Hús dagsins: Bjarmastígur 2

Snemma árs 2016 tók ég fyrir eldri húsin við Bjarmastíg á Brekkunni, sem vill svo til að bera oddatölunúmer. Nú hyggst ég taka fyrir Bjarmastígshúsin með sléttu númerin. Fyrst er nr. 2.

Vorið 1944, eða 26.maí, rúmum þremur vikum fyrir stofnun Lýðveldisins Íslands á Þingvöllum fékk Eggert St. Melstað, slökkviliðsstjóri,P5250542 leyfi til að reisa hús á tveimur hæðum á kjallara og með valmaþaki á lóð sinni. Lóðina hafði Eggert fengið nokkru fyrr, á horni Bjarmastígs og Oddeyrargötu. Hús Eggert skyldi vera 8,5x8m með útskotum; að sunnaverðu 4,5x1,5m og 4,5x2,05m að norðanverðu. Nyrðra útskot skyldi vera ein hæð á kjallara. Hús Eggerts St. skyldi vera steinsteypt og með steinlofti yfir kjallara og fyrstu hæð. Í mars 1945 voru teikningar Tryggva Jónatanssonar að húsinu samþykktar en þá hafði Eggert fengi leyfi fyrir nokkrum breytingum á húsinu, s.s. varðandi gluggaskipan og auk þess hugðist hann hafa þak flatt í stað valmaþaks. Þá liggja fyrir í bókunum Bygginganefndar nákvæmar lýsingar á veggjaþykkt, en Eggert vildi hafa veggi beggja hæða tvöfalda, þ.a. ytri veggir yrðu 16cm þykkir, innri veggir 9cm og 11cm þykkt tróðhol fyrir reiðing. Allar þessar breytingar voru samþykktar, en kjallaraveggir skyldu nægilega þykkir til að bera umrædda veggi efri hæða. Fullbyggt mun húsið hafa verið 1946 og hefur það alla tíð verið íbúðarhús.

Bjarmastígur 2 er tvílyft steinsteypuhús á kjallara og með flötu, steyptu þaki með þykkum þakkanti. Svalir eru til suðurs á efri en forstofubygging á norðurhlið. Gluggapóstar eru láréttir og flestir gluggar þrískiptar en gluggar neðri hæðar eru flestir breiðari; fjór- og fimmskiptir. Á lóðarmörkum er steyptur kantur að götu, en lóðin er nokkuð stór og mishæðótt. Húsið mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð og er í mjög góðri hirðu.Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin þann 25.maí 2017.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 970, 31.mars 1944, nr. 977 26.maí 1944 og nr. 1007 16.mars 1945. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 

 


Hús dagsins: Grundargata 7

Grundargata er stutt gata á milli Gránufélagsgötu og Strandgötu.PA210691 Á vesturhorninu við Gránufélagsgötu stendur stórbrotið steinsteypuhús, Grundargata 7.

Árið 1920 fékk Sæmundur G. Steinsson byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á horni sunnan Gránufélagsgötu og vestan Grundargötu. Leyfið var veitt m.a. skilyrðum þess efnis að á lóðarmörkum væri eldvarnarveggur. Ekki liggur fyrir hver teiknaði húsið, en á Landupplýsingakerfinu má sjá raflagnateikningar frá 1924 af húsinu. Grundargata 7 er tvílyft steinsteypuhús á háum kjallara en það er e.t.v. álitamál hvort flokka eigi jarðhæð sem kjallara eður ei, þar eð hún er ekki mikið niðurgrafinn. En í húsakönnun Guðnýjar Gerðar og Hjörleifs ( 1995: 95) er Grundargata 7 alltént sögð tvílyft. Húsið er skiptist í raun í tvær álmur. Önnur , sem liggur meðfram Grundargötu, er með lágu risi en sú hlið sem snýr að Gránufélagsgötunni er með einhalla þaki og er eilítið hærri. Bárujárn er á þaki og krosspóstar eru í gluggum og í kverk milli álma eru tröppur og inngangur á fyrir efri hæðar en inngöngudyr fyrir kjallara eru nyrst á Grundargötuhlið. Á suðurstafni er eldvarnarveggur þ.e. gegnheill steyptur veggur án glugga.

Árið 1920 búa tvær fjölskyldur í húsinu, PA210690annars vegar áðurnefndur Sæmundur Steinsson sem titlaður er afhendingamaður, kona hans Magnea Magnúsdóttir og börn þeirra. Hins vegar Stefán Sigurðsson salthússtjóri og ráðskona hans Þórdís Ingimundardóttir og börn hennar. Líklega hafa þau búið hvor á sinni hæð hússins en geymslur eða verkstæði verið í kjallara. Ef flett er í gegn um gangagrunn timarit.is er ekki að sjá neina verslun eða starfsemi auglýsta í húsinu og af því má ráða að húsið hafi fyrst og fremst verið íbúðarhús í gegn um tíðina. Húsið er líkast til lítt breytt frá upphafi í stórum dráttum nema inngönguskúr á bakhlið var gerður 1979. Húsið er í ágætu standi og til mikillar prýði; stórbrotið og sérstakt. Á fyrstu árum steinsteypuhúsa var algengast, að steinhúsin bæru svipmót timburhúsa. Þ.e. ýmist einlyft með háu risi og miðjukvisti og tvílyft með lágu risi. Það er hins vegar ekki tilfellið með Grundargötu 7, því byggingarlag þess er einstakt. Húsið er líklega með fyrstu steinhúsum hér, þar sem farnar voru nýjar leiðir í útliti og gerð. Nú eru þrjár íbúðir í húsinu, ein á hverri hæð, neðsta hæðin hefur nýlega hlotið mikla yfirhalningu. Myndirnar eru teknar á fyrsta dag vetrar, 21.okt. 2017.

 

 

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1902-1920, fundur nr. 476, 19.maí 1920. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri; húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri í samvinnu við Skipulagsdeild Akureyrarbæjar.

Manntal 1920. Óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Brekkugata 12

Brekkugata 12, sem stendur á suðvestanvert á horni Brekkugötu og Oddeyrargötu, á 100 ára afmæli í ár. Ég fjallaði stuttlega um húsið í árdaga þessarar síðu en hér er lengri og ítarlegri pistill. 

 

Brekkugata 12 var reist á vegum slökkviliðs Akureyrar 1917. P9180700Húsið er teiknað og byggt sem slökkvistöð og áhaldageymsla vatnsveitu, eftir teikningum Antons Jónssonar slökkviliðsstjóra. Gera má ráð fyrir, að Anton hafi séð um bygginguna en hann var einnig timburmeistari. Upprunalegar teikningar hafa líkast til ekki varðveist en hér má sjá ódagsettar og óáritaðar raflagnateikningar. Í ágúst 1916 leggur Vatnsveitunefnd til, að húsið sem til geymslu á áhöldum vatnsveitu og slökkviliðs verði reist á lóð bæjarins á horninu austan við Brekkugötu og sunnan Gránufélagsgötu. Í ársbyrjun 1918, þ.e. 8.janúar bókar Vatnsveitunefnd að smíði slökkvitækja- og vatnsveituhúss sé lokið. Í Fasteignamati sama ár er húsinu lýst og það metið og er þar sagt slökkvitækja og íbúðarhús með járnklæddu þaki, einlyft með porti og risi, á kjallara. Stærð 11,6x7,5m. Í húsinu voru 3 geymsluherbergi fyrir slökkvitæki og vatnsveituáhöld en alls 10 íbúðarherbergi á lofti og í kjallara. Þannig hefur neðri hæð hússins verið nýtt fyrir slökkvi- og vatnsveituáhöld. Leigjendur voru þeir Karl Wilhelmsson kaupmaður og Friðrik Sigurgeirsson ökumaður og húsið sagt standa á landleigu bæjarins og hefði enga afmarkaða lóð. Það kann að skýra þá staðreynd, að í bókunum Byggingarnefndar frá árunum 1916-18 er ekki að finna eitt einasta aukatekið orð um þetta hús; bærinn hefur reist húsið á eigin landi og engri lóð úthlutað. Húsið (þá glænýtt) var virt á 16.000 kr. P4190054Í Fasteignamati er húsið sagt nr. 18, en það hefur líklega breyst fljótlega eftir að húsaröðin frá 4-10 fór að byggjast (1923-25).

Húsið er að mestu óbreytt frá upphafi að ytra byrði. Árið 1930 keypti Jón Stefánsson kaupmaður húsið og fluttist slökkviliðið þá í bárujárnsbyggingu við Kaupangsstræti. Líklega var neðri hæð breytt í íbúðarrými um leið. Á 4. og 5.áratugnum starfrækti Eggert Stefánsson þarna heildsöluskrifstofu, en hann hafði m.a. umboð fyrir Efnagerð Reykjavíkur. Húsið stóð lengi vel í þjóðbraut, ef svo mætti segja, en fram yfir miðja 20.öld fór öll umferð til Akureyrar norðanmegin um Brekkugötu.

Brekkugata 12 er einlyft steinsteypuhús með portbyggðu risi og miðjukvisti að framan og smærri kvisti á bakhlið. Það stendur á háum kjallara en lóð er mishæðótt, svo Brekkugötumegin virðist húsið kjallaramegin en frá Hólabraut virðist húsið jafnvel tvílyft. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir og krosspóstar eru í gluggum. Steypt múrhleðslueftirlíking á hornum og á miðjukvisti setur skemmtilegan svip á húsið. Tveir inngangar eru við sitt hvort horn hússins að framanverðu en bakatil er inngangur í kjallara. Þrjár íbúðir munu í húsinu, á hæð og í risi og kjallara. Margir hafa búið þarna þessa öld sem húsið hefur staðið og hefur eigendum og íbúum auðnast að halda húsinu vel við. Það lítur a.m.k. mjög vel út og sömu sögu er að segja af lóð og umhverfi þess. Brekkugötumegin er steypt girðing að lóðarmörkum sem einnig setur skemmtilegan svip. Húsið er í hópi elstu steinsteypuhúsa Akureyrar og ber algengt svipmót timburhúsa (má þar líta til húsa nr. 5, 11 og 15 við sömu götu). Þarna er einnig um að ræða fyrstu slökkvistöð bæjarins, þó húsið hafi raunar aðeins verið áhaldageymsla slökkviliðs. Það var raunar ekki fyrr en löngu síðar (1953 að ný og fullkomin slökkvistöð reis í Geislagötu, að vakt hófst hjá slökkviliði bæjarins. Árið 2014 var unnin Húsakönnun fyrir Miðbæinn (og hluta neðri Brekku). Þar segir að húsið hafi gildi fyrir götumynd Brekkugötu en varðveislugildið sé ekki verulegt umfram önnur nærliggjandi hús. En þess má geta, að umrædd götumynd er sérlega stórfengleg, þar má finna bæði reisuleg stein- og timburhús og gróskumikil tré. Þarna er líka um að ræða fjölfarnar slóðar, “anddyri” Miðbæjarins ef svo mætti segja. Tvær myndir fylgja þessum skrifum, önnur er tekin vorið 2008 en hin þann 18.september 2017.

 

Heimildir: Jón Hjaltason. 2016. “Bærinn brennur”. Akureyri: Völuspá útgáfa.

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. Upplýsingar um upprunasögu húsa á Akureyri, tekið saman 1945-55 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2017
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • P5150358
  • IMG_0082
  • IMG_0081
  • IMG_1520
  • IMG 1494

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 59
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 501
  • Frá upphafi: 419282

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 368
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband