Hús dagsins: Munkaþverárstræti 2

Munkaþverárstrætið tók að byggjast árið 1930 og byggðist að mestu fram undir 1945-50. Syðsta lóðin austanmegin var hins vegar lengi vel óbyggð. P5250528Þó var söluturn, sem áður stóð á Ráðhústorgi fluttur þangað á sjötta áratugnum og stóð þarna um nokkurra ára skeið. Þennan söluturn má sjá hér, á bls. 153 í Húsakönnun 2015 á Norðurbrekkunni.

Núverandi hús á Munkaþverárstræti 2 reistu hins vegar þau Víkingur Björnsson slökkviliðsmaður, eldvarnareftirlitsmaður og ökukennari og Marta Kristjánsdóttir árið 1960 eftir teikningum Mikaels Jóhannssonar. Víkingur byggði hús sitt við hlið æskuheimilis síns, en hann var sonur Björn Sigmundssonar í Munkaþverárstræti 4. Þeir feðgar bjuggu þarna hlið við hlið alla tíð síðan. Þess má að sjálfsögðu geta að þeir voru frændur þess sem þetta ritar. Þau Víkingur og Marta bjuggu hér – með miklum myndarskap- í rúma fjóra áratugi en hún lést 2001 og hann fjórum árum síðar.

Munkaþverárstræti er steinsteypuhús í módernískum stíl, tvílyft með einhalla, aflíðandi þaki. Í húsinu er innbyggður bílskúr suðaustanmegin. Undir norðausturhorni hússins er örlítill kjallari; aðeins lítið rými fyrir miðstöð og geymslu. Þakdúkur eða pappi er á þaki, veggir múrhúðaðir og einfaldir póstar með skiptum fögum í gluggum. Inngöngudyr eru m.a. á norðurhlið og á suðurhlið, sem snýr að Hamarstíg, eru bílskúrsdyr og svalir yfir þeim. Þær dyr eru innrammaðar af skrautlegu steinhleðslumúrverki.

Húsið er töluvert yngra en nærliggjandi hús, raunar yngst allra húsa við Munkaþverárstrætið, og í öðrum byggingarstíl en er engu að síður metið með varðveislugildi í Húsakönnun 2015. Það er enda býsna skrautlegt og skemmtilegt í útliti og nýtur sín sérlega vel á horni tveggja gatna. Húsið er auk þess í mjög góðu ástandi; hefur líkast til verið haldið við í hvívetna alla tíð. Lóðin er einnig gróin og vel hirt. Tvær íbúðir eru í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin að kvöldi 25.maí 2017.

Heimildir: 

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 15

Munkaþverárstræti 15 stendur norðanmegin á horninu við Bjarkarstíg. Húsið byggði Jónas Jenssona árið 1935 eftir teikningum Sveinbjarnar Jónssonar.

   Jónas fékk lóð næst norðan við hús Guðmundar Frímann í mars 1935,P9180689 en hafði verið neitað um hana skömmu fyrir jól 1934. En þar sem ákveðið hafði verið að leggja Munkaþverárstrætið að Sniðgötu þá um sumarið fékk Jónas lóðina ( trúlega hefur sú ákvörðun ekki legið fyrir skiptið). Hann fékk að reisa hús úr steinsteypu, 11,5x8,6m að stærð nokkur hluti hússins ein hæð á kjallara [norðurhluti] en húsið að öðru leyti kjallaralaust. Nú myndi húsið vera sagt byggt á pöllum. Jónas var ekki alls kostar ánægður með útmælingu lóðarinnar, líkast til hefur hún verið minni en reiknað var með í upphafi. Annars vegar vegna stefnubreytingar götunnar [hún sveigir nokkuð til vesturs þarna] og hins vegar hafði bygginganefnd áætlað “10 m breiða spildu upp á hið óskipulagða svæði vestan götunnar og komi sá vegur milli lóða Guðm. Frímann og Jónasar”. (Bygg.nefnd. Ak. 1935: nr.745) Taldi nefndin að með því að hliðra lóðinni um 10 m til norðurs yrði kröfum Jónasar um afstöðu byggingar fullnægt. Þessi umræddi vegur fékk síðar nafnið Bjarkarstígur og áratug síðar var hið óskipulagða svæði að mestu leyti fullbyggt.

En Munkaþverárstræti 15 er steinsteypu- og r-steinshús í funkisstíl. Norðurálma er sem áður segir, ein hæð á kjallara og suðurálma á einni hæð og ofan á henni eru svalir, sem ná yfir alla þekjuna. Eins og gefur að skilja er þak þeirrar álmu hússins flatt en þak norðurálmu er einhalla, aflíðandi með háum kanti. Einfaldir póstar eru í gluggum. Horngluggar, eitt af helstu einkennum fúnkíssins eru á suðurhlið hússins og inngöngudyr eru í kverkinni á milli álmanna að framanverðu og steyptar tröppur að þeim.P9180690

Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús og er nánast óbreytt frá upphafi, a.m.k. að ytra byrði. Í Húsakönnun 2015 er húsið metið með hátt varðveislugildi m.a. sem “Eitt af frumkvöðlaverkefnum funksjónalismans og fyrirmynd um nýja húsagerð á sínum tíma” (Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson o.fl. 2015: 168) og myndar auk þess samstæða heild með sambærilegum húsum við Bjarkarstíg vestan og ofan við. Húsið er í einstaklega góðri hirðu og lítur vel út og gróin lóðin er skemmtilega innrömmuð af steyptri, skrautlegri girðingu. Hvort varðveislugildi eða friðun bygginga geti náð til girðinga á lóðamörkum þekki ég ekki, en svona múrverk eru óneitanlega til prýði og mynda sjónræna heild með húsunum. Lóðin er vel gróin birki- og reynitrjám svo sem sjá má á myndum. Ég hef heyrt það sjónarmið að það sé mikil synd þegar trjágróður skyggir á myndarleg og reisuleg hús. En þá spyrja á móti, hve stóran hluta ársins skyggir laufskrúð á hús hérlendis. Myndirnar eru teknar í haustblíðunni í gær, 18.sept. 2017.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 733, 19.des 1934, . Fundur nr. 737, 12.mars 1935, Fundur nr. 744, 24.maí 1935, Fundur nr. 745, 31.maí 1935.

Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús við Munkaþverárstræti

Ég hef verið nokkuð skriflatur sl. vikur, en hef í sumar tekið fyrir Munkaþverárstrætið á neðanverðri Norðurbrekku. Nánar tiltekið elsta og syðsta hluta strætisins, þ.e. hús nr. 2-16 en þau eru sunnan gatnanna Krabbastígs og Bjarkarstígs. Hugmyndin var sú, að taka aðeins fyrir hús sunnan þessara gatna í þetta sinn, en ég hyggst einnig taka fyrir nr. 15 á næstu dögum, en það stendur handan gatnamótana.

Endilega látið mig vita, ef tenglarnir vísa annað hvort á einhverja vitleysa- eða ekki neitt ;) 

 

Munkaþverárstræti 1 (1934)

Munkaþverárstræti 2 (1960)

Munkaþverárstræti 3 (1930)

Munkaþverárstræti 4 (1934)

Munkaþverárstræti 5 (1930)

Munkaþverárstræti 6 (1934)

Munkaþverárstræti 7 (1931)

Munkaþverárstræti 8 (1931)

Munkaþverárstræti 9 (1932)

Munkaþverárstræti 10 (1931)

Munkaþverárstræti 11 (1932)

Munkaþverárstræti 12 (1935)

Munkaþverárstræti 13 (1930)

Munkaþverárstræti 14 (1942)

Munkaþverárstræti 15 (1935)

Munkaþverárstræti 16 (1930)

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Sept. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 175
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 584
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband