 18. nóv. 2018.

 

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 927, 2. okt. 1942. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson. 1973. Aldnir hafa orðið II bindi: Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ. Akureyri: Skjaldborg.


Hús dagsins: Viðarholt í Glerárþorpi; Sunnuhlíð 17.

Gleðilega hátíð kæru lesendur, og til hamingju með 100 ára Fullveldi Íslands. Í tilefni dagsins, þótti mér rétt að taka fyrir hús sem byggt er á Fullveldisárinu 1918. Á Akureyri eru þau ekki mörg en þó má finna eitt í Glerárþorpi. Varðandi byggingarárið treysti ég á grein sem Lárus Zophoníasson bókavörður birti í tímaritinu Súlum árið 1980, en á húsinu sjálfu stendur reyndar 1916. Viðarholt tók  ég raunar fyrir stuttlega árið 2012, en hér er ítarlegri grein: 


Býlið Viðarholt í Glerárþorpi, P6180034sem stendur í krika á milli gatnanna Sunnuhlíðar að sunnan og Steinahlíðar að norðan, og telst nr. 17 við fyrrgreinda götu reistu þau Kristján Þorláksson og Indíana Jóhannsdóttir. Heimildum ber ekki alveg saman um byggingarár, en Lárus Zophoníasson (1980) segir það byggt 1918, en engu að síður stendur 1916 á skilti utan á húsinu. Helsta heimildarit síðuhöfundar, fundargerðir Byggingarnefndar Akureyrar gagnast ekki við upplýsingaöflun um býlin í Glerárþorpi. Þorpið tilheyrði nefnilega Glæsibæjarhreppi til ársins 1954 og komu byggingar þar þ.a.l. ekki inn á borð Byggingarnefndar Akureyrar. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið.

Viðarholt er einlyft  timburhús, ýmist múrhúðað eða klætt bárustáli með lágu risi og á lágum grunni. Á framhlið er lítill inngönguskúr með áföstum tröppum, en hann var byggður við húsið árið 1997 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar.  Bárujárn er á þaki en einfaldir þverpóstar í gluggum.

Elsta heimildin sem gagnasafnið timarit.is finnur um Viðarholt er frá janúar 1920. Þar eru þau Indíana og Kristján í Viðarholti á lista  „ yfir nöfn þeirra, sem hafa gefið til berklahælis hjer norðanlands og geisla-  lækningastofu í sambandi við sjúkrahús Akureyrar.“ (Íslendingur 6.árg. Fylgiblað 30. jan 1920)

Fjölmargir lögðu þessari söfnun lið, en umrætt berklahæli er að sjálfsögðu Kristneshæli, sem reis af grunni sjö árum síðar. Ýmsir hafa búið á Viðarholt þessa öld (a.m.k.) sem það hefur staðið, en húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Í manntali 1920 búa sjö manns á Viðarholti, auk Indíönu og Kristjáns synir hennar, Sigþór og Hannes Júlíus Jóhannssynir, sonur þeirra hjóna Jóhann Valdimar auk Jóhönnu Margrétar Þorsteinsdóttur sem skráð er sem hjú. Þá virðist annar Kristján og sá var Jónsson, hafa búið þarna snemma  á 3. áratugnum en hann lést 1924 og var þá sagður bóndi í Viðarholt. Þannig að mögulega hefur þarna verið tvíbýlt og sjálfsagt hafa búið þarna tvær eða fleiri fjölskyldur samtímis á fyrri hluta 20. aldar. Indíana var mjög virk í störfum kvenfélagsins Baldursbrár, sem stofnað var í Glerárþorpi 1919. Hún var mjög sennilega stofnfélagi þess, þó ekki hafi hún komist á blað þar (sbr. Guðrún Sigurðardóttir 2004: 27) og var virk í félaginu uns þau Kristján fluttust til Akureyrar, en það mun hafa verið 1931. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1935, en Indíana lést daginn eftir 99 ára afmæli sitt, 28. apríl 1968. Árið 1932 auglýsir Steingrímur Sigvaldason býlið til leigu í Íslendingi.  

Á Viðarholti var stundaður búskapur í einhverri mynd áratugum saman en útihús eru þó öll horfin og túnin komin undir byggð. Líklega hafa Viðarholtsbændur gegn um tíðina að mestu stundað fjárbúskap, þeirra á meðal þau Kjartan Sumarliðason og Stella Jónsdóttir, sem hér bjuggu um áratugaskeið, fram yfir aldamót. Bústofn þeirra rataði stundum í Búnaðarritið, svo sem tveggja vetra hrúturinn Nökkvi sem taldist meðal þeirra bestu á Hrútasýningu 1974. Hér segir einnig frá móður Nökkva, Skessu 69-057 á afkvæmasýningu tveimur árum síðar. Þéttbýli tók að byggjast upp í Glerárþorpi fljótlega eftir að þorpið var lagt undir Akureyri 1955 en hverfið sem Viðarholt er nú hluti af byggðist að mestu á 8. og 9. áratug 20. aldar. Hefur þá búskap á Viðarholti væntanlega verið sjálfhætt eftir því sem þéttbýlið nálgaðist. Á síðari hluta níunda áratugarins  var starfrækt þarna trésmiðjan SMK.    Nú er Viðarholt við efri mörk Hlíðahverfis, steinsnar neðan við Hlíðarbraut sem skilur einmitt að Hlíða og Síðuhverfi og telst, sem áður segir standa við Sunnuhlíð 17.

Húsið, sem er einfalt og látlaust, er í mjög góðri hirðu og lítið breytt frá upphafi að ytra byrði. Þá er umhverfi hússins mjög skemmtilegt, lóð stór og gróin og aðkoman að lega hússins ber þess greinilega merki að um fyrrum sveitabæ sé að ræða. Er húsið og umhverfi þess til mikillar prýði í umhverfi sínu. Þegar rætt er um varðveislugildi húsa er það oft sett í samhengi við götumyndir og heildir en í tilfelli Viðarholts, og býla Glerárþorps horfir málið öðruvísi við. Þau mynda auðvitað ekki götumynd hvert með öðru en eru flest öll til mikillar prýði og setja mjög skemmtilegan svip á hverfin þar sem þau standa. Þar er hið aldargamla Viðarholt svo sannarlega engin undantekning.  Ég hef lýst yfir þeirri skoðun að gömlu býlin í Glerárþorpi ætti öll að friða eða að þau hljóti hátt varðveislugildi.  Almennt þykja mér gömul býli í nýrri hverfum stórmerkileg. Myndin af Viðarholti er tekin þann 18. júní 2012.

 

Heimildir: Lárus Zophoníasson. Um upphaf byggðar í Glerárþorpi. Súlur X. Ár (1980). bls. 3-33.

Guðrún Sigurðardóttir (2004). Kvenfélagið Baldursbrá 1919-1999. Akureyri: Kvenfélagið Baldursbrá.

Manntal 1920

Ýmsar heimildir af timarit.is, sjá tengla í texta.


« Fyrri síða

Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Des. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 417801

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 243
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband