Hús dagsins: Fjólugata 14

Fjólugötu 14 byggði Jón Gíslason eftir eigin teikningum árið 1944. P1070728Ekki er að finna byggingarleyfi eða lýsingu í bókunum Bygginganefndar, en í júní 1943 er Bjarna M. Jónssyni veittur frestur til að ljúka við hús sitt, en þar kemur fram að grunnur og lagnir séu tilbúnir. Jafnframt er honum leigð lóðin til 15.júní 1944 og því má reikna með að umræddur frestur hafi verið eitt ár. er talað um hús Jóns Gíslasonar. Því hefur byggingarréttur áðurnefnds Bjarna líklega yfirfærst á Jón í millitíðinni. En Fjólugata 14 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki og útskoti með svölum til vesturs. Þar eru horngluggar til suðurs. Húsið er klætt perluákasti eða steinmulningi en bárujárn er á þaki. Einfaldir, lóðréttir póstar eru í gluggum. Á austurhlið eru tröppur upp á efri hæð. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og þar hafa margir búið gegn um tíðina. Árið 1961 var byggður bílskúr innst á lóðinni og um 1998 voru gerðar smávægilegar breytingar á inngangi efri hæðar; forstofubygging og geymslu undir tröppum, en hönnuður þeirra var Bergur Steingrímsson (sjá tengil á upprunalegar teikningar, breytingar færðar inn þar). Að öðru leyti er húsið næsta óbreytt frá upphafi en engu að síður í góðri hirðu og lítur vel út. Lóðin er býsna víðlend, nærri 1000 fermetrar, en óvíða er að finna stærri lóðir á Oddeyri en vestast við Fjólugötu og Eyrarveg, næst norðan við. Myndin er tekin þann 7.jan. 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 947, 25.júní 1943. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 


Hús dagsins: Fjólugata 12

Vorið 1942 fengu þeir Loftur Einarsson og Ari Jóhannesson þessa lóð, P1070725en ekki getið byggingarleyfis. Trúlega er ekki óvarlegt að áætla, að þeir hafi byggt húsið. Húsið var þó ekki byggt fyrr en árið 1945, en teikningarnar gerði F. Jóhannsson. Síðla sumars það ár er neðri hæð hússins auglýst til sölu í Degi. (Á sömu síðu í Degi má einnig sjá auglýsingu frá Kristni Sigmundssyni, föðurafa höfundar, þar sem hann auglýsir til sölu Buick bíltæki) Húsið er tvílyft steinsteypuhús á lágum grunni og með bárujárnsklæddu valmaþaki, og veggir eru múrsléttaðir. Lóðréttir póstar eru í gluggum og horngluggar í anda Funkis-stefnu til suðvesturs á báðum hæðum. Á vesturhlið er lítil útskotsálma til og steyptar tröppur upp á aðra hæð upp að henni. Inngöngudyr á neðri hæð eru á suðurhlið og þar er sólpallur eða verönd úr timbri. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með einni íbúð á hvorri hæð. Það er líkast til lítið breytt frá fyrstu gerð. Lóð hússins er býsna stór en á þessum slóðum eru lóðirnar nokkuð víðlendar. Kemur það til af því, að Fjólugatan og gatan norðan við, Eyrarvegur, sveigja til gagnstæðra átta og breikkar bilið milli gatnanna eftir því sem vestar dregur, nær Glerárgötu. Húsaröðin frá 12-18 er rúmum áratug yngri en röðin frá 2-10, en í síðarnefndu röðinni eru að mestu leyti timburhús en 12-18 er skipuð steinsteypuhúsum. Ég veit ekki til þess, að húsakönnun hafi verið unnin fyrir þetta svæði þ.a. hugsanlegt varðveislugildi þessara húsaraðar liggur ekki fyrir. En hvað sem því líður, er Fjólugata 12 traustlegt hús og í góðu standi, hús sem og lóð til mikillar prýði. Myndin er tekin þann 7.janúar 2018.

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1941-48. Fundur nr. 908, 5.maí 1942. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Hús dagsins: Fjólugata 15

Vestasta húsið við Fjólugötu sunnanmegin er Fjólugata 15, P1070729en það er eitt þriggja húsa sem reist voru á lóðum Byggingafélags Akureyrar árin 1937-38. Lóðirnar voru framleigðar til félagsmanna og hlutu tvær fjölskyldur hvert hús.( Í Manntali 1940 eru auk tveggja fjölskyldna í hverju þessara húsa 1-2 leigjendur) og lóð nr. 15 fengu þeir Guðmundur Baldvinsson og Jón Þórarinsson og reistu þar húsið sem enn stendur. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús með einni íbúð á hvorri hæð og geymslum í kjallara. Ekki er að finna heimildir um verslun eða þjónustustarfsemi í húsinu ef heimilisfanginu er flett upp á timarit.is. Fjólugata 15 er, líkt og gús nr.11 og 13, tvílyft steinsteypuhús með lágu risi og á lágum kjallara. Svalir eru yfir vesturhluta neðri hæðar og glerskáli; sólstofa á suðurhelmingi þeirra. Einfaldir póstar eru í gluggum og bárujárn á þaki. Á suðvesturhorni neðri hæðar er horngluggi í anda Funkis-stefnu en að öðru leyti er ekki að sjá að slíkra áhrifa gæti á húsinu. Tvær inngöngudyr eru á framhlið, hvor að sinni hæð. Húsið er í mjög góðu standi og lítur mjög vel út. Árið 2006 var húsið einangrað og klætt með Steni-plötum og skipt um þakklæðningu og því er húsið að mörgu leyti sem nýtt. Lóðin er vel hirt og gróin og römmuð inn af steyptum kanti með járnavirki. Tvær íbúðir eru í húsinu. Myndin er tekin þann 7.jan 2018.

Sem áður segir, er húsið vestast af þremur sams konar húsum, líklega eftir teikningu Halldórs Halldórssonar (?). Húsin eru í góðu standi og líta vel út, en hafa hvert um sig tekið misjafnlega miklum breytingum á þessum 80 árum sem þau hafa staðið. Ég veit ekki til þess, að nein húsakönnun hafi verið unnin fyrir Fjólugötuna, þannig að ekki liggur fyrir hvort þessi hús hafi varðveislugildi. Yrði ég spurður álits, segði ég hiklaust að þessi þrenning, Fjólugata 11-15, hlyti ótvírætt varðveislugildi sem heild. (En ég hef svo sem hvorki þekki þekkingu né kunnáttu til að dæma um slíkt, aðeins áhuga wink

Heimildir: Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar: Fundagerðir 1935-41. Fundur nr. 804, 4.sept. 1937. Fundur nr. 808, 8.nóv 1938.

Manntal 1940.

Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Feb. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 427
  • Frá upphafi: 420127

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 316
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband