Hús dagsins: Bjarkarstígur 2

Adam Magnússon trésmíðameistari sóttist snemma árs 1942 eftir PA090811lóð við Krabbastíg og fékk næstu lóð vestan við Pál Pálsson, þ.e. Munkaþverárstræti 17. Þegar honum var úthlutað lóðin var jafnframt tekið fram, að gatan yrði ekki lögð að Helgamagrastræti það sumarið [1942]. En Adam fékk að byggja  íbúðarhús, eftir eigin teikningu, úr steinsteypu með steinlofti og valmaþaki úr timbri, 10,0x9,0m auk útskots 4,1x1,0m. Skömmu eftir að húsið reis, eða þann 18. júní 1943 ákvað Byggingarnefnd Akureyrar að gatan, sem átti að vera hluti Krabbastígs á milli Munkaþverárstrætis og Helgamagrastrætis skyldi heita Bjarkarstígur.

Bjarkarstígur 2 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara og með valmaþaki, steiningu á veggjum og bárujárni á þaki, lóðréttum póstum í gluggum og horngluggum í anda funkisstefnunnar til SA. Vestari hluti framhlið skagar eilítið fram (umrætt útskot í bókun Byggingarnefndar) og í kverkinni á milli eru inngöngudyr ásamt svölum. Svalir þessar gefa húsinu ákveðinn svip, bogadregnar við horn hússins og með járnavirki ofan á steyptu handriði. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús en auk þess starfrækti Adam trésmíðaverkstæði þarna. Hann á einnig heiðurinn af húsinu Munkaþverárstræti 8 en það byggði hann árið 1932, auk þess sem hann teiknaði húsið Bjarkarstíg 7, sem byggt var 1944. Bjarkarstígur 2 er traustlegt og reisulegt funkishús í góðri hirðu og lóð er einnig vel gróin og í góðri hirðu. Þar eru m.a. býsna gróskumikil reynitré.  Í húsinu er ein íbúð. Myndin er tekin þ. 9. október 2018

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr.900, 28. feb 1942 . Fundur nr. 917, 3. júlí 1942. Fundur nr. 920, 7. ágúst 1942. Fundur nr. 946, 18. júní 1943. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Bjarkarstígur 1

Bjarkarstígur  nefnist gata á norðanverðri Brekkunni. Gatan liggur á milli Munkaþverárstrætis og Þórunnarstrætis og þverar Helgamagrastræti. Er hún í beinu framhaldi af Krabbastíg og var raunar ætlað að vera framhald af þeirri götu, en fyrstu lóðunum sem úthlutað var við götuna, árið 1942, töldust við Krabbastíg. Við Bjarkarstíg stendur hið valinkunna Davíðshús, hús Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, og segir sagan, að Davíð hafi ekki viljað búa við götu kennda við krabba og nafninu því breytt. (Sbr. Ak. Bær, Teiknistofa Arkitekta, 2015: 26) Gatan liggur nánast beint upp brekkuna og er afar brött á neðri kaflanum milli Helgamagrastrætis og Munkaþverárstrætis og getur orðið heldur óskemmtileg yfirferðar í hálku. En útsýnið yfir Oddeyrina og yfir pollinn á Vaðlaheiðina er alls ekki óskemmtilegt, og mikill trjágróður við götuna rammar það skemmtilega inn. Við Bjarkarstíg standa 9 hús, byggð árin 1942-1952. Bjarkarstígur er um 200 m langur.

Árið 1950 sótti Svavar Jóhannsson, PA090808forstöðumaður Bifreiðaeftirlitsins um árabil, um lóð og byggingarleyfi neðst við sunnanverðan Bjarkarstíg. Á þessum tíma var nokkur trjálundur á þessum slóðum, sem líklega tilheyrði Munkaþverárstræti 13, en það hús er á SV horni Munkaþverárstrætis og Bjarkarstígs. En í bókun Byggingarnefndar segir svo um byggingaleyfi Svavars: „Eiganda skógargróðurs verður gefin kostur á að bjarga honum og 2m breiður stígur leyfður austast á lóð, suður á reit bæjarins milli Bjarkarstígs og Hamarstígs“. Með björgun skógargróðurs er líklega átt við flutning trjáplantna, sem þarna hafa líklega ekki verið orðnar mjög gamlar eða stórar. En Svavar fékk að byggja hús skv. uppdrætti og lýsingu, en þeirrar lýsingar er ekki getið í bókun Byggingarnefndar. En uppdráttinn að húsinu gerði Tryggvi Sæmundsson.

Bjarkarstígur 1 er tvílyft steinsteypuhús í funkisstíl, með lágu valmaþaki og skiptist í tvær álmur, suður og norður og stendur sú nyrðri nokkuð hærra. Veggir eru múrsléttaðir en einfaldir lóðréttir póstar eru í gluggum. Sambyggður húsinu að suðaustanverðu er bílskúr, byggður 1990 eftir teikningum Birgis Ágústssonar. Húsið, sem fullbyggt var árið 1952 og er yngst húsa við Bjarkarstíg hefur alla tíð verið íbúðarhús en þarna var um tíma umboð Styrktarfélags vangefinna, sem en frú Björg Benediktsdóttir, eiginkona áðurnefnds Svavars starfrækti það. Bjarkarstígur 1 er í fyrirtaks hirðu og hefur líkast til alla tíð hlotið afbragðs viðhald. Á lóðarmörkum er steyptur veggur og allur frágangur lóðar og húss er til mikillar prýði. Húsakönnun 2015 metur húsið með varðveislugildi sem hluti af þeirri heild sem götumynd Bjarkarstígs er. Ein íbúð mun í húsinu.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1124, 21. júlí 1950. Fundur nr. 1127, 1. sept. 1950. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 


Hús dagsins: Sniðgata 3

Efsta húsið, eða öllu heldur efra húsið við sunnanverða Sniðgötu er hús nr. 3, en það reistu þau Kristófer Vilhjálmsson  árið 1942. Hann fékk leyfi til að reisa hús, eina hæð á háum kjallara úr steinsteypu með steyptu gólfi og þaki.P2180716 Stærð á grunnfleti 10,4x8,5 auk útskots að vestan, 1x3,6m. Teikningarnar að húsinu gerði Halldór Halldórsson. Á þessum tíma voru steyptar plötur undir þökum og milli hæða að ryðja sér til rúms, en á fyrstu áratugum steinsteypunnar var algengast að aðeins útveggir væru steyptir en innveggir og milliloft úr timbri. En svo er semsagt ekki í tilfelli Sniðgötu 3. 

Sniðgata 3 er í Húsakönnun 2015 sagt „nokkuð sérstakt funkishús“, einlyft steinsteypuhús með flötu þaki og á háum kjallara með steiningarmúr og líklega með þakpappa á þaki. Einfaldir þverpóstar með tvískiptum efri fögum eru í flestum gluggum og horngluggar á þremur hornum, en NA horn  gluggalaust. Þar er steyptar tröppur upp að inngöngudyrum, með stölluðu (tröppulaga) steyptu handriði. Kristófer Vilhjálmsson bjó hér alla sína tíð frá því hann byggði húsið, en hann lést 2006.  Hann var verslunarmaður og gegndi hinum ýmsu embættisstörfum, m.a. formaður Félags Verslunar og skrifstofufólks á Akureyri. Líklega er húsið, sem alla tíð hefur verið íbúðarhús að mestu óbreytt frá upphafi að yrta byrði, það hefur t.d. ekki verið byggt við húsið. Við götu er einnig vegleg girðing með steyptum stöplum og járnavirki sem er væntanlega frá svipuðum tíma og húsið var byggt. Lóð hússins liggur að lóð Amtsbókasafnsins, og á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af bakhlið þess nærri vinstra horni. Þannig má segja, að íbúar Sniðgötu 3 búi svo vel, að hafa Amtsbókasafnið „í bakgarðinum“. Myndin er tekin sunnudaginn 18. febrúar 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48.  Fundur nr. 909, 8. maí 1942. Fundur nr. 910, 15. maí 1942

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Sniðgata 2

Þrjú hús standa við Sniðgötu, tvö sunnanmegin og eitt norðanmegin,P2180714 þ.e. nr. 2. Húsið reisti Baldur Svanlaugsson árið 1935 eftir teikningum Tryggva Jónatanssonar en hann fékk lóðina vorið 1934, var það fyrsta lóðin sem úthlutað var við Sniðgötu. Nokkru síðar, eða í lok september sama ár fékk Baldur leyfi til að reisa hús á lóðinni, steinsteypt 10,8x8,5m að stærð og kjallari undir hálfu húsinu (þ.e. eystri hluta).

Sniðgata 2 er steinsteypt funkishús með aflíðandi einhalla þaki undir flötum þakkanti. Undri eystri hluta hússins er hár kjallari en lágur grunnur undir þeim vestari; húsið myndi líklega kallast byggt á pöllum.  Krosspóstar eru í gluggum og þakpappi á þaki, og á suðvesturhorni er horngluggi. Eystri hluti hússins stendur eilítið framar en sá vestari, og eru inngöngudyr í kverkinni á milli álmanna. Húsið hefur alla tíð verið einbýlishús. Baldur Svanlaugsson bjó ekki í mörg ár á Sniðgötu, en 1939 reisir hann hús við Bjarmastíg 3. Árið 1940 eru íbúar hússins þau Sigtryggur Júlíusson og Jóhanna Jóhannesdóttir en þau sem lengst bjuggu í Sniðgötu 2 eða frá um 1950 og fram yfir aldamót voru þau Benedikt Sæmundsson skipstjóri og Rebekka Jónsdóttir.

Sniðgata 2 er sögð í upprunalegri mynd í Húsakönnun 2015 en húsið er í mjög góðu standi, gluggapóstar t.a.m. nýlegir og raunar allur frágangur húss og umhverfis sem um nýlegt hús væri að ræða, húsið hefur greinilega hlotið vandaðar endurbætur á allra síðustu árum. Lóðin er snyrtileg og vel gróin, þar má m.a. finna steypta tjörn. Við götu er steyptur, upprunalegur kantur og myndar hann skemmtilega heild, til mikillar prýði í umhverfinu. Myndin er tekin þ. 18. feb 2018.

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf 

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 721, 17. maí 1934. Fundur nr. 734, 29. Sept 1934.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Okt. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 742
  • Frá upphafi: 419878

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 587
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband