Hús við Gilsbakkaveg

Fyrir rúmum tveimur árum tók ég fyrir nokkur elstu húsin við Gilsbakkaveg en hann liggur, eins og nafnið bendir til, á bakka Grófargils; norðanmegin beint á móti Akureyrarkirkju.  Hús nr. 1-5 eru byggð á fyrstu þremur áratugum 20.aldar, elst þeirra Syðra Melshús sem byggt er 1906, en efri húsin frá 7-15 eru byggð um miðja 20.öld, 1945-55. Þau hús tók ég fyrir nú á sl. vikum. 

Gilsbakkavegur 1 (1923)

Gilsbakkavegur 1a (1935)

Gilsbakkavegur 3; Syðra Melshús (1906)

Gilsbakkavegur 5 (1926)

Gilsbakkavegur 7 (1955)

Gilsbakkavegur 9 (1945)

Gilsbakkavegur 11 (1946)

Gilsbakkavegur 13 (1946)

Gilsbakkavegur 15; Frímúrarahúsið (1946)

Árið 2017 er meðalaldur húsa við Gilsbakkaveg 80,6 ár.

Útreikningar, svona til gamans ;)

94+82+111+91+62+72+(3*71)= 725;

725/9= 80,55556 


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 15; Frímúrarahúsið

Eitt helsta kennileiti á svæðinu ofan Gilsins er hvíta stórhýsið á horninu þar sem mætast Kaupangsstræti, Þingvallastræti, Gilsbakkavegur og Oddeyrargata. Hér er um að ræða hús Frímúrarareglunnar eða Frímúrarahúsið. Sjálfur hef ég (sem allt þykist nú vita um hús og götur á Akureyri) aldrei vitað við hvaða götu húsið stendur, eða einfaldlega ekkert spáð í það.

En sögu þessa húss má rekja til vorsins 1945,PC290773 þegar síðari Heimstyrjöldin síðari var að ljúka, en þann 10.apríl það ár settist Jakob Frímannsson niður við bréfaskriftir. Hann skrifaði Bygginganefnd Akureyrar og falaðist þar, fyrir hönd Frímúrarareglunnar eftir lóðinni á reitnum milli Gilsbakkavegar, Oddagötu og Oddeyrargötu. Nefndin tók erindi hans fyrir á fundi sínum þann 4.júní og lagði til að Frímúrarar fengju lóðina. Þess má geta, að á sama fundi var næsta lóð fyrir neðan afgreidd til Tómasar Björnssonar. Og svo vildi til, að honum var einmitt veitt byggingaleyfi á sama fundi nefndarinnar, og Frímúrarar fengu sitt byggingaleyfi, þ. 12.okt. 1945. En þeir fengu leyfi til að reisa hús, 24x10,5 m að stærð, steinsteypt með járnklæddu eða hellulögðu timburþaki og árið eftir var húsið risið af grunni.  Teikningarnar að húsinu gerði Hörður Bjarnason. Árið 1981 var byggt við húsið til austurs, niður eftir  eftir teikningum Haraldar Bjarnasonar og er húsið síðan tvær álmur, sú eldri snýr N-S. Húsið hefur alla tíð verið heimili Frímúrarareglunnar hér í bæ. Húsið er stórt og veglegt steinhús með háu valmaþaki, með sjö smáum þríhyrndum kvistum og voldugt dyraskýli á steyptum súlum. PC290774Framhlið hússins er samhverf um inngöngudyr og kvist á miðri þekju. Hvoru megin eru þrír ferningslaga, innrammaðar gluggar með níu smáum rúðum og yst kringlóttur gluggi með stjörnupósti á hvorri hæð. Húsið er m.ö.o. allt hið skrautlegasta og viðhald eins og best verður á kosið- húsið virðist traustlegt og sem nýtt að sjá. Ekki kann ég að nefna þann byggingarstíl sem húsið flokkast undir- en skrautlegur er sá stíll og skemmtilegur. Frímúrarahúsið er mikið kennileiti á þessum fjölfarna stað og ber mikið á því, enda umtalsvert stærra en nærliggjandi hús.

Um Frímúrarahúsið segir í Húsakönnun 2014: Hefur gildi fyrir þennan hluta brekkunnar, það er svæðið umhverfis andapollinn þar sem húsið er reislulegt og stendur á áberandi stað og kallast á við sundlaugarbygginguna og íþróttahús Laugagötu ofar í brekkunni.  (Landslag Arkitektastofa 2014:94). Þar er húsið talið hafa varðveislugildi vegna byggingarstíls og staðsetningar. Sá sem þetta ritar getur aldeilis tekið undir það. Myndirnar eru teknar fyrr í dag, 29.des 2017, í heiðríkju og -16° frosti. Efri myndin sýnir framhliðina en neðri mynd sýnir suðurstafn og viðbyggingu, hliðina sem veit að Gilsbakkavegi. 

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1022, 4.júní 1945. Fundur nr. 1034, 12.okt. 1945Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Jólakveðja

PB050712 - Copy

(Myndin er að vísu ekki tekin um jól, heldur síðdegis þ. 5.nóv sl. á Drottningarbraut; horft til norðurs í átt að Miðbænum)


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 13

Fjögur efstu húsin við Gilsbakkaveg eru öll reist árin 1945-46. PB110721Þar er um að ræða þrjú íbúðarhús og stórhýsi Frímúrarareglunnar sem stendur efst á horninu þar sem mætast Gilsbakkavegur, Kaupangsstræti, Þingvallastræti og Oddeyrargata. En efsta íbúðarhúsið á Gilsbakkavegi er hús nr. 13 en það hús reisti Tómas Björnsson kaupmaður árið 1946. Árið áður sótti hann um að fá leigðan hluta Akureyrarbæjar í efstu íbúðarhúsalóðinni við Gilsbakkaveg. En hann hafði þegar tryggt sér þann hluta sem KEA átti í lóðinni. Haustið 1945 var Tómasi leyft að reisa hús á lóðinni, ein hæð með valmaþaki út tré, járnklætt, 11,7m á breidd og 14,5m á lengd. Teikningarnar gerði Guðmundur Gunnarsson, en þær munu ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar sjá raflagnateikningar Haraldar Guðmundssonar frá júlí 1946. En Gilsbakkavegur 13 er einlyft steinsteypuhús með háu valmaþaki og á háum  kjallara. Austarlega á framhlið er kvistur og svalir út af honum. Útskot eru til vesturs og suðurs (austarhluti framhliðar skagar eilítið fram) en steypt verönd og inngöngudyr í horninu mill framskots og suðurhliðar. Þá er einnig bílskúr áfastur austurhlið og svalir ofan á. Einfaldir póstar eru í gluggum hússins og bárujárn á þaki. Húsið var frá upphafi íbúðarhús, en þarna var til heimilis snemma á 7.áratugnum umboðið fyrir Scania vörubíla. Það  starfrækti Árna Árnason. Húsið hefur nýverið hlotið miklar endurbætur og er allt sem nýtt en þó næsta lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Húsið prýðir skemmtileg svalahandrið á kvisti og lóðin er innrömmuð af voldugum steyptum kanti sem myndar vissa heild með húsinu. Á þessum kafla er Gilsbakkavegur mjög brattur og hæðarmismunur lóðar því nokkur milli austurs og vesturs. Kantur þessi er meira en mannhæðar hár austast en e.t.v. 120-30cm vestast. Þá eru á lóðinni gróskumikil reynitré. Nú er starfrækt í húsinu gistiheimili sem kallast Hvítahúsið. Ekki ætti að væsa um þá ferðalanga sem gista hið glæsta hús Gilsbakkaveg 13. Myndin er tekin þ. 11.nóv. 2017.

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1022, 4.júní 1945. Fundur nr. 1034, 12.okt. 1945Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 11

Árið 1945 fengu þeir Jón Guðlaugsson og Árni Jónsson lóð og byggingarleyfi á Gilsbakkavegi.PB110722 Hús þeirra skyldi vera 6,6x14m með þremur útskotum; til suðurs 1x8m, til norðurs 2,75x8,4m og til austurs 1,5x3,9m. Vesturhluti ein hæð en austurhluti tvær, húsið byggt úr steinsteypu með steyptum veggjum, þaki og gólfi og flötu steinþaki. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson, líkt og af húsi nr. 11. Þessi tvö hús voru nokkuð áþekk fyrstu árin, en 9 var breytt töluvert um 1960. 

En lýsingin sem gefin er upp í bókunum Bygginganefndar á í grófum dráttum enn við hús nr. 11. Það er í tveimur álmum, eystri álma tvílyft en vestri einlyft á háum kjallara; húsið byggt á pöllum. Húsið er steinsteypt með flötu þaki, undir áhrifum funkis- þó horngluggana vanti. Þak hússins er flatt og pappaklætt en einfaldir póstar eru í gluggum. Á vesturhluta er stór "stofugluggi".  Vesturálman er nokkuð breiðari til norðurs og austurálman skagar eilítið sunnar; því er lýst sem útskotum í bókunum Bygginganefndar. Þá er forstofubygging með svölum á austurhlið og steyptar tröppur upp að dyrum, en aðrar dyr til suðurs ásamt verönd eru í kverkinni milli húshlutana. Þá eru svaladyr til vesturs á húsinu, út á volduga timburverönd. Húsið  hefur frá upphafi verið íbúðarhús, líklega tvíbýli frá upphafi en þeir Árni og Jón, sem byggðu húsið voru feðgar og var húsið um árabil innan sömu fjölskyldu. Húsið er nánast óbreytt frá upphafi að ytra byrði og segir í Húsakönnun 2014 að ástand þess sé mjög gott. Það er svosem ekki annað að sjá á húsinu, en að svo sé raunin. Lóðin hefur einnig hlotið gagngerar endurbætur, þar eru skemmtileg hlaðin blóma- og trjábeð á lóðarmörkum og hellulagnir auk veranda út timbri. Á lóðinni eru einnig nýleg greni- og furutré, sem eflaust eiga eftir að setja svip sinn á umhverfið seinna meir. Hús og lóð er semsagt til mikillar prýði í skemmtilegri götumynd, sem kallast við sjálfa Akureyrarkirkju handan Grófargilsins. Myndin er tekin þ. 11.nóv 2017. 

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1022, 15.júní 1945. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 9

Tryggvi Jónatansson byggingameistari átti heiðurinn af býsna mörgum húsum á Akureyri áratugina milli 1920-50. PB110720Eitt þeirra er Gilsbakkavegur 9, en hann fékk árið 1945 leyfi til að reisa íbúðarhús á lóð nr.9 við Gilsbakkaveg. Húsið byggt úr steinsteypu og með steinþaki, helmingur ein hæð á kjallara. Stærð 13,2x6m + útskot að sunnan, 1x7,7m. Húsið er tvær álmur, byggt á pöllum sem kallað er, vestri hluti er tvílyftur með háu einhalla þaki til norðurs en eystri hluti ein hæð á háum kjallara, með flötu þaki. Í kverkinni milli álmanna eru inngöngudyr og steyptar svalir til suðurs. Á efri hæð eru einnig inndregnar svalir meðfram allri hæðinni. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn og pappi á þaki en veggir eru múrsléttaðir. Á efstu hæðinni er breiður "stofugluggi" til suðurs. Ekki eru horngluggar á húsinu, þó það sé líkast til undir miklum funkis-áhrifum. Upprunalega var vestri álma lægri, ein hæð án kjallara og flatt þak á öllu húsinu. Það má sjá á raflagnateikningum Sigurðar Helgasonar frá vori 1945, en upprunalegar teikningar Tryggva Jónatanssonar af húsinu eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfinu. Þar má hins vegar finna teikningar af breytingum sem gerðar voru á húsinu um 1960. Þá var byggð efri hæð með háu einhalla þaki ofan á vesturhlutann, og fékk húsið þá núverandi útlit að mestu. Tryggvi Jónatansson bjó þarna ásamt fjölskyldu sinni fyrstu árin. Þarna bjuggu síðar um árabil tvær systur, þær Iðunn og Þóra Sigfúsdætur frá Syðra Kálfsskinni á Árskógsströnd. Iðunn var kjólameistari en Þóra verslunarkona og saman ráku þær klæðaverslunina Rún í Hafnarstræti 106. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og líkast til alltaf hlotið gott viðhald. Það er a.m.k. í mjög góðri hirðu og lítur vel út og sama er að segja af umhverfi þess. Á lóðarmörkum er steyptur veggur með járnavirki, líklega frá upphafi. Lóðin hefur einnig hlotið nokkra yfirhalningu, þar er m.a. nýlegt hellulagt plan. Húsið er nokkuð sérstakt að gerð og setur skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Myndin er tekin þann 11.nóv 2017. 

Heimildir: 

Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.1007, 16.mars 1945. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Hús dagsins: Gilsbakkavegur 7

Gilsbakkaveg 7 reisti Björn Bessason árið 1955. PB110719Hann fékk leyfi til að reisa hús við Gilsbakkaveg skv. meðfylgjandi teikningu, segir í bókunum Bygginganefndar en á þessum tíma virðist það að mestu liðið undir lok, að mál húsa væru gefin upp í Byggingarnefndarfundargerðum, en sú var venjan fram yfir 1940. Mögulega voru teikningar almennt nákvæmari og ítarlegri en áður - eða einfaldlega svo miklu fleiri umsóknir og erindi afgreidd að ekki gafst tími til að tíunda mál og lýsingu á hverju einasta húsi sem sótt var um byggingarleyfi fyrir. En teikninguna gerði Á. Valdemarsson. Gilsbakkavegur 7 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Meginálma hússins snýr N-S en mjórri álma gengur liggur við vesturhlið og í kverkinni á milli eru svalir á efri hæð og verönd á þeirri neðri. Bárujárn er á þaki og gluggar eru flestir breiðir með þrískiptum lóðréttum póstum. Á suðurhlið eru stærri gluggar og utan um þá steyptur rammi sem nær yfir báðar hæðir. Húsið mun vera lítið breytt frá fyrstu gerð, það hefur líkast til alla tíð verið tvíbýlishús með einni íbúð á hvorri hæð. Húsið er nokkuð dæmigert útlits og gerðar fyrir íbúðarhús,  frá þessum tíma. En flestöll hús hafa sín sérkenni og sinn eigin svip, og í tilfelli Gilsbakkavegar 7 er það steypti, upphleypti ramminn utan um stofugluggana. Hann er í dekkri lit en húsið sjálft og mögulega hefur hann ætíð verið það. Í sama lit er einnig steyptur kantur með járnavirki að lóðarmörkum.  Steyptir kantar á borð við þennan eru algengir í eldri hverfum og oft mynda þeir órofa heild með húsum, og ættu hreinlega í einhverjum tilfellum að hafa varðveislugildi ásamt húsum og götumyndum. Húsið mun að mestu óbreytt frá upprunalegri gerð en er engu að síður í mjög góðu standi, og til mikillar prýði í skemmtilegri götumynd Gilsbakkavegar. Myndin er tekin þann 11.nóv 2017.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarbæjar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr.1214, 15.apríl 1955. Óprentað, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf

 


Hús dagsins: Möðruvallastræti 1a (áður Eyrarlandsvegur 14b)

Af Bjarmastígnum, þar sem ég hef verið staddur sl. vikur í húsaumfjölluninni færi ég mig suður yfir Gilið að látlausu og geðþekku timburhúsi skammt sunnan Rósenborgar, áður Barnaskóla Íslands...

 

Eyrarlandsvegur liggur til suðurs og upp á Brekkubrún frá Gilinu eða Grófargili og telst Akureyrarkirkja standa við Eyrarlandsveg. Næsta gata ofan og vestan við heitir PB110723Möðruvallastræti, og liggur hún, líkt og Eyrarlandsvegur, í N-S milli gatnanna Hrafnagilsstrætis í suðri og Skólastígs í norðri. Nyrst við götuna, á milli Möðruvallastrætis 1 og Eyrarlandsvegar 14 stendur lítið og snoturt timburhús. Það taldist lengst af standa við Eyrarlandsveg en er nú Möðruvallastræti 1a. Það er því lang elsta húsið við götuna, því Möðruvallastræti er að mestu byggt á bilinu 1940-50, en húsið er byggt 1919. 

   Fyrsta verk Byggingarnefndar Akureyrar á árinu 1919 var að veita Sigurði Kristinssyni bókbindara leyfi til að reisa hús, 5,6x3,5m að stærð á túni Pálma Jónssonar fyrir ofan Æsustaði. Byggingin var “[...] leyfð með því skilyrði, að skúrbyggingin yrði tekin burtu hvenær sem bygginganefnd eða krefst þess” (Bygg.nefnd AK. 1919: 453) En Æsustaðir þessir eru húsið Eyrarlandsvegur 8. En árið 1919 voru aðeins fáein hús á þessu svæði, og svæðið þaðan sem Akureyrarkirkja er nú og upp að Menntaskólanum var að mestu óbyggt. Æsustöðum fylgdi tún sem metið var á 2300kr í Fasteignamati 1918 og sagt geta fóðrað 30 kindur. Bygging Sigurðar hefur verið risin um vorið sama ár fékk Kristján Helgason leigða lóð, 130 fermetra stóra og leyft þangað húsið sem Sigurður hafði byggt. Ekki er ljóst hvar nákvæmlega húsið hefur staðið upprunalega en líklega hefur það verið eilítið norðar og ofar. En lóðin var afmörkuð sem hér segir: “13 m út og suður og 10m austur og vestur að horninu þar sem mætast girðingar Pálma Jónssonar [Eyrarlandsvegur 8; Æsustaðir] og Sigurðar Hlíðar [ Eyrarlandsvegur 26]. “ Árleg leiga á lóð var 12 kr en stöðuleyfi fyrir húsinu var aðeins til bráðabirgða og skyldi Kristján flytja húsið burtu með litlum fyrirvara, krefðist bærinn þess.

Ári síðar, eða 5.júní 1920 fær Kristján lóðina stækkaði og urðu lóðarmörkin eftirfarandi: Meðfram Eyrarlandsvegi 35, norðurbrún 35m, meðfram Möðruvallastræti 20 og suðurbrún 23m. Lóðin sögð 580 fermetrar og telst þarna standa við Möðruvallastræti. Það hefur líkast til gerst síðar, að húsið teldist Eyrarlandsvegur 14b, því húsið Eyrarlandsvegur 14 var ekki reist fyrr en 1928. Sem áður segir var húsið aðeins 5,6x3,5 í upphafi, líklega aðeins helmingur af núverandi breidd og með einhalla þaki. En í ágúst 1928 fær Kristján að stækka húsið, og fékk þá væntanlega það lag sem það nú hefur. Á teikningum sem áritaðar eru Gunnar Guðl. (líklega um að ræða Gunnar Guðlaugsson, trésmið og skátaleiðtoga) má sjá, að upprunalega hefur húsið verið með einhalla þaki en önnur samskonar álma byggð á breiddina, þ.a. húsið fékk lágt ris. En Möðruvallastræti 1a er einfalt og látlaust einlyft timburhús með lágu risi og á háum kjallara. Húsið er allt bárujárnsklætt og með einföldum þverpóstum í gluggum. Húsið virðist í mjög góðri hirðu og er til prýði í umhverfi sínu. Það lætur lítið yfir sér og er alls ekki áberandi, skemmtilega staðsett á milli tveggja stærri húsa við Eyralandsvegi og Möðruvallastræti. Húsið hefur mest alla tíð verið íbúðarhús, en fyrir um tuttugu árum síðar var hreingernaþjónustan Fjölhreinsun auglýst þarna til húsa. Myndin er tekin þann 11.nóvember 2017 og er horft til suðausturs frá Skólastíg, og bakhliðar húsa við Eyrarlandsveg sjást í baksýn.

 

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-21. Fundir nr. 453, 6.jan 1919, nr. 456, 5.maí 1919, nr. 477, 5.júní 1920.

Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 8.ágúst 1928.

 

Fasteignamat 1918.

Öll ofantalin rit varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Minjasafnið á Akureyri, Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Pdf-skjal á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Des. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 86
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 417794

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 238
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband