Hús dagsins: Munkaþverárstræti 11

 

Búir þú í húsi á Akureyri, sem byggt er á árunum 1920-40, eru dágóðar líkur á því að einn þeirra þriggja hafi teiknað það: Halldór Halldórsson, Sveinbjörn Jónsson eða Tryggvi Jónatansson. P5250523Þessir þrír voru meðal “stærstu nafna” í húsateikninga “bransanum” á þessu árabili og hinn síðast taldi teiknaði og byggði eigið hús á Munkaþverárstræti 11 árið 1930-31. Seint í ágúst 1930 fékk hann lóð sem þeir Friðgeir Sigurbjörnsson og Jóhannes Jónsson höfðu fengið á leigu. Sótti Tryggvi um að fá að byggja steinsteypt íbúðarhús, eina hæð á kjallara með háu risi og kvisti og samþykkti Bygginganefnd bæði leigjendaskipti á lóð og byggingu hússins. Það fylgir að vísu ekki sögunni hvort Tryggvi byggði húsið fyrir sig sjálfan eða í umboði annars , en í Jónsbók (1933) er Ólafur Thorarensen bankastjóri skráður fyrir húsinu.

Munkaþverárstræti 11 er einlyft steinsteypuhús á miðlungsháum kjallara og með háu gaflsneiddu risi og smáum miðjukvisti. Kvisturinn er nokkuð óhefðbundinn í laginu, margstrendur með turnþaki og þremur gluggum, einum á hverri. Lögun kvistsins mætti lýsa sem “hálfum sexhyrningi”. Á bakhlið er stærri kvistur með einhalla, aflíðandi þaki og á norðurhlið hússins er forstofubygging með svölum ofan á. Á bakhlið er bíslag með einhalla þaki en það mun byggt 1963 eftir teikningum Snorra Guðmundssonar. Einfaldir þverpóstar eru í gluggum,sumir með tvískiptu fagi og bárujárn er á þaki.Húsið er teiknað sem einbýlishús og á upprunalegum teikningum má sjá kvistinn góða að framan auk bakkvists og forstofubygginga.

Þarna bjuggu á 4. og 5.áratugnum þau Ólafur Thorarensen bankastjóri og kona hans María Thorarensen. Hún var í hópi forystukvenna í Kvenfélaginu Framtíðinni en hér má sjá auglýsingu frá þeim frá árinu 1935 þar sem þær standa fyrir söfnun fyrir byggingu elliheimilis. Hófst þar löng og ströng vegferð þeirra eljusömu dugnaðarkvenna, sem lauk með vígslu Elliheimilis Akureyrar -nú Dvalarheimilið Hlíð- á 100 ára afmæli Akureyrar 29.ágúst 1962. Elliheimilissjóður þeirra Framtíðarkvenna gegndi í millitíðinni, þ.e. árin 1939-49 þó nokkru hlutverki í byggingu nýs sjúkrahúss svo sem fram kemur hér í Degi í júlí 1950. Þar kemur einnig fram, að þá þegar hafi Elliheimili Akureyrar verið valinn staður ofan nýja sjúkrahússins neðan Þórunnarstrætis. Kúrt Sonnenfeld tannlæknir bjó þarna um áratugaskeið, en hann starfrækti tannlæknastofu í húsinu um miðja 20.öld.

Munkaþverárstræti 11 er stórbrotið og glæsilegt hús. Því er vel haldið við og lítið breytt frá upphaflegri gerð, m.v. upprunalegar teikningar. Gaflsneiðingar og kvisturinn skemmtilegi gefur því sinn sérstaka svip og svo vill til að höfundar Húsakönnunar 2015 eru á sama máli og greinarhöfundur hvað varðar. Lóðin er líka vel hirt og til prýði – eins og húsið sjálft. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin á lognkyrru vorkvöldi, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 651, 25.ágúst 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Þátturinn "Hús dagsins" 8 ára. 8 pistlar um hús nr. 8

Það var þennan dag, 25.júní, árið 2009 sem ég birti mynd af Norðurgötu 17 auk fáeinna orða um sögu hússins undir yfirskriftinni "Hús dagsins". Þá átti ég nokkurt safn af myndum af elstu húsum Akureyrar og ætlaði að fylgja þessu eftir a.m.k. þar til ég væri búinn að afgreiða þær myndir eða bara eins lengi og ég nennti. Ég ætla svosem ekki að rekja söguna á bakvið þetta "hobbý", það hef ég jú gert oftar en einusinni og oftar en tvisvar á þessum vettvangi. Hins vegar ætla ég að birta hérna 8 greinar um hús nr. 8 í tilefni dagsins. Þær eru mis gamlar og mis ítarlegar. Á upphafsárum þessara greina settist ég einfaldlega niður og skrifaði það sem ég mundi þá stundina. Þá þekkti ég hvorki Landupplýsingakerfið né Bygginganefndarfundargerðirna á  Héraðskjalasafninu. Nú fer engin grein á þessa síðu án þess að fram komi

-Byggingarár

- hver byggði

- hönnuður ( ef þekktur)

- stutt lýsing

- upplýsingar um starfsemi eða rekstur sem fór fram í húsi - ef svo var.

Hverri grein fylgir auðvitað heimildaskrá og tenglar sem vísa á teikningar eða heimildarnar sjálfar ef fengnar eru á netinu. Mögulega hafa einhverjir lesendur furðað sig á því, að bakvið tengla í textum birtast aðeins auglýsingasíður áratuga gamalla dagblaða. En þar er ævinlega að finna a.m.k. eina auglýsingu eða tilkynningu þar sem umrætt hús kemur fyrir. Stundum láta þær raunar það lítið yfir sér, að við liggur að gestaþraut sé að finna viðkomandi tilkynningu. 

Greinarnar gætu auðvitað verið miklu ítarlegri- og ég segi stundum að um hvert einasta hús eldra en 80 ára væri hægt að skrifa þriggja binda verk. Ég reyni líka að hafa greinarnar frekar styttri en lengri, koma sem flestum upplýsingum fram í sem stystum texta; hafa þá hnitmiðaða. En "veskú": Hér eru 8 húsapistlar um hús nr. 8 

Aðalstræti 8  Byggt 1929. (birt 24.október 2012)

Spítalavegur 8  Byggt 1903.(birt 26.mars 2012)

Hamarstígur 8  Byggt 1936.(birt 3.maí 2017)

Lundargata 8  Byggt 1898. (birt 13.apríl 2011)

Fjólugata 8   Byggt 1933. (birt 23.ágúst 2015)

Norðurgata 8  Byggt 1933. (birt 5.febrúar 2014)

Brekkugata 8  Byggt 1925. (birt 21.janúar 2013)

Oddeyrargata 8 Byggt 1919. (birt þann 18.október 2016) 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 9

Munkaþverárstræti 9 reisti Gunnar Austfjörð árið 1932, eftir teikningum bróður síns, Ásgeirs Austfjörð. P5250536Gunnar fékk leigða lóð við Munkaþverárstræti vestanvert og var leyft að reisa þar hús, eina hæð á kjallara og með háu risi. Grunnflötur hússins var 8x7,55m. Bygginganefnd fól byggingafulltrúa að útvega fullkomna teikningu af húsinu, áður en mælt skyldi fyrir því en framlögð byggingarlýsing var sögð “ærið ófullkomin”. (Bygg.nefnd.Ak, 674; 21.3.1932). Hvort að þær teikningar sem aðgengilegar eru á Landupplýsingakerfinu séu þær fullkomnu, sem bygginganefnd kallaði eftir, eða þær sem lagðar voru fram til nefndarinnar er óvíst. En eitt er víst, að þær sýna glögglega útlit og herbergjaskipan hússins á skýran hátt. Ári eftir byggingu hússins fékk Gunnar leyfi til að lengja forstofubyggingu til vesturs, og síðar var byggt við húsið að vestanverðu og settur á það kvistur. Ekki er hins vegar vitað hvenær það var; þær framkvæmdir teljast “án árs” í Húsakönnun 2015.

En Munkaþverárstræti 9 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á miðlungsháum kjallara. Á norðurstafni er forstofubygging með svölum ofan á og steyptar tröppur upp að inngangi. Ólíkt flestum húsunum í þessari röð er ekki kvistur á framhlið en á bakhlið er hins vegar kvistur með einhalla, aflíðandi þaki. Krosspóstar eru í flestum gluggum en á forstofu er gluggi með tígli og margbrotnum póstum. Bárujárn er á þaki.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús Gunnar Austfjörð pípulagningameistari, sá er húsið byggði, bjó hér alla sína tíð en hann lést 1981. Húsið er einbýli og hefur líkast til verið alla tíð. Líkt og flest húsin í þessari röð er það í góðu standi og lítur vel út- og sömu sögu er að segja af lóðinni. Gróskumikið og stórt reynitré stendur sunnarlega á lóðinni og er það til mikillar prýði- líkt og húsið. Í Húsakönnun 2015 fær húsið eftirfarandi umsögn: “Húsið stendur reisulegt í röð klassískra húsa sem mynda samstæða heild. Það sómir sér vel í götumyndinni.” (AK.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 161). Sá sem þetta ritar getur ekki annað en tekið undir það. Myndin er tekin að kvöldi sl. Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr.674, 21.mars 1932. Fundur nr. 698, 1.maí 1933.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). 

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 7

Einn íbúa Friðbjarnarhúss, Aðalstrætis 46, í febrúar 1930 var Björn nokkur Axfjörð. P5250533Hann fékk þá útvísaða lóð við Munkaþverárstæti sem þá var við efri mörk þéttbýlis í bænum. Síðsumars fékk hann byggingaleyfi fyrir húsi 7,60x8m einni hæð með háu risi og kjallara út steinsteypu en húsið úr timbri og járnvarið. Björn gerði einnig teikningarnar af húsinu. Skömmu síðar var reist fjós og hlaða á bak við húsið og stendur sú bygging enn. Þess má geta, að Björn fékk byggingaleyfið fyrir Munkaþverárstræti 7 þann 25.ágúst 1930, en þann sama dag fæddist skoski stórleikarinn Sean Connery.

Í upphafi hefur verið húsið átt að vera járnvarið timburhús, en raunin varð sú að húsið var reist úr steinsteypu. Greinarhöfundur velti fyrir sér þeim möguleika að húsið væri forskalað en Manntal 1940 tekur af öll tvímæli um það; þar er húsið skráð sem steinsteypuhús. Munkaþverárstræti 7 er tvílyft steinsteypuhús með háu með stórum hornkvisti að framan en kvisti með einhalla þaki á bakhlið. Á suðurhlið eru svalir á rishæð og segja má að þær séu innbyggða því þekja slútir yfir þær. Svalirnar eru einnig á efri hæð og standa þær á súlum en þær eru tvöfalt lengri en svalir rishæðar, og eru þannig yfirbyggðar til hálfs. Bárujárn er á þaki hússins en krosspóstar í gluggum, nema í kvisti er sexrúðugluggi. Hann er frábrugðinn þeim sexrúðugluggum sem algengir eru, að því leitinu til, að hann er láréttur; þ.e. meiri á breidd en hæð. Á lóðinni stendur einnig einlyft bakhús með háu risi, sambyggð íbúð og bílskúr. Er bílgeymsla í norðurhluta byggingarinnar með stafn til austurs en íbúð í suðurhluta. Krosspóstar eru í gluggum bakhúss og bárujárn á þaki.

Upprunalega var bakhús fjós og hlaða, en Björn Axfjörð virðist hafa stundað einhvern búskap. Árið 1942 býður hann allavega landbúnaðartæki á borð plóg og herfi til sölu, einnig aktygi og reiðinga. (Það þarf þó alls ekki að vera samasemmerki milli þess, og að hann hafi stundað búskap nákvæmlega þarna).

Munkaþverárstræti 7 er glæsilegt hús og í góðu standi, það er raunar sem nýtt en það var að mestu leyti endurbyggt um 1990, kvistur stækkaður og verönd byggð ásamt svölum og þekja lengd til suðurs. Hönnuður þeirra breytinga var Haukur Haraldsson. Bakhús var endurbyggt árið 2008 eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar og er sú framkvæmd geysi vel heppnuð. Ein íbúð er í húsinu og einnig er íbúð í bakhúsi. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi sem hluti húsaraðarinnar og tekur einnig fram, að breytingarnar fari húsinu vel. Lóðin er einnig vel gróin, þar er m.a. mikið grenitré á suðurhluta. En ofan við húsið, bak við lóðina má finna skemmtilegt grænan reit.

 

Eins og greinir hér frá að framan var gegndi bakhús hlutverki fjóss og hlöðu. P5200520Ekki er ólíklegt að skepnur sem íbúar Munkaþverárstrætis 7 héldu, hafi verið beitt á túnblett bak við húsið. Svo skemmtilega vill til, að þessi túnblettur til staðar en á bak við þessa húsaröð, nr. 3-13 er nokkuð stórt grænt svæði sem afmarkast af Munkaþverárstræti í austri, Helgamagrastræti í vestri, Bjarkarstíg í norðri og Hamarstíg í suðri. Samkvæmt lauslegri flatarmálsmælingu undirritaðs á götukorti Landupplýsingakerfisins er svæði þetta um 3500 fermetrar eða 0,35 ha. að stærð. Hvort þessi túnblettur beri nafn veit ég ekki, en tel það svosem ekki ólíklegt og eru allar upplýsingar um slíkt vel þegnar. Á fjórða áratug 20.aldar voru leigðir þarna út kartöflugarðar og mögulega eitthvað lengur. Vorið 1935 fær m.a. Júlíus Davíðsson (Hamarstíg 1) leigt þarna 250 fm ræktarland en næsta garð fengu þeir í félagi Jón Norðfjörð og Sigurður Áskelsson í Oddeyrargötu 10, ömmubróðir greinarhöfundar. Bærinn ákvað ársleigu á görðum þarna 3 krónur en setti garðleigjendum það skilyrði, að þeir skyldu “[...]á brott með allt sitt hafurtask bænum að kostnaðarlausu sé þess krafist.” (Bygg.nefnd.AK. 745; 31.5.1935). Þessi græni unaðsreitur er einnig skemmtilegur útsýnisstaður, en áður hef ég minnst á þennan reit í umfjöllun um hús við Hamarstíg. Hér er mynd sem tekin á fögru vorkvöldi eða vornóttu, skömmu eftir miðnætti 20.maí sl. Myndin af húsinu er hins vegar tekin fimm dögum síðar, á Uppstigningadag, 25.maí 2017.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 642, 17.feb 1930. Fundur nr. 651, 25.ágúst 1930.

Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 745, 31.maí 1935.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal 1940

Þrjár ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar og varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 5

Vorið 1930 hugðist Friðjón Tryggvason,búsettur á Glerárbakka, fá lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, þá þriðju að austan, sunnan frá.P5250524 Erindi Friðjóns tók Bygginganefnd fyrir þann 22.apríl og komst að lagði til að “[...]mönnum sem ekki eru búsettir í bænum sje ekki leigðar lóðir fyrr en sýnt sje að þeir flytji í bæinn og geti reist sómasamleg hús þegar í stað.” (Bygg.nefnd. Ak. nr.646, 22.4.1930).

Enda þótt Glerárbakki stæði rétt norðan Glerár( h.u.b. á móts við verslunarmiðstöðina Glerártorgs í dag) líklega innan við einn kílómetra frá Munkaþverárstræti, stóð bærinn í Glerárþorpi. Og á þeim tíma tilheyrði Glerárþorp Glæsibæjarhreppi; sveitarfélagamörkin lágu um Glerá. En þannig var staðan, utanbæjarmenn fengu ekki byggingarlóðir nema að sýnt þætti að þeir væru í stakk búnir til að byggja (og hananú!). Gilti þá auðvitað einu um hvort þeir byggju 20 metra eða 50 km frá bæjarmörkunum. En mánuði síðar, 21.maí, hefur Bygginganefnd komist að þeirri niðurstöðu að téður umsækjandi geti byggt. Þá er Friðjóni leigð lóðin og byggingarleyfi fékk hann þremur vikum síðar. Fékk hann að reisa íbúðarhús steinsteypt r-steinhús, á einni hæð á kjallara og með porti og risi og miðjukvisti, 8,2x8m að grunnfleti. Teikningar að húsinu gerði Halldór Halldórsson, en hann á ófáar teikningar að Akureyrskum íbúðarhúsum frá þessum tíma.

Sú lýsing sem gefin er upp í byggingarnefndarbókuninni á enn við, húsið er einlyft steinhús með portbyggðu risi og á lágum kjallara og með miðjukvisti. Í gluggum eru krosspóstar á hæð en einfaldir póstar á rishæð og í kjallara og bárujárn er á þaki. Á bakhlið er nokkuð breiður kvistur með einhalla þaki. Þar er um að ræða síðari tíma viðbót- en ekki fylgir sögunni hvenær hann var byggður.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús. Hér er það auglýst til sölu árið 1947 í Íslendingi og þar er eigandinn Viggó Ólafsson. Þá eru í húsinu tvær íbúðir og líklega hefur svo verið frá upphafi. Þær gætu vel hafa verið fleiri á einhverjum tímapunkti. Aftur er það auglýst til sölu í ársbyrjun 1964 og þá er þar sögð átta herbergi og í húsinu geti verið tvær litlar íbúðir, algerlega aðskildar. Sá sem auglýsir þar er Tryggvi Þorsteinsson, skólastjóri og skátaforingi með meiru. Hann bjó ásamt fjölskyldu í þessu húsi um árabil og þarna bjuggu einnig foreldrar hans Þorsteinn Þorsteinsson gjaldkeri og frumkvöðull í fjallaferðum og Ásdís Þorsteinsdóttir. Þeir feðgar Tryggvi og Þorsteinn hafa líkast til lagt af stað héðan í þann frækilega björgunarleiðangur sem þeir leiddu í september 1950 á Vatnajökul eftir Geysisslysið. Munkaþverárstræti 5 er reisulegt hús og í góðu standi. Það skemmdist nokkuð í bruna fyrir um fjórum áratugum og var líkast til endurbyggt að stórum hluta eftir það. Húsið er hluti skemmtilegrar raðar steinsteypuklassískra húsa syðst við Munkaþverárstrætið og Húsakönnun 2015 metur það til varðveislugildis sem hluti þeirrar heildar. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin að kvöldi sl. Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 646, 22.apríl 1930. Fundur nr. 648, 21.maí 1930. Fundur nr. 649, 14.júní 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55).

Tvö ofantalin rit eru óprentuð og óútgefin og varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 3

Gleðilega Hvítasunnu, kæru lesendur og landsmenn allir. Hús dagsins þennan Hvítasunnudag stendur við Munkaþverárstræti, en sú ágæta gata er á neðri Brekkunni, og liggur til norðurs út frá Hamarstíg, neðarlega. Hún liggur raunar næst ofan við neðanverða Oddeyrargötu og Brekkugötu og nær allt norður að Hamarkotsklöppum. Það er þó tæpast hægt að segja hún liggi samsíða þessum götum þar eð þær götur skáskera brekkuna upp í mót en Munkaþverárstræti liggur í mjúkum boga norður eftir þvert á brekkuna. 

Árið 1930 fékk Sigurjón Sumarliðason landpóstur frá Ásláksstöðum í Kræklingahlíð leigða lóð undir íbúðarhús við Munkaþverárstræti, vestan megin norðan hornlóðar P5250526[við Hamarstíg]. Þá fékk Sigurjón leyfi til að reisa íbúðarhús á lóðinni. 8,75x8,25 að grunnfleti, eina hæð á kjallara með háu risi. Breyta þurfti teikningum vegna kjallara að vestan, en ekki kemur fram í hverju þær breytingar skyldu felast. Húsið skyldi vera steinsteypt með tvöföldum veggjum. Því má gera ráð fyrir, að útveggir hússins séu sérlega þykkir. Teikningar að húsinu gerði Sigtryggur Jónsson.

Munkaþverárstræti 3 er reisulegt steinsteypuhús, af mjög algengri gerð þess tíma, einlyft á háum kjallara og með háu, portbyggðu risi og miðjukvisti; steinsteypuklassík. Framan á kvisti má sjá byggingarárið letrað með steyptum stöfum- en slíkt virðist ekki hafa verið óalgengt á þessum árum. Á þó nokkrum húsum má sjá ártalið 1930 á kvistum en einnig ártöl á bilinu 1926-29. Á norðurhlið er forstofubygging og steyptar tröppur upp að inngöngudyrum með skrautlegu steyptu handriði. Forstofubyggingin er með flötu þaki, mögulega hefur þar verið gert ráð fyrir svölum. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Kjallaraveggir eru með hrjúfri múrklæðningu; spænskum múr en veggir eru múrsléttaðir.

Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, hér má sjá það auglýst til sölu árið 1961 en þá er það sagt “tvær íbúðarhæðir og kjallari” og seljist í einu eða tvennu lagi. Þarna bjó sem áður segir Sigurjón Sumarliðason ásamt konu sinni Guðrúnu Jóhannsdóttur, en hann gerðist Vesturfari seint á 19.öld- en sneri til baka fimm árum síðar. Hann mun hafa verið þekktur og annálaður fyrir svaðilfarir og hetjudáðir í póstferðum sínum. Enda má nærri geta hvernig ferðir milli landshluta hafa verið þegar Sigurjón fór sínar póstferðir: Fæstar ár voru brúaðar, farskjótinn hross og veðráttan og færðin sú sama og gerist í dag. Þarna bjó einnig á fjórða áratug 20.aldar Páll Halldórsson, skrifstofumaður, sem meðal annars starfaði sem erindreki Fiskifélags Íslands. Í upphafi hafa íbúðirnar líklega verið á hæð og í risi. Nú eru tvær íbúðir í húsinu, ein í kjallara og önnur á hæð og í risi. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og sömu sögu er að segja af lóðinni. Sunnan og vestan hússins stendur snoturt og grenitré. Húsið er hluti af skemmtilegri röð steinsteypuklassískra húsa nr. 3-13 og fellur undir varðveisluflokk 1 í Húsakönnun 2015, sem hluti þeirrar raðar. Myndin er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 644, 17.mars 1930. Fundur nr. 645, 31.mars 1930.

Jón Sveinsson. 1955. Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2017
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 409
  • Frá upphafi: 2

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 299
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband