Hús dagsins 9 ára; 9 hús númer 9.

Það var þann 25.júní árið 2009 að ég hóf að birta myndir af eldri húsum á Akureyri ásamt textum. Fyrsta færalan var aðeins 3-4 setningar að mig minnir, enda var ætlunin aðeins sú að birta myndir og örstutt söguágrip. En með árunum fóru eigin kröfur vaxandi. Fyrst um sinn snerist þetta aðeins um að setja inn myndir og skrifa það sem ég mundi en þegar frá leið fór ég að fletta upp í bókum. Um Innbæinn og Oddeyrina (þ.e. elsta hluta hennar) hafa lengi verið til ítarlegar húsakönnunarbækur og svo er það auðvitað Akureyri; Höfuðborg hins bjarta norðurs eftir Steindór Steindórsson. Síðar uppgötvaði ég vef Landupplýsingakerfisins en eftir að Oddeyrinni og Innbænum sleppti var ekki hlaupið að því að komast að því hverjir byggðu húsin. Af einhverjum ástæðum hugkvæmdist mér ekki að sækja Héraðsskjalasafnið fyrr en fyrir fáeinum árum. Trúlega datt mér einfaldlega ekki í hug, að hægt væri að finna þar gögn frá Bygginganefnd o.fl. eða þá að þau væru ekki aðgengileg almenningi. En þessar heimildir eru afar öflugar, að ekki sé minnst á Jónsbók, en þar eru birtar Bygginganefndarupplýsingar fyrir hvert hús sem stóð á Akureyri um 1933-35. Það getur nefnilega verið dálítið "púsluspil" að fletta upp í Bygginganefndarfundargerðum frá 3. og 4. áratug því þar er lóðum og húsum undantekningalítið lýst sem "næsta lóð vestan við Jón Jónsson, þriðja að norðan" við tilteknar götur. Ég hef svosem verið frekar skriflatur upp á síðkastið, sé aðeins horft til þessarar síðu.  En í tilefni þess, að ég hef nú sett inn færslur á þessa síðu í níu ár hyggst ég hér birta tengla á 9 hús númer 9. 

Bjarmastígur 9

Oddagata 9

Fjólugata 9

Ránargata 9

Gilsbakkavegur 9

Munkaþverárstræti 9 

Spítalavegur 9

Lundargata 9

Goðabyggð 7; Silfrastaðir eða Vesturgata 9

 

Ég hef svosem verið frekar skriflatur upp á síðkastið, sé aðeins horft til þessarar síðu. En það kemur til af því, að ég hef fengist við að búa bókarhandrit til prentunar. "Norðurbrekkan milli Gils og klappa" og á hún að ná til neðri hluta Ytri Brekku. Enda þótt handritið liggi að miklu leyti fyrir hér á síðunni er mikil vinna að sníða af vankanta og villur og setja texta upp og myndir o.s.frv. Í sumum tilvikum hefur textinn sem til var fyrir frekar þvælst fyrir. En það er tómt mál að tala eða rita um þessa fyrirhuguðu bók ef ekki næst fjármagn til prentunar. Ég ligg aldeilis ekki á digrum sjóðum og hef enga slíka á bak við mig og treysti því alfarið á hópfjármögnun gegn um Karolina Fund. Hvet auðvitað sem flesta til að heita á, og færi þeim sem þegar hafa stutt við verkefnið mínar bestu þakkir. Minni einnig á, að enginn er rukkaður nema söfnun takist.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 25

Ég held áfram umfjöllun um Munkaþverárstrætið og hús dagsins í dag, sumarsólstaða, er Munkaþverárstræti 25.

Á fjórða áratugnum var ekki algengt að konur stæðu fyrir húsbyggingum.P2180727 En það var tilfellið með húsin nr. 23 og 25 við Munkaþverárstrætið. Númer 23 byggði Guðrún Hólmgeirsdóttir en Guðríður Aðalsteinsdóttir byggði Munkaþverárstræti 25. Það var í marslok 1937 að Guðríður fékk leyfi til að  byggja íbúðarhús úr steinsteypu með járnklæddu timburþaki, ein hæð á kjallara og með lágu risi, 12,5x9,30. Líklega hefur húsinu þó frekar verið að ætlað að vera með valmaþaki en risi en teikningarnar, sem Tryggvi Jónatansson gerði gera ráð fyrir því.

Munkaþverárstræti 25 er einlyft steinhús á háum kjallara og með valmaþaki. Raunar mætti telja það tvílyft en hér hefur höfundur tilhneigingu til að fara eftir því upprunalegum lýsingum Bygginganefndar. Nema auðvitað húsum hafi verið breytt á annan hátt, sem er ekki tilfellið hér. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir. Einfaldir lóðréttir póstar með opnanlegum þverfögum eru í flestum gluggum. Á suðurhlið er útskot með svölum en inngöngudyr og steyptar tröppur að þeim á norðurhlið. Húsið stendur hátt miðað við götubrún en fremst á lóð við götuna er steyptur bílskúr, byggður árið 1946 eftir teikningum Guðmundar Gunnarssonar. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, og bjó sú er húsið byggði, Guðríður Aðalsteinsdóttir hér ásamt manni sínum Guðmundi Guðlaugsson um langt árabil. Hann var m.a. framkvæmdastjóri Kaffibrennslu Akureyrar. Húsið er frá upphafi einbýli en svo sem tíðkaðist á þeim tíma leigðu þau út herbergi.   Munkaþverárstræti er reisulegt hús og í mjög góðri hirðu og hefur samkvæmt Húsakönnun 2015 varðveislugildi sem hluti hinnar heillegrar raðar funkishúsa við norðanvert Munkaþverárstrætið. Lóðin er einnig til mikillar prýði, vel gróin bæði trjám og skrautgróðri. Myndin er tekin þ. 18. febrúar 2018

Heimildir:

Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41.  Fundur nr. 793, 31. Mars 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

PS.  ÉG MINNI AÐ SJÁLFSÖGÐU á söfnunina inn á Karolina Fund. Hún stendur til 6.ágúst og mikið vantar upp á til þess að það geti orðið að veruleika, að hluti þessara skrifa komi út á bók.  Þess má líka geta, að ef þessi bók gengur upp er ekkert því til fyrirstöðu að ég komi annarri út; mögulega gæti þetta orðið nokkurra bóka flokkur. Minni á það, að ef söfnun tekst ekki og bókin verður ekki að veruleika er enginn rukkaður. Þetta eru einungis áheit sem koma aðeins til framkvæmda ef söfnun tekst.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 24

Munkaþverárstræti 24 mun Gísli Sigurjónsson bifreiðarstjóri hafa reist árið 1938, en hann fékk lóð norðan við Bjarna Rósantsson þ.e. Munkaþverárstræti 22.P2180718 Gísli fékk leyfi til að reisa hús á lóðinni, 10x8,4m að stærð, á einni hæð á kjallara og með flötu þaki. Teikningarnar að húsinu, eins og svo mörgum öðrum á Akureyri á þessum tíma gerði Tryggvi Jónatansson. Árið 1999 var byggt á húsið lágt valmaþak eftir teikningum Bjarna Reykjalín en að öðrum leyti mun húsið lítt breytt frá upphafi.

Munkaþverárstræti 24 er einlyft r- steinhús í funkisstíl. Það stendur á háum kjallara og er með bárujárnsklæddu valmaþaki en veggir eru múrsléttaðir. Í gluggum eru lóðréttir póstar með opnanlegum fögum þvert yfir. Horngluggar eru á suðurhlið. Inngöngudyr og steyptar tröppur að götu eru á norðurhlið og svalir til austurs og verönd neðan við þær. Þak slúttir yfir inngöngutröppur og svalir. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús, og bjó Gísli Sigurjónsson hér alla sína tíð, en hann lést í ársbyrjun 1987. Eiginkona Gísla, Sigríður Baldvinsson frá Steindyrum í Svarfaðardal gegndi stöðu framkvæmdastjóra Pöntunarfélags Verkalýðsins á fimmta áratugnum. Það var trúlega ekki algengt um og fyrir miðja 20.öld að konur væru forstjórar félaga og samtaka á borð við Pöntunarfélagið. Sigríður var einnig ein af stofnfélögum Húsmæðrafélags Akureyrar, en einnig var hún í stjórn Húsmæðraskólafélagsins sem hafði m.a. veg og vanda af byggingu Húsmæðraskólans við Þórunnarstræti, sem tekinn var í notkun 1945.  Sigríður lést í janúar 1951, langt fyrir aldur fram eða 46 ára.

En Munkaþverárstræti er reisulegt hús og í góðri hirðu, með tiltölulega nýlegu þaki. Það er hluti langrar og heillegrar raðar funkishúsa við Munkaþverárstræti og mun hafa 1.stigs varðveislugildi sem hluti af heild skv. Húsakönnun 2015. Myndin er tekin þ. 18. feb 2018.

P4190714

 

 

 

 

 

 

 

 

Gamli Húsmæðraskólinn að Þórunnarstræti 99 var byggður árin 1942-45 en Sigríður Baldvinsdóttir forstjóri í Munkaþverárstræti 24 var einn stjórnarmeðlima Húsmæðraskólafélags Akureyrar. Í tenglinum í textanum hér að ofan þakkar hún f.h. stjórnarinnar fyrir gjafir til byggingarinnar árið 1943. Húsið hefur hýst ýmsa starfsemi þessi rúmu 70 ár, Skammtímavistun hefur verið á efri hæðum frá 2013 en í maí 2016 voru nýjar höfuðstöðvar Skátafélagsins Klakks vígðar í húsinu. Á þessari mynd eru skátar að búa sig í hátíðarskrúðgöngu á Sumardaginn fyrsta sl. 19.apríl. 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.811, 19. Feb 1938. Fundur nr. 814, 2. apríl 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.


Hús dagsins: Munkaþverárstræti 23

Árið 1937 fékk frk. Guðrún Hólmgeirsdóttir lóð við Munkaþverárstræti og leyfi til að reisa þar íbúðarhús úr steinsteypu, eina hæð á kjallara. P2180726Mál hússins voru 12,05x8,10 austanmegin en heldur breiðara, 12,05x9,30m vestanmegin. Teikningarnar gerði Tryggvi Jónatansson, en 1951 var byggð við húsið álma  til vesturs, þ.e. bakatil,  eftir teikningum Snorra Guðmundssonar. Fékk húsið væntanlega þá það lag sem það síðan hefur.

En Munkaþverárstræti 23 er einlyft steinsteypuhús á háum kjallara eða tveggja hæða, með valmaþaki. Útskot er á húsinu til suðurs og forstofubygging á norðurhlið og upp að henni steyptar tröppur að götu. Veggir eru múrhúðaðir og bárujárn á þaki en einfaldir lóðréttir póstar í flestum gluggum. Húsið hefur alla tíð verið íbúðarhús og líkast til einbýli frá upphafi og þar hafa margir búið gegn um tíðina. Ekki er að sjá, ef flett er upp á timarit.is að þarna hafi farið fram nein verslun eða starfsemi sem auglýst var í blöðum. En húsið er í góðu standi og hefur líkast til alla tíð fengið gott viðhald og umhirðu. Á lóðinni standa m.a. nokkur birkitré. Myndin er tekin þann 18.feb. 2018.

 

Heimildir: Akureyrarbær og Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. (2015). Norðurbrekkan, neðri hluti. Húsakönnun. Akureyrarbær: Pdf-útgáfa aðgengileg á slóðinni http://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Nordur_Brekka/n-brekka-husakonnun-150129-vefutgafa.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1935-41Fundur nr.797, 14. maí 1937.Fundur nr. 801, 9. Júlí 1937.

Óprentað og óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Að sjalfsögu minni ég enn og aftur á söfnunina fyrir bókinni Norðurbrekkan milli Gils og klappa. Um að gera að tryggja sér eintak, jafnvel eintak með aukaefni.


Um bloggið

Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur

Arnór Bliki Hallmundsson
Arnór Bliki Hallmundsson

Höfundur er grúskari. Skrifa um og mynda hitt og þetta auk eins og annars.

Júní 2018
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P3180106
  • IMG_1560
  • IMG_1561
  • IMG_1557
  • IMG_0685

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 758
  • Frá upphafi: 419894

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 599
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband