Hús dagsins: Grænagata 4-6

Við Grænugötu standa tvö parhús, sem hvort um sig bera tvö númer. P8280977Vestra húsið er Grænagata 4-6, og er vesturhluti hússins nr. 4 og austurhlutinn nr. 6. Húsin reistu Byggingasamvinnufélagið Garður árið 1946 eftir teikningum Sigurðar Hannessonar. Það var á fundi Bygginganefndar 3. maí 1946 að nefndin samþykkti  að heimila félaginu að reisa „hús á lóðunum norðan Grænugötu“. Fram kemur að uppdráttur fylgi, en húsunum er ekki lýst nánar eins og oft tíðkaðist. Téða uppdrætti að húsunum gerði Sigurður Hannesson og þar má sjá skipulagðan sérstakan „Forgarð“ sunnan við húsin. En á þessum árum var orðið vart við tilhneigingu til þess að skipuleggja hús og lóðir í meira mæli með tilliti til sólar og veðurs, t.a.m. að skipuleggja garða eða svæði á lóðum til suðurs.  Það má t.d. sjá þennan mun nokkuð greinilega á hverfinu sunnan Eiðsvallar, þar sem flest húsin standa við götu eða alltént ekki mikið fjær götubrún en fáeina metra. Norðar á Eyrinni, þar sem byggðin er yngri eru húsin almennt lengra inn á lóðum. Síðar, þegar bílaeign varð almennari, urðu bílastæði nauðsynleg á hverri lóð og það hafði einnig áhrif á það, hvar húsin voru staðsett á lóðum.

Grænagata 4-6 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum kjallara. Á þaki eru fjórir smákvistir á hvorri hlið og á stöfnum eru steyptar tröppur upp að dyrum. Áfast tröppum eru inngönguskúrar fyrir kjallara og svalir fyrir efri hæð. Húsið er klætt steiningarmúr og bárujárn er á þaki.

Árið 1950 fengu þeir Jóhannes Jónsson, Friðgeir Sigurbjörnsson, Sigurður L. Pálsson og Jón G. Jónsson, sem væntanlega áttu hver um sig sína íbúð í húsinu,  leyfi til að gera smávægilegar breytingar á húsinu. Fólust þær breytingar í því, að byggja norðan við tröppur, inngönguskúra fyrir kjallara, hlaða handrið úr steini og hlaða skjólvegg við norðanverðar tröppurnar. Að öðru leyti mun húsið næsta lítið breytt frá upphafi, að ytra byrði.

Þegar heimilisföngunum „Grænugötu 4“ og „Grænugötu 6“ er flett upp í gagnagrunninum timarit.is birtast alls 103 niðurstöður, (57 fyrir nr. 4 og 46 fyrir nr. 6). Fyrst er Grænugötu 6 getið í Morgunblaðinu 3. Nóvember 1948, en þá er tilkynnt um silfurbrúðkaupsafmæli þeirra Unnar Sveinsdóttur (ranglega nefnd Guðrún þarna) og Snorra Lárussonar símritara, sem þá voru búsett í húsinu og væntanlega með fyrstu íbúum hússins.  Þau bjuggu þó ekki mörg ár hér en fluttu til Reykjavíkur 1950. Unnur var fædd í Hafnarfirði en Snorri Seyðfirðingur, en bróðir hans var hið valinkunna tónskáld, Ingi T. Lárusson. Margir hafa búið í húsinu þessi rúmu 70 ár og nú eru alls fimm íbúðir í húsinu, tvær í nr. 4 og þrjár nr. 6.

 Húsið er reisulegt og í góðu standi og myndar ákveðna heild ásamt systurhúsi sínu, P8280975Grænugötu 8-10 og stutt en heilsteypt götumynd Grænugötu skemmtileg umgjörð grænu perlu Oddeyrar, Eiðsvallar. Og fyrst minnst er á grænar perlur, má nefna að lóð hússins er mjög gróskumikil, vel hirt og til prýði í umhverfinu.  Mestan svip setur þó geysimikil Alaskaösp, sem er líklega ein sú stærsta á Akureyri, þ.e.a.s. að rúmmáli (hærri aspir eru t.d. við Oddeyrargötu og Bjarmastíg). Öspin er margstofna og króna hennar sérlega mikil og hæðin líkast til um eða yfir 20 metrar. Árið 2005, þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga gaf út bæklinginn Merk tré á Akureyri mældist hæðin 16,5 metrar. (Einhvern tíma hafði greinarhöfundur spurnir af því, að drjúgur hluti aspartrjáa á Akureyri væru afleggjarar af „Grænugötuöspinni“ annars vegar og Hamarstígsöspinni hins vegar. Ekki skal þó neitt fullyrt um það hér). Myndirnar með færslunni eru teknar þann 28. ágúst 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1052, 3. maí 1946. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1125, 11. ágúst 1950. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Grænagata 2

Grænagata

Grænagata er stutt gata sunnarlega og vestarlega á Oddeyrinni. Hún liggur í A-V milli Glerárgötu í vestri og Norðurgötu í austri og er tengir þannig Eyrina við þessa helstu umferðaræð bæjarins. Gatnamót Grænugötu og Glerárgötu eru nokkuð varasöm og hafa þar orðið slys gegn um tíðina, en ökumenn freistast stundum til að þenja sig ótæpilega á tvöföldum akreinum Glerárgötu. Þá hefur það ítrekað gerst, þegar greinarhöfundur á leið þarna yfir, að stansað er á einni akrein en ökumaður á næstu akrein við hliðina geysist áfram eins og ekkert hafi í skorist. Þarna mætti að ósekju koma hringtorg. Fjögur hús, byggð árin 1946-´62 standa við götuna (þar af tvö parhús) og standa þau öll norðan götunnar. Sunnan Grænugötu er sælureiturinn Eiðsvöllur, en auk Grænugötu  afmarkast völlurinn af Eiðsvallagötu í suðri, Norðurgötu í austri og Glerárgötu í vestrar. Grænagata er um 130m á lengd.

Grænagata 2

Árið 1952 fékk Karl Friðriksson yfirverkstjóri lóðina, P8280973ásamt leyfi til að reisa á henni hús, samkvæmt fyrirliggjandi teikningu. Ekki er húsinu lýst nánar í bókun byggingarnefndar, enda e.t.v. ekki talin þörf á því þar eð teikningar lágu fyrir. En umræddar teikningar að húsinu gerði Guðmundur Gunnarsson, og fékk Karl þeim breytt um mánuði eftir að hann hafði hlotið byggingarleyfið, en hafði það ekki áhrif á leyfisveitinguna. Tveimur árum síðar var Karli leyft að reisa bílskúr á lóðinni.

Grænagata 2 er tvílyft steinsteypuhús með háu valmaþaki. Norðurhluti vesturhliðar hússins skagar eilítið fram og í kverkinni suðvestanmegin eru steyptar tröppur og inngöngudyr á efri. Þá eru inndregnar svalir á vesturhlið. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum.

Karl Friðriksson, sem byggði Grænugötu 2, var fæddur á Hvarfi í Víðidal, starfaði lengst af sem brúarsmiður og yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni, eða allt frá 1926 til 1960, á hinum ýmsu stöðum á landinu. Voru á þeim árum unnin mikil þrekvirki í samgöngumannvirkjum á landinu. Karl stýrði einnig uppsetningu sauðfjárveikivarnargirðinga á Norðurlandi á 4. áratugnum. Karl var kvæntur Guðrúnu Hannesdóttur.  Árið 1954 byggðu Karl Friðriksson og Jón B. Jónsson múrarameistari, sem einnig bjó í húsinu, bílskúr norðan við húsið, eftir teikningu þess fyrrnefnda. Karl og Guðrún voru ötul við garðyrkju á lóð sinni og hlutu m.a. verðlaun Fegrunarfélags Akureyrar fyrir fegursta garðinn á Akureyri sumarið 1961. Margir hafa búið í húsinu eftir tíð þeirra Karls og Guðrúnar, sem fluttust til Reykjavíkur á 7. áratugnum. Alla tíð hefur húsið verið tvíbýli.

Grænagata 2 er reisulegt og vel hirt hús og til mikillar prýði íP8280972 umhverfi sínu og sömuleiðis vel gróin og ræktarleg lóðin. Á lóðinni stendur gríðarstór og gróskumikil Alaskaösp, sem Karl og Guðrún hafa væntanlega gróðursett á 6. eða 7. áratug sl. aldar. Öspin er líklega með þeim hærri á Akureyri og giskar sá sem þetta ritar á, að tréð sé um eða yfir 20 metra hátt. Ekki hefur verið unnin Húsakönnun fyrir Grænugötu (svo greinarhöfundur viti til) en trúlega myndi hin stutta en  heildstæða húsaröð við götuna hljóta eitthvert varðveislugildi. Það yrði a.m.k. álit þess sem þetta ritar. Grænagata 2 tekur einnig þátt í götumynd Glerárgötu, fjölförnustu götu bæjarins, standandi á horni þessara tveggja gatna. Meðfygjandi myndir eru teknar 28. ágúst 2020.


Á degi íslenskrar náttúru

Í dag, 16. september, er dagur íslenskrar náttúru. Að því tilefni birti ég hér nokkrar myndir úr "nægtabrunni náttúrunnar". Ég ljósmynda nefnilega ýmislegt annað en hús- þó þau séu fyrirferðarmest á þessum vef hér.

P2030881

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Oftar en ekki eru birtar af plöntum og náttúrufyrirbærum í "sumarsins algræna skrúða" í tilefni þessa dags, en sjálfsagt að gefa fegurð vetrarins gaum líka. Hér er hrímþoka. Myndin er tekin 3. febrúar 2019 og þarna er horft til suðurs frá Torfunefsbryggju.

P8290990

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá hrikaleg klettabelti í fjallinu Tröllshöfða (1029m) framarlega í Eyjafirði. Þarna eru jarðlögin áberandi, líkt og lög í lagtertu (randalín) en hér er um ræða hraunlög sem runnu fyrir milljónum ára, á tímabili sem spannaði hundruð þúsund ára. Síðar gróf ísaldarskriðjökullinn sig í gegn um hraunlögin líkt og risavaxinn skurðgrafa og jarðýta, gróf dali og firði hlóð upp jökulruðningi. Myndin er tekin þann 29. ágúst 2020.

P8260993

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

"Íslenska sauðkindin er einstök náttúruperla". Þessar geðþekku skepnur ganga "villtar" um heiðar og afrétti á sumrin og breyta kjarngóðum gróðrinum í prótein. Bestar eru auðvitað kótilettur í raspi, með brúnni sósu, kartöflum, rauðkáli eða grænum, eða læri/hryggur með framagngreindu meðlæti. Þá klikkar kjötsúpan seint, saltkjötið eða innmaturinn... lambakjötið er einfaldlega algjör eðalfæða. Þessar voru á beit í Vaðlaheiðinni þann 26. ágúst, rétt við gamla þjóðveginn vestanmegin. 

PA050070

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Haustlyng. Kannski má segja að þarna mætist árstíðirnar, haust og vetur, en þarna er rautt lyng og ber innan um nýfallinn snjó. Myndin er tekin 8. október 2013, skammt frá skátaskálanum Valhöll í Vaðlaheiði.

P7280026

Líparítmyndanir í kambinum á milli Súlutinda. Mynd tekin 28. júlí 2014. 

P7240187

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eyrarrós í Grafarlöndum, 24. júlí 2010.

P6130957

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skógarrjóður, neðarlega í Botnsskógi í Eyjafirði, 13. júní 2020.

 

Að lokum óska ég meistara Ómari Ragnarssyni til hamingju með stórafmæli dagsins, með kærum þökkum fyrir þá gleði og fróðleik, sem hann hefur miðlað til landsmanna gegnum áratuginalaughing 


Hús dagsins: Glerárgata 18

Á meðal þess, sem Byggingarnefnd Akureyrar, tók fyrir á fundi sínum þann 23. febrúar P11909911946 var úthlutun tveggja lóða við austanverða Hörgárbraut (sem síðar varð Glerárgata). Syðri lóðina[Glerárgötu 16] fékk Skarphéðinn Guðnason en ytri lóð hlaut Guðrún Þórhallsdóttir. Fjórum mánuðum síðar var Þórhalli Antonssyni, föður Guðrúnar, veitt byggingarleyfi á lóðinni, „að því tilskildu, að rými sé nægt“. Ekki kemur fram nánari lýsing á fyrirhuguðu húsi. En teikningar Þórðar S. Aðalsteinssonar að húsinu munu þá hafa legið fyrir.

Glerárgata 18 er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni, með lágu valmaþaki. Norðurhluti götuhliðar skagar eilítið fram og í kverkinni á milli eru svalir til suðvesturs. Veggir eru múrsléttaðir, bárujárn á þaki og einfaldir, lóðréttir póstar í gluggum.

Þórhallur Antonsson og Guðlaug Jónasdóttir, sem byggðu húsið höfðu áður verið bændur m.a. á Grund og Hrafnagili í Eyjafirði og Völlum í Svarfaðardal. Þórhallur var frá Finnastöðum í Eyjafirði en Guðlaug frá Bakka í Fljótum. Dóttir þeirra, Guðrún, sem fékk lóðina í febrúar 1946,  bjó líkast til ekki lengi í húsinu því árið 1947 fluttist hún til Reykjavíkur í myndlistarnám. Guðrún Þórhallsdóttir mun hafa verið fyrsta konan hérlendis til að ljúka flugprófi. Glerárgata 18 var frá upphafi tvíbýli og munu þau Þórhallur og Guðlaug hafa leigt neðri hæðina. Ef heimilisfanginu er flett upp á timarit.is birtast 45 niðurstöður, þar á meðal frá ljósmyndastofunni Myndveri, sem þarna hafði afgreiðslu snemma á áttunda áratug 20. aldar.  

Glerárgata 18 er reisulegt og traustlegt og í mjög góðri hirðu. Á lóðarmörkum erP8280971 steyptur veggur með járnavirki, sem sömu gerðar og svalahandrið, skemmtilegt samræmi þar. Húsakönnun hefur ekki verið unnin fyrir þetta svæði svo síðuhafi viti til, svo ekki liggur fyrir hvort húsið hafi varðveislugildi. Er það hins vegar persónulegt álit þess sem þetta ritar, að þessi skemmtilega röð steinhúsa frá miðri síðustu öld við fjölförnustu götu bæjarins ætti svo sannarlega skilið einhvers konar varðveislugildi. . Lóðin er gróin og vel hirt og ber þar mest á mjög svo gróskumiklum reynitrjám, silfurreyni og ilmreyni. Eru þau til mikillar prýði í umhverfinu. Ekki er ólíklegt, að tré þessi hafi Guðlaug Jónasdóttir gróðursett á sínum tíma en hún var mjög ötul við ræktun garðsins við húsið.  Myndin af húsinu er tekin 19. janúar 2020 en myndin af reynitrjánum miklu við Glerárgötu 18 er tekin 28. ágúst 2020. 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1941-1948. Fundur nr. 1044, 23. feb. 1946. Fundur nr. 1057, 28. júní 1946. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2020
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_1930
  • IMG_1950
  • IMG_1939
  • IMG_1940 - afrit
  • IMG_1940

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 23
  • Sl. sólarhring: 42
  • Sl. viku: 272
  • Frá upphafi: 451095

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 217
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband