Hús dagsins: Munkaþverárstræti 6

 

Árið 1933 fékk Jón Þorláksson lóð sunnan við Adam Magnússon og lagði hann um leið fram uppdrátt af húsi því, er hann hugðist reisa þar. P5250530Ekki var hægt að samþykkja uppdráttinn, af ástæðum sem ekki eru kunnar en rúmum mánuði síðar fengust teikningar samþykktar. Þær gerði Tryggvi Jónatansson. Hvergi virðist húsinu lýst í bókunum Bygginganefndar en húsið er mjög reglulegt í lögun nokkurn vegin ferningslaga að grunnfleti, einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og steyptum þakkanti og nokkuð stórum gluggum hlutfallslega- ekki ósvipað næsta húsi sunnan við. Á hverri hlið hæðar eru tveir gluggar, utan norðurhlið en þar er inngöngudyr og steyptar tröppur að þeim. Gluggapóstar á hæð og nokkrir á kjallara eru margskiptir, þrískiptir lóðréttir að neðanverðu en tvískiptur þverpóstur ofanvert. Veggir eru múrsléttaðir en þakdúkur á þaki.

Á teikningum er gert ráð fyrir vinnustofu í kjallara hússins. Mögulega var þar bókbandstofa, en Jón var bókbindari og seldi stundum bækur hér. Margir hafa búið í húsinu, sem hefur líkast til lengst af verið einbýlishús. Húsið er einföld steinsteypuklassík og skemmtilegt í laginu að því leytinu til, að fljótt á litið virðist það nokkurn veginn ferningslaga; reglulegur og látlaust. Ekki prýðir húsið mikið skraut eða prjál en líkt og mörg áþekk hús glæst í einfaldleika sínum. Það er ekki ósvipað næsta húsi sunnan við, Munkaþverárstræti 4 og mynda þessi hús skemmtilega samstæðu- svo sem segir í Húsakönnun 2015. Húsið er líkast til alveg óbreytt frá upphafi að ytra byrði og viðhald og frágangur til fyrirmyndar. Lóðin er einnig vel gróin og ber þar mikið á álmi miklum, þeim hæsta á Akureyri, sunnan við húsið. Hér til hliðar sést það í fullum skrúða, en sú mynd er tekin í trjágöngu P8310019Skógræktarfélagsins í ágústlok 2013. Ein íbúð er í húsinu. Myndin efst er tekin að kvöldi Uppstigningadags, 25.maí 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. , 16.sept 1933. nr. 25.okt.1933

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Bakki í Grindavík

Að þessu sinni eru "Hús dagsins" fjarri heimaslóðum ef svo mætti segja, en sl. vikur hef ég dvalist á Reykjanesinu í sumarleyfi. Hér er hús í Grindavík sem e.t.v.  mætti kalla "Stjörnuhús" en hús þetta "sló í gegn"cool í hlutverki ógurlegs draugahúss  sl. vor. P7150642

En þetta er húsið Bakki, sem stendur við Garðaveg 2 í Grindavík. Heimildum ber ekki saman um byggingarár Bakka, hér er það sagt byggt 1921 en hér er byggingarárið sagt 1933. Það er alltént ljóst, að húsið er byggt á fyrri hluta 20.aldar. Bakki er einlyft timburhús með háu risi, bárujárnsklætt með einföldum lóðréttum póstum. Það er byggt sem verbúð og hefur líkast til þjónað sem slíkt alla tíð. Það er nú í endurbyggingu, en eins og sjá má á myndunum er það töluvert farið að láta á sjá. En það ástand hússins hefur eflaust tryggt því stórt hlutverk í spennumyndinni "Ég man þig" sem Óskar Þór Axelsson leikstýrði og var frumsýnd núna í maí sl. Myndin er einskonar sakamála- og drauga "tryllir" og gefur að mínum dómi mörgum erlendum hrollvekjum ( t.d.Conjuring, Blair Witch Project, Amityville Horror o.fl.) nákvæmlega ekkert eftir. Með helstu hlutverk í Ég man þig fara Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. P7150644

Bakki gegndi hinsvegar hlutverki húss, sem hafði staðið yfirgefið í 60 ár á Hesteyri í Jökulfjörðum. Þangað var það "flutt" með aðstoð tæknibrellna. Í húsinu, sem par nokkurt (Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Anna Gunndís Guðmundsdóttir) og vinkona þeirra (Ágústa Eva Erlendsdóttir), hugðust gera upp sem gistiheimili var aldeilis á ferli "margur óhreinn andinn" -svo ekki sé meira sagt. Varð húsið býsna draugalegt og drungalegt á hvíta tjaldinu en það var aldeilis ekki svo þegar ég var þarna á ferðinni í sumarblíðunni þann 15.júlí 2017 og tók þessar myndir. Eins og sjá má, er viðgerð hafin á húsinu og þegar mig bar að garði var einmitt verið að rífa burt klæðningu á suðurgafli hússins.


P7150645

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 16

Í síðustu færslu fjallaði ég um Munkaþverárstræti 8, en það reisti Adam Magnússon árið 1931. Hann fékk lóð, sem var sú fjórða sunnan við Garðar og Magnús Sigurjónssyni. Hér fjalla ég um um það hús... 

Munkaþverárstræti 16 reistu þeir Garðar og Magnús Sigurjónssynir árið 1930. P5250538Þeir fengu leigða lóð sem Snorri Guðmundsson og Gunnlaugur Sigurjónsson höfðu fengið þann 3.ágúst 1929, þ.e. lóðina austan Munkaþverárstrætis á horninu sunnan Krabbastígs. Fylgdi umsókn þeirra Garðars og Sigurjóns yfirlýsing frá Snorra um að Garðar og Magnús gengjust inn á þær skyldur og réttindi sem lóðinni fylgdu. Höfðu þeir Snorri og Gunnlaugur uppi áform um að reisa tvílyft hús með “neðanjarðarkjallara” undir nokkrum hluta grunns, hálft ris með kvisti og grunnflötur 10,5x9m. Semsagt nokkuð stórt hús. Bygginganefnd taldi að bera þyrfti þessi áform undir Skipulagsnefnd, enda væri ekki gert ráð fyrir tvílyftum byggingum þarna. En hinir nýju lóðarhafar fengu leyfi fyrir litlu minna hús, einlyftu á kjallara og með mansardþaki og kvistum að austan og vestanverðu. Húsið yrði steinsteypt með timburgólfum. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson.

Framangreind lýsing á að mestu við Munkaþverárstræti 16 enn í dag, það er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara, en neðri hæð nemur við götubrún þar eð gatan stendur nokkru hærra en austurhluti lóðarinnar. Húsið er nokkuð er sem áður segir, með sk. Mansardrisi, og voldugum steyptum þakköntum og miklum kvistum á götuhlið og bakhlið. Á kvistunum og niður með húshliðum eru breiðar flatsúlur. Krosspóstar eru í gluggum og bárujárn á þaki, veggir múrsléttaðir en múrhúð kjallara eins konar grófur steinmulningur.

Margir hafa búið í húsinu en þar var a.m.k. tvíbýlt frá upphafi. Garðar og Sigurjón hafa líkast til búið hvor á sinni hæð ásamt fjölskyldum sínum. Þarna bjó síðustu æviárin Kristín Sigfúsdóttir rithöfundur. Hún var fædd árið 1876 á Helgastöðum í Saurbæjarhreppi en bjó m.a. í Skriðu (1903-08) og lengi vel í Kálfagerði í sömu sveit, frá 1908-1930. Meðal helstu verka hennar voru skáldsögurnar Sögur úr sveitinni og Gestir en hún sendi frá sér ótal smásögur og ljóð í tímaritum en Digra Gudda var fyrsta saga Kristínar sem birtist á prenti, árið 1920. Kristín lést árið 1953 og var þá búsett hér, sem áður segir.

Árið 1937 fluttu þau Gísli Eyland skipstjóri frá Svefneyjum í Breiðafirði og kona hans Jenny Eyland (fædd Juul Nielsen). Sonur þeirra Ólafur, bifreiðarstjóri og verkamaður, bjó í húsinu allt til dánardægurs árið 2000; hélst þannig sú íbúð innan sömu fjölskyldu í meira en 60 ár. Hér er ágætt viðtal frá árinu 1982 við Ólaf Eyland ; “Lágtekjufólk verður að fá kauphækkanir”. Það er nú aldeilis hægt að taka undir það og margt annað sem Ólafur Eyland hafði fram að færa þarna.

Munkaþverárstræti er reisulegt og svipmikið hús og stendur á áberandi stað. Það er lítið sem ekkert breytt frá upphaflegri gerð en er þó í fyrirtaks hirðu. Húsakönnun 2015 metur það sem “reisulegt hornhús með óvenjulega þakgerð [...] og það setur svip á götumyndina.” (Ak.bær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 168). Ráðandi í svipgerð hússins eru kvistirnir miklu og þakið og kantarnir undir því. Þá má sjá á húsinu gamlar einangrunarkúlur frá tímum loftlína en einnig eru á húsinu forláta útiljós, sjá mynd hér til hliðar. Tvær íbúðir eru í húsinu. P5250541Lóðin er einnig vel hirt og gróin, svo sem gengur og gerist við Munkaþverárstrætið, þar er t.d. mikð reynitré sem sjá má til hægri á myndinni hér efst. Munkaþverárstræti 16 stendur skemmtilega á horni Krabbastígs og Munkaþverárstrætis og húsið, sem skartar sterkum rauðum lit, nokkuð áberandi þegar horft er upp á Brekkuna frá Oddeyrinni. Myndirnar eru teknar að kvöldi Uppstignindags, 25.maí 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 635, 3.ágúst 1929. Fundur nr. 651, 25.ágúst 1930. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 8

Þegar Björn Sigmundsson fékk lóð við Munkaþverárstræti 4, var tekið fram að lóðin væri sunnan við Adam Magnússon. Hér er umrætt hús til umfjöllunar...

 

Vorið 1931 sótti Adam Magnússon um lóð austan Munkaþverárstrætis, þá fjórðu sunnan við Garðar og Sigurjón.P5250531 Í bókunum Bygginganefndar er sjaldnast minnst á númer við götur heldur ævinlega talað um lóðir eða hús þessa og hinna þegar vísað er til staðsetninga. Enda vissu líkast til flestir hlutaðeigandi nákvæmlega við hvað var átt og ekki þörf á að hafa hlutina of formlega. En með “Garðari og Sigurjóni” í þessu tilviki var um að ræða Munkaþverárstræti 16, sem var líklega eina húsið sem þá var risið við Munkaþverárstrætið austanvert. En Adam Magnússon fékk einnig leyfi til að reisa íbúðarhús á lóðinni, 9,4x8,2m að stærð, ein hæð á kjallara með port og með kvisti í gegn um risið. Adam, sem var trésmíðameistari gerði sjálfur teikningarnar að húsinu.

Munkaþverárstræti 8 er nokkuð hefðbundin steinsteypuklassík og svipar til húsanna vestan götunnar og ofarlega við Oddeyrargötu, einlyft á háum kjallara (lóðin er mishæðótt og er kjallari því hærri bakatil en við götu) með háu risi og miðjukvisti. Inngönguskúrar eru á báðum göflum og svalir ofan á forstofunni sunnan megin. Þá einnig er verönd úr timbri við suðurgaflinn. Veggir eru múrsléttaðir og bárujárn á þaki og í gluggum eru ýmist krosspóstar eða þverpóstar. Á götuhlið, nærri norðvesturhorni hússins er smár gluggi ofarlega með skiptri rúðu og setur hann dálítið skemmtilegan svip á húsið.

Húsið er teiknað sem tvíbýli, a.m.k. eru eldhús bæði á hæð og í risi en í kjallara voru geymslur, kyndirými og þvottahús. Þar voru einnig tvær kolageymslur- mögulega var gert ráð fyrir sér kolageymslu fyrir hvora íbúð. En árið 1931 voru auðvitað flestöll hús og hitunartæki hérlendis kynt með kolum- og svo er vitaskuld enn á milljónum heimila um víða veröld. Adam Magnússon og hans fjölskylda bjuggu líklega hér til ársins 1942 en þá reisti hann hús við Bjarkarstíg 2 og bjó þar allt til dánardægurs 1985. Margir hafa átt heima í húsinu þessa tæpu níu áratugi sem það hefur staðið og hefur þeim flestöllum auðnast að halda húsinu og lóð vel við. Það er a.m.k. í góðu standi nú og sómir sér vel í götumyndinni- og undir það taka höfundar Húsakönnunar 2015, þó þeir telji að litaval mætti vanda betur. Brekka_midbaerEn þessi heiðblái litur- hvað sem mönnum kann að finnast um hann- gerir húsið jafnvel enn meira áberandi og svipsterkara. Tilfellið er nefnilega, að húsið er nokkuð áberandi í Brekkunni þegar gengin er Strandgatan til vesturs í átt að Miðbænum og er það sannarlega vel. Svo vill einnig til, að þá leið ganga h.u.b. allir farþegar þeirra skemmtiferðaskipa sem heimsækja Akureyri. Það er þó hins vegar óvíst að augu allra þeirra beinist endilega að Munkaþverárstræti 8.

 

Myndin af Munkaþverárstræti 8 er tekin 25.maí 2017 en myndin sem sýnir útsýnið frá Strandgötu að húsinu er tekin 4.okt. 2014, en þá voru það haustlitir brekkunnar sem fönguðu athygli ljósmyndara.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 660, 4.maí 1931 og nr.661, 12.maí 1931.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 4

Björn Sigmundsson frá Ytra-Hóli fékk síðsumars 1933 lóð og byggingarleyfi við P5250529Munkaþverárstræti, aðra lóðina sunnan við Adam Magnússon [þ.e. Munkaþverárstræti 8]. Björn var deildarstjóri hjá KEA um áratugaskeið og mikilvirkur áhugaleikari. (Þess má einnig geta, að hann var afabróðir þess sem þetta ritar). Hann fékk leyfi til að reisa steinsteypt íbúðarhús, einlyft með kjallara og flötu þaki, 9,40x8,40m að stærð. Hann fékk að reisa húsið samkvæmt framlagðri teikningu og lýsingu en þó með því skilyrði að veggir yrðu jafn háir og farið væri að fyrirmælum byggingarfulltrúa að öllu. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson.

Svona lýsti Björn byggingu hússins í þriðja bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið. [...] Hóf ég nú vinnu við húsgröftinn, og var svo heppinn, að stutt var á fasta klöpp, lítið meira en skóflustunga, svo að gröfturinn var auðveldur. Bjó ég mér svo til tunnu til að hræra steypuna í og steypti í rásir. Var þetta gert að hausti. Þá lánaði Vilhjálmur [Þór, kaupfélagsstjóri] mér Aðalstein Jónatansson smið til að lá upp fyrir kjallaranum. Þegar því var lokið, kom stór hópur af duglegum mönnum, starfsfélögum mínum, og um kvöldið var búið að steypa kjallarann. En þá var fé að þrotum hjá Birni og leitaði hann til Vilhjálms, sem reyndist mikil stoð og stytta í húsbyggingunni, og ráðlagði hann honum að láta steypa efri hæðina í ákvæðisvinnu. Tók Árni Stefánsson að sér verkið fyrir 500 krónur og smíðaði glugga fyrir 125 en Björn lagði til allt efni og glerjaði glugga í kjallaranum. Getur Björn þess, að mánaðarkaup hans hafi verið 250 krónur. Grípum aftur niður í frásögn hans: Við konan unnum við það að einangra húsið og innrétta það. Vann ég öll kvöld og um allar helgar. Vorið 1934 fluttum við svo í nýja húsið. Gamlir sveitungar mínir gerðu grín að húsinu og kölluðu það glerhöll, því gluggarnir þóttu stórir, og voru það eftir því sem þá gerðist. (Erlingur Davíðsson 1974: 214). Það má e.t.v. segja að Björn hafi að vissu leyti verið á undan sinni samtíð hvað þetta varðar því fáeinum áratugum síðar fóru að sjást víðir og breiðir gluggar, sérstaklega í stofum. Að ekki sé minnst á sumar glæsivillur nútímans, þar sem heilu veggirnir á kannski 400 fermetra húsum eru einn tröllaukinn gluggi.

Munkaþverárstræti 4 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með flötu eða aflíðandi, einhalla þaki og steyptum þakkanti. Veggir eru með svokölluðum spænskum múr og þakdúkur á þaki en skiptir skiptir krosspóstar í gluggum, sem eru nokkurn veginn ferningslaga. Húsið flokkast undir einfalda steinsteypuklassík, eða nýklassík skv. Húsakönnun 2015. Forstofubygging er á norðurhlið og steyptar tröppur að inngangi. Þá eru voldugar timbursvalir á suðurhlið og sólpallur við kjallara.

Alla tíð hefur húsið verið íbúðarhús. Húsið er teiknað sem einbýlishús með eldhúsi, herbergjum og stofum á hæð og þvottahúsi og geymslum í kjallara. Þó voru um árabil tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Árið 1938 býr í húsinu Aðalsteinn smiður, en þó ekki sá sem Björn fékk “lánaðan” við byggingu hússins því þessi var Þórarinsson og vann fyrir Samvinnubyggingarfélag Eyjafjarðar, svo sem fram kemur í tilkynningunni. Björn Sigmundsson bjó í húsinu til æviloka, eða í rúm 40 ár, en hann lést 18.janúar 1975. og lengi vel bjó systir hans, Elínrós einnig í húsinu en hún bjó hér allt til ársins 1989 er hún fluttist á Dvalarheimilið Hlíð. Nú mun húsið vera einbýlishús.

Munkaþverárstræti 4 er einfalt og látlaust hús en engu að síður stórglæsilegt og sómir sér vel í götumyndinni. Gluggarnir, sem áður þóttu svo stórir og veglegir að Eyfirðingar kölluðu húsið Glerhöllina, gefa því ákveðinn svip og einkenni. Það er í stórum dráttum óbreytt frá upphafi og fellur undir varðveisluflokk 1 í Húsakönnun 2015 og sagt mynda skemmtilega samstæðu ásamt húsi nr. 6. Lóð hússins er einnig vel gróin og vel hirt þar má sjá nokkur stæðileg tré. Myndin er tekin þann 25.maí 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Björn Sigmundsson. 1974. Frásögn í Erlingur Davíðsson: Aldnir hafa orðið. III bindi. Akureyri: Skjaldborg.

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 706, 26.ágúst 1933.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Innbær. Húsin og fólkið. Bók sem ég mæli með.

Ég hef ekki lagt fyrir mig bókagagnrýni á opinberum vettvangi hingað til, enda tel ég mig ekki hafa slíkt vit á þeim málaflokki að mér sé stætt á því. En nýlega kom út bók sem ég tel mér ljúft og skylt að segja frá hér. Hér er um að ræða bókina Innbær. Húsin og fólkið eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur.P7060607

Í bókinni fer höfundur hús úr húsi í Innbænum (nánar tiltekið í Aðalstræti, Hafnarstræti - norður að nr.21, Lækjargötu, Spítalavegi, Tónatröð Duggufjöru og Búðarfjöru) og tekur íbúa tali. Ekki er um að ræða skipulögð eða formföst viðtöl heldur segja Innbæingarnir einfaldlega frá sér og húsunum - eða bara einhverju allt öðru eftir sínu höfði. Viðmælendur ráða þannig ferðinni að mestu en yfirleitt eru frásagnirnar tengdar reynslu íbúanna af húsunum og Innbænum. Hvert hús fær eina opnu í bókinni og þar má sjá húsið að utan  sem innan og auðvitað viðmælendur sjálfa. Hér er alls ekki um að ræða bók um sögu húsanna eða Innbæjarins heldur er þetta miklu frekar eins konar mynd af Innbænum og Innbæingum árið 2016. Það er í raun misjafnt eftir viðmælendunum hvort þeir tala um sögu húsanna, eigin endurminningar eða eigin upplifun af húsunum- eða eitthvað allt annað. Þá eru söfnin í Innbænum, sem og Gróðrarstöðin gamla og Skautahöllin einnig heimsótt.  

Skemmst er frá því að segja að ég er algjörlega heillaður af þessari bók. Ég hef lesið hana frá orði til orðs en einnig flett upp í henni og skoðað myndirnar- þetta er ekki bók sem maður "er búinn að lesa" því það er alltaf gaman að glugga í hana.Textinn er yfirleitt stuttur og hnitmiðaður og mjög  þægilegur aflestrar og í senn skemmtilegur og fróðlegur. Hann leiftrar af bæði frásagnargleði og kímni; Innbæingar virðast almennt hverjir öðrum skemmtilegri og stórkostlegir sögumenn. Þessum skemmtilegu frásögnum pakkar höfundur síðan listilega inn í stórbrotnar myndskreytingar. Ljósmyndirnar  í bókinni eru síðan sér kapítuli út af fyrir sig.  Kristín hefur greinilega einstaklega gott auga fyrir skemmtilegum sjónarhornum, og margar myndirnar sýna húsin og garðana í Innbænum í algjörlega nýju ljósi. Hver mynd segir svo sannarlega meira en 1000 orð þarna.   

Sem áður segir, er ekki um að ræða bók um sögu húsanna. Það er hins vegar ljóst að bókin verður, eftir því sem fram líða stundir, stórmerk heimild um Innbæinn og íbúa hans árið 2016. Ég hef stundum velt því fyrir mér við lestur bókarinnar, hversu ómetanlegt það væri í þessu grúski mínu á þessari síðu, ef til væri sambærileg bók frá t.d. 1960 eða 1980.  Það er líka gaman að fá þessa nálgun á þetta málefni; þ.e. fólkið sem "ER" þ.e. býr í húsinu núna og hvað það hefur fram að færa. Þetta er, að ég held, eina bók sinnar tegundar hér á landi. Flestar bækur sambærilegs efni fjalla yfirleitt um sögu húsanna og fólkið sem "VAR" (sem er að sjálfsögðu einnig áhugavert). Oft hafa verið skrifaðar bækur sem fjalla um sögu húsa, býla og íbúa þeirra, mætti t.d. nefna Húsakönnunarbækur, "Byggða- og bú" bækur o.þ.h. en þessi bók er af allt öðrum toga; samtalsbók við íbúa húsa ákveðins hverfis. Í þessu tilfelli eins elsta og mest rótgróna hverfis á Akureyri. Mér hefur svosem ekki tekist að finna stórfellda vankanta á bókinni, en auðvitað er ekkert mannanna verk algjörlega gallalaust. En "Innbær. Húsin og fólkið." er í stuttu máli sagt mjög áhugaverð og frábær bók í alla staði; stórkostleg samsetning dýrðlegra ljósmynda og skemmtilegra frásagna Innbæinga.  Mæli ég svo sannarlega með henni. SJÓN ER SÖGU RíKARIcool 

PS. Höfundi, Kristínu Aðalsteinsdóttur færi ég mínar bestu þakkir fyrir leyfi til ljósmyndunar á bókinni og birtingu hér. Einnig góð boð í útgáfuhóf og opin hús í bóksöluna og að sjálfsögðu fyrir þetta stórkostlega framtak sem ritun bókarinnar er.  


Hús dagsins: Hafnarstræti 13

Í síðastliðnum færslum hef ég tekið fyrir Munkaþverárstrætið að Bjarkarstíg/Krabbastíg vestanvert og hyggst næst taka fyrir sömu götu að austanverðu. En áður en að því kemur, skulum við aðeins bregða okkur í Innbæinn.  

Hið 222 ára gamla Laxdalshús, Hafnarstræti 11, elsta hús bæjarins var reist af Kyhns- verslun árið 1795. P2240022Var það upprunalega geymsluhús en tveimur árum áður hafði Kyhn reist veglegt verslunarhús. Á þessari ljósmynd, sem finna má á Sarpur.is sést umrætt verslunarhús frá 1793 til hægri. Húsið var tvílyft með háu risi og sneri austur- vestur. Líklega hefur það verið komið í mikla niðurníðslu árið 1933 þegar það var rifið, þá 140 ára gamalt. Það var ekki fyrr en áratugum síðar að nokkrum datt í hug að varðveita og gera upp gömul hús.

En sama ár var maður að nafni Adolf Kristjánsson í byggingarhugleiðingum. Vildi hann fá að að reisa einlyft timburhús á “lóð Jóns Kristjánssonar” Byggingin var ekki heimiluð þar, en snemma árs 1934 fékk Adolf makaskipti á áðurnefndri lóð við lóðina norðan Hafnarstrætis 11 [Laxdalshús]. Skyldi lóðin 18x20m. Ekki gat ég fundið út úr því hvar þessi lóð Jóns Kristjánssonar var, en hún mun hafa verið austan Hafnarstrætis. Á þessari lóð var Adolf leyft að reisa hús, eina hæð á kjallara. Teikningar gerðu ráð fyrir tveimur hæðum en Adolf vildi fá 10 ára frest til þess að ljúka húsinu en Bygginganefnd vildi að húsinu yrði lokið á fimm árum. Ári síðar fékk hann þó þennan frest lengdan í tuttugu ár. Það er svosem skemmst frá því að segja að 83 árum síðar er Hafnarstræti 13 ein hæð á kjallara. Upprunalegar teikningar eru ekki aðgengilegar á Landupplýsingakerfi. Hafnarstræti 13 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki. Forstofubygging er á norðurhlið og steyptar tröppur upp að inngangi. Á bakhlið er útbygging og verönd sunnan við hana. Krosspóstar eru í gluggum efri hæðar en einfaldir lóðréttir póstar í kjallaragluggum og bárujárn á þaki. Upprunalega var húsið með flötu þaki, ekki ósvipað næsta húsi, Hafnarstræti 15. Valmaþak var hins vegar byggt á húsið árið 1956, eftir þessum óundirrituðu teikningum.

Sé húsinu flett upp í timarit.is má m.a. sjá auglýsingar frá 1942 um e.k. prjónastofu á vegum Ásgríms Stefánssonar , en þar mun hafa verið um að ræða það sem síðar varð Prjónastofan Hekla. Eigandi hússins árið 1956 var Kristbjörg Jónatansdóttir, skv. teikningunum að valmaþakinu. Þarna bjó einnig Ragnheiður O. Björnsson verslunarkona með meiru og einn stofnenda Zontaklúbbsins á Akureyri. Erlingur Davíðsson ritstjóri heimsótti hana haustið 1972 og hafði þá þetta að segja um húsið: Hafnarstræti 13 gamalt hús og þar verður fótatak manna blandað ofurlitlu braki. Íbúðin er hlýleg, búin gömlum dönskum húsgögnum úr búi foreldranna, þeirra Ingibjargar Benjamínsdóttur frá Stóru-Mörk í Laxárdal og Odds Björnssonar, prentmeistara, fyrrum heiðursborgara Akureyrar... (Erlingur Davíðsson 1972: 183). Frásögn Ragnheiðar O. Er að finna í fyrsta bindi bókaflokksins “Aldnir hafa orðið”. Þar er um að ræða einstaklega fróðlega lesningu og skemmtilega fyrir þá sem áhuga hafa á sögu Akureyrar, því hún lýsir nokkuð gaumgæfilega daglegu lífi í Innbænum (það kemur raunar fram, að á uppvaxtarárum hennar hafi það hugtak verið óþekkt- þar var einfaldlega um að ræða Akureyri) á fyrstu árum 20.aldar. Þegar ég var að skrifa um Bæjarbrunana á þessa síðu haustið 2013 átti ég í þó nokkru basli við það, að finna út hvaða hús skemmdust í brunanum 1901. Því í þá daga voru götuheiti og númer yfirleitt ekki notuð heldur húsin einfaldlega kennd við eigendur eða húsbændur. Ég gat með engu móti fundið út hvaða hús var Blöndalshús. En líklega um ári síðar las ég þessa frásögn Ragnheiðar og þar kemur fram, að hún bjó einmitt í umræddu Blöndalshúsi þegar bruninn varð: Blöndalshús var Lækjargata 6, kennt við Magnús Blöndal sem átti efri hæðina.

En aftur að Hafnarstræti 13. Húsið er í góðu standi og lítur vel út, hefur nýlega (2010) hlotið endurbætur þar sem m.a. var byggð forstofa eða anddyri á norðurhlið. Ein íbúð er í húsinu. Núverandi eigandi, Sigurbjörg Pálsdóttir, hefur búið hér í tæpa fjóra áratugi. Í nýútkominni bók Kristínar Aðalsteinsdóttur, Innbær. Húsin og fólkið, er fróðlegt og skemmtilegt viðtal við hana. Ég mæli með þeirri bók fyrir hvern áhugamann um Innbæinn og Akureyri sem er- og í rauninni mæli ég með þeirri bók fyrir hvern sem er. Myndin er tekin þann 24.febrúar 2015, þ.e. fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar þetta er ritað. Það gerist stundum, að húsamyndir “gleymast” hjá mér.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr 716, 27.feb 1934. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Erlingur Davíðsson. (1972). Aldnir hafa orðið. I bindi. Akureyri: Skjaldborg.

Jón Sveinsson. (1955). „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Húsin og fólkið. Akureyri: Höfundur.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 13

Munkaþverárstræti 13 stendur á horni götunnar og Bjarkarstígs en sú gata liggur í beinu framhaldi af Krabbastíg upp frá Munkaþverárstræti. Sagan segir, að Davíð Stefánsson hafi ráðið nafni Bjarkarstígs, en hann vildi ekki búa við götu sem héti Krabbastígur. P5250522(Akureyrarbær, Teiknistofa arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl 2015: 26). Við Bjarkarstíginn og Munkaþverárstræti norðanvert standa hús sem kenna mætti við Funkis en hús nr. 13 er dæmigerð steinsteypuklassík . Húsið byggði Guðmundur Frímannsson árið 1930 eftir eigin teikningum. Hann fékk sumarið 1929 leigða lóð við Munkaþverárstræti vestanvert, við enda Krabbastígs. Þá var Bjarkarstígur ekki kominn til sögunnar, enda rúmur áratugur í byggingu fyrstu húsa þar. Hálfu ári síðar fékk Guðmundur leyfi til að reisa íbúðarhús. 8,8x7,6m að stærð, eina hæð á kjallara með porti og risi og kvisti á austurhlið [framhlið] og kvistglugga á vesturhlið, byggt úr steini.

Munkaþverárstræti 13 er einlyft steinsteypuhús með háu risi og miðjukvisti að framan, og stendur það á kjallara. Á suðurgafli er inngönguskúr og steyptar tröppur upp að honum og svalir ofan á. Þverpóstar eru í flestum gluggum og bárujárn á þaki, en veggir eru múrsléttaðir.

Elstu heimildir sem timarit.is finnur um Munkaþverárstræti 13 eru auglýsingar frá F. Skúlasyni í nóvember 1931. Hann virðist hafa verslað með “sætsaft, soyur og fægilög”. Guðmundur Frímann, sá er byggði húsið, auglýsir hér skrautritunarþjónustu í Nýjum kvöldvökum, 1934. Árið 1956 er Munkaþverárstræti 13 auglýst til sölu og er það Jónas Rafnar sem annast söluna. Þá rak Gunnar Kristinsson klæðskerastofu þarna á sjöunda áratug 20.aldar. Margir hafa átt húsið og búið í gegn um tíðina en 2009 var húsinu breytt úr tvíbýli í einbýli. Einhvern tíma var byggt við húsið til vesturs.

Húsið er snyrtilegt og í góðri hirðu og sömu sögu er að segja af lóð. P5250521Bæði hús og lóð eru til mikillar prýði í umhverfi og er húsið hluti skemmtilegrar hinnar heilsteyptu steinsteypuklassíkurraðar frá 3-13 við Munkaþverárstræti. Á norðanverðri lóðinni standa tvör gróskumikil reynitré, sem sjá má á myndinni til hliðar. Sú mynd, ásamt myndinni af húsinu er tekin þann 25.maí 2017.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1921-30. Fundur nr. 635, 3.ágúst 1929. Fundur nr. 642, 17.feb 1930.

Jón Sveinsson. 1955. „Jónsbók“. (Skrá yfir upprunasögu húsa sem stóðu á Akureyri um 1935, tekin saman 1945-55). Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Tvær ofantaldar heimildir eru óprentaðar og óútgefnar; varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 

 


Þar sem vegurinn endar...

Þann 19.apríl sl. birti ég mynd þessa mynd, tekna haustið 2016, af troðningi nokkrum sem kalla mætti "Súlumýraveg". Hafði ég þetta að segja: 

P9180470Ofan Löngukletta og Hamrahamra eru Súlumýrar. Eru þær geysivíðlendar- eins og margir Súlnafarar þekkja. Þær eru ansi vinsæll leikvöllur jeppa- sleða og skíðamanna, já og raunar göngu og hjólamanna...útivistarfólks yfirleitt. Ekki er þar neitt formlegt vegakerfi en þessi slóði liggur eftir austurbrún mýranna, ofan Fálkafells. Hvert liggur slóðinn. Við því er einfalt svar: Spölkorn sunnan við tökustað þessarar myndar er likt og klippt sé á troðninginn, þar sem við taka lyngþúfur og melar. Vegur þessi, sem hvergi er á skrá hjá neinni vegamálastofnun eða á nokkru skipulagi endar eiginlega bara þarna úti í mýri. 

 

 

Sl. fimmtudagskvöld þann 29.júní brá ég mér þarna uppeftir og tók þá mynd af þessum umrædda stað sem ég minntist. Mig hefur greinilega misminnt eitthvað, því vegurinn endar raunar ekki við "lyngþúfur og mela" heldur fjarar hann út undir barði, þar sem við taka mýrar. Ekki get ég mælt með akstri um þennan vegslóða nema á hjólum eða einhvers lags torfærutækjum.  En svona lítur þessi umræddi staður, þar sem vegurinn endar, út.

P6290582 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júlí 2017
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • PA040027
  • IMG 1503
  • IMG 1501
  • IMG 1500
  • P8291011

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 84
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 560
  • Frá upphafi: 417781

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 357
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband