Hús dagsins: Munkaþverárstræti 22

Á þessum merkisdegi, kjördegi til Sveitarstjórnarkosninga og 50 ára afmæli hægri umferðar er Hús dagsins hið 82 ára Munkaþverárstræti 22:

Fundargerðar Bygginganefndar Akureyrar, sem eru mikilvægar heimildir í skrifum pislahöfundar eru varðveittar vélritaðar í innbundum bókum á Héraðskjalasafninu. P2180722Á fyrstu blaðsíðu bókarinnar sem nær yfir árin seinni hluta ársins 1935 til hluta árs 1941 blasir við Fundargerð nr. 735 frá 23.ágúst 1935. Meðal þess sem tekið var fyrir á þeim fundi var leyfi til handa Bjarna Rósantssyni sem fékk að reisa hús á lóð sinni við Munkaþverárstræti samkvæmt teikningu og lýsingu, 10,7x8,2m að stærð ein hæð á kjallara og með flötu þaki. Um var að ræða Munkaþverárstræti 22 sem reis af grunni 1936. Bjarni Rósantsson annaðist sjálfur teikningar að húsinu.Þær hafa ekki varðveist, en á Landupplýsingakerfinu má sjá teikningar frá 1938 að steyptri girðingu, sem enn stendur. Þær teikningar gerði Bjarni Rósantsson einnig. Þar sést upprunalegt útlit hússins nokkuð glögglega.

En Munkaþverárstræti 22 er einlyft steinsteypuhús með á háum kjallara, raunar mætti telja húsið tvílyft austanmegin vegna hæðarmismunar á lóð og með einhalla þaki með háum kanti á framhlið. Á suðurhlið er forstofuálma og steypt stétt og tröppur að henni en svalir til austurs á efri hæð.m Veggir eru múrsléttaðir, þak bárujárnsklætt en einfaldir lóðréttir póstar í gluggum. Í upphafi var flatt þak á húsinu en núverandi þak var byggt á húsið um 1970 eftir teikningum Tómasar Búa Böðvarssonar. Það er ekki óalgeng saga Funkishúsa frá fjórða áratugnum, með flötum þökum, að þau hafi á einhverjum tímapunkti fengið „uppbyggð“ þök. Oftar en ekki valmaþök, en stundum einhalla þök eða risþök. Gagnasafnið timarit.is gefur upp 69 niðurstöður fyrir „Munkaþverárstræti 22“ og tæplega helmingur þeirra eða 32 eru frá sjöunda áratugnum. Kemur það líklega til af því, að þá bjó í húsinu Rögnvaldur Rögnvaldsson sem starfrækti þarna umboð fyrir Mál og Menningu og auglýsti vitaskuld reglulega í blöðum. En Munkaþverárstræti 22 er traustlegt og reisulegt hús og í góðri hirðu. Húsakönnun 2015 segir þakkant ekki í samræmi við upprunalegt útlit en telur upprunalega girðingu framan við hús til tekna. Á áratugunum um og fyrir miðja 20.öld var oftar en ekki mikill metnaður lagður í steyptar girðingar á lóðarmörkum oftar en ekki með vönduðu járnaverki, framan við hús. Margar slíkar er að finna við Munkaþverárstræti  og nærliggjandi götum. Í flestum tilfellum hefur eigendum auðnast að halda þeim mjög vel við. Sem er í raun aðdáunarvert, því þessir steyptu veggir eru oftar en ekki viðhaldsfrekir og e.t.v. skiljanlegt að menn vilji frekar skipta þeim út fyrir bílastæði eða einfaldar timburgirðingar. Það er svo sannarlega ekki tilfellið við Munkaþverárstræti 22 þar sem hinn áttræði steinveggur er sem nýr og til mikillar prýði, í samræmi og stíl við húsið. Myndin er tekin þann 18.febrúar 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.755, 23.ágúst 1935.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 21.

Munkaþverárstræti 21 reisti Karl Friðriksson árið 1938, en hann fékk í nóvember 1937 leyfi til að reisa hús á leigulóð sinni við Munkaþverárstræti steinsteypt íbúðarhús á einni hæð á kjallara og með valmaþaki 9x8,5 m að stærð. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson.P2180725

En Munkaþverárstræti er tvílyft, eða einlyft á mjög háum kjallara, steinsteypuhús í funkisstíl með valmaþaki. Horngluggar eru á suðausturs en inngöngudyr á norðurhlið og steyptar tröppur upp að þeim, en svalir eru til suðausturs á efri hæð.  Bárujárn er á þaki, veggir múrsléttaðir og einfaldir póstar í gluggum með lóðréttum póstum og opnanlegu fögum.

Elsta heimildin á gagnasafninu timarit.is þar sem Munkaþverárstræti 21 kemur fyrir er frá 11.nóvember 1938 en þar auglýsir Ingimar nokkur Jónsson ýmis konar síld til sölu, bæði kryddsíld, Matjesíld og flatta síld. Sannkallað sælgæti sem þar var í boði fyrir 80 árum. Ingimar Jónsson kemur nokkrum sinnum fyrir í auglýsingum á fimmta áratugnum þar sem hann óskar eftir til kaups eða selur varning tengdan trilluútgerð.  Húsinu virðist ekki hafa verið breytt mikið eða við það byggt, alltént telur Húsakönnun 2015 það upprunalegt í útliti. Árið 1957 var byggður bílskúr á lóðinni eftir teikningum  Mikaels Jóhannessonar, en hann  þar er um að ræða „parskúr“ sem er sameiginlegur með húsum nr. 19 og 21. Húsið er í góðri hirðu og lítur vel út og sömu sögu að segja af lóðinni sem er vel gróin m.a. birkitrjám. Myndin er tekin þann 18.febrúar 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.809, 27.nóv 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

Að sjálfsögðu minni ég alla á söfnunina fyrir prentun bókarinnar Norðurbrekkan milli Gils og klappa á Karolina Fund. Eintak af bókinni kostar lítið eitt minna en  bíóferð fyrir tvo með poppi og kóki wink


Norðurbrekkan milli Gils og klappa; söfnun hafin

Þá má segja að boltinn sé farinn að rúlla; rúlla niður Brekkuna norðanverða. laughing

Söfnun fyrir prentun bókarinnar "Norðurbrekkan milli Gils og klappa" er hafin á Karolina Fund og þar geta áhugasamir tryggt sér eintak á kr. 4200 (ég get nánast lofað því, að bókin verður ekki ódýrari út úr búð)og fyrir smáræðis aukapening fengið t.d. handskrifuð skilaboð eða aukafróðleik frá höfundi og nafn á listanum "Sérstakar þakkir". Sjón er sögu ríkari.

Rétt er að minna á, að Karolina Fund er þeirrar náttúru gædd að ef söfnun tekst ekki, að enginn er rukkaður nema fyrr en og ef söfnun tekst. 

En bókin verður um 170 bls. kilja og verður að mestu leyti byggð á pistlum sem hafa birst hér á síðunni. Fyrst og fremst er lögð áhersla á upprunasögu húsanna , en ekki er um að ræða upptalningu á öllum eigendum eða hverju því sem húsin kunna að hafa hýst gegn um tíðina. Þá myndi þurfa a.m.k. þriggja binda verk. 

En hér að neðan er tengill á söfnunarsíðuna. Söfnun lýkur í byrjun ágúst þ.a. líklega getur bókin litið dagsins ljós snemma í haust.

NORÐURBREKKAN MILLI GILS OG KLAPPA Á KAROLINA FUND.

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 20

Munkaþverárstræti 20 reisti Stefán Aðalsteinsson múrarameistari árið 1936, eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. P2180720Seint í nóvember 1935 er honum heimilað að reisa hús með flötu þaki (ekki kemur fram hve stórt) en í ágúst og september 1936 fær hann að breyta húsinu á þann veg að svalir, sem áttu að vera á SA-horni hússins skyldu færðar á austurhlið. Svefnherbergi yrði þá stækkað. Þá fékk hann leyfi til að reisa valmaþak á húsið. Í ársbyrjum 1937 fær hann að láta umrætt valmaþak ná yfir tröppur, standandi á súlum og hafa svalir á horni. Umrætt valmaþak heyrir nú sögunni til, því árið 1973 var þakinu breytt og byggt á húsið einhalla þak með háum kanti eftir teikningum sem merktar eru Teiknistofu Hauks Haraldssonar. Í Húsakönnun 2015 segir, að þakinu hafi verið breytt úr flötu þaki í einhalla.

En Munkaþverárstræti 20 er tvílyft steinsteypuhús með einhalla bárujárnsklæddu þaki. Neðri hæð er niðurgrafin að nokkru leyti vegna hæðarmismunar á lóð. Á norðurhlið er útskot; forstofubygging og tröppur að henni að götu. Veggir eru klæddir steinmulningsmúr og einfaldir lóðréttir póstar í gluggum og á suðurhlið eru horngluggar í anda Funkisstefnunar. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, nú eru í þvi tvær íbúðir; hvor á sinni hæð. Líklega er húsið, sem er í mjög góðri hirðu og lítur vel út, að mestu óbreytt frá upphafi að ytra byrði, ef frá er talið breyting á þaki.

Myndin er tekin þann 18.febrúar 2018.

 

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41. Fundur nr. 765, 26.nóv 1935. Fundur nr.779 20.ágúst 1936. Fundur nr.780, 5.sept. 1936. Fundur nr. 789, 9.jan 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

 

 

 


Norðurbrekkan milli Gils og klappa. Væntanleg bók (?)

Gestir þessarar síður kunna að hafa tekið eftir því, að langt hefur liðið á milli pistla upp á síðkastið. Hér ætla ég að ljóstra upp hluta af ástæðunni fyrir því, en ég hef nefnilega staðið í svolítið öðrum ritstörfum. Ég hef nefnilega unnið að því, að yfirfæra um 130 húsapistla héðan af síðunni yfir í bókarhandrit. Já það er komið að því að hrinda því í framkvæmd sem nokkrir síðugestir hér og margir vinir mínir hafa hvatt mig til lengi: Ég ætla að gefa hluta þessara skrifa, sem birst hafa hér á síðunni út á bók laughing 

Eða öllu heldur, gera tilraun til þess.  

Vinnuheiti bókarinnar er "Norðurbrekkan á milli Gils og klappa" og verður það væntanlega endanlegur titill hennar. P5010719Þar mun ég birta greinar, sambærilegar við þær sem birtast hér á síðunni, um hús við Brekkugötu, Klapparstíg, Oddeyrargötu, Bjarmastíg, Oddagötu og Gilsbakkaveg auk þess fjalla um hluta af götunum Munkaþverárstræti, Hamarstíg og Þingvallastræti. Margir pistlana koma til með að birtast h.u.b. óbreyttir af síðunni en í töluvert mörgum tilfellum hef ég lengt þá og bætt við upplýsingum sem ekki koma fram hér. Þá verður stuttir kaflar Skátagilið og um Sundlaugina. Milli Gils og Klappa vísar til þess, að umfjöllunarsvæði bókarinnar afmarkast af Grófargili; Gilinu í suðri og Hamarkotsklöppum í norðri. Hér til hliðar má sjá væntanlega forsíðu.

Bókin kemur til með að verða um 170 blaðsíður, kilja og í lit. Prentun slíks ritverks kostar auðvitað gífurlega fjármuni.

Þess vegna hyggst ég, á næsta dögum (vikum), hrinda af stað söfnun á Karolina Fund fyrir prentun bókarinnar. Annað hvort tekst söfnun eða ekki, þess vegna segi hér að ofan að ég ætli aðeins að gera tilraun til bókaútgáfu. En á Karolina Fund geta áhugasamir ekki einungis tryggt sér eintak, heldur jafnvel eitthvað aukreitis, svosem nafn í þakkarlista, handskrifaðan aukafróðleik eða hvað svo sem mér kemur til með að detta í hug að verðlauna styrktaraðila og kaupendur með. Það kemur í ljós þegar söfnunarsíða fer í loftið. Hvenær það verður get ég ekki svarað nú, á eftir að ljúka við uppsetningu söfnunarsíðu og ganga frá ýmsum formsatriðum.

Ég mun að sjálfsögðu, lesendur góðir, láta ykkur vita um leið og það gerist og hvet ykkur jafnframt til að fylgjast með á Karolina Fund.

Hér eru sýnishorn af handriti bókarinnar. Athugið að þetta er ekki endanlegt útlit hennar eða uppsetning.

P5010721P5010720

 


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 19

Snemma árs 1935 fékk Gunnlaugur Sigurjónsson lóð sem lýst var sem þriðju lóð norðan við Guðmund Frímannsson þ.e. Munkaþverárstræti 13.P2180723 Ekki fann höfundur fleiri bókanir hjá Bygginganefnd frá þessum árum þar sem téður Gunnlaugur kemur sögu, en árið 1938 auglýsir Snorri Pálsson múrari, Munkaþverárstræti 19 herbergi til leigu í nýlegu húsi, sem er líkast til þetta hús, eða Munkaþverárstræti 17, sem Snorri reisti árið áður. Teikningarnar að húsinu gerði a.m.k. Snorri Pálsson og því hlýtur að vera hægt að leiða líkur að því, að Snorri Pálsson hafi byggt Munkaþverárstræti 19 árið 1937. Samkvæmt Manntali 1940 býr þarna Guðrún Friðjóna Gunnlaugsdóttir, saumakonakona á Gefjun ásamt fjölskyldu og er hún titluð húsmóðir en 1957, þegar byggt var við húsið eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar, er Jón Þorvaldsson eigandi hússins. Með viðbyggingu var húsið stækkað til suðurs. Munkaþverárstræti 19 er einlyft steinsteypuhús í á háum kjallara og með valmaþaki. Á þaki er bárujárn en krosspóstar með tvískiptum neðri fögum í gluggum. Horngluggar eru á nyrðri hornum hússins, en á viðbyggingu síðir “stofugluggar” til suðurs og austurs. Fremst á húsi er inngönguskúr og tröppur að honum frá götu. Munkaþverárstræti 19 er trauslegt hús og í góðri hirðu. Stendur það hátt á lóðinni, en á þessum slóðum er dágóður hæðarmismunur á lóðum. Nýlegur steyptur veggur er á lóðarmörkum og rammar hann einnig inn bílastæði á SA-horni lóðar. Á lóðinni standa m.a. lerki og grenitré. Sá sem þetta ritar horfir oftar en ekki eftir smáatriðum eða litlum hlutum sem gefa húsum skrautlegan svip eða svipauka. Á Munkaþverárstræti 19 má t.d. sjá skrautlegt járnavirki á tröppuhandriði. Myndin er tekin sólríkan febrúardag 2018, nánar til tekið þann átjánda.

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1930-35. Fundur nr. 737, 12.mars 1935.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Manntal á Akureyri 1940.

 


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Maí 2018
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 431
  • Frá upphafi: 420131

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 320
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband